Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að skapa fullkomið mannfélag

Að skapa fullkomið mannfélag

Að skapa fullkomið mannfélag

ÞAÐ væri stórkostleg framför ef hægt væri að bæta heiminn með því að losa mannfólkið við sjúkdóma, fötlun og kvalir. Alþjóðlegt samfélag án átaka og glæpa væri mikil breyting til batnaðar. Og hugsa sér ef mannkynið gæti losnað við dauðann!

Margt þyrfti auðvitað að breytast hjá mannkyninu til að þetta gæti orðið. En það er engin nýlunda að menn komi fram með hugmyndir um það hvernig hægt sé að bæta mannkynið. Gríski heimspekingurinn Platón skrifaði fyrir 2300 árum: „Bestu karlarnir og bestu konurnar [eiga] að hafa samfarir sem tíðast og lökustu karlarnir og lökustu konurnar sem sjaldnast.“ * En það var ekki fyrr en síðar sem tilraunir með mannakynbætur hófust fyrir alvöru.

Breski vísindamaðurinn Sir Francis Galton, frændi Charles Darwins, sló fram þeirri hugmynd árið 1883 að það mætti kynbæta mannkynið, ekki ósvipað og hægt er með valrækt að ná fram vissum eiginleikum hjá jurtum og dýrum. Og hann bjó til orðið eugenics til að lýsa þessari hugmynd sinni. Orðið er smíðað upp úr grísku orði sem merkir „tiginn að fæðingu“ eða „göfugur að erfð.“ Galton hélt því fram að hægt væri að „endurbæta mannkynið“ fyrir brot af því fé sem varið væri í kynbætur á hestum og nautgripum, og árangurinn yrði „glæsihópur snillinga.“

Galton var undir áhrifum af skrifum Darwins og hélt því fram að það væri kominn tími til að mannkynið færi að stjórna sinni eigin þróun. Hugmyndir hans náðu miklum vinsældum meðal stjórnmálamanna, vísindamanna og háskólamanna í Evrópu og Bandaríkjunum á fyrstu áratugum 20. aldar. Leiðtogi voldugrar þjóðar endurómaði vinsælar hugmyndir samtíðarinnar er hann skrifaði: „Þjóðfélagið á ekki að leyfa afstyrmum að auka kyn sitt. . . . Ef einhverjir bændur létu verstu skepnurnar tímgast en leyfðu ekki besta bústofninum að auka kyn sitt yrði litið svo á að þeir ættu heima á hæli. . . . Við eigum eftir að átta okkur á því einn góðan veðurdag að það er höfuðskylda góðs borgara af réttri manngerð að geta af sér afkvæmi í heiminum og við eigum ekkert með það að viðhalda borgurum af óheppilegri manngerð.“ Það var Theodore Roosevelt, 26. forseti Bandaríkjanna, sem skrifaði þetta.

Erfðalögmálið var útlistað á kaupstefnum og sýningum í Bretlandi og Bandaríkjunum, oft á lóðréttri fjöl með röð af uppstoppuðum naggrísum. Þeim var raðað upp til að sýna hvernig litur á feldi erfðist frá einni kynslóð til annarrar. Markmið þessarar uppstillingar kom svo fram í textanum sem fylgdi. Einn var svohljóðandi: „Óæskilegir eiginleikar manna, svo sem vangefni, flogaveiki, glæpamennska, geðveiki, drykkjusýki, fátækt og margt annað, eru ættgengir og erfast nákvæmlega eins og litur hjá naggrísum.“ Á öðru veggspjaldi var spurt: „Hversu lengi ætlum við Bandaríkjamenn að hugsa vandlega um ætterni nautgripa, svína og kjúklinga en láta tilviljun ráða ætterni barna okkar?“ 

Mannakynbætur í framkvæmd

Þessar hugmyndir voru meira en fræðin tóm því að gerðar voru ófrjósemisaðgerðir í tugþúsundatali á „óæskilegu fólki“ bæði í Norður-Ameríku og Evrópu. Skilgreiningin á því hver eða hvað væri óæskilegt stjórnaðist auðvitað fyrst og fremst af viðhorfum þeirra sem tóku ákvarðanir um ófrjósemisaðgerðir á vissu fólki. Í Missouriríki í Bandaríkjunum var til dæmis lagt fram frumvarp um ófrjósemisaðgerðir á þeim sem „sakfelldir væru fyrir morð, nauðgun, rán, hænsnaþjófnað, sprengjutilræði eða bifreiðaþjófnað.“ Nasistar í Þýskalandi gengu mun lengra. Þeir vildu rækta upp hreina herraþjóð og gerðu ófrjósemisaðgerðir með valdi á allt að 225.000 manns. Síðan var milljónum annarra útrýmt, þeirra á meðal gyðingum, Sígaunum, bækluðum og öðru „óæskilegu fólki,“ undir yfirskini mannakynbóta.

