Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sameinuð á ný

Sameinuð á ný

Sameinuð á ný

Frásaga Lars og Judith Westergaard

HEIMILI þeirra er eins og hvert annað danskt heimili. Þau búa í friðsælu þorpi í þægilegu húsi með snotrum garði í kring. Á vegg hangir ljósmynd af þrem hraustlegum drengjum.

Þetta er hamingjusöm fjölskylda. Faðirinn Lars er öldungur í söfnuði votta Jehóva. Eiginkonan Judith er brautryðjandi (boðberi í fullu starfi). En einu sinni lentu þau í miklum erfiðleikum sem enduðu með skilnaði. Nú eru þau sameinuð á ný. Hvað gerðist? Látum þau segja sögu sína.

Lars og Judith hafa ekkert á móti því að segja frá hvað fór úrskeiðis í hjónabandinu og hvernig þau náðu saman á ný. Þau telja að reynsla sín geti kannski komið öðrum að gagni.

Gæfuríkt upphaf

Lars: Við vorum yfir okkur hamingjusöm þegar við giftumst í apríl árið 1973. Gæfan virtist brosa við okkur. Við þekktum hvorki til Biblíunnar né votta Jehóva á þeim tíma en vorum sannfærð um að það væri hægt að bæta heiminn til muna ef allir menn legðu sig nægilega fram, þannig að við tókum virkan þátt í stjórnmálum. Ekki spillti það fyrir að eignast þrjá hrausta og tápmikla drengi, þá Martin, Thomas og Jonas.

Judith: Ég var í stjórnunarstarfi hjá hinu opinbera og tók þátt í stjórnmálum og verkalýðshreyfingunni. Ég vann mig upp með tímanum og var valin til forystustarfa.

Lars: Ég starfaði hjá stóru verkalýðsfélagi og vann mig upp í áhrifastöðu. Við vorum á framabraut og það var ekki ský á himni.

Skilnaður

Lars: En við vorum svo upptekin á mismunandi sviðum að við höfðum æ minni tíma til að vera saman. Við störfuðum fyrir sama stjórnmálaflokk en á ólíkum vettvangi. Drengirnir okkar voru í gæslu, annaðhvort á einkaheimilum eða dagvistarstofnunum. Það komst óregla á fjölskyldulífið af því að við vorum bæði upptekin af okkar eigin hugðarefnum. Við fórum oft að hnakkrífast ef svo vildi til að við vorum bæði heima samtímis. Svo fór ég að nota áfengi til að róa mig.

Judith: Okkur þótti auðvitað vænt hvoru um annað og um drengina, en ástin virtist dofna af því að við ræktuðum hana aldrei eins og við hefðum átt að gera. Samskiptin urðu sífellt erfiðari og það bitnaði á drengjunum.

Lars: Ég greip til þess örþrifaráðs að segja upp vinnunni í von um að koma lagi á fjölskyldulífið. Árið 1985 fluttum við úr bænum í þorpið þar sem við búum núna. Ástandið skánaði um hríð en við hjónin vorum eftir sem áður upptekin hvort á sínum vettvangi. Við skildum loks í febrúar 1989 eftir 16 ára hjónaband. Fjölskyldan var í rúst.

Judith: Það var hryllilegt að horfa upp á hjónabandið fara í hundana og sjá hvernig það kom niður á drengjunum. Ég fékk forræði yfir þeim. Við vorum svo bitur að við gátum ekki einu sinni sæst á sameiginlegt forræði.

Lars: Við Judith höfðum gert nokkrar örþrifatilraunir til að halda fjölskyldunni saman. Við báðum jafnvel til Guðs. En við vissum ósköp lítið um hann.

Judith: Okkur fannst við ekki vera bænheyrð eftir að við höfðum beðist fyrir. Sem betur fer komumst við síðar að raun um að Guð bænheyrir fólk.

Lars: Við höfðum enga hugmynd um að við þyrftum að leggja okkur fram um að breyta okkur. Þess vegna fór sem fór og við skildum, því miður.

Óvænt umskipti hjá Lars

Lars: Það urðu mjög óvænt umskipti hjá mér eftir að ég var farinn að búa einn. Dag nokkurn þáði ég tvö tímarit af vottum Jehóva. Fram til þessa hafði ég ósjálfrátt vísað vottunum frá. En núna fór ég að glugga í blöðin og komst að raun um að vottarnir trúðu raunverulega á Guð og Jesú Krist. Ég var steinhissa. Ég hafði ekki ímyndað mér að þeir væru kristnir.

Um svipað leyti fór ég að búa með konu sem ég hafði kynnst. Það kom á daginn að hún var fyrrverandi vottur. Ég fór að spyrja hana um hitt og þetta og hún sýndi mér í Biblíunni að Jehóva væri nafn Guðs. Svo að „vottar Jehóva“ merkti „vottar Guðs“!

