Hrífandi tvísöngur
Hrífandi tvísöngur
Eftir fréttaritara Vaknið! í Keníu
SÖNGVARARNIR tveir horfðu hvor á annan tilbúnir að hefja hljómleikana. Forsöngvarinn hneigði sig örlítið og gaf frá sér mildan, tæran tón sem var svo ómþýður og hreinn að hann hljómaði langar leiðir í morgunblænum. Þá hneigði hinn söngvarinn sig á heillandi hátt og á nákvæmlega rétta augnablikinu gaf hann frá sér jafnómblíðan tón áttund ofar. Þegar tvísöngurinn var kominn á skrið jókst krafturinn og var eins og raddirnar sameinuðust í eina. Ég hlustaði með öndina í hálsinum af eftirvæntingu og dáðist að frábærri leikni þeirra og raddgæðum.
Þessi snilldarflutningur fór ekki fram í troðfullum hljómleikasal heldur voru það tveir fuglar á trjágrein nálægt heimili mínu í Keníu sem áttu hlut að máli. Er hinir fiðruðu flytjendur höfðu lokið við sönginn stóðu þeir hnarreistir, lyftu vængjunum og flugu í burt.
Oft er haft á orði að „líkur sæki líkan heim.“ En það er furðulegt að sumir fuglar virðast hafa yndi af því að syngja bara saman og það meira að segja með frábærri nákvæmni! Tvísöngurinn er svo samstilltur að án sjónrænnar vísbendingar væri oft ómögulegt að greina að fuglarnir eru tveir! Vísindamenn hafa jafnvel látið blekkjast. Það er því tiltölulega nýtilkomið að líta á tvísöng sem hegðunarmynstur fugla.
Klukkufuglinn
Eþíópíusvarrinn er dæmi um sérstaklega flinkan flytjanda. Heimkynni hans eru í Afríku; hann syngur með sérstökum dillandi tóni sem hljómar oft eins og verið sé að slá tveim málmstykkjum saman. Því er hann venjulega kallaður klukkufuglinn eða klukkarinn. Svarrinn er með föngulega gerða svartgljáandi kórónu, hnakka og vængi. Fannhvítar brjóstfjaðrir og hvít vængjarák mynda sterka andstæðu. Svarrarnir sjást alltaf tveir og tveir saman og karlfugl og kvenfugl hafa sömu auðkenni og lit.
Hver sem gengur í þéttum skógi eða kjarri veit af návist svarranna löngu áður en hann kemur auga á þá. Karlfuglinn gefur oftast frá sér þrjá hraða klukkutóna. Kvenfuglinn svarar þeim um leið með krunkandi
kvííí. Stundum kemur samfelld tónaröð frá öðrum fuglinum og makinn tekur þá undir eintóna — með hljómfögrum tóni sem verður að óslitnu tónaflóði án þess að umskipti heyrist.Vísindamenn skilja ekki til fulls hvernig samhæfingunni er náð. Að minnsta kosti í sumum tilfellum er einfaldlega talið að „æfingin skapi meistarann“ eins og máltækið segir. Þar sem karlfuglinn og kvenfuglinn syngja saman dag eftir dag ávinna þau sér mikla nákvæmni í flutningi.
Athyglisvert er að svarrarnir virðast oft hafa svæðisbundinn „hreim.“ Það virðist stafa af því að þeir herma eftir umhverfishljóðum eða söng annarra fugla. Þetta er kallað hermisöngur. Þess vegna getur svarrasöngurinn í kjarrinu í Suður-Afríku verið alls ólíkur þeim sem heyrist í Sigdalnum mikla í Austur-Afríku.
Ævifélagar
David Attenborough segir í bókinni Lífsbarátta dýranna: „Það er næstum því hjartnæmt að uppgötva að sama samsöngsparið heldur saman ár eftir ár, kannski ævilangt.“ Hver er ástæðan fyrir þessu sterka sambandi? Attenborough bætir við: „Þegar það hefur komið sér niðurá lagið æfir það sig rækilega einsog til að styrkja sambandið á milli sín, þau syngja sína flóknu dúetta jafnvel þótt þau sitji saman á grein; og stundum ef annað er fjarverandi, syngur fuglinn sem eftir situr allt lagið og bætir í það hlutverki hins.“ *
Það getur einnig verið að söngvarnir komi fuglunum að gagni við að staðsetja hvor annan í þéttum gróðrinum. Þegar karlfuglinn vill vita hvar makinn er syngur hann röð hljómfagurra tóna og kvenfuglinn tekur undir þó úr nokkurri fjarlægð sé. Tímasetningin er eins nákvæm og um fyrir fram ákveðinn flutning sé að ræða.
Blístrandi við vinnuna
Finnst þér gott að vinna og hlusta á tónlist um leið? Mörgum fuglum finnst það greinilega. Bókin The Private Life of Birds eftir Michael Bright vekur athygli á því að fuglasöngur hefur líkamlega örvandi áhrif á aðra fugla og segir að „hjartað hafi slegið hraðar bæði hjá kvenfuglum og karlfuglum“ eftir að hafa hlustað á fuglasöng. Sumir kvenfuglar eru jafnvel „fljótari að búa til hreiðrin“ og „verpa fleiri eggjum“ þegar þær hlusta á söngva karlfuglsins.
Vísindamenn halda án efa áfram að uppgötva ýmislegt heillandi við tvísöngvara eins og eþíópíusvarrann. En við megum ekki líta fram hjá því að þeir þjóna enn öðrum háleitum tilgangi hvert svo sem hagnýtt gildi hrífandi söngva þeirra reynist vera. Þeir gleðja eyru þakklátra karla og kvenna. Þessi fagra tónlist fær okkur til að lofa skapara „fugla loftsins.“ — Sálmur 8:9.
[Neðanmáls]
^ Íslensk þýðing: Gissur Ó. Erlingsson. Skjaldborg hf., 1991.