Villimennska nasistatímans olli því að mannakynbætur fengu á sig uggvænlegan merkingarblæ og margir vonuðust til að þetta rannsóknarefni hefði verið lagt til hliðar — grafið með þeim milljónum sem dóu í nafni þess. En á áttunda áratugnum fóru að berast fréttir af framförum á sviði nýrrar vísindagreinar, sameindalíffræði. Sumir óttuðust að þessar framfarir kynnu að hleypa nýju lífi í hugmyndir sem höfðu afvegaleitt Evrópumenn og Norður-Ameríkumenn fyrr á öldinni. Árið 1977 var haldinn umræðufundur um samskeytt DNA á vegum Bandarísku vísindaakademíunnar. Þá sagði þekktur líffræðingur í viðvörunartón við starfsbræður sína: „Þessar rannsóknir færa okkur einu skrefi nær erfðatækni á fólki þar sem reiknað er út hvernig eigi að láta okkur eignast börn með æskilegum eiginleikum. . . . Síðast þegar það var reynt voru æskilegu börnin ljóshærð og bláeyg með arísk gen.“

Mörgum þætti það fáránlegt núna að líkja framförum erfðatækninnar við mannakynbótaáætlun Hitlers. Fyrir 60 árum voru uppi háværar kröfur um að ná fram hreinum kynstofni. Núna er fólk hins vegar að tala um að bæta heilsuna og lífsgæðin. Gömlu mannakynbæturnar voru sprottnar af stjórnmálahugmyndum og kynt undir þær með ofstæki og hatri. Nýju framfarirnar í erfðarannsóknum eru sprottnar af viðskiptahagsmunum og óskum neytenda um aukið heilbrigði. En þó svo að munurinn sé verulegur getur hugmyndin um að skapa fólk eftir erfðafræðilegum fordómum okkar virst ósköp keimlík gömlu mannakynbótunum.

Að beita vísindunum til að breyta þjóðfélaginu

Meðan þú lest þessi orð eru aflmiklar tölvur kerfisbundið að kortleggja genamengi mannsins, það er að segja öll þau fyrirmæli sem geymd eru í genum okkar og stýra því hvernig við vöxum og ákvarða að miklu leyti hvað við erum. Tölvurnar skrásetja vandlega þær tugþúsundir gena sem er að finna í kjarnsýru mannsins, DNA. (Sjá rammagreinina „Genagrúskarar.“) Vísindamenn spá því að þegar búið verði að taka saman og skrásetja allar upplýsingarnar verði þær notaðar um langa framtíð sem helsti lykillinn að læknisfræði og skilningi á líffræði manna. Og þeir vonast til þess að þegar búið verður að ráða dulmál genamengisins opnist leið til að gera við eða skipta um gölluð gen.

Læknar vonast til þess að erfðafræðirannsóknirnar skili sér með nýrri kynslóð öruggra en öflugra lyfja, bæði til að berjast gegn sjúkdómum og fyrirbyggja þá. Hugsanlegt er að slík tækni geti gert lækninum þínum kleift að skoða genamynd þína til að ákveða fyrir fram hvaða lyf henti þér best.

Auk framfara í læknisfræði sjá sumir fyrir sér að erfðatæknin eigi eftir að leysa ýmis þjóðfélagsvandamál. Allt frá síðari heimsstyrjöldinni og þangað til snemma á tíunda áratugnum héldu háskólamenn því fram að draga mætti úr þjóðfélagsvandamálum með umbótum á þjóðfélagsstofnunum og efnahagslífi og með því að breyta umhverfi fólks til hins betra. En þjóðfélagsvandamálin hafa versnað á síðustu árum. Margir eru komnir á þá skoðun að lausnarinnar á þessum vandamálum sé að leita í genunum. Og sumir telja að genin hafi meiri áhrif en umhverfið á atferli einstaklinga og hópa.

