Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gíraffar — hávaxnir, háfættir og tígulegir

Gíraffar — hávaxnir, háfættir og tígulegir

Gíraffar — hávaxnir, háfættir og tígulegir

Eftir Fréttaritara Vaknið! Í Keníu

GRÁIR graníthnullungarnir eru rakir og kaldir í morgunsárinu. Við höfum komið okkur fyrir milli steinanna með tekrús í hendi og einblínum á staktrjáasléttuna fyrir neðan. * Okkur er umbunuð þolinmæðin því að í daufri morgunskímunni sjáum við hjörð gíraffa — hávaxna, háfætta og tígulega — rölta eftir sléttunni. Þeir stika tignarlega eins og í hægmynd á stultufótum og langir sveiglaga hálsarnir sveiflast til og frá eins og seglskútumöstur í vindi. Við þorum varla að anda. Þetta er svo fögur sjón.

Gíraffarnir beygja allir sem einn inn í gróskumikinn akasíulund án þess að verða okkar varir. Þessir blíðu risar teygja sig upp í þyrnóttar greinarnar, slíta smágerð laufin nærgætnislega af með langri tungunni og reka höfuðið kæruleysislega upp innan um vefarahreiður í trjátoppunum. Fuglarnir taka það óstinnt upp og húðskamma boðflennurnar hálslöngu. Hjörðin styggist við lætin og færir sig hljóðlega en virðulega að næstu trjám.

Fótfráir og þokkafullir

Þeir sem hafa séð þessi dýr tróna yfir dýragarðsvegg eiga kannski erfitt með að átta sig á raunverulegri fegurð þeirra og þokka úti á sléttum Afríku þar sem þau geta hlaupið villt og frjáls. Gíraffar eru liðugir og þokkafullir í hreyfingum. Þegar þeir taka á sprett yfir slétturnar fær maður á tilfinninguna að þeir geti hrasað við minnstu hindrun og steypst um koll af því að þeir eru svo fínlegir, næstum brothættir að sjá. En stór gíraffatarfur getur vegið allt að 1300 kíló og náð 60 kílómetra hraða á klukkustund, enda fótviss og fimur hlaupari.

Þetta heillandi dýr finnst eingöngu í Afríku og er svo blítt og friðsamt að eðlisfari að það er unun að fylgjast með því. Andlitið er sérstakt og töfrandi. Eyrun eru löng og mjó og tvö lítil húðklædd horn með svörtum, floskenndum hárbrúskum eru á höfðinu. Augun eru mjög stór og dökk og varin löngum, liðuðum augnhárum. Gíraffinn virðist forvitinn á svip og sakleysið uppmálað þegar hann horfir út í buskann frá háum sjónarhóli sínum.

Hið geðfellda útlit gíraffans, rólyndi hans og friðsemd gerði að verkum að hann var eftirsóttur og í miklum metum til forna. Ungir gíraffar voru færðir höfðingjum og konungum að gjöf til tákns um frið og góðvild þjóða í milli. Enn þann dag í dag má sjá upplitaðar gíraffamyndir á gömlum afrískum klettamálverkum.

Gnæfir hátt

Gíraffinn er hæstur allra landdýra. Fullvaxinn tarfur getur náð meira en 5,5 metra hæð frá hornum til hófa. Í fornegypsku myndletri stóð gíraffinn fyrir sögnina „að spá“ eða „segja fyrir“ til tákns um hina miklu hæð sína og getu til að sjá langar leiðir.

Gíraffinn er eins og varðturn innan um hjarðir sebrahesta, strúta, impalahjarta og annarra sléttudýra Afríku. Hæð hans og afburðasjón gerir honum kleift að sjá aðvífandi hættu úr fjarska þannig að nærvera hans veitir öðrum dýrum eflaust vissa öryggiskennd.

Snilldarsmíð

Gíraffinn er sérlega vel gerður til að bíta lauf í efstu greinum hárra trjáa þar sem engin önnur dýr ná til nema fíllinn. Efri vörin hentar vel til grips og teygjanleg tungan gerir honum kleift að slíta blöðin varlega af greinum sem eru þaktar broddum og hvössum þyrnum.

Gíraffinn étur allt að 35 kíló af gróðri á dag. Hin þyrnóttu akasíutré eru í uppáhaldi hjá honum en hann nærist líka á margs konar öðru trjálaufi og gróðri. Gíraffatarfur getur teygt tunguna rösklega 40 sentímetra í ætisleit. Hálsinn er óvenjusveigjanlegur þannig að hann getur snúið og hallað höfðinu ótrúlega mikið þegar hann teygir sig varlega milli trjágreina.

Gíraffinn á auðvelt með að teygja sig hátt en á öllu erfiðara með að beygja sig niður til að drekka. Þegar hann kemur að vatnsbóli þarf hann að glenna framlappirnar rólega sundur, beygja bæði hnén og teygja síðan hálsinn langa til hins ítrasta til að geta drukkið í þessari klunnalegu stöðu. Hann þarf sem betur fer ekki að drekka oft því að hann fær yfirleitt nægan vökva úr safaríku laufi.

Háls og síður gíraffans eru skreyttar fallegu neti úr grönnum og ljósum línum sem mynda þéttofið blaðamunstur. Litirnir eru breytilegir, allt frá dumbgulum upp í kastaníubrúnt og jafnvel svart, og dökkna þegar gíraffinn eldist.