Konan benti mér á opinberan fyrirlestur sem ég gæti hlustað á í mótshöll votta Jehóva. Áhuginn vaknaði hjá mér við það sem ég sá og heyrði svo að ég fór á samkomur í ríkissalnum í bænum til að læra meira og þáði boð um biblíunámskeið. Ég áttaði mig fljótlega á því að það væri ekki rétt að lifa eins og ég gerði svo að ég hætti að búa með vinkonu minni og flutti til heimabæjar míns. Eftir nokkurt hik setti ég mig í samband við vottana þar og hélt biblíunáminu áfram.

En ýmsar efasemdir sóttu á mig. Voru vottar Jehóva virkilega fólk Guðs? Hvað um það sem ég hafði lært í bernsku? Ég hafði alist upp sem sjöunda dags aðventisti svo að ég hafði samband við aðventistaprest. Hann féllst á að fræða mig um Biblíuna á miðvikudögum en vottar Jehóva kenndu mér á mánudögum. Ég vildi fá skýrar upplýsingar frá báðum um fernt: endurkomu Krists, upprisuna, þrenningarkenninguna og rétt skipulag safnaðarins. Það tók mig aðeins fáeina mánuði að eyða öllum efasemdum. Það voru aðeins vottarnir sem byggðu algerlega á Biblíunni í þessum fjórum efnum — og reyndar í öllu öðru. Það skipti engum togum að ég fór að taka þátt í safnaðarlífinu af fullum krafti og vígði mig Jehóva áður en langt um leið. Ég lét svo skírast í maí árið 1990.

Hvað gerðist hjá Judith?

Judith: Ég fór að sækja kirkju á nýjan leik eftir að hjónabandið var farið út um þúfur. Ég var lítið hrifin þegar ég frétti að Lars væri orðinn vottur Jehóva. Yngsti sonurinn Jonas, sem var tíu ára, heimsótti pabba sinn stundum en ég bannaði Lars að fara með hann á samkomur hjá vottunum. Lars leitaði ásjár yfirvalda en þau stóðu með mér.

Ég var búin að kynnast öðrum manni og stjórnmálin og alls konar samfélagsstörf áttu hug minn allan. Ef einhver hefði nefnt það við mig á þeim tíma að taka saman við Lars á nýjan leik hefði ég talið það óhugsandi.

Ég leitaði til sóknarprestsins í von um að fá skotföng gegn vottunum en hann viðurkenndi strax að hann vissi ekkert um þá og ætti engin rit um þá. Hann vissi það eitt að það væri mér fyrir bestu að halda mig í hæfilegri fjarlægð frá þeim. Ekki varð ég jákvæðari í garð vottanna við það. En þá neyddist ég allt í einu til að standa augliti til auglitis við þá.

Þannig var að bróðir minn, sem er búsettur í Svíþjóð, var orðinn vottur og mér var boðið í brúðkaup hans í ríkissalnum! Það varð til þess að gerbreyta afstöðu minni til vottanna. Mér til undrunar voru þetta ekki leiðindaskarfarnir sem ég hafði alltaf ímyndað mér. Þeir voru glaðir og ánægðir og höfðu jafnvel ágætt skopskyn.

Ég sá líka að Lars var gerbreyttur maður. Hann var ábyrgari en áður, notaði meiri tíma með drengjunum, var vingjarnlegur og hafði taumhald á tungunni, og hann drakk ekki óhóflega eins og hann hafði gert. Hann var mjög aðlaðandi persónuleiki. Nú var hann orðinn maðurinn sem ég hafði alltaf viljað að hann væri. Mér fannst það óskaplega svekkjandi að hugsa til þess að við vorum ekki gift lengur og að kannski myndi önnur kona giftast honum einn góðan veðurdag!

Ég lagði því á ráðin um lúmska „árás.“ Dag einn, þegar Jonas var hjá pabba sínum, fékk ég tvær af systrum mínum til að fara með mér til þeirra undir því yfirskini að leyfa þeim að hitta frænda sinn. Við hittumst í skemmtigarði. Við Lars fundum okkur bekk og settumst meðan frænkurnar sáu um drenginn.

Mér til undrunar tók Lars bók upp úr vasanum um leið og ég minntist á framtíð okkar. Hún hét Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt. * Hann rétti mér bókina og stakk upp á að ég læsi kaflana um hlutverk eiginmanns og eiginkonu í fjölskyldunni. Hann hvatti mig sérstaklega til að fletta upp á ritningarstöðunum.

