Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að varðveita trú undir alræðisstjórn

Að varðveita trú undir alræðisstjórn

Að varðveita trú undir alræðisstjórn

Frásaga Míkaels Dasevítsj

„Í Þýskalandi skjótum við votta Jehóva. Sérðu byssuna þarna?“ spurði Gestapó-foringinn og benti á riffil sem stóð í horninu. „Ég gæti rekið þig í gegn með byssustingnum án þess að fá nokkurt samviskubit.“

Ég var aðeins 15 ára þegar þetta gerðist árið 1942 en nasistar höfðu þá hernumið heimaland mitt.

ÉG FÆDDIST í nóvember árið 1926 í litlu þorpi nálægt Staníslav (nú kallað Ívano-Frankívsk) sem þá var í Póllandi. Svæðið var hernumið í síðari heimsstyrjöldinni, frá því í september 1939 til maí 1945, fyrst af Sovétmönnum, síðan af Þjóðverjum um tíma og loks af Sovétmönnum á nýjan leik. Eftir stríðið var það innlimað í Sovétlýðveldið Úkraínu, og þegar Sovétríkin liðu undir lok árið 1991 varð það hluti af Úkraínu.

Faðir minn var Pólverji en móðir mín Hvítrússi og bæði tilheyrðu grísku rétttrúnaðarkirkjunni. En árið 1939 komu til okkar tvær konur frá 30 manna söfnuði votta Jehóva í grannþorpinu Horyhlíadíj og skildu eftir hjá okkur bækling sem hét Allsherjarstríð er í nánd. Bæklingurinn lýsti atburðum sem ég sá að voru að gerast. Þegar spurt var í bæklingnum: „Hver er hin raunverulega ástæða fyrir því að þjóðirnar hraða sér út í stríð?“ þá tók ég vel eftir svarinu sem gefið var með vísun í Biblíuna.

Stríð var ekki eina vandamálið sem við var að glíma í Úkraínu því að þar var líka alvarleg hungursneyð. Stefna Jósefs Stalíns forsætisráðherra leiddi til þess að margir voru sendir í útlegð til Rússlands. Þjáningarnar, sem ég varð vitni að, urðu til þess að ég fór að kynna mér Biblíuna vandlega, og ég bað vott í Horyhlíadíj að kenna mér.

Þorpið Odajív, þar sem við bjuggum, stendur gegnt Horyhlíadíj handan árinnar Dnéstr, og ég fór yfir ána nokkrum sinnum í viku á smábát til biblíunámsins. Við Anna, systir mín, létum skírast í ánni ásamt tveim öðrum í ágúst 1941.

Harkalegar yfirheyrslur Gestapó

Þjóðverjar hernumu svæðið árið 1941 en við hættum ekki kristinni starfsemi okkar þó að við ættum stöðugt á hættu að vera refsað fyrir. Ég gerðist brautryðjandi árið eftir og ferðaðist um á reiðhjóli. Það var skömmu síðar sem ég var leiddur fyrir þýska Gestapó-manninn sem ég nefndi í upphafi.

Það atvikaðist þannig að ég var á heimleið úr boðunarstarfinu dag einn og kom við hjá tveim mæðgum í söfnuðinum. Eiginmaður dótturinnar var andsnúinn trú okkar og var mikið í mun að þefa uppi hvaðan hún fengi biblíurit. Þennan dag var ég bæði með rit meðferðis og skýrslur um starf trúsystkina minna. Maðurinn sá mig yfirgefa húsið.

„Stoppaðu!“ öskraði hann. Ég greip töskuna og tók til fótanna.

„Stöðvið þjófinn!“ æpti hann. Verkamenn á akrinum héldu að ég hefði stolið einhverju og stöðvuðu mig. Maðurinn fór með mig á lögreglustöðina þar sem Gestapó-maðurinn var.

„Rutherford! Rutherford!“ öskraði hann á þýsku þegar hann sá ritin í töskunni minni. Ég þurfti ekki túlk til að gera mér í hugarlund hvað æsti hann svona. Nafnið Joseph F. Rutherford stóð á titilsíðu bókanna sem vottar Jehóva gáfu út en hann hafði verið forseti Varðturnsfélagsins. Eiginmaðurinn sakaði mig síðan um að vera ástmaður konunnar sinnar. Lögreglumennirnir og Gestapó-maðurinn sáu að þetta var fáránleg ásökun því að konan hans var það gömul að hún gat verið móðir mín. Síðan tóku þeir að yfirheyra mig.

