Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Svartidauðinn — miðaldaplága Evrópu

Svartidauðinn — miðaldaplága Evrópu

Svartidauðinn — miðaldaplága Evrópu

Eftir fréttaritara Vaknið! í Frakklandi

Það var árið 1347. Plágan hafði farið með dauða og tortímingu um Austurlönd fjær. Nú var hún komin að útjaðri Austur-Evrópu.

MONGÓLAR höfðu setið um víggirtu borgina Kaffa á Krímskaga þar sem Genúamenn áttu verslunarstöðvar en borgin heitir nú Feodosíja. Þar sem þessi dularfulla sótt hafði útrýmt Mongólum að mestu hættu þeir við innrásina. En áður en þeir hörfuðu sendu þeir meinlegt skeyti inn fyrir borgarmúrana. Þeir þeyttu pestardauðu fórnarlömbunum, sem ekki höfðu einu sinni náð að kólna, yfir borgarveggina og notuðu til þess risastórar valslöngvur. Þegar nokkrir af genúískum verjendum borgarinnar stigu síðar um borð í galeiðurnar til að flýja pestarhrjáða borgina breiddu þeir sjúkdóminn út í hverri höfn sem þeir komu til.

Innan nokkurra mánaða var öll Evrópa undirlögð af dauðanum. Plágan breiddist hratt út til Norður-Afríku, Ítalíu, Spánar, Englands, Frakklands, Austurríkis, Ungverjalands, Sviss, Þýskalands, Norðurlanda og Eystrasaltslandanna. Á rúmlega tveim árum lést meira en fjórðungur Evrópubúa, um 25 milljónir manna, af völdum plágu sem kölluð hefur verið „grimmilegasta lýðfræðislys sem mannkynið hefur nokkurn tíma orðið fyrir“ — svartadauðanum. *

Aðdragandi hörmunganna

Þótt svartidauðinn hafi verið harmleikur út af fyrir sig hafði sjúkdómurinn meira í för með sér. Margt annað jók hörmungarnar, meðal annars trúarofsi. Kenningin um hreinsunareld er eitt dæmi um það. „Í lok 13. aldar var trúin á hreinsunareldinn allsráðandi,“ segir franski sagnfræðingurinn Jacques le Goff. Snemma á 14. öld kom Dante fram með hið áhrifamikla verk Gleðileikurinn guðdómlegi (La divina commedia) með myndrænni lýsingu af víti og hreinsunareldinum. Þannig sköpuðust trúarviðhorf sem gerðu fólk furðulega sinnulaust svo að það tók plágunni með uppgjöf og leit á hana sem refsingu frá Guði. Eins og síðar kemur fram kynti slík svartsýni raunverulega undir útbreiðslu sýkinnar. „Ekkert hefði getað orðið plágunni frekar til framdráttar,“ kemur fram í bók Philips Zieglers, The Black Death.

Sífelldur uppskerubrestur í Evrópu hafði jafnframt í för með sér að hin uppvaxandi kynslóð meginlandsins var vannærð — vanbúin til að veita sjúkdómnum viðnám.

Plágan breiðist út

Haft er eftir Guy de Chauliac, einkalækni Klements 6. páfa, að tvenns konar plágur hafi flætt yfir Evrópu, lugnabólga og eitlabólga. Hann lýsir pestunum mjög skýrt: „Hin fyrri stóð yfir í tvo mánuði með stöðugum sótthita og blóðspýting og menn dóu innan þriggja daga. Hin seinni stóð yfir það sem eftir var af pestartímabilinu, einnig með stöðugum sótthita en henni fylgdu graftarklýli og blóðkýli, sérstaklega í handar- og lærkrika. Úr þessu dóu menn innan fimm daga.“ Læknar voru máttvana gagnvart plágunni.

Margir flýðu skelfingu lostnir — yfirgáfu hina sýktu í þúsunda tali. Auðugir aðalsmenn og embættismenn voru meðal þeirra fyrstu sem lögðu á flótta. Sumir klerkar flúðu en margir földu sig í klaustrunum og vonuðust til að komast hjá smitun.

