Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eftir óveðrið — hjálparstarf í Frakklandi

Eftir óveðrið — hjálparstarf í Frakklandi

Eftir óveðrið — hjálparstarf í Frakklandi

Eftir fréttaritara Vaknið! í Frakklandi

FRANÇOISE var á leiðinni út að sækja eldivið í arininn. Hún trúði varla sínum eigin augum þegar hún opnaði dyrnar. Allt var á floti. Vatnið náði upp að þröskuldinum og stórar öldur gengu inn um hliðið á garðinum. Thierry, maðurinn hennar, sótti stiga út í bílskúr. Vatnið náði honum í háls. Fjölskyldan komst upp á háaloft þar sem þau rufu gat á þakið og komust út. Hjónin og börnin þrjú biðu rennblaut og skelfd í fjórar klukkustundir á þakinu uns lögregluþyrla flutti þau á öruggan stað.

Það hafði gert úrhellisrigningar og árnar flóðu yfir bakka sína og eyðilögðu flóðgarða og brýr. Tíu metra háar flóðbylgjur riðu yfir sums staðar og sópuðu burt öllu sem á vegi þeirra varð. Yfir 30 manns fórust. Sumir drukknuðu í svefni og sumir festust í bílum sínum. Konu, sem var bjargað, varð á orði að það væri engu líkara en að „endalokin“ hefðu dunið yfir þetta skelfilega nóvemberkvöld. Neyðarástandi var lýst yfir í heilu héraði í Suðvestur-Frakklandi sem náði yfir 329 þorp og bæi.

Það versta var eftir

Suðvesturhéraðið var enn í sárum þegar nýjar hörmungar dundu yfir. Óvenjudjúp lægð yfir Atlantshafi olli fárviðri sem gekk yfir Norður-Frakkland hinn 26. desember 1999 og olli miklu tjóni í sunnanverðu landinu nóttina eftir. Vindhraðinn mældist meiri en 200 kílómetrar á klukkustund (55 m/s). Samkvæmt opinberum skrám hafði slíkur stormur ekki gengið yfir Frakkland síðan á 17. öld.

Hélène var komin átta mánuði á leið um þetta leyti. Hún segist hafa verið ofsahrædd. „Maðurinn minn var á heimleið á mótorhjóli og ég sá trjágreinar fljúgandi um allt fyrir utan gluggann. Ég gat ekki varist þeirri hugsun að hann myndi aldrei fá að sjá barnið sitt. Hann var varla kominn heim þegar allt fór á flot og við urðum að forða okkur út um gluggann.“

Að minnsta kosti 90 manns fórust í Frakklandi, ýmist drukknuðu eða urðu undir trjám, þakflísum eða skorsteinum sem hrundu á þá. Hundruð manna slösuðust alvarlega, bæði almenningur og björgunarmenn úr hernum. Rösklega 40 manns fórust í fárviðrinu í Bretlandi, Þýskalandi, Spáni og Sviss.

Eftirköstin

Frakkland skiptist í 96 stjórnsýsluumdæmi og þar af voru 69 stórborgarumdæmi lýst „náttúruhamfarasvæði.“ Tjónið var metið á um 70 milljarða franka (800 milljarða króna). Eyðileggingin var slík í sumum þorpum, bæjum og höfnum að hún minnti einna helst á vígvöll. Fallin tré og háspennumöstur lokuðu vegum og járnbrautum. Þök höfðu rifnað af húsum, byggingarkranar fokið um koll og bátar kastast upp á hafnarbakka. Gróðurhús og aldingarðar eyðilögðust og þúsundir garðyrkjubænda misstu lífsviðurværi sitt.

Á fáeinum klukkustundum olli fárviðrið stórtjóni á skógum og lystigörðum landsins og stráfelldi tré á hundruð þúsundum hektara lands. Franska skógræktarráðuneytið áætlar að 300 milljónir trjáa hafi eyðilagst. Aldagömul, tíguleg tré rifnuðu upp með rótum eða brotnuðu eins og eldspýtur. Breið belti eyddust í skógum Aquitaine og Lorraine.

Bernard er skógarvörður og vottur Jehóva. „Ég fór út í skóg daginn eftir fárviðrið. Þetta var ótrúlegt. Slík sjón lætur mann ekki ósnortinn. Áttatíu prósent fólks í söfnuðinum mínum hefur afkomu sína af skóginum. Fólk er miður sín, sérstaklega eldra fólkið.“ Tíu þúsund tré féllu við Versalahöll. „Það tekur tvær aldir fyrir garðinn að ná sinni fyrri mynd,“ sagði einn af yfirgarðyrkjumönnunum mæðulega.