Þeir vildu fá að vita hver ég væri og hvaðan ég kæmi, en sérstaklega lék þeim forvitni á að vita hvar ég hefði fengið bækurnar. En ég sagði þeim það ekki. Þeir börðu mig nokkrum sinnum og gerðu gys að mér en síðan var ég læstur inni í fangaklefa. Ég var yfirheyrður næstu þrjá daga. Síðan var farið með mig á skrifstofu Gestapó-mannsins þar sem hann hótaði að reka mig í gegn með byssustingnum. Um stund vissi ég ekki hvort hann ætlaði að gera alvöru úr hótuninni eða ekki. Ég laut höfði og þá tók við þögn sem mér fannst næstum endalaus. En allt í einu sagði hann: „Þú mátt fara.“

Það var mikil áskorun að prédika á þessum tíma eins og nærri má geta og hið sama má segja um samkomuhald. Við héldum minningarhátíðina um dauða Krists 19. apríl 1943 í tveim herbergjum í húsi í Horyhlíadíj. (Lúkas 22:19) Við vorum rétt í þann mund að hefja samkomuna þegar einhver kallaði að lögreglan væri á leiðinni að húsinu. Sum okkar földu sig í garðinum en Anna systir og þrjár aðrar konur fóru ofan í kjallara. Lögreglan fann þær þar og dró þær út eina af annarri til yfirheyrslu. Þær fengu harðneskjulega meðferð næstu klukkustundirnar og ein þeirra særðist alvarlega.

Heimsmyndin breytist

Þjóðverjar hörfuðu sumarið 1944 og Sovétmenn komu aftur inn á svæðið. Við þjónar Jehóva héldum okkur við sömu biblíulegu meginreglurnar og við höfðum gert meðan hernám nasista stóð yfir. Við neituðum að taka nokkurn þátt í hernaðar- og stjórnmálastarfsemi. Það leið ekki á löngu áður en reyndi á hollustu okkar við þessar meginreglur Biblíunnar. — Jesaja 2:4; Matteus 26:52; Jóhannes 17:14.

Fáeinum dögum eftir komu sína tóku Sovétmenn að kveðja alla unga menn í herinn. Það gerði illt verra að Sovétmenn voru ekki þeir einu sem voru á höttunum eftir ungum nýliðum því að úkraínskir skæruliðar kembdu svæðið í leit að ungum mönnum og fóru síðan með þá út í skóg til herþjálfunar. Við vottarnir vorum í þeirri erfiðu aðstöðu að þurfa að sanna hlutleysi okkar fyrir tveim andstæðum fylkingum — Sovétmönnum og skæruliðum.

Til átaka kom milli hópanna tveggja í þorpinu okkar og tveir skæruliðar féllu á götunni fyrir framan húsið okkar. Sovéskir embættismenn bönkuðu upp á hjá okkur til að kanna hvort við þekktum hina föllnu. Embættismennirnir ákváðu að taka mig með sér og skrá mig í herinn en verið var að safna mönnum í pólska hersveit. Það átti að skrá mig í pólsku herdeildina úr því að ég var af pólskum uppruna.

Við vorum fimm vottar þarna sem neituðum að láta skrá okkur í herinn. Við vorum þá fluttir með járnbrautarlest til borgarinnar Dnípropetrovsk um 700 kílómetrum austar. Þar gerðum við grein fyrir því að við gætum ekki þjónað í hernum vegna biblíulegrar sannfæringar okkar, og vorum þá settir í varðhald meðan verið var að undirbúa kæru á hendur okkur. Þegar við komum fyrir rétt kom í ljós að rannsóknardómarinn var gyðingur. Í málsvörn okkar gerðum við grein fyrir trú okkar og hann hlustaði með athygli. Við nefndum ýmislegt, sem við vissum að hann hefði áhuga á, svo sem kúgun Ísraelsmanna og frelsun þeirra frá Egyptalandi undir forystu Móse.

Það liðu nokkrir mánuðir þangað til rétturinn felldi dóm yfir okkur og á meðan vorum við settir í klefa með um það bil 25 öðrum föngum. „Þið eruð bræður okkar,“ hrópuðu þeir þegar þeir heyrðu að við hefðum neitað að gegna herþjónustu. En við komumst fljótlega að raun um að þetta voru ekki vottar heldur baptistar. Þeir höfðu verið fúsir til að ganga í herinn en voru handteknir þegar þeir neituðu að bera vopn.

