Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jarðsprengjur — að meta kostnaðinn

Jarðsprengjur — að meta kostnaðinn

Jarðsprengjur — að meta kostnaðinn

Augusto var sex ára þegar hann rölti út á opinn akur í grennd við Lúanda, höfuðborg Angóla. Þetta var 26. desember árið 1993. Allt í einu rak hann augun í glansandi hlut á jörðinni. Forvitnin vaknaði og hann ákvað að taka hann upp. En þá sprakk jarð-sprengja.

Það þurfti að taka annan fótinn af Augusto. Hann er 12 ára núna, blindur og bundinn við hjólastól.

JARÐSPRENGJAN, sem limlesti Augusto, var þeirrar gerðar sem beint er gegn herliði fremur en skriðdrekum og herflutningabílum. Til eru rösklega 350 tegundir af jarðsprengjum sem ætlað er að granda fólki. Að minnsta kosti 50 ríki hafa framleitt þær. Margar þeirra eru hannaðar til að særa en ekki drepa. Særðir hermenn þarfnast aðstoðar svo að jarðsprengja, sem særir hermann, hægir á hernaðaraðgerðum, og það er einmitt það sem óvinurinn vill. Og örvæntingaróp frá særðum hermanni geta skotið félögunum skelk í bringu. Þess vegna eru jarðsprengjur taldar áhrifaríkastar ef fórnarlömbin lifa — þó að þau rétt skrimti.

En eins og getið er í greininni á undan eru það aðallega óbreyttir borgarar en ekki hermenn sem jarðsprengjur granda eða limlesta. Og ekki er það alltaf af slysni. Bókin Landmines — A Deadly Legacy bendir á að jarðsprengjur séu stundum „lagðar vísvitandi fyrir óbreytta borgara í þeim tilgangi að rýma svæði, spilla matvælaframleiðslu, valda flóttamannastraumi eða hreinlega til að skapa ótta.“

Svo eitt dæmi sé tekið voru lagðar jarðsprengjur við jaðar óvinaþorpa í átökum í Kambódíu og síðan hafin stórskotaliðsárás á þorpin. Þorpsbúar reyndu að komast undan og flúðu þá beint út á jarðsprengjubeltin. Meðan þetta var að gerast lögðu liðsmenn Rauðu khmeranna jarðsprengjur á hrísgrjónaakra svo að bændur urðu óttaslegnir og ræktun stöðvaðist að mestu. Markmiðið var það að knýja stjórnvöld að samningaborðinu.

Mörgum þykir það enn ljótara sem gerðist í Sómalíu árið 1988. Gerð var sprengjuárás á bæinn Hargeysa og bæjarbúar neyddust til að flýja. Hermenn komu þá fyrir jarðsprengjum á yfirgefnum heimilum. Sprengjurnar limlestu eða felldu flóttamennina þegar þeir sneru heim eftir að bardögunum linnti.

En jarðsprengjur ógna fleiru en lífi og limum. Lítum á önnur áhrif þessara óhugnanlegu vopna.

Félagslega og fjárhagslega hliðin

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir: „Nálægð einnar jarðsprengju — eða jafnvel óttinn við að hún sé nálæg — getur hindrað ræktun á heilum akri, svipt heilu þorpin lífsviðurværi sínu og lagt enn einn stein í götu endurreisnar og framþróunar heillar þjóðar.“ Í Afganistan og Kambódíu væri hægt að rækta 35 prósent meira land en gert er ef bændur þyrðu að stíga þar fæti. Sumir taka áhættuna. „Ég er dauðhræddur við jarðsprengjur,“ segir kambódískur bóndi. „En ef ég ekki heyja og sker bambus komumst við ekki af.“

Þeir sem lifa eftir að hafa stigið á jarðsprengju sitja oft uppi með þungar fjárhagsbyrðar. Barn í einhverju þróunarlandanna, sem missir fótlegg tíu ára gamalt, þarf allt að 15 gervilimi á ævinni sem kosta að meðaltali um 9000 krónur hver. Það þykir kannski ekki mikið fé sums staðar en í Angóla samsvarar það þriggja mánaða launum hjá þorra fólks.

Og félagslegu afleiðingarnar eru ekki síður erfiðar. Í einu Asíulandi forðast menn samneyti við þann sem misst hefur útlim af ótta við að smitast af „óheppni.“ Hjónaband er fjarlægur draumur fyrir mörg af fórnarlömbunum. Angólamaður, sem missti fótlegg af völdum jarðsprengju, segir mæðulega að hann hafi ekki hugsað sér að giftast. „Kona vill eignast mann sem getur unnið,“ segir hann.

Eins og við er að búast er sjálfsmatið oft bágborið hjá þeim sem misst hafa útlim. „Ég get ekki framfleytt fjölskyldunni lengur,“ segir kambódískur maður, „og ég skammast mín fyrir það.“ Slíkar tilfinningar geta verið meira lamandi en það að missa útlim. „Ég held að alvarlegasta tjónið hjá mér hafi verið tilfinningalegt,“ segir Artur sem er frá Mósambík. „Ég varð oft pirraður þegar horft var í áttina til mín. Mér fannst enginn bera virðingu fyrir mér lengur og ég ímyndaði mér að ég gæti aldrei aftur lifað eðlilegu lífi.“ *

Er ekki hægt að fjarlægja sprengjurnar?

Á síðustu árum hefur verið lagt fast að þjóðum heims að leggja bann við notkun jarðsprengna. Og í sumum löndum hafa yfirvöld lagt út í hið hættulega verkefni að fjarlægja jarðsprengjur sem búið er að koma fyrir. En það eru mörg ljón á veginum. Eitt þeirra er tíminn því að það er óskaplega tímafrekt að fjarlægja jarðsprengjur. Áætlað er að það taki um hundraðfalt lengri tíma að fjarlægja sprengju en að koma henni fyrir. Og svo er það kostnaðurinn. Jarðsprengja kostar á bilinu 200 til 1100 krónur en það getur kostað ríflega 70.000 krónur að fjarlægja hana.

Það virðist því vonlaust verk að fjarlægja jarðsprengjur að fullu. Að fjarlægja allar jarðsprengjur í Kambódíu, svo dæmi sé tekið, myndi kosta nokkurra ára tekjur allra landsmanna. Talið er að verkið myndi taka heila öld, þó svo að nægir fjármunir væru fyrir hendi. Útlitið er ekki bjart þegar á heildina er litið. Með núverandi tækni er talið að það myndi kosta 2400 milljarða króna að leita uppi og fjarlægja allar sprengjur í heimi, og taka meira en þúsund ár!

Reyndar hafa mönnum dottið í hug nýstárlegar aðferðir til að eyða jarðsprengjum — allt frá því að nota erfðabreyttar bananaflugur sem geta þefað uppi sprengiefni, upp í fjarstýrðar risavélar sem eytt gætu sprengjum á tveggja hektara svæði á klukkustund. En það kann að verða einhver bið á því að hægt sé að beita slíkri tækni í stórum stíl, og líklegt er að aðeins ríkustu löndin hafi efni á því.

Víðast hvar þarf að beita gamaldags aðferðum við að eyða jarðsprengjum. Leitarmaður skríður á maganum og kannar jarðveginn framundan með priki, sentímetra fyrir sentímetra. Hann kemst yfir 20 til 50 fermetra á dag. Og ekki er það hættulaust því að einn leitarmaður lætur lífið og tveir særast á móti hverjum 5000 sprengjum sem eytt er.

Sameiginlegt átak gegn jarðsprengjum

Fulltrúar fjölmargra ríkja undirrituðu samning í desember árið 1997 um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutning jarðsprengna og um eyðingu jarðsprengna, einnig þekktur sem Ottawa-samningurinn. „Hér hefur verið unnið afrek sem á sér ekkert fordæmi og enga hliðstæðu, hvorki í afvopnun á alþjóðavettvangi né í mannúðarlögum,“ segir Jean Chrétien, forsætisráðherra Kanada. * Næstum 60 ríki hafa ekki undirritað samninginn enn þá, þeirra á meðal sumir af helstu jarðsprengjuframleiðendum heims.

