Erfðabreytt matvæli — eru þau hættulaus?
Erfðabreytt matvæli — eru þau hættulaus?
HUGSANLEGT er að eitthvað af því sem þú borðaðir í morgunverð, hádegisverð eða kvöldverð í dag hafi innihaldið erfðabreytt matvæli. Bragðmunur finnst sjaldan. Sums staðar eru á markaði erfðabreyttar kartöflur með innbyggðri skordýrafælu og tómatar sem haldast stinnir lengi eftir tínslu. Breytilegt er eftir löndum hvort erfðabreytt matvæli eru sérstaklega merkt eða þess er getið í innihaldslýsingu ef matvara inniheldur erfðabreytta efnisþætti. Hér á landi er ekki skylt að geta þess enn sem komið er.
Framleiddar eru erfðabreyttar sojabaunir, maís, repja og kartöflur í Argentínu, Bandaríkjunum, Brasilíu, Kanada, Kína og Mexíkó. Í einni frétt er þess getið að „25 prósent af maís, 38 prósent af sojabaunum og 45 prósent af bómull, sem ræktuð voru í Bandaríkjunum árið 1998, hafi verið erfðabreytt, ýmist til að gera jurtirnar ónæmar fyrir illgresiseyði eða láta þær framleiða sinn eigin plágueyði.“ Áætlað er að í árslok 1999 hafi erfðabreyttar jurtir verið í ræktun á 40 milljónum hektara lands þótt ekki hafi það allt verið matjurtir.
Eru erfðabreytt matvæli hættulaus? Stafar umhverfinu einhver hætta af þeim vísindalegu aðferðum sem beitt er við erfðabreytingu á nytjajurtum? Deilan um erfðabreytt matvæli fer harðnandi í Evrópu. Haft er eftir enskum mótmælanda: „Það eina sem ég hef á móti erfðabreyttum matvælum er að þau eru hættuleg, óæskileg og óþörf.“
Hvernig er matjurtum erfðabreytt?
Vísindin að baki erfðabreyttum matvælum kallast matvælalíftækni og eru fólgin í því að beita erfðafræði og erfðatækni til að bæta jurtir, dýr og örverur til matvælaframleiðslu. Sú hugmynd að föndra við lifandi verur er svo sem jafngömul landbúnaðinum. Þegar fyrsti bóndinn leiddi
bestu kúna undir besta nautið, í stað þess að leyfa skepnunum að eðla sig af handahófi, var líftæknin komin af stað í sinni einföldustu mynd. Þegar fyrsti bakarinn notaði gerhvata til að láta brauðið lyfta sér var hann að nota lifandi veru til að bæta framleiðsluvöru sína. Sameiginlegi þátturinn í hvoru tveggja er sá að beitt er náttúrlegum aðferðum við að breyta matvælum.Í líftækni nútímans eru einnig notaðar lifandi verur til að framleiða eða breyta afurðum. En ólíkt hinum fornu og hefðbundnu aðferðum er verið að breyta erfðaefni lifandi vera markvisst og af mikilli nákvæmni. Með líftæknilegum aðferðum er hægt að flytja gen milli algerlega óskyldra lífvera og skapa erfðafræðilega samsetningu sem ósennilegt er að komi fram með hefðbundnum aðferðum. Menn geta flutt erfðaeiginleika einnar lífveru yfir í erfðamengi jurtar — til dæmis frostþol frá fiski, sjúkdómsviðnám frá veiru og viðnámsþrótt gegn skordýrum frá jarðvegsbakteríu.
Setjum sem svo að bóndi vilji ekki að epli eða kartöflur verði brúnar ef þau skerast eða merjast. Vísindamenn koma honum til bjargar með því að fjarlægja genið sem veldur brúnkunni eða skipta á því og breyttu geni sem kemur í veg fyrir hana. Segjum að bóndinn vilji sá rófufræi snemma vors til að auka uppskeruna. Að öllu jöfnu myndu rófurnar skemmast í frostum, en líftæknin bregður á leik með gen úr fiski sem lifir í afar köldum sjó og kemur því fyrir í erfðaefni rófunnar. Úr verður erfðabreytt rófa sem þolir allt að 6,5 gráðu frost — helmingi meira en rófur þola að jafnaði.
Í þeim dæmum, sem hér hafa verið nefnd, er um að ræða flutning á einu geni og breytingarnar eru mjög afmarkaðar. Það er allt annar handleggur að breyta
flóknari einkennum svo sem vaxtarhraða eða þurrkþoli. Vísindin geta ekki enn þá ráðskast með heila genahópa enda eru mörg gen óþekkt enn sem komið er.Verður græna byltingin endurtekin?
Talsmenn líftækninnar eru fullir bjartsýni og segja að græna byltingin eigi eftir að endurtaka sig með tilkomu erfðabreyttra nytjajurta. Jarðarbúum fjölgar um 230.000 manns á dag og einn af forkólfum líftækniiðnaðarins fullyrðir að erfðatæknin sé „verkfæri sem lofar góðu um aukna matvælaframleiðslu.“
Erfðabreytt matvæli hafa nú þegar dregið úr framleiðslukostnaði. Matjurtir hafa verið styrktar með geni sem framleiðir náttúrlegan plágueyði svo að ekki þarf að úða akra með eiturefnum. Unnið er að erfðabreytingum á baunum og korni með stórauknu prótíninnihaldi sem skiptir miklu máli fyrir fátækari hluta heims. Þessar „ofurplöntur“ gætu gefið nýjum kynslóðum plantna gagnleg ný gen og einkenni sem skila sér í meiri uppskeru á rýru landi í fátækum ríkjum þar sem offjölgun er vandamál.
„Það er vissulega æskilegt að bæta hlutskipti bænda,“ segir forstjóri leiðandi líftæknifyrirtækis. „Og við munum gera það. Við beitum líftækni til að gera á sameinda- og genastiginu það sem kynbótamenn hafa verið að gera með valrækt um aldaraðir. Við munum skapa betri vörur sem fullnægja tilteknum þörfum, og við munum gera það á skemmri tíma en áður.“
Búvísindamenn benda aftur á móti á að það sé lögð svo gífurleg áhersla á það núna að erfðatækni sé lausnin á matvælaskortinum í heiminum að það komi niður á öðrum rannsóknum á nytjajurtum. Síðarnefndu rannsóknirnar eru ekki jafnmikil nýlunda og hinar en eru áhrifameiri og gætu reynst fátækari heimshlutum til hagsbóta. „Það eru til miklu fleiri áhrifaríkar lausnir á matvælavandanum og við ættum ekki að láta tækni, sem hefur ekki sannað ágæti sitt, ráða ferðinni,“ segir Hans Herren, sérfræðingur í sjúkdómavörnum í landbúnaði.
Siðfræðileg álitamál
Sumir telja breytingar á erfðaefni nytjajurta og annarra lífvera siðfræðilegt álitamál, að ekki sé nú talað um hættuna á skaðlegum eða óæskilegum heilbrigðis- eða umhverfisáhrifum. „Erfðatæknin stígur yfir ákveðin grundvallarmörk í meðferð mannsins á reikistjörnunni jörð því að það er verið að breyta sjálfri náttúrunni,“ segir Douglas Parr sem er vísindamaður og aðgerðasinni. Jeremy Rifkin, höfundur bókarinnar The Biotech Century, orðar það svona: „Um leið og maður kemst yfir öll líffræðileg landamæri fer maður að líta á lífverutegund einungis sem breytanlegar erfðaupplýsingar. Þá er komin upp algerlega ný aðferð við að mynda sér skoðun á samskiptum við náttúruna og einnig notkun hennar.“ Hann spyr í framhaldi af því: „Hefur lífið sjálfstætt gildi eða aðeins notagildi? Hvaða skyldur höfum við gagnvart komandi kynslóðum? Hvaða ábyrgðartilfinningu höfum við gagnvart þeim lífverum sem við búum með?“
Sumir ganga skrefi lengra og halda því fram að með því að flytja gen milli óskyldra tegunda „séum við komin inn á svið sem tilheyrir Guði og Guði einum.“ Karl Bretaprins er þeirrar skoðunar. Biblíunemendur trúa því staðfastlega að Guð sé „uppspretta lífsins.“ (Sálmur 36:10) En það er ekkert sem bendir til þess að Guð hafi vanþóknun á valrækt jurta og dýra sem hefur hjálpað jörðinni að framfleyta þeim milljörðum sem byggja hana. Tíminn einn getur leitt í ljós hvort líftæknin er skaðleg manninum og umhverfi hans. Ef hún er komin inn á það „svið sem tilheyrir Guði,“ þá getur hann snúið þessari þróun við, enda ber hann umhyggju fyrir velferð mannanna.
[Rammagrein á blaðsíðu 27]
Er hætta á ferðum?
Líftækninni hefur fleygt svo hratt fram að hvorki löggjafar- né reglugerðarvaldið hefur náð að fylgjast með. Rannsóknir geta varla komið í veg fyrir ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Þær raddir verða æ háværari sem vara við óviljandi afleiðingum, allt frá alvarlegu efnhagsraski hjá bændum upp í það að heilsu manna sé stefnt í voða og umhverfiseyðing blasi við. Vísindamenn benda á að engar rannsóknaraðferðir séu tiltækar til að sýna fram á að erfðabreytt matvæli séu hættulaus til langs tíma litið. Þeir nefna margs konar hugsanlega hættu.
● Ofnæmisverkun. Ef gen, sem framleiðir ofnæmisvaldandi prótín, lendir í maís getur fólk með matarofnæmi verið í stórhættu, svo dæmi sé tekið. Eftirlitsstofnanir skylda fyrirtæki til að gefa upplýsingar um ofnæmisvaldandi prótín í erfðabreyttum matvælum en sumir vísindamenn óttast að óþekktir ofnæmisvaldar geti sloppið í gegnum eftirlitskerfið.
● Aukin eiturvirkni. Sumir sérfræðingar telja að erfðabreytingar geti aukið framleiðslu náttúrlegra eiturefna á ýmsa óvænta vegu. Þegar ákveðið gen verði virkt geti það sett af stað framleiðslu þessara eiturefna, auk þess að hafa þau áhrif sem sóst er eftir.
● Viðnám gegn fúkalyfjum. Vísindamenn nota svokölluð erfðamerki til að ganga úr skugga um að genið, sem óskað er eftir, sé komið á sinn stað. Flest erfðamerkin veita viðnámsþol gegn fúkalyfjum og gagnrýnendur óttast að það geti aukið lyfjaþol. Aðrir vísindamenn svara því til að erfðamerkin séu aflöguð með erfðatækni áður en þau eru notuð svo að þessi hætta sé ekki fyrir hendi.
● „Ofurillgresi.“ Mest óttast menn að breytt gen geti sloppið með fræjum og frjódufti frá erfðabreyttum jurtum til skyldra plantna af illgresisætt og skapað „ofurillgresi“ sem illgresiseyðir bítur ekki á.
● Tjón á öðrum lífverum. Vísindamenn við Cornellháskóla greindu frá því í maí árið 1999 að lirfur kóngafiðrildis hafi drepist eftir að hafa étið lauf stráð frjódufti frá erfðabreyttum maís. Sumir véfengja niðurstöður þessarar rannsóknar en ýmsir hafa áhyggjur af því að óskyldar lífverur geti orðið fyrir tjóni.
● Örugg meindýraeitur verða gagnslaus. Einhverjar best heppnuðu erfðabreyttu nytjaplönturnar innihalda gen sem framleiðir prótín sem er eitrað fyrir skordýr. Líffræðingar benda hins vegar á að meindýrin geti hugsanlega myndað þol gegn þessu eitraða prótíni og þar með verði meindýraeitur gagnslaust.