Hvað um dauðann? Að sögn vísindamanna er jafnvel hægt að leysa það vandamál með því að eiga við erfðaefni okkar. Þeim hefur nú þegar tekist að tvöfalda æviskeið ávaxtaflugna og orma með tækni sem þeir fullyrða að hægt verði að beita á menn einhvern tíma. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins Human Genome Sciences Inc. segir: „Þetta er í fyrsta sinn sem við getum ímyndað okkur ódauðleika mannsins.“

Sérhönnuð börn?

Þegar við heyrum og lesum glæsifréttir af því sem verið er að gera og því sem menn ímynda sér að hægt verði að gera á komandi árum er auðvelt að sjást yfir núverandi takmörk og hugsanlega annmarka hinnar nýju tækni. Snúum okkur aftur að börnunum til að sýna fram á það með dæmi. Erfðaskimun er þekkt fyrirbæri og talsvert stunduð. Algengasta aðferðin, sem nú er beitt, var fundin upp á sjöunda áratugnum. Nál er stungið inn í leg barnshafandi konu og tekið legvatnssýni. Með rannsóknum á legvatninu má svo leita að nokkrum tugum erfðagalla hjá fóstrinu, þar á meðal Downs-heilkenni og hryggrauf. Þetta er yfirleitt gert eftir 16. viku meðgöngu. Með nýlegri aðferð er hægt að rannsaka erfðaeiginleika fósturs á milli sjöttu og tíundu viku meðgöngu.

Með þessum aðferðum geta læknar komið auga á margs konar kvilla en aðeins lagfært um 15 prósent þeirra. Þegar prófanir leiða í ljós erfðagalla eða niðurstöður eru óvissar standa foreldrar oft frammi fyrir óhemjuerfiðri ákvörðun. Ætla þau að láta eyða fóstrinu eða eignast barnið? Tímaritið The UNESCO Courier segir: „Þrátt fyrir að DNA-prófum hafi fjölgað — og hvert um sig er verndað einkaleyfi og skilar hagnaði — hefur erfðatæknin ekki enn sem komið er staðið við hin mikið rómuðu fyrirheit um genameðferð. Læknar leita uppi erfðagalla sem þeir geta ekki meðhöndlað, svo að fóstureyðing er oft sett fram sem meðferð.“

En læknar búast við því að líftækninni vaxi svo fiskur um hrygg að bráðlega geti þeir fundið og lagfært mun fleiri erfðagalla sem annaðhvort valda ýmsum sjúkdómum eða gera menn næma fyrir þeim. Og vísindamenn vonast til þess að þegar fram í sækir geti þeir flutt tilbúna litninga inn í mannsfóstur til að verja það fyrir sjúkdómum á borð við Parkinsons-veiki, alnæmi, sykursýki og brjósta- og blöðruhálskrabbamein. Ef það væri gert myndi barnið fæðast með styrkt ónæmiskerfi. Og þá má ímynda sér ný lyf sem „bæta“ hið vaxandi fóstur, hugsanlega með því að hagræða genum til að auka gáfnafar eða minnisgáfu.

Þó svo að bjartsýnustu vísindamenn viti að þess verður langt að bíða að foreldrar geti valið sér barn að vild eftir vörulista finnst mörgum það óskaplega spennandi tilhugsun að geta eignast draumabarnið. Sumir halda því fram að það væri ábyrgðarleysi að nota ekki tæknina til að uppræta erfðakvilla. Þeir benda á að það sé ekkert rangt við það að senda barnið í bestu skóla og til bestu lækna, svo að það sé þá varla neitt athugavert við það að eignast barn af bestu gerð.

Áhyggjur af framtíðinni

En ýmsir eru áhyggjufullir. Til dæmis segir í bókinni The Biotech Century: „Af hverju að láta staðar numið við það að fyrirbyggja sykursýki, sigðkornablóðleysi og krabbamein með því að breyta arfgerð manna? Af hverju ekki að stíga skrefi lengra og lækna ýmsa minni háttar ‚kvilla‘ eins og nærsýni, litblindu, lesblindu, offitu og örvhendi? Hvað getur hindrað að eitthvert þjóðfélag ákveði að viss hörundslitur teljist kvilli?“

Tryggingafélög eiga eftir að sækja ákaft í erfðafræðilegar upplýsingar. Hvað nú ef erfðaprófun á fóstri leiðir í ljós að hætta er á einhverjum kvilla? Eiga tryggingafélög eftir að þrýsta á móðurina um að eyða fóstri? Geta þau neitað að tryggja hana ef hún vill það ekki?

Lyfja-, efna- og líftæknifyrirtæki keppast um að fá einkaleyfi á genum og lífverum og leiðum til að breyta þeim. Aflvakinn er auðvitað vonin um að hagnast á tækni framtíðarinnar. Margir lífsiðfræðingar óttast að þetta geti leitt til eins konar „neytendakynbóta“ á þann hátt að hægt verði að þröngva foreldrum til að velja sér „erfðafræðilega viðurkennd“ börn. Það er auðvelt að ímynda sér hugsanleg áhrif auglýsinga í slíkri þróun.

Það er auðvitað ólíklegt að hin nýja tækni standi öllum til boða í fátækari ríkjum heims. Víða er skortur á brýnustu heilsugæslu. Jafnvel í þróuðustu ríkjum heims má búast við að einungis efnafólk eigi kost á genameðferð.

Fullkomið mannfélag

Í öllu lesefninu um framvindu líftækninnar rekumst við oft á orðalagið „að leika Guð.“ Þar sem Guð er skapari og hönnuður lífsins er viðeigandi að taka til skoðunar það sem hann hefur í hyggju í sambandi við leitina að fullkomleikanum. Biblían segir frá því í 1. Mósebók að Guð hafi ‚litið allt sem hann hafði gert og séð að það var harla gott.‘ (1. Mósebók 1:31) Fyrstu mannhjónin voru erfðafræðilega fullkomin en kölluðu ófullkomleika og dauða yfir sig og afkomendur sína með því að gera uppreisn gegn Guði. — 1. Mósebók 3:6, 16-19; Rómverjabréfið 5:12.

Jehóva Guð ætlar sér að binda enda á sjúkdóma, þjáningar og dauða og gerði ráðstafanir endur fyrir löngu til að losa mannkynið við slíkt böl. Opinberunarbók Biblíunnar segir frá þeim tíma þegar hann skerst í leikinn. Við lesum: „Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Þessi stórkostlega breyting verður ekki rakin til byltingarkenndra vísindauppgötvana manna. Margir þeirra viðurkenna ekki einu sinni að Guð sé til og lofa hann þaðan af síður. Ritningargreinin heldur áfram og segir: „Sá, sem í hásætinu sat [Jehóva Guð], sagði: ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.‘“— Opinberunarbókin 21:4, 5.

[Neðanmáls]

^ Ríkið, í íslenskri þýðingu Eyjólfs Kjalars Emilssonar. Hið íslenska bókmenntafélag 1991.

[Innskot á blaðsíðu 5]

Eftir að hafa með valdi gert allt að 225.000 manns ófrjóa útrýmdu þýskir nasistar milljónum annarra „óæskilegra manna“ undir yfirskini mannakynbóta.

[Innskot á blaðsíðu 6]

Læknar vonast til þess að erfðafræðirannsóknir skili sér með nýrri kynslóð öruggra en öflugra lyfja, bæði til að berjast gegn sjúkdómum og fyrirbyggja þá.

[Innskot á blaðsíðu 11]

Frá því að sauðkindin Dolly varð til hafa vísindamenn einræktað tugi dýra af frumum úr fullorðnum skepnum. Er hægt að beita sömu tækni til að einrækta fullorðið fólk?

[Rammagrein á blaðsíðu 7]

Er hægt að einrækta menn?

Ærin Dolly komst í heimsfréttirnar árið 1997. Hún varð fræg fyrir það að vera fyrsta spendýrið sem mönnum tókst að einrækta eða klóna úr frumu fullorðinnar skepnu sem í þessu tilfelli var tekin úr júgurkirtli. Dolly var þar með yngri „tvíburi“ ærinnar sem fruman var tekin úr. Vísindamenn höfðu um áratuga skeið einræktað dýr úr fósturfrumum en fáir töldu gerlegt að „endurforrita“ frumu úr fullorðnu spendýri svo að úr henni yrði önnur skepna nákvæmlega sömu arfgerðar. Með því að einrækta skepnu af frumu úr fullorðnu dýri er hægt að sjá fyrir fram hvernig afkvæmið verður.

