Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Hernaðartíðindi

„Um þessar mundir eru háð 27 stríð í heiminum,“ segir í tímaritinu Psychology Today. Alþjóðafriðarrannsóknastofnunin í Stokkhólmi greinir frá því að rösklega 150 þúsund Líberíumenn hafi fallið í 7 ára borgarastríði þar í landi og 500.000 manns í borgarastríðinu sem staðið hefur í 15 ár í Angóla. Átök í Tyrklandi hafa kostað 37.000 manns lífið frá 1984 og um 60.000 hafa fallið á Srí Lanka frá 1983. „Þegar allt er talið hafa ríflega 20 milljónir manna — aðallega óbreyttir borgarar — fallið í stríðsátökum frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar,“ segir tímaritið. „Stríð eru kannski óhjákvæmileg . . . af efnahagsástæðum. Þau eru einhver umfangsmesta atvinnugrein veraldar. Þau kosta um 800 milljarða dollara á ári og herfangið er líka gríðarlegt.“ Ritstjórnargrein blaðsins bætir við: „Við erum stórfurðuleg tegund, svona grimm eins og við erum gagvart sjálfum okkur.“ Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst þetta ár alþjóðlegt friðarár.

Reykingar og blinda

Dagblaðið Canberra Times segir að „reykingar séu ein af aðalorsökum blindu.“ Vísindamenn við Þjóðarháskólann í Sydney áætla að 20 prósent blindra Ástrala eldri en 50 ára séu blindir sökum reykinga. Þeir vitna til ástralskra, bandarískra og evrópskra rannsókna sem gefa til kynna að reykingamönnum sé tvöfalt til fimmfalt hættara við aldurstengdri sjónudílsrýrnun en þeim sem ekki reykja. Wayne Smith, læknir við Þjóðarháskólann, leggur til að eftirfarandi viðvörun sé sett á sígarettupakka: „Reykingar auka verulega hættuna á blindu.“

Börn og svefn

„Foreldrar barna á skólaaldri verða að setja því takmörk hve lengi þau fá að vera á fótum og einnig hvað þau gera fyrir svefninn,“ segir tímaritið Parents. „Það er örvandi að horfa á sjónvarp, leika tölvuleiki og spranga um Netið þannig að hugurinn hjá krökkunum er í yfirvinnu. Og margar skuldbindingar eftir að skóladegi lýkur koma í veg fyrir að þau ljúki heimaverkefnunum innan skynsamlegra tímamarka.“ Fullorðnir verða hljóðir og syfjaðir ef þeir fá ekki nægan svefn, en rannsóknir sýna að of lítill svefn hefur oft þau áhrif á börn að þau verða ofvirk og taumlaus. Í skólanum eiga vansvefta börn oft erfitt með að einbeita sér, taka eftir, muna það sem þau læra og leysa verkefni. Sérfræðingarnir segja að foreldrar þurfi að setja börnunum ákveðinn háttatíma og framfylgja honum en ekki bíða uns kraftarnir eða verkefnin eru á þrotum.

Everest enn hærra

„Everest, hæsta fjall heims, er enn hærra en vísindamenn töldu og fer hækkandi,“ segir í nýlegri Reutersfrétt. „Fjallgöngumenn mældu hæð Everest 8.850 metra með hjálp flókinna gervihnattakerfa. Það er næstum 8,9 kílómetrar . . . tveim metrum hærra en síðasta opinbera mælingin sýndi, 8.848 metrar, sem gerð var árið 1954.“ Nýja mælingin miðast við snæviþakinn tind. Enginn veit hæðina á sjálfum klettatindinum undir snjónum. Bandaríska landafræðifélagið ætlar að setja nýju töluna inn á kortin sín. Auk þess að fara hækkandi færist fjallið — raunar allur Himalajafjallgarðurinn — til norðausturs, í áttina til Kína. Færslan er á bilinu 1,5 til 6 millímetrar á ári.

Vanræksla og ofbeldi gegn börnum

Skráðum ofbeldistilfellum gegn börnum í Japan fjölgaði um 30 af hundraði á fjárhagsárinu 1998 í samanburði við árið á undan. Þetta kemur fram í dagblaðinu Ashai Evening News. Sérfræðingar telja að það megi rekja þetta til „vaxandi streitu mæðra sem þurfa margar að sjá einar um uppeldi barna sinna,“ auk „vaxandi meðvitundar almennings“ um þá ábyrgð sína að skýra frá ofbeldi gegn börnum eða vanrækslu. Dagblaðið The Daily Yomiuri nefnir að það hafi einnig færst í aukana að ungbörn deyi í Japan þar sem þau eru skilin ein eftir heima eða í bifreiðum á bílastæðum. Í sumum tilvikum eru foreldrarnir við fjárhættuspil á spilakassa. Til skamms tíma var óalgengt að foreldrar væru látnir svara til saka fyrir þetta. En nú hyggjast yfirvöld herða á því að lögsækja foreldra sem gera sig seka um alvarlega vanrækslu.

„Dularfull veira“

„Dularfull veira er að smita blóðbirgðir um heim allan,“ að því er tímaritið New Scientist segir. „Enginn veit hvort þessi ‚TT‘-veira er hættuleg en menn óttast að hún geti valdið lifrarsjúkdómi.“ Veiran er nefnd TT eftir upphafsstöfum japansks sjúklings sem hún fannst fyrst í, og hún hefur fundist „bæði í blóðgjöfum og blóðþegum með lifrarsjúkdóm sem voru að fá blóðgjöf.“ Rannsókn sýndi að 8 blóðgjafar af 102 í Kaliforníu gengu með veiruna þótt þeir mældust neikvæðir við veirumælingu, þar á meðal HIV og lifrarbólgu B og C. Reiknað er með að smithraðinn sé 2 prósent í Bretlandi, 4 til 6 prósent í Frakklandi, 8 til 10 prósent í Bandaríkjunum og 13 prósent í Japan. Vísindamönnum, sem „eru að rannsaka TT-veiruna víða um heim, er mikið í mun að valda ekki skelfingu,“ segir greinin. Þeir eru nú að „kanna hvort heilsuhætta stafi af veirunni.“

Gegn streitu

Finnurðu fyrir streitu? Að sögn dagblaðsins El Universal mæla mexíkósku almannatryggingarnar með eftirfarandi í baráttunni gegn streitu. Sofðu eins mikið og líkaminn heimtar — á bilinu sex til tíu stundir á dag. Borðaðu staðgóðan morgunverð, hóflegan hádegisverð og léttan kvöldverð. Og sérfræðingar mæla almennt með því að menn dragi úr neyslu á fituríkum mat og salti, og þeir sem komnir eru yfir fertugt dragi úr mjólkur- og sykurneyslu. Reyndu að gefa þér stundir til hljóðrar hugleiðingar. Og tengsl við náttúruna draga úr streitu.

Hagkvæmt að hjóla

„Reiðhjólið er eitthvert orkunýtnasta farartæki sem til er, ekki aðeins af því að það er fótstigið heldur einnig af því að það er þannig hannað að mjög lítil orka fer til spillis.“ Þetta kemur fram í Reutersfrétt. Verkfræðingar við John Hopkins háskóla í Baltimore í Bandaríkjunum notuðu innrauða myndavél og tölvubúnað til að fylgjast með drifbúnaði reiðhjóls og uppgötvuðu að lítill varmi myndaðist þegar keðjan hreyfðist. „Sér til undrunar komust verkfræðingarnir að raun um að keðjudrifið var með orkunýtnina 98,6 prósent sem merkir að innan við 2 prósent orkunnar, sem beitt var til að knýja fremra keðjuhjólið, tapaðist sem varmi,“ segir í fréttinni. „Lakasta útkoma reiðhjólsins við breytileg skilyrði var 81 prósent orkunýtni.“ Haft er eftir James Spicer sem stjórnaði rannsókninni: „Þetta kom mér á óvart, sérstaklega þegar ég áttaði mig á því að gerð þessarar keðju hefur verið óbreytt í meira en 100 ár.“

Að blístra saman

Spænsk skólabörn á eynni Gomera í Kanaríeyjaklasanum eru látin læra blístursmál sem fjárhirðar á eynni hafa notað um aldaraðir. Frá þessu er sagt í Lundúnablaðinu The Times. Blísturmálið þróaðist upphaflega meðal fjárhirða sem þurftu að koma boðum þvert yfir dali á fjöllóttri eynni. Það er kallað silbo, sem merkir blístur, og líkir eftir sérhljóðum. Blístrarar breyta tónhæð með því að stinga fingrum í munn sér og mynda lúður með höndunum svo að hljóðið berist lengra, allt að 3 kílómetra. Blístursmálið glataðist næstum á árabilinu 1960-70 en á nú aftur vaxandi vinsældum að fagna. Eyjarskeggjar halda jafnvel upp á árlegan blístursdag. En blístrinu eru takmörk sett. „Það er hægt að halda uppi samræðum en það er ekki margt sem hægt er að tala um,“ segir Juan Evaristo sem er fræðslustjóri á eynni.

Sólvörn og krabbamein

„Sólvörn með háum varnarstuðli veitir fólki falska öryggiskennd og getur aukið hættuna á húðkrabbameini,“ að sögn Lundúnablaðsins The Times. „Það stafar af því að það er lengur úti í sólinni en ella og drekkur í sig meiri geislun.“ Vísindamenn við krabbameinsrannsóknastofnun í Mílanó uppgötvuðu að fólk sem notaði sólvörn með stuðlinum 30 var fjórðungi lengur í sólinni en þeir sem notuðu sólvörn með stuðlinum 10. Haft er eftir Phillipe Autier, höfundi skýrslunnar: „Það hefur ekki verið sýnt fram á að sólvörn verji fólk almennt gegn húðkrabba, einkum sortuæxli, en það eru mjög sannfærandi gögn fyrir því að það sé sterkt samband milli húðkrabba og sólbaða.“ Sérfræðingar í heilbrigðismálum vara við löngum sólböðum, óháð því hvers konar sólvörn notuð er. Christopher New er kynningarstjóri bresku Heilsufræðslunnar. Hann ráðleggur: „Fólk ætti ekki að hætta að nota sólvörn, en það ætti ekki að nota hana til að geta legið lengur í sólbaði.“