Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Smábörn og sjónvarpið

Bandaríska barnalæknaakademían mælir með því að börn yngri en tveggja ára horfi ekki á sjónvarp, að sögn dagblaðsins The Toronto Star. Rannsóknir á heilaþroska hafa leitt í ljós að ungbörn og smábörn þurfa að vera í beinu sambandi við foreldra sína og annað gæslufólk. Sjónvarpsgláp getur „truflað þau gagnkvæmu áhrif sem stuðla að félags-, tilfinninga- og vitsmunaþroska.“ En sérfræðingar eru ekki allir á einu máli. Félag kanadískra barnalækna segir til dæmis að allt að hálfrar klukkustundar áhorf á dag undir umsjón foreldris gefi barninu „tækifæri til að fá kennslu frá foreldri sínu“ ef sjónvarpsefnið er gott. Bæði félögin eru þó sammála um að lítil börn ættu ekki að vera með sjónvarpstæki eða tölvur í svefnherberginu og að það eigi ekki að nota sjónvarpið sem barnapíu. Þar eð sjónvarp getur haft áhrif á heilsu ungra barna er mælt með að „börn séu hvött til að leika sér úti, lesa bækur, raða púsluspilum eða fást við önnur spil.“

Vilja helst slaka á

Gerð var könnun nýverið þar sem 1000 manns í 30 löndum voru spurðir hvað þeim þætti best að gera til að draga úr streitu. Þegar öll löndin voru talin var tónlist efst á blaði hjá 56 prósentum aðspurðra, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Í Norður-Ameríku nefndu 64 af hundraði aðspurðra tónlist en í hinum þróuðu ríkjum Asíu var talan 46 af hundraði. Miðað við löndin öll var sjónvarpið í öðru sæti og bað eða sturta í því þriðja. „Þegar á það er litið hvað tónlist kostar og hve auðvelt er að nálgast hana í útvarpi, í sjónvarpi, með geislaspilurum, á Netinu og eftir mörgum öðrum nýjum leiðum kemur ekki á óvart að rösklega helmingur jarðarbúa skuli hlusta á tónlist til að slaka á,“ segir Tom Miller sem stjórnaði könnuninni á vegum Roper Starch Worldwide markaðsrannsóknafyrirtækisins.

Heilsubótarganga

Gönguferðir lækka „blóðþrýsting og draga úr hættunni á hjartaáfalli,“ auk þess að hjálpa fólki að losna við aukakílóin og draga úr streitu. Þetta kemur fram í Tórontóblaðinu The Globe and Mail. En það kostar tíma að halda heilsu. Hve mikinn? Fram kemur í Canada’s Physical Activity Guide to Healthy Active Living að „gangi maður á hóflegum hraða þurfi að ganga í samtals eina klukkustund á dag — í ekki styttri lotum en 10 mínútur í senn.“ Röskleg ganga eða hjólreiðar í hálfa til heila klukkustund á dag eða 20 til 30 mínútna skokk kemur að sama gagni. Dagblaðið mælir með léttum skófatnaði með mjúkum sóla, góðum stuðningi undir ristarbogann, mjúku innleggi og góðu tárými, og gott er að skórnir andi.

Hollari grillmatur

„Illa steikt eða soðið kjöt hefur alltaf þótt varasamt, en á síðustu árum hefur ofsteiking verið sett í samband við langvinna heilsufarshættu — einkum þegar kjöt, kjúklingar og fiskur er brenndur eða kolaður á útigrilli.“ Þetta kemur fram í kanadíska dagblaðinu National Post. Þegar kjöt er steikt við háan hita myndast krabbameinsvaldandi efnasambönd sem kallast heterohringamínar. Í frétt blaðsins er bent á að hægt sé að grilla mat með öruggari hætti með því að leggja hann í einfaldan kryddlög sem inniheldur „súran efnisþátt, svo sem sítrónusafa, appelsínusafa eða edik.“ Í endurteknum tilraunum Bandarísku krabbameinsrannsóknastofnunarinnar kom í ljós að „kryddlagðar matvörur innihéldu 92 til 99% færri heterohringamína en matvörur, sem ekki voru kryddlagðar, og einu gilti hvort þær lágu í kryddlegi í 40 mínútur eða tvo daga.“

Hver er vatnsþörf barna?

Algengt er að börn á aldrinum eins til fjögurra ára drekki of lítið. Þetta kom fram í neytendablaðinu Test þar sem fjallað var um rannsókn á vegum Næringarrannsóknarstofnunar barna í Dortmund í Þýskalandi. Eins til fjögurra ára gömul börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir vessaþurrð og ættu að drekka næstum lítra af vökva á dag, auk þess vökva sem þau fá með mat. Að meðaltali drekka börn þriðjungi minna en það og þeim er ekki alltaf sjálfum um að kenna. Rannsóknarmennirnir uppgötvuðu að í 1 tilfelli af hverjum 5 neitaði foreldri að gefa barni að drekka þótt það bæði um það. Og hver er besti drykkurinn? Vatn er tilvalið þar sem það er drykkjarhæft, segir í tímaritinu.