Við vorum enn í haldi í Dnípropetrovsk í maí 1945 þegar við vöknuðum um miðja nótt við hróp og skothvelli frá skálunum og götunum fyrir utan. Við veltum fyrir okkur hvort þetta væri uppþot, bardagi eða einhver fögnuður. Við morgunverðarborðið fengum við þær fréttir frá rakarastofunni að stríðinu væri lokið. Skömmu síðar kvað rétturinn upp dóm yfir okkur — tíu ár í fangabúðum sem var sami dómur og baptistarnir fengu.

Fangabúðir í Rússlandi

Við vottarnir fimm vorum sendir í fangabúðir í Rússlandi. Eftir tveggja vikna ferð með járnbrautarlest stigum við loks af lestinni í Súkhobezvodnoje, um 400 kílómetrum austur af Moskvu. Súkhobezvodnoje var stjórnstöð 32 vinnubúða sem voru meðfram járnbrautinni. Í hverjum búðum voru þúsundir fanga. Ég var sendur í búðir nr. 18 eftir sex mánaða vist í Súkhobezvodnoje. Flestir fangarnir voru afbrotamenn eða pólitískir fangar.

Við vorum látnir fella tré sem var mikil erfiðisvinna. Stundum urðum við að ösla mittisdjúpan snjó, fella tré með handsög og draga síðan stofnana í snjónum. Einu sinni í viku, eftir morgunverð á sunnudögum, fékk ég tækifæri til að ræða biblíuleg mál við hina vottana fjóra í búðunum. Þetta voru samkomurnar okkar. Við héldum líka minningarhátíðina í baðhúsinu einu sinni á ári. Við notuðum brómberjasaft sem tákn um blóð Jesú því að við höfðum ekki vín.

Einangrunarkenndin var yfirþyrmandi. Ég úthellti hjarta mínu fyrir Jehóva og hann styrkti mig eins og hann styrkti Elía þegar sams konar tilfinningar sóttu á hann. (1. Konungabók 19:14, 18) Jehóva sýndi mér fram á að við værum ekki einir. Hann var eins og traustur og óhagganlegur máttarstólpi í lífi mínu, jafnvel við þessar erfiðu aðstæður.

Það voru nokkrir vottar í öllum hinum búðunum í grennd við Súkhobezvodnoje, og við gátum haft samband við þá af og til fyrir milligöngu votts sem heimsótti allar búðirnar starfs síns vegna. Hann var eins konar milligöngumaður og smyglaði ritum inn í búðirnar og út úr þeim. Þannig gátum við skipst á þeim fáeinu ritum sem við áttum, og það var sérstaklega uppörvandi fyrir okkur.

Aftur heim til Úkraínu

Í almennri sakaruppgjöf af hendi ríkisins var fangavist mín stytt úr tíu árum í fimm, svo að ég sneri heim til safnaðarins í Horyhlíadíj í apríl árið 1950. Starf okkar var enn bannað í Úkraínu og við tókum mikla áhættu með því að fara í boðunarstarfið. En umbunin var líka mikil.

Skömmu eftir heimkomuna talaði ég við mann sem hét Kozak. Hann bjó í þorpinu Zhabokrúkíj í um 20 kílómetra fjarlægð frá okkur. Ég spurði hann hvernig lífið væri hjá honum og fjölskyldu hans. Ég vissi að verkamenn á samyrkjubúunum áttu fullt í fangi með að láta enda ná saman svo að ég vissi að þetta var góð leið til að koma af stað samræðum. Ég sagði honum að Biblían boðaði hallæri og stríð á okkar tímum. (Matteus 24:3-14) Hann vildi fræðast meira um málið svo að ég heimsótti hann aftur. Viku eftir viku gekk ég hér um bil 40 kílómetra til og frá Zhabokrúkíj til að fræða Kozak-fjölskylduna um Biblíuna. Áhættan og allur tíminn, sem fór í þetta, var gleymdur þegar þau létu skírast í ágúst árið 1950.