Þegar skelfingin stóð sem hæst lýsti páfinn yfir að árið 1350 skyldi vera heilagt ár. Þeim sem færu pílagrímsför til Rómaborgar yrði veittur tafarlaus aðgangur að paradís án þess að verða að fara í gegnum hreinsunareldinn! Hundruð þúsunda pílagríma sinntu kallinu —  og breiddu út pestina á ferðum sínum.

Árangurslausar tilraunir

Tilraunir til að hafa hemil á svartadauðanum voru árangurslausar því að enginn vissi raunverulega hvernig hann barst á milli manna. Flestir gerðu sér grein fyrir því að hættulegt var að snerta sjúkan mann — eða jafnvel fötin hans. Sumir óttuðust meira að segja augnaráð hins þjáða! Borgarbúar í Flórens á Ítalíu kenndu köttum og hundum borgarinnar um pláguna. Þeir drápu dýrin og gerðu sér ekki grein fyrir því að þar með slepptu þeir taumhaldinu á raunverulega smitberanum — rottunni.

Þegar dauðsföllum fjölgaði leituðu sumir hjálpar Guðs. Karlar og konur gáfu allar eigur sínar til kirkjunnar í von um að Guð hlífði þeim við sjúkdómnum — eða í það minnsta umbunaði þeim með himnavist ef þeir dæju. Þetta færði kirkjunni gífurlegan auð. Einnig var vinsælt ráð að nota töfragripi, kristslíkneski og verndargripi. Aðrir leituðu á náðir hjátrúar, galdra og gervilyfja til að fá lækningu. Talið var að ilmvötn, edik og sérstakir heilsudrykkir bægðu sjúkdómnum frá. Annað vinsælt lækningaúrræði var blóðtaka. Læknadeild háskólans í París rakti jafnvel pláguna til innbyrðis afstöðu stjarnanna! Gerviútskýringar og svikalækningar urðu samt ekki til að hindra framgang drepsóttarinnar.

Varanleg áhrif

Eftir tæp fimm ár virtist svartidauðinn loksins hafa runnið skeið sitt á enda. En áður en öldinni lauk tók hann sig upp aftur að minnsta kosti fjórum sinnum. Því hefur eftirköstum svartadauðans verið líkt við afleiðingar fyrri heimstyrjaldarinnar. „Það er nánast enginn ágreiningur meðal nútímasagnfræðinga um að tilkoma þessarar landlægu plágu hafi haft djúpstæðar efnahags- og félagslegar afleiðingar eftir árið 1348,“ segir í bókinni The Black Death in England sem kom út 1996. Plágan þurrkaði út mikinn hluta íbúanna og það tók sum landsvæðin aldir að jafna sig. Minnkandi vinnuafl leiddi eðlilega til kauphækkunar verkafólks. Fyrrum auðugir landeigendur urðu gjaldþrota og lénsskipulagið — aðalsmerki miðaldanna — hrundi til grunna.

Plágan varð því hvati að stjórnmálalegum, trúarlegum og félagslegum breytingum. Fyrir pláguna var franska almennt töluð innan menntastéttarinnar á Englandi. Dauði fjölda frönskukennara varð til þess að enskan náði yfirráðunum í Bretlandi. Breytingar urðu einnig á trúarsviðinu. Eins og franski sagnfræðingurinn Jacqueline Brossollet bendir á „tók kirkjan of oft fáfróða og sinnulausa menn í þjónustu sína“ vegna skorts á prestum. Brossollet fullyrðir að „siðaskiptin hafi meðal annars komið til af því að lærdóms- og trúarsetrum [kirkjunnar] hnignaði.“

Vissulega hafði svartidauðinn mikil áhrif á listir og dauðinn varð algengt listrænt viðfangsefni. Hinn frægi dauðadans (danse macabre), varð vinsælt tákn um mátt dauðans en þar koma fram beinagrindur og lík. Öryggisleysi um framtíðina varð til þess að margir sem lifðu af pláguna köstuðu öllum hömlum út í veður og vind. Siðgæði hnignaði niður úr öllu valdi. Miðaldamanninum „fannst kirkjan hafa brugðist sér“ af því að henni tókst ekki að koma í veg fyrir svartadauðann (The Black Death). Sumir sagnfræðingar segja einnig að þjóðfélagsbreytingar, sem komu í kjölfar svartadauðans, hafi stuðlað að einstaklingshyggju og einkaframtaki og aukið hreyfanleika félags- og efnahagslífs — sem var undanfari auðvaldsskipulagsins.

