Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig ber að líta á algengar siðvenjur?

Hvernig ber að líta á algengar siðvenjur?

Sjónarmið Biblíunnar

Hvernig ber að líta á algengar siðvenjur?

„EKKERT HÁTTALAG ER TIL SEM EKKI HEFUR EINHVERN TÍMA EÐA EINHVERS STAÐAR VERIÐ FORDÆMT EN Á ÖÐRUM TÍMA OG Á ÖÐRUM STAÐ VERIÐ SKYLT AÐ TAKA UPP.“

ÞANNIG lýsir írski sagnfræðingurinn William Lecky í hnotskurn hverflyndi manna. Orð hans má líka heimfæra á siðvenjur og hefðir í aldanna rás. Margar venjur, sem eitt sinn voru taldar ómissandi í daglegu lífi, hafa síðar verið fordæmdar. Það kemur ekki á óvart því að Páll postuli segir að „mynd þessa heims“ breytist. — 1. Korintubréf 7:31, Biblían 1912.

Þjóðfélagið er stöðugum breytingum undirorpið eins og sjá má af síbreytilegum viðhorfum og siðvenjum manna. Kristnir menn eru „ekki af heiminum,“ það er að segja þeir halda sér aðgreindum frá mannlegu samfélagi sem er fráhverft Guði. Biblían viðurkennir samt sem áður að þeir séu „í heiminum“ og fyrirskipar þeim ekki að einangra sig. Það er því mikilvægt að forðast öfgar í þessu sambandi. — Jóhannes 17:11, 14-16; 2. Korintubréf 6:14-17; Efesusbréfið 4:17-19; 2. Pétursbréf 2:20.

Hvað eru siðvenjur?

Með siðvenjum er átt við hefðir sem viðteknar eru á vissum stöðum eða innan ákveðinna þjóðfélagshópa. Sumar venjur, svo sem borðsiðir og umgengnisvenjur, hafa sennilega sprottið af því að stjórna þurfti hegðun fólks í fjölmenni til að tryggja vinsamleg samskipti og gagnkvæma kurteisi. Slíkum kurteisisvenjum má líkja við olíu því að þær liðka fyrir mannlegum samskiptum.

Trúarbrögð hafa haft djúptæk áhrif á siðvenjur. Margar eru reyndar sprottnar af gamalli hjátrú og óbiblíulegum trúarhugmyndum. Sú venja að gefa syrgjendum blóm kann að eiga rót sína í trúarlegri bábilju. * Og blái liturinn, sem oft er notaður fyrir nýfædda drengi, var talinn fæla burt illa anda. Augnháralitur átti að vernda konu fyrir illu auga en varalitur að koma í veg fyrir að illir andar færu inn um munninn og tækju sér bólfestu í henni. Jafnvel sárasaklaus siður eins og að grípa fyrir munninn þegar maður geispar er talinn byggjast á þeirri hjátrú að sálin gæti sloppið út um galopinn munn. En með tíð og tíma rofnuðu trúartengslin og núna hafa þessir siðir og venjur enga trúarlega þýðingu.

Hvað ættu kristnir menn að hafa í huga?

Kristinn maður þarf að kynna sér viðhorf Guðs í Biblíunni þegar hann ákveður hvort hann eigi að fylgja vissri siðvenju. Endur fyrir löngu fordæmdi Guð ákveðnar venjur sem viðgengust í sumum samfélögum, meðal annars barnafórnir, misnotkun blóðs og ýmsar kynferðisathafnir. (3. Mósebók 17:13, 14; 18:1-30; 5. Mósebók 18:10) Ýmsar algengar siðvenjur nú á dögum stangast greinilega á við meginreglur Biblíunnar, þeirra á meðal óbiblíulegar trúarhefðir tengdar jólum og páskum eða hindurvitni sem tengist andatrú.

En hvað um siðvenjur sem eitt sinn kunna að hafa tengst vafasömum athöfnum en eru nú almennt viðteknar? Margar vinsælar brúðkaupsvenjur, svo sem að skiptast á hringum og borða kökur, kunna að eiga sér heiðinn uppruna. Merkir það að kristnir menn megi ekki fylgja slíkum siðum? Þurfa þeir að rannsaka í þaula hverja einustu siðvenju samfélagsins til að sjá hvort hún hafi einhvers staðar eða einhvern tíma haft á sér óbiblíulegan blæ?

„Þar sem andi [Jehóva] er, þar er frelsi,“ segir Páll. (2. Korintubréf 3:17; Jakobsbréfið 1:25) Guð vill ekki að við notum þetta frelsi til að fullnægja eigingjörnum löngunum heldur til að þjálfa skilningarvitin til að greina rétt frá röngu. (Galatabréfið 5:13; Hebreabréfið 5:14; 1. Pétursbréf 2:16) Vottar Jehóva búa því ekki til ósveigjanlegar reglur um mál sem brjóta ekki greinilega í bága við meginreglur Biblíunnar heldur þurfa kristnir menn að vega og meta aðstæður og taka persónulega ákvörðun.

Taktu tillit til annarra

Merkir þetta að óhætt sé að fylgja vissri siðvenju ef hún brýtur ekki beint í bága við kenningu Biblíunnar? Nei. (Galatabréfið 5:13) Páll segir að kristinn maður eigi ekki aðeins að hugsa um eigin hag „heldur hag hinna mörgu.“ Hann á að ‚gera það allt Guði til dýrðar‘ og vera engum til ásteytingar. (1. Korintubréf 10:31-33) Sá sem vill þóknast Guði ætti því að spyrja sig hvaða augum siðvenja sé litin af öðrum, hvort hún þyki hneykslanleg í samfélaginu og hvort það yrði álitið merki um að hann aðhylltist venjur eða hugmyndir sem eru Guði vanþóknanlegar ef hann fylgdi henni. — 1. Korintubréf 9:19, 23; 10:23, 24.

Sumar siðvenjur eru almennt séð meinlausar en gætu stangast á við meginreglur Biblíunnar vegna þess hvernig þeim er fylgt í byggðarlaginu. Við ákveðin tækifæri gæti það að gefa blóm tekið á sig sérstaka merkingu sem stríðir gegn kenningum Biblíunnar. Hvað ætti kristinn maður þess vegna fyrst og fremst að hafa í huga? Þótt ástæða geti verið til að rannsaka uppruna ákveðinnar siðvenju er oftar en ekki mikilvægara að íhuga hvaða merkingu hún hafi í hugum fólks núna og þar sem maður býr. Ef siðvenja hefur á sér óbiblíulegan eða neikvæðan blæ á ákveðnum árstíma eða við vissar aðstæður gæti kristinn maður talið hyggilegt að forðast hana á þeim tíma.

Páll bað um að elska kristinna manna mætti aukast að þekkingu og allri dómgreind. Með því að sjá algengar siðvenjur í réttu ljósi geta þeir „metið þá hluti rétt, sem máli skipta, og [verið] hreinir og ámælislausir.“ (Filippíbréfið 1:9, 10) Þannig láta þeir ‚sanngirni sína verða kunnuga öllum mönnum.‘ — Filippíbréfið 4:5, NW.

[Neðanmáls]

^ Að sögn sumra mannfræðinga voru blómvendir stundum færðir látnum til að friða þá og koma í veg fyrir að þeir ásæktu hina lifandi.

[Myndir á blaðsíðu 18]

Sumar fornar siðvenjur hafa glatað upprunalegri merkingu sinni, svo sem að grípa fyrir munninn þegar maður geispar og gefa aðstandendum látinna blóm.