Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er gott að taka aspirín daglega?

Er gott að taka aspirín daglega?

Er gott að taka aspirín daglega?

Læknir segir frá atviki sem lýsir mjög útbreiddu vandamáli.

ALLIR í fjölskyldunni voru áhyggjufullir og nú var læknirinn það líka. „Ef honum hættir ekki að blæða bráðum þurfum við að íhuga blóðgjöf,“ sagði hann.

Maðurinn hafði smám saman verið að missa blóð með hægðum í nokkrar vikur og var það talið stafa af magabólgu. „Ertu viss um að þú takir engin lyf,“ spurði læknirinn í öngum sínum.

„Nei, bara þetta náttúrlega liðagigtameðal sem fæst án lyfseðils,“ svaraði maðurinn.

Læknirinn sperrti eyrun. „Leyfðu mér að sjá það.“ Hann skoðaði innihaldslýsinguna vandlega og fann það sem hann leitaði að — asetýlsalisýlsýru. Gátan var leyst. Þegar sjúklingurinn hætti að taka lyfjablönduna með aspiríninu og var gefið járn og magameðal, linnti blæðingunum og blóðrauðinn varð smám saman eðlilegur á ný.

Blæðingar af völdum lyfja

Blæðingar í meltingarvegi af völdum lyfja er orðið alvarlegt heilsusvandamál. Þótt mörg lyf eigi hlut að máli má rekja flest tilfellin til gigtar- og verkjalyfja, þar á meðal til bólgueyðandi lyfja sem ekki innihalda stera.

Aspirín er í mörgum lausasölulyfjum og síðustu árin hafa æ fleiri byrjað að taka aspirín daglega. Hvers vegna?

Mikill áhugi á aspiríni

Fréttabréfið Harvard Health Letter greindi frá því árið 1995 að „regluleg notkun aspiríns bjargi mannslífum.“ Greinarhöfundar vitnuðu í nokkrar viðamiklar rannsóknir, sem síðan hafa verið margendurteknar, og sögðu: „Næstum allir sem hafa einhvern tíma fengið hjartaáfall eða heilablóðfall, þjást af hjartaöng eða hafa gengist undir kransæðaaðgerð ættu að taka hálfa til eina aspiríntöflu á dag nema þeir hafi ofnæmi fyrir lyfinu.“ *

Aðrir rannsóknarmenn mæla með því að karlmenn yfir fimmtugt, sem hætt er við hjartaáfalli, taki aspirín daglega og eins konur í sama áhættuhópi. Og ýmsar rannsóknir gefa til kynna að dagleg aspiríntaka geti dregið úr hættu á ristilkrabbameini og að lækka megi blóðsykurstig sykursjúkra með því að gefa stóra aspirínskammta í langan tíma.

Hvernig er aspirín talið ná fram þessari verkun? Ýmislegt er enn á huldu en margt bendir til þess að aspirín hafi áhrif á samloðunarhæfni blóðflagna og dragi þar með úr hættu á blóðtappa í smáæðum hjarta og heila með tilheyrandi líffæraskemmdum.

Af hverju taka þá ekki allir aspirín fyrst það er talið vera svo heilsusamlegt? Meðal annars vegna þess hve margt er enn óljóst. Jafnvel skammtastærðin er óljós — allt frá einni venjulegri töflu tvisvar á dag niður í smábarnatöflu annan hvern dag. Svo vita læknar ekki hvort sami lyfjaskammtur hentar konum og körlum. Þótt sýruhúðað aspirín sé talið koma að einhverju gagni er enn deilt um ágæti þess að taka aspirín og magasýrulyf saman.

Ástæða til varkárni

Aspirín hefur margvíslegar aukaverkanir þótt það sé strangt til tekið náttúrulegt efni — indíánar unnu það úr berki vissra víðitegunda. Það veldur blóðstorknunarvandamálum hjá sumum og getur haft marga aðra hugsanlega aukakvilla í för með sér, meðal annars framkallað ofnæmissvörun í fólki með aspirínofnæmi. Dagleg aspiríntaka hentar því greinilega ekki öllum.

Þeir sem eru í hættu að fá hjartaáfall eða heilablóðfall eða eru í áhættuhópi af öðru tagi ættu að spyrja lækni um áhættu og gagnsemi af daglegri aspiríntöku. Sjúklingur þarf auðvitað að ganga úr skugga um að hann sé ekki með blæðingarvandamál, aspirínofnæmi eða maga- og þarmavandamál. Áður en meðferð hefst þarf að athuga önnur hugsanleg vandkvæði í samráði við lækni og kanna hvaða áhrif aspirín hafi á verkun annarra lyfja.

Eins og fram hefur komið stafar veruleg blæðingarhætta af notkun aspiríns og annarra lyfja sem innihalda asetýlsalisýlsýru. Og slíkar blæðingar gera ekki endilega vart við sig strax heldur aukast smátt og smátt. Svo þarf að taka önnur lyf með í reikninginn, einkum bólgueyðandi lyf. Láttu lækninn vita ef þú notar slík lyf. Í flestum tilvikum er ráðlegt að hætta notkun þeirra fyrir skurðaðgerð. Það getur jafnvel verið gagnlegt að fara reglulega í blóðprufu.

Ef við viljum firra okkur vandræðum í framtíðinni er hyggilegt að hafa í huga biblíuorðskviðinn sem segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.“ (Orðskviðirnir 22:3) Verum vitur í sambandi við aspirín svo að það bitni ekki á heilsunni.

[Neðanmáls]

^ Vaknið! er ekki talsmaður neinnar ákveðinnar læknismeðferðar.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 14]

Hverjir gætu hugsanlega tekið aspirín daglega?

Fólk með kransæðasjúkdóma eða hálsslagæðaþrengingu.

Fólk sem hefur fengið heilablóðfall af völdum blóðtappa eða skammvinnt blóðþurrðarlost.

Karlmenn yfir fimmtugt með einn eða fleiri eftirtalinna áhættuþátta kransæðasjúkdóma: reykingar, háþrýsting, sykursýki, hækkað heildarkólesterólmagn, lágt magn háþéttni-lípóprótína, mikla offitu, mikla áfengisneyslu, kyrrsetulíf og sögu kransæðasjúkdóma (hjartaáfalla fyrir 55 ára aldur) eða heilablóðfalla í ættinni.

Konur yfir fimmtugt með tvo eða fleiri ofangreindra áhættuþátta.

Ráðfærðu þig við lækni áður en þú tekur ákvörðun um þetta mál.

[Credit Line]

Heimild: Consumer Reports on Health