Svartidauðinn var stjórnvöldum hvatning til að koma á fót heilbrigðiseftirliti. Þegar dregið hafði úr plágunni réðust Feneyjabúar í að hreinsa borgarstrætin. Jóhann 2. Frakklandskonungur, kallaður hinn góði, skipaði einnig svo fyrir að stræti yrðu hreinsuð til að standa gegn ógnun farsóttarinnar. Konungurinn gerði þessar ráðstafanir eftir að hafa heyrt um grískan lækni frá fyrri tímum sem hafði bjargað Aþenu frá plágu með því að hreinsa og þvo strætin. Mörg stræti, sem á þessum tíma höfðu verið opin holræsi, voru loksins hreinsuð.

Liðin tíð?

Það var ekki fyrr en árið 1894 sem franski gerlafræðingurinn Alexandre Yersin einangraði bakteríuna sem veldur svartadauða. Hún var kölluð Yersinia pestis eftir honum. Fjórum árum síðar uppgötvaði annar Frakki, Paul-Louis Simond, hvaða hlut flóin (sem lifir á nagdýrum) átti í útbreiðslu sjúkdómsins. Fljótlega kom fram bóluefni en það bar takmarkaðan árangur.

Er tími plágunnar liðinn? Síður en svo. Veturinn 1910 létust 50.000 manns úr pestinni í Mansjúríu. Á hverju ári eru skráð ný tilfelli í þúsundatali hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni — og talan fer hækkandi. Nýir stofnar af sjúkdómnum hafa líka fundist — stofnar sem svara ekki læknismeðferð. Mannkyninu stafar sífelld ógn af plágunni nema fyllsta hreinlætis sé gætt. Í bókinni Pourquoi la peste? Le rat, la puce et le bubon (Hvers vegna plágan? Rottan, flugan og eitlabólgan) sem Jacqueline Brossollet og Henri Mollaret ritstýrðu, er komist að þeirri niðurstöðu að það sé „langt frá því að svartidauðinn sé miðaldasjúkdómur Evrópu, . . . því miður má ætla að hann verði framtíðarsjúkdómur.“

[Neðanmáls]

^ Fólk sem lifði þessa tíma kallaði þetta pláguna miklu eða farsóttina.

[Innskot á blaðsíðu 13]

Menn og konur gáfu kirkjunni allar eigur sínar og vonuðu að Guð hlífði þeim við sóttinni.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 14]

Sértrúarflokkur flagellanta

Sumir litu á pláguna sem refsivönd Guðs og reyndu að draga úr reiði Guðs með sjálfspyntingum eða hýðingum. Flokkur flagellantanna náði vinsældahámarki á tímum svartadauðans en sagt er að í hreyfingunni hafi verið upp undir 800.000 manns. Samkvæmt reglum sértrúarflokksins var bannað að tala við konur, þvo sér eða hafa fataskipti. Almenn hýðing fór fram tvisvar á dag.

„Hýðing var ein af fáum leiðum til að fá útrás fyrir skelfingu lostið fólkið,“ segir í bókinni Medieval Heresy. Flagellantarnir stóðu einnig framarlega í því að fordæma kirkjuvaldið og grafa undan hinni ábatasömu aflausn hennar. Það var því ekki að undra að páfinn fordæmdi flokkinn árið 1349. Að lokum dvínaði hreyfingin af sjálfu sér þegar svartidauðinn var liðinn hjá.

[Mynd]

Flagellantarnir reyndu að blíðka Guð.

[Credit line]

© Bibliothèque Royale de Belgique, Brussel

[Mynd á blaðsíðu 15]

Plágan í frönsku borginni Marseilles.

[Credit line]

© Cliché Bibliothèque Nationale de France, París

[Mynd á blaðsíðu 15]

Alexandre Yersin einangraði plágubakteríuna.

[Credit line]

Culver Pictures