Markmið vísindamannanna, sem einræktuðu Dolly, var að kynbæta búfé til að auðvelda framleiðslu lyfja sem unnin eru úr mjólk. Fréttin af árangri þeirra birtist fyrst í vísindatímaritinu Nature í febrúar 1997 undir fyrirsögninni „Lífvænleg afkvæmi ræktuð af fóstur- og júgurfrumum úr fullorðnum skepnum.“ Fjölmiðlarnir tóku fljótt við sér og sýndu mikinn áhuga á greinargerð tímaritsins. Hálfum mánuði síðar birtist ljósmynd af Dolly á forsíðu tímaritsins Time ásamt fyrirsögninni: „Verður einhvern tíma búið til annað eintak af þér?“ Í sömu viku birtist forsíðugrein í tímaritinu Newsweek undir yfirskriftinni „Getum við einræktað menn?“

Frá því að Dolly varð til hafa vísindamenn einræktað tugi dýra af frumum úr fullorðnum skepnum. Er hægt að beita sömu tækni til að einrækta fólk? Sumir líffræðingar halda því fram að það sé hægt en það hefur ekki verið gert enn þá. Ian Wilmut, breski vísindamaðurinn er stýrði hópnum sem einræktaði Dolly, bendir á að einræktun sé „mjög óskilvirk aðferð“ enn sem komið er, og að dánartíðni fósturs sé um tífalt hærri en gerist við eðlilega tímgun.

Sumum er spurn hvernig fari ef einhverjum tækist að fullkomna tæknina og myndi einrækta nokkur eintök af manni á borð við Hitler. Wilmut gerir lítið úr slíkri hættu og bendir á að þó svo að einræktað barn yrði erfðafræðilegur tvíburi mannsins sem hann væri ræktaður af, þá myndi einræktaður maður mótast af umhverfi sínu og þróa með sér sérstakan persónuleika alveg eins og venjulegir tvíburar gera.

[Rammagrein á blaðsíðu 8]

Genagrúskarar

Mannslíkaminn er gerður úr um það bil 100 billjónum frumna. Flestar eru með kjarna. Í hverjum kjarna eru 46 smápakkar sem kallast litningar. Hver litningur inniheldur eina þéttsnúna, þráðlaga sameind sem kallast DNA (deoxýríbósakjarnsýra). Talið er að allt að 100.000 gen raðist eftir kjarnsýrusameindinni eins og borgir og bæir meðfram þjóðvegi. Genin ákvarða nálega öll líkamleg einkenni okkar — þroska í móðurkviði, kyn, útlitseinkenni og vöxt til fullorðinsaldurs. Vísindamenn telja að í kjarnsýrunni sé jafnframt fólgin „klukka“ sem ákvarðar hve lengi við lifum.

Kjarnsýra manna og dýra er ótrúlega lík. Til dæmis munar aðeins um einu prósenti á erfðafræðilegri gerð simpansa og manna. En þetta er samt tífalt meiri munur en á erfðaefni tveggja manna og það er þessi örlitli munur sem á stóran þátt í því að gera okkur að ólíkum einstaklingum.

Fyrir tæplega tíu árum réðust vísindamenn í hið mikla og flókna verkefni að kortleggja nákvæmlega röðina á hinum efnafræðilegu einingum sem mynda kjarnsýru mannsins. Þetta verkefni, kallað Human Genome Project, er í senn metnaðarfullt og risavaxið í sniðum, og það á eftir að kosta milljarða Bandaríkjadollara. Talið er að gögnin, sem safnað verður, myndu fylla 200 bindi á stærð við 1000 blaðsíðna símaskrá. Það tæki mann 26 ár að lesa öll bindin ef hann sæti við allan sólarhringinn!

Það vill gleymast í umfjöllun fjölmiðla að þegar búið er að safna upplýsingunum á eftir að túlka þær. Ljóst er að það þarf ný tæki til að brjóta gögnin til mergjar og skilja þau. Það er eitt að bera kennsl á genin en allt annar hlutur að vita hvað þau gera og hvernig þau verka hvert á annað og búa til manneskju. Frægur líffræðingur kallaði þetta kortlagningarverkefni genamengisins „heilagt gral erfðafræðinnar.“ En það má segja að erfðafræðingurinn Eric Lander hafi komið með öllu jarðbundnari lýsingu á verkefninu er hann kallaði það „partalista.“ „Segjum að þér væri afhentur partalisti Boeing 777 þotu og hún væri samsett úr 100.000 pörtum. Ég efast um að þú gætir skrúfað hana saman og þú myndir örugglega ekki skilja hvernig hún gæti flogið,“ segir hann.

[Skýringarmynd/myndir]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðínu)

FRUMA

KJARNI

LITNINGAR

KJARNSÝRA (DNA)

BASAPAR