Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Börn morgundagsins?

Börn morgundagsins?

Börn morgundagsins?

Þetta er árið 2050. Melissa situr við tölvuskjá inni á frjóvgunarstofunni. Hún er hugsi enda er það alvörumál að velja sér barn. Það má ekki flana að neinu. Á skjánum er mynd af brosandi unglingsstúlku sem Melissa og Curtis, maðurinn hennar, hafa gefið nafnið Alice. Bæði myndin og textinn til hliðar við hana segja heilmikið um það hvers konar manneskja Alice verði, bæði á huga og líkama.

Alice er ófædd enn. Hún er ekki nema fósturvísir en er í öruggri kæligeymslu við –200 gráður á Celsíus í nálægu herbergi ásamt tugum annarra fósturvísa. Búið er að skanna erfðaeinkenni allra fósturvísanna og færa inn í tölvu til að auðvelda foreldrunum að velja sér fósturvísi sem koma á fyrir í legi Melissu.

Þau hjónin vilja eignast stúlku svo að fósturvísar drengja eru settir til hliðar. Þau skoða síðan þá sem eftir eru og kanna einkenni eins og heilsufarshorfur, útlit og skapgerð. Þau komast loks að niðurstöðu og níu mánuðum síðar fagna þau fæðingu dótturinnar sem þau hafa valið sér — raunverulegrar og lifandi Alice.

ÞETTA er stytt útgáfa af sögu eftir Lee Silver sem er prófessor í sameindalíffræði við Princetonháskóla í New Jersey í Bandaríkjunum. Þetta er eins konar spá um það sem hann telur mega vænta á komandi áratugum. Hann byggir hugmyndir sínar á núverandi rannsóknum og tækni. Nú þegar er hægt að skima fósturvísa úr mönnum eftir vissum erfðagöllum. Og meira en 20 ár eru liðin síðan fyrsta glasabarnið fæddist. Eggið var frjóvgað í petrískál og var fyrsta barnið sem var getið utan móðurkviðar.

Að dr. Silver skuli nefna barnið Alice (Lísu) minnir kannski á söguna um Lísu í Undralandi. Reyndar er framtíðin, sem margir búast við, hálfgert undraland. Sagt var í ritstjórnargrein í hinu virta tímariti Nature: „Sameindaerfðafræðinni hefur vaxið svo ásmegin að það er útlit fyrir að við getum breytt eðli okkar eigin tegundar.“

Í greininni á eftir lítum við á þróun líftækninnar á ýmsum sviðum og beinum sjónum okkar sérstaklega að þeim möguleika að hægt verði að „bæta“ mannkynið. Á starfið, sem nú fer fram á rannsóknastofum, eftir að hafa áhrif á líf þitt eða barna þinna? Margir búast við því.