Rösklega sjötti hluti Frakka var án rafmagns þegar raflínur slitnuðu. Þó svo að veitustofnanir legðu nótt við dag voru tugþúsundir manna enn án rafmagns eða síma tveim vikum eftir óveðrið. Mörg smáþorp einangruðust algerlega. Mörgum fannst þeir hafa stokkið heila öld aftur í tímann þegar þeir þurftu að draga vatn úr brunnum og notast við kertaljós, í stað þess að standa á þröskuldi 21. aldar.

Fárviðrið hlífði hvorki opinberum byggingum, köstulum né dómkirkjum. Fjöldi trúarlegra bygginga skemmdist, þar á meðal 15 ríkissalir votta Jehóva. Sums staðar voru haldnar samkomur við kertaljós eða olíulampa.

Um 2000 fjölskyldur votta Jehóva urðu fyrir eignatjóni í óveðrinu. Tjónið var mismikið, allt frá föllnum trjám og týndum þakplötum upp í það að íbúðarhús gereyðilögðust þegar ár flæddu yfir bakka sína. Nokkrir vottar meiddust. Í Charente-héraði drukknaði sjötíu og sjö ára gamall vottur að konu sinni ásjáandi án þess að hún gæti rétt honum hjálparhönd. Sumir sluppu naumlega. Gilbert, sem er sjötugur, segir: „Það er kraftaverk að ég skuli vera á lífi. Hurðin þeyttist upp og vatnið streymdi inn af ótrúlegum krafti. Á augabragði var það komið upp í einn og hálfan metra. Ég bjargaði mér með því að hanga utan í fataskáp.“

Hjálparstarf

Óveðrið skapaði óvenjulega samstöðu meðal manna í Frakklandi og Evrópu allri. Dagblaðið Le Midi libre sagði: „Stundum er það næstum skylda að sýna mannkærleika, hvort sem menn gera það ósjálfrátt, sökum vináttu eða vegna þess að samviskan býður það.“

Jafnskjótt og óveðrinu slotaði skipuðu vottar Jehóva björgunarnefndir til að hjálpa safnaðarmönnum og öðrum sem urðu fyrir tjóni. Svæðisbygginganefndir, sem annast að öllu jöfnu byggingu ríkissala, kölluðu saman sjálfboðasveitir. Þrjú þúsund vottar tóku þátt í björgunar- og hreinsunarstarfi eftir nóvemberveðrið í suðvesturhluta landsins. Sums staðar voru vottarnir meðal fyrstu sjálfboðaliðanna á vettvang, og þeir hjálpuðu fólki að hreinsa vatn og leðju úr húsum. Þeir hreinsuðu opinberar byggingar svo sem skóla, pósthús, ráðhús, elliheimili og jafnvel kirkjugarða. Oft unnu þeir með öðrum björgunarmönnum.

Öllum var veitt hjálp óháð trú. „Við aðstoðuðum prestinn í þorpinu og hreinsuðum kjallarann í húsinu hans,“ segir vottur. „Fólk leit á okkur eins og við hefðum fallið af himni ofan.“ Embættismaður sagði: „Það má líta á þetta sem leið hjá þeim til að túlka fagnaðarerindið og hjálpa náunganum. Ég held að þeir sem komu hafi lifað eftir fagnaðarerindinu og trú sinni.“ Vottur, sem tók þátt í hjálparstarfinu, sagði: „Hjartað knýr mann til að koma og hjálpa. Það er mjög ánægjulegt að geta gert eitthvað fyrir nágranna sína.“

Tugir vottafjölskyldna misstu samband við kristna bræður sína í nokkra daga eftir áhlaupin tvö í desember. Hjálparstarf var skipulagt undir umsjón öldunga á hverjum stað og farandumsjónarmanna. Stundum var ekki hægt að ná sambandi við vini í nokkurra kílómetra fjarlægð sökum þess að vegir voru lokaðir og símalínur slitnar. Einstaka vottar fóru fótgangandi eða hjólandi um eydd skóglendi til að hjálpa einangruðum safnaðarmönnum, þrátt fyrir verulega hættu af fallandi trjám. Enn og aftur lögðu sjálfboðaliðar nótt við dag við að hreinsa skóla, bókasöfn, tjaldstæði og einkaheimili, og ryðja skógargötur.

„Kærleikshlíf“

Margir voru beygðir og miður sín eftir áföllin sem þeir urðu fyrir, einkum börn og gamalmenni. Þeir sem misstu heimili eða ástvin þurfa mikinn tíma og stuðning frá ættingjum og vinum til að byggja upp líf sitt að nýju. Dr. Gabriel Cottin, sem starfar við áfallahjálp, sagði eftir flóðin á Aude-svæðinu: „Stuðningur, sem fólk getur fengið frá trúsystkinum, er einnig talinn gagnlegur.“

Vottar Jehóva líta á það sem siðferðilega og biblíulega skyldu að veita slíka aðstoð. „Ekki [má verða] ágreiningur í líkamanum [hinu kristna samfélagi], heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum,“ sagði Páll postuli. „Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum.“ — 1. Korintubréf 12:25, 26.

„Eftir ofviðrið komu bræður og systur til okkar í tugatali og hjálpuðu okkur að hreinsa allt,“ segir Hélène sem áður er nefnd. Hún er búin að eignast tápmikið stúlkubarn núna. „Það komu meira að segja vottar sem höfðu sjálfir orðið fyrir tjóni af völdum veðursins. Það var frábært að fá þessa hjálp — sjálfkrafa og sprottna af hlýju hjarta.“

Odette missti heimili sitt í flóðunum. Hún sagði um trúsystkini sín: „Þau hughreystu mig heilmikið. Maður getur ekki lýst hvernig manni er innanbrjósts. Ég er djúpt snortin af öllu sem var gert fyrir mig.“ Annar vottur lýsti ágætlega hvernig mörgum var innanbrjósts: „Við höfum eiginlega kærleikshlíf yfir okkur.“

[Rammagrein á blaðsíðu 19]

„SVARTUR SJÓGANGUR“

Risaolíuskipið Erika sökk í miklum sjógangi um miðjan desember, rétt áður en fárviðrið gekk yfir Frakkland. Slysið varð um 50 kílómetra vestur af strönd Frakklands og 10.000 tonn af olíu fóru í sjóinn. Fjögur hundruð kílómetra strandlengja frá Bretagne til Vendée varð fyrir olíumengun. Stormurinn gerði illt verra með því að dreifa olíunni í marga smáa og límkennda flekki sem dreifðust víða og gerðu hreinsunarstarf mjög erfitt. Þúsundir sjálfboðaliða, bæði ungir og aldnir, komu alls staðar að frá Frakklandi til að hreinsa seigfljótandi olíuna úr fjörunum.

Slysið olli alvarlegri sjávarmengun og miklu tjóni á ostru- og skelfiskrækt. Fuglafræðingar segja að minnst 400.000 sjófuglar hafi drepist — lundar, goðar, súlur og mikið af langvíu. Þetta eru um tífalt fleiri fuglar en drápust þegar risaolíuskipið Amoco Cadiz strandaði við Bretagne í marsmánuði árið 1978. Mikið af fugli var með vetursetu á Frakklandsströnd eftir farflug frá Englandi, Írlandi og Skotlandi. Formaður Fuglaverndarsambands Rochefort sagði: „Þetta er hrikaleg olíumengun, sú langversta sem við höfum séð. . . .Við óttumst að sjaldgæfar fuglanýlendur bíði mikið afhroð eða hverfi jafnvel af ströndum Frakklands.“

[Credit line]

© La Marine Nationale, Frakklandi

[Mynd á blaðsíðu 15]

Þyrlur björguðu hundruðum manna. Myndin er frá Cuxac d’Aude.

[Credit line]

B.I.M.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Skemmd járnbraut sem liggur um eyddar vínekrur.

[Credit line]

B.I.M.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Skemmdir bílar voru á víð og dreif í hundraðatali.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Þessi maður beið í sjö klukkustundir eftir björgun í Villedaigne.

[Credit line]

J.-M Colombier

[Mynd á blaðsíðu 16, 17]

Furutré brotnuðu eins og eldspýtur í Creuse-sýslu.

[Credit line]

© Chareyton/La Montagne/MAXPPP

[Mynd á blaðsíðu 17]

Daginn eftir óveðrið í Saint-Pierre-sur-Dives í Normandí.

[Credit line]

© M. Daniau/AFP

[Mynd á blaðsíðu 17]

Tíu þúsund tré féllu í görðunum við Versalahöll.

[Credit line]

© Charles Platiau/Reuters/MAXPPP

[Myndir á blaðsíðu 18]

Hópur votta Jehóva að hreinsa elliheimili í La Redorte (að ofan) og kringum ráðhúsið í Raissac d’Aude (til hægri).