Ætli Ottawa-samningurinn nái að uppræta þennan bölvald? Kannski að einhverju marki. En margir eru efins. Claude Simonnot, meðstjórnandi Alþjóðabandalags öryrkja í Frakklandi, bendir á að „jafnvel þótt öll ríki heims fylgdu Ottawa-samningnum væri það aðeins eitt skref í þá átt að útrýma öllum jarðsprengjum á jörðinni.“ Ástæðan er sú að „milljónir jarðsprengna liggja grafnar í jörð og bíða væntanlegra fórnarlamba sinna,“ segir hann.

Hernaðarsagnfræðingurinn John Keegan bendir á annað atriði. Hann minnir á að hernaður „teygi sig inn í helgustu fylgsni mannshjartans . . . þar sem stoltið ræður ríkjum, þar sem tilfinningarnar drottna, þar sem eðlishvötin er konungur.“ Milliríkjasamningar geta ekki upprætt djúpstæðar kenndir á borð við hatur og ágirnd. En þarf mannkynið þá að búa við þennan bölvald um aldur og ævi?

[Neðanmáls]

^ Nánari upplýsingar um útlimamissi má finna í greinaflokki undir yfirskriftinni „Hope for the Disabled“ í enskri útgáfu Vaknið! 8. júní 1999, bls. 3-10.

^ Samningurinn gekk í gildi 1. mars 1999. Sjötta janúar á þessu ári höfðu 137 ríki undirritað hann og þar af voru 90 búin að fullgilda hann.

[Rammi á blaðsíðu 6]

Græða tvisvar á því sama?

Það er meginregla í viðskiptum að framleiðendur beri ábyrgð á tjóni sem vörur þeirra valda. Lou McGrath starfar hjá óháðum samtökum sem beita sér fyrir eyðingu jarðsprengna, og hann heldur því fram að það ætti að skylda fyrirtæki, sem hafa hagnast á framleiðslu þeirra, til að greiða skaðabætur. En það er kaldhæðnislegt að það eru einmitt margir af framleiðendunum sem hafa hagnast á því að eyða sprengjunum. Sagt er að fyrrverandi framleiðandi í Þýskalandi hafi gert samning upp á ríflega sjö milljarða króna um að eyða jarðsprengjum í Kúveit. Og þrjú fyrirtæki gerðu sameiginlega 550 milljóna króna samning um hreinsun helstu vega í Mósambík — og tvö þeirra höfðu framleitt jarðsprengjur.

Sumum þykir það gróft siðleysi að fyrirtækin, sem framleiða jarðsprengjur, skuli græða á því að eyða þeim. Þeir halda því fram að í vissum skilningi græði framleiðendur tvisvar á því sama. Að minnsta kosti er ljóst að framleiðsla jarðsprengna og eyðing þeirra er hvort tveggja arðvænleg starfsemi.

[Skýringrmynd á blaðsíðu 5]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Meðaltal jarðsprengna á ferkílómetra í þeim löndum þar sem ástandið er verst.

BOSNÍA og HERSEGÓVÍNA 59

KAMBÓDÍA 55

KRÓATÍA 53

EGYPTALAND 23

ÍRAK 23

AFGANISTAN 15

ANGÓLA 12

ÍRAN 10

RÚANDA 10

[Rétthafi]

Heimild: Mannúðarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna, 1996

[Mynd á blaðsíðu 7]

Skilti og veggspjöld í Kambódíu vara við jarðsprengjum.

Einn leitarmaður lætur lífið og tveir særast á móti hverjum 5000 jarðsprengjum sem eytt er.

[Rétthafi]

Bakgrunnur: © ICRC/Paul Grabhorn

© ICRC/Till Mayer

© ICRC/Philippe Dutoit