Breytist Guð?
Sjónarmið Biblíunnar
Breytist Guð?
MANNFRÆÐINGURINN George Dorsey lýsir Guði „Gamla testamentisins“ sem „grimmum Guði“ og bætir við: „Jahve er . . . einkar ógeðfelldur. Hann er Guð ræningja, kvalara, hermanna [og] hersigra.“ Ýmsir aðrir hafa komist að svipaðri niðurstöðu um Guð „Gamla testamentisins“ — Jahve eða Jehóva. Sumum er því spurn hvort Jehóva hafi verið grimmur Guð sem breytti sér í hinn kærleiksríka og miskunnsama Guð „Nýja testamentisins.“
Slíkar hugmyndir um Guð Biblíunnar eru ekki nýjar af nálinni. Þær voru fyrst settar fram af Markíon á annarri öld sem aðhylltist gnostíkatrú og afneitaði Guði „Gamla testamentisins.“ Í augum hans var Guð ofbeldisfullur, hefnigjarn harðstjóri sem hét þeim efnislegri umbun er tilbáðu hann. Á hinn bóginn lýsti Markíon Guði „Nýja testamentisins“ — eins og Jesús Kristur opinberaði hann — sem fullkomnum Guði, Guði ósvikins kærleika og miskunnar, náðar og fyrirgefningar.
Jehóva lagar sig að breytilegum aðstæðum
Nafn Guðs, Jehóva, merkir „hann lætur verða“ og gefur til kynna að hann láti sjálfan sig uppfylla öll fyrirheit sín. Þegar Móse spurði hann nafns skýrði hann merkingu þess svona: „Ég mun reynast vera það sem ég mun reynast vera.“ (2. Mósebók 3:14, NW) Þýðing Rotherhams orðar það svo: „Ég verð hvað sem mér þóknast.“
Jehóva getur látið sig verða eða reynst vera hvaðeina sem þarf til að réttlátur tilgangur hans og fyrirheit rætist. Titlarnir og nöfnin, sem hann ber, eru til sannindamerkis um það: Jehóva allsherjar, dómari, Drottinn, vandlætari, skapari, faðir, kennari, hirðir, sá er heyrir bænir, frelsari, hinn sæli Guð og fjölmörg önnur. Hann hefur kosið að verða allt þetta og margt fleira til að láta kærleikstilgang sinn ná fram að ganga. — 2. Mósebók 34:14; Dómarabókin 11:27; Sálmur 23:1; 65:3; 73:28; 89:27; Jesaja 8:13; 30:20; 40:28; 41:14; 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912.
Merkir þetta að persónuleiki Guðs og staðlar breytist? Nei. Jakobsbréfið 1:17 segir: „Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.“ Hvernig getur Guð lagað sig að breytilegum aðstæðum án þess að breytast sjálfur?
Lýsum því með dæmi. Umhyggjusamir foreldrar bregða sér í mismunandi hlutverk í þágu barna sinna. Á einum og sama degi getur foreldri verið matreiðslumaður, ræstingamaður, rafvirki, hjúkrunarfræðingur, vinur, ráðgjafi, kennari, agari og margt fleira. Það breytir ekki um persónuleika þegar það bregður sér í þessi hlutverk heldur lagar sig að þörfum augnabliksins. Hið sama á við um Jehóva, en í miklu stórbrotnari mæli. Engin takmörk eru fyrir því hvað hann getur látið sig verða til að uppfylla tilgang sinn og til góðs fyrir sköpunarverur sínar. — Rómverjabréfið 11:33.
Bæði Hebresku og kristnu Grísku ritningarnar lýsa til dæmis Jehóva sem kærleiksríkum og miskunnsömum Guði. Spámaðurinn Míka, sem uppi var á 8. öld f.o.t., spurði um Jehóva: „Hver er slíkur Guð sem þú, sá er fyrirgefur leifum arfleifðar sinnar misgjörð þeirra og umber fráhvarf þeirra, — sem eigi heldur fast við reiði sína eilíflega, heldur hefir unun af að vera miskunnsamur?“ (Míka 7:18) Og Jóhannes postuli skrifaði hin frægu orð: „Guð er kærleikur.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:8.
Báðir hlutar Biblíunnar sýna jafnframt að Jehóva dæmir réttlátlega þá sem gera öðrum mein og brjóta lög hans gróflega hvað eftir annað án þess að iðrast. Jehóva „útrýmir öllum níðingum,“ segir sálmaritarinn. (Sálmur 145:20) Jóhannes 3:36 tekur í sama streng: „Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum.“
Eiginleikar hans hafa ekki breyst
Persónuleiki Jehóva og höfuðeiginleikar — kærleikur, viska, réttvísi og máttur — hafa ekki breyst. Hann sagði við Ísraelsþjóðina um 3500 árum eftir að hann skapaði mannkynið: „Ég, [Jehóva], hefi ekki breytt mér.“ (Malakí 3:6) Nákvæm rannsókn á Biblíunni í heild sýnir að þessi orð eiga við rök að styðjast — Guð hefur ekki breytt stöðlum sínum og eiginleikum. Persónuleiki hans mildaðist ekki í aldanna rás af því að hann þurfti ekki að mildast.
Eins og öll Biblían sýnir er réttlætisfesta Guðs hvorki minni né kærleiki hans meiri en þegar hann fyrst átti samskipti við mannkynið í Eden. Sá breytileiki, sem virðist í persónuleika hans sums staðar í Biblíunni, er í rauninni eins og ólíkir fletir á sama óbreytanlega persónuleikanum. Hann stafar af því að hinar mismunandi aðstæður og fólk, sem Guð fékkst við hverju sinni, kölluðu á ólík viðhorf og samskipti.
Það er því ljóst af Ritningunni að persónuleiki Guðs hefur ekki breyst í aldanna rás og gerir það ekki í framtíðinni. Jehóva er æðsta ímynd stöðugleika og festu. Hann er alltaf áreiðanlegur og traustur. Við getum ávallt reitt okkur á hann.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Sami Guð og eyddi Sódómu og Gómorru . . .
. . . ætlar að koma á réttlátum nýjum heimi.