Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig get ég látið dvöl mína erlendis heppnast?

Hvernig get ég látið dvöl mína erlendis heppnast?

Ungt Fólk Spyr . . . 

Hvernig get ég látið dvöl mína erlendis heppnast?

„Ég var ekki fyrr komin á flugvöllinn en mig langaði heim aftur! . . . Ég var búin að missa alla ævintýraþrá og könnunargleði. Í stuttu máli sagt þá hafði ég aldrei haft meiri heimþrá en einmitt þá.“ — Uta.

ÞAÐ er ógnvekjandi tilfinning að vera aleinn í ókunnu landi. En eins og fyrri grein í þessum greinaflokki benti á þá kýs margt ungt fólk að dvelja erlendis um tíma. Sumir gera það til að mennta sig eða fá einhverja sérþjálfun, sumir til að læra tungumál, sumir til að vinna sér inn peninga og sumir hafa flutt til annarra landa þar sem þörf er fyrir boðbera Guðsríkis.

Gerum ráð fyrir að þú dveljir erlendis af skynsamlegum ástæðum — sem taka mið af andlegum þörfum þínum og markmiðum * — hvað geturðu gert til að tryggja að dvöl þín heppnist?

Vertu staðráðinn í að aðlagast nýjum heimkynnum

Í fyrsta lagi verður þú að vilja aðlagast nýjum heimkynnum. Það þýðir ekki að þú snúir baki við kristnum frumreglum eða andlegum venjum. En það gæti þýtt að þú þyrftir að venjast nýjum mat, læra nýjar kurteisisvenjur eða reyna að gera ýmislegt með nýjum aðferðum. Þessir nýju siðir geta verið mjög frábrugðnir þeim sem þú hefur vanist heima hjá þér. Fyrirmæli Jesú um að ‚dæma ekki‘ eiga vel við í þessu sambandi. (Matteus 7:1) Það hefur enginn kynþáttur eða menning tