Aðeins einu skrefi frá dauða
Aðeins einu skrefi frá dauða
„Mig dreymir stundum að ég sé aftur kominn með tvo fætur. . . . Fyrir mörgum árum, þegar ég var smákrakki, var ég að leika mér við vini mína rétt hjá húsinu heima. Allt í einu varð sprenging . . . Allur hægri fóturinn tættist af mér.“ — Song Kosal, 12 ára, Kambódíu.
Jarðsprengjur drepa eða limlesta um 70 manns á hverjum degi. Flestir eru óbreyttir borgarar — menn að sinna nautgripum, konur að sækja vatn og börn að leik. Hermenn eru í minnihluta. Forsíðumyndin er af Rukiu, átta ára. Hún slasaðist í sprengingu sem varð þrem bræðrum hennar og frænku að bana.
Jarðsprengjur geta verið virkar í meira en 50 ár. Þær eru „eina vopnið sem banar fleirum eftir að átökum lýkur heldur en meðan á þeim stendur,“ segir í tímaritinu The Defense Monitor. Enginn veit hve margar jarðsprengjur liggja grafnar í jörð í heiminum en algengt er að nefndar séu að minnsta kosti 60 milljónir. Í greinargerð Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1997 segir að „komið sé fyrir 20 jarðsprengjum á móti hverri einni sem fjarlægð er. Árið 1994 voru fjarlægðar um 100.000 sprengjur en 2 milljónum komið fyrir.“
Af hverju eru stríðsherrar nútímans svona hrifnir af jarðsprengjum? Hvað kosta þær fjárhagslega og félagslega? Hver eru áhrifin á þá sem særast en lifa? Losnar jörðin nokkurn tíma við þennan ógnvald?
[Mynd credit line á blaðsíðu 3]
© ICRC/David Higgs
Rétthafi: Nic Dunlop/Panos Pictures