Kozak-fólkið var ekki fyrr búið að skírast en það var flutt í útlegð ásamt þúsundum annarra votta. Vopnaðir hermenn smöluðu þeim skyndilega saman snemma í apríl 1951 og fluttu þau til Síberíu án dóms og laga. Kozak-fólkið var neytt til að setjast þar að ásamt mörgum vinum mínum. *

Af 15 vottafjölskyldum í Horyhlíadíj voru aðeins 4 sendar í útlegð en í öðrum söfnuðum var hlutfallið langtum hærra. Þessir nauðungarflutningar voru þannig skipulagðir að yfirvöld héldu skrár um það hverjir væru vottar og gátu þannig smalað saman miklum fjölda að vild sinni. Skrárnar virðast hafa verið teknar saman árið 1950 meðan ég var í fangelsi svo að nafnið mitt stóð hvergi í þeim. Í mánuðinum á undan, í mars 1951, giftist ég Feníu trúsystur minni. Fjölskylda hennar var öll send í útlegð en hún slapp af því að hún var gift mér og bar nú nafn mitt sem var ekki á skrá.

Erfiðar trúarprófraunir

Eftir nauðungarflutningana þurftum við sem eftir vorum að endurskipuleggja starfsemina. Ég var beðinn að sjá um söfnuðinn í grannhéraðinu Ívano-Frankívsk þar sem enn voru eftir um 15 söfnuðir með um 30 vottum hver. Ég starfaði sjálfstætt sem trésmiður svo að vinnutíminn var sveigjanlegur og ég gat hitt bræður frá hverjum söfnuði leynilega einu sinni í mánuði.

Oft hittumst við að nóttu í kirkjugarði þar sem við vorum öruggir um að við værum einir. Eitt helsta umræðuefnið var það að tryggja að allir söfnuðirnir hefðu einhver biblíutengd rit. Af og til fengum við nýjan Varðturn á pólsku eða rúmensku og þýddum á úkraínsku. En yfirvöldin voru sífellt á hælunum á okkur og reyndu að leita uppi og eyðileggja frumstæðar fjölritunarvélarnar.

Erfiðast var að vera einangruð frá kristnum bræðrum okkar annars staðar svo sem í Brooklyn í New York þar sem starfi safnaðarins var veitt forysta. Þetta hafði oft í för með sér ósamkomulag, slúður og leynimakk í söfnuðunum. Einstaka vottur yfirgaf skipulagið og stofnaði andstöðuhóp. Rangar og neikvæðar sögusagnir voru jafnvel í gangi um þá sem fóru með forystuna í Brooklyn.

Árekstrar í söfnuðunum voru erfiðari prófraun fyrir mörg okkar en ofsóknir andstæðinganna. Sumir ákváðu að hætta að tilbiðja Guð með okkur en við vissum að það væri okkur lífsnauðsyn að halda okkur fast við skipulagið og bíða þess að Jehóva leiðrétti það sem aflaga fór. Flestir vottar á svæðinu gerðu það sem betur fer. Og margir af þeim sem yfirgáfu skipulagið sáu að sér og sneru aftur til safnaðarins og þjónustunnar við Jehóva.

Við héldum boðunarstarfinu ótrauð áfram þrátt fyrir þessa erfiðu einangrun og hlutum ríkulega blessun fyrir. Í hvert sinn sem ég sæki safnaðarbóknámið minnir það mig á blessun Jehóva því að allir þeir rúmlega 20, sem í hópnum eru, kynntust sannleikanum með aðstoð einhvers úr fjölskyldu minni.

Foreldrar mínir og Anna systir eru dáin og þau voru Jehóva trúföst allt til dauða. Við Fenía gerum enn þá eins mikið og við getum í þjónustunni við Jehóva. Tíminn hefur flogið. Á síðastliðnum 30 árum hafa vottar Jehóva í Úkraínu orðið vitni að hrífandi atburðum sem ógerlegt er að greina frá í þessari stuttu frásögu. En þegar ég lít um öxl yfir margra ára þjónustu við Jehóva er ég þess fullviss að hann verði mér stuðningur og stólpi því að hann segir sjálfur: „Ég, [Jehóva], hefi ekki breytt mér.“ — Malakí 3:6.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinarnar „Over 40 Years Under Communist Ban“ í enskri útgáfu Varðturnsins 1. mars 1999 og „Útlegð í Síberíu“ í Vaknið! júlí-september 1999 bls. 20-5.

[Innskot á blaðsíðu 21]

Þeir vildu fá að vita hver ég væri og hvaðan ég kæmi, en sérstaklega lék þeim forvitni á að vita hvar ég hefði fengið bækurnar. En ég sagði þeim það ekki.

[Innskot á blaðsíðu 22]

Einangrunarkenndin var yfirþyrmandi. Ég úthellti hjarta mínu fyrir Jehóva og hann styrkti mig.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Við Fenía árið 1952.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Nýleg mynd af okkur hjónunum.