Þegar við stóðum upp af bekknum reyndi ég að smokra hendinni undir handlegginn á honum en hann hafnaði því vingjarnlega. Hann ætlaði sér ekki að stofna til sambands á ný fyrr en hann vissi hvaða afstöðu ég hefði til hinnar nýju trúar sem hann hafði tekið. Ég fyrtist ögn við en áttaði mig svo á því að afstaða hans var mjög skynsamleg og að það væri mér fyrir bestu ef hann yrði maðurinn minn aftur einhvern tíma.

Ég var orðin verulega forvitin um votta Jehóva. Daginn eftir hafði ég samband við konu sem ég vissi að var vottur og það varð úr að þau hjónin skyldu upplýsa mig um allt sem ég vildi fá að vita um trú þeirra. Þau höfðu biblíuleg svör á reiðum höndum við öllum spurningum mínum. Ég komst að raun um að kenningar vottanna voru að öllu leyti byggðar á Biblíunni. Ég varð að láta í minni pokann fyrir sannleikanum skref fyrir skref.

Ég sagði mig úr hinni evangelísku lúthersku kirkju og dró mig út úr stjórnmálum. Ég hætti jafnvel að reykja. Það þótti mér erfiðast. Ég hóf biblíunámið í ágúst 1990 og lét skírast sem vottur Jehóva í apríl árið eftir.

Síðara brúðkaupið

Judith: Nú vorum við bæði skírðir vottar. Við höfðum bæði kynnt okkur Biblíuna þótt við hefðum farið hvort í sína áttina. En við vorum breyttar manneskjur sökum kenninga hennar. Okkur þótti mjög vænt hvoru um annað, jafnvel enn meir en áður. Og við gátum gifst aftur — og gerðum það. Við hétum hvort öðru trúnaði í annað sinn en núna var það í ríkissal votta Jehóva.

Lars: Hið ótrúlega hafði gerst — fjölskyldan var sameinuð á ný! Þetta var mikill hamingju- og gleðidagur.

Judith: Synir okkar, fjöldi ættingja og margir nýir og gamlir vinir voru viðstaddir brúðkaupið. Þetta var ólýsanleg reynsla. Meðal gesta var fólk sem hafði þekkt okkur meðan við vorum gift fyrra sinnið, og það gladdist yfir því að sjá okkur saman á nýjan leik og undraðist gleðina meðal vottanna.

Drengirnir

Lars: Síðan við létum skírast höfum við orðið þeirra gleði aðnjótandi að sjá tvo af drengjunum vígja Jehóva líf sitt.

Judith: Jonas hefur alltaf kunnað að meta sannleikann síðan hann kynntist honum sem drengur þegar hann var að heimsækja pabba sinn. Hann var ekki nema tíu ára þegar hann sagðist vilja flytja til pabba síns af því að „pabbi fer eftir Biblíunni,“ eins og hann sagði. Jonas lét skírast 14 ára. Hann er búinn með skólann og er boðberi í fullu starfi núna.

Lars: Martin, elsti sonurinn, er orðinn 27 ára. Breytingarnar, sem hann sá okkur gera, gáfu honum ærið umhugsunarefni. Hann fluttist að heiman og settist að í öðrum landshluta. Fyrir tveim árum fór hann að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva þar sem hann býr. Hann var tilbúinn að láta skírast eftir aðeins fimm mánuði og hefur gert skynsamleg áform um framtíð sína sem kristinn maður.

Thomas, næstelsti sonurinn, er ekki vottur. Hann er okkur mjög kær líka og það fer vel á með okkur. Hann er ánægður með þær breytingar sem hafa átt sér stað í fjölskyldunni. Og við erum öll sammála um að þær lífsreglur, sem við kynntumst í Biblíunni, hafi sameinað fjölskylduna á ný. Okkur finnst það mikil blessun að geta hist oft sem ein fjölskylda undir sama þaki, við hjónin og drengirnir þrír.

Líf okkar núna

Lars: Við höldum því ekki fram að við séum orðin fullkomin en okkur hefur lærst að ást og gagnkvæm virðing séu undirstaða farsæls hjónabands. Hjónaband okkar stendur á allt öðrum grunni núna en áður. Núna viðurkennum við bæði að við eigum okkur æðri yfirboðara því að okkur er ljóst að við lifum fyrir Jehóva. Við Judith finnum að við erum virkilega sameinuð og horfum björtum augum til framtíðarinnar.

Judith: Ætli við séum ekki lifandi sönnun þess að Jehóva sé besti fjölskyldu- og hjónaráðgjafi sem til er?

[Neðanmáls]

^ Gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Lars og Judith við fyrra brúðkaupið árið 1973.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Þrír drengir horfðu upp á foreldra sína skilja og taka saman aftur.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Meginreglur Biblíunnar sameinuðu þau Lars og Judith á nýjan leik.