Fjölskyldulíf

Gíraffar eru félagsverur og haldast í hjörðum sem í eru allt frá 2 upp í 50 dýr. Meðgöngutíminn er 420 til 468 dagar og kálfurinn er næstum tveggja metra langur við fæðingu. Hann bókstaflega fellur um tvo metra til jarðar þegar hann kemur í heiminn, með höfuðið á undan! En eftir stundarfjórðung er hann kominn á lappirnar, óstyrkur, óskaddaður og tilbúinn að sjúga spena. Tveim til þrem vikum seinna fer hann ósjálfrátt að narta í unga akasíusprota og hefur brátt næga krafta til að halda í við skrefstóra móðurina.

Kálfurinn er smækkuð eftirmynd foreldranna. Þótt hann sé stuttur á gíraffavísu er hann hærri í loftinu en flestir menn. Hann er mesta augnayndi þar sem hann stendur forvitinn og óhræddur undir vökulum augum hávaxinnar móður sinnar.

Gíraffakálfum er safnað saman í hópa á daginn þar sem þeir hvílast, leika sér og fylgjast með umheiminum. Nýfæddur kálfur stækkar ótrúlega hratt. Á hálfu ári getur hann vaxið næstum metra og tvöfaldað hæð sína á einu ári. Á aðeins einni viku getur hann vaxið rösklega 20 sentímetra! Gíraffakýrin gætir afkvæmisins mjög vel og hefur það í sjónmáli þótt hún leyfi því að ráfa um í fjarlægð, enda sérlega sjónglögg.

Gíraffinn er stórvaxinn og sjónskarpur, fimur og fótfrár og á sér því fáa óvini í náttúrunni aðra en ljónið. Mannskepnan hefur hins vegar veitt og drepið þetta fallega dýr í miklum mæli. Gíraffinn hefur verið eltur uppi miskunnarlaust vegna hins fallega skinns, bragðgóða kjöts og löngu svörtu háranna sem sumir telja að búi yfir töframætti, og nú er framtíð þessarar friðsömu skepnu óviss. Gíraffinn var áður útbreiddur í Afríku en er nú aðeins óhultur innan þjóðgarða og á friðuðum verndarsvæðum.

Safarígestir geta enn kæst yfir að sjá hálslanga gíraffa skeiða frjálsa yfir víðáttumiklar grassléttur og fylgjast með þeim bíta lauf hátt upp í þyrnóttum akasíutrjám eða stara út í buskann eins og gíröffum einum er lagið. Þetta tignarlega dýr, með sína sérstöku en fallegu lögun og blíðu lund, er sannkölluð snilldarsmíð. Það er enn ein vísbending um einstæðan persónuleika og sköpunargáfu Jehóva, hins alvalda Guðs. — Sálmur 104:24.

[Neðanmáls]

^ Smáar grýttar hæðir eru algeng sjón á grassléttum Afríku og kallast kopjur.

[Rammagrein á blaðsíðu 18]

HÁLSLANGA KRAFTAVERKIÐ

Ætla mætti að sérkennileg lögun og stærð gíraffans skapaði vandamál, að hæðin og hálslengdin gerði jöfnun blóðstreymis um líkamann nær ómögulega. Þegar hann beygir höfuðið niður á jörð ætti þyngdaraflið að valda snöggu blóðflæði til heilans og drekkja honum. Og þegar hann lyftir höfði ætti blóðið að fossa aftur niður í hjartað og valda yfirliði. En það gerist ekki. Hvers vegna?

Æðakerfi gíraffans er sannkölluð snilldarsmíð, enda hugvitssamlega úr garði gert með sérstæða lögun hans og líkamsstærð í huga. Hjartað er einstaklega stórt og dælir kröftuglega til að koma blóði til heilans sem er allt að 3,5 metrum ofar. Hið vöðvastælta hjarta slær allt að 170 slögum á mínútu og 7 sentímetra þykkir veggirnir mynda næstum þrefalt meiri slagbilsþrýsting en í manni. Til að þola þennan þrýsting þurfa bæði hálsslagæðin, sem flytur blóðið til heilans, og hóstarbláæðin, sem flytur það aftur til hjartans, að vera stórar. Þær eru rösklega 2,5 sentímetrar í þvermál og styrktar með seigum teygjuvef sem gerir þær sveigjanlegar og sterkar.

Þegar gíraffinn beygir höfuðið til jarðar koma lokar í hóstarbláæðinni í veg fyrir að blóðið renni til baka til heilans. Hálsslagæðin stóra liggur um meistaralega hannað æðanet neðst í heilanum sem hefur verið kallað rete mirabile (undranetið). Þegar gíraffinn beygir sig er hægt á hinu mikla blóðstreymi til heilans með því að beina því um þetta örfína æðanet sem temprar blóðþrýstinginn og ver heilann fyrir snöggu og kröftugu blóðrennsli. Undranetið víkkar út þegar gíraffinn beygir höfuðið niður en skreppur saman þegar hann lyftir höfði og vinnur þannig gegn snöggu blóðþrýstingsfalli og hættu á yfirliði.

Gíraffahálsinn er líka snilldarsmíð. Það kom vísindamönnum á óvart að gíraffinn skuli vera með jafnmarga hálsliði og mús og flest önnur spendýr, þótt hálslangur sé. En hálsliðir gíraffans eru ílangir, ólíkt því sem er í flestum spendýrum, og með sérstaka kúluliðslögun sem býður upp á mikinn sveigjanleika. Gíraffinn getur því beygt og snúið hálsinum á alla vegu þegar hann snyrtir skrokkinn eða teygir sig varfærnislega eftir laufi í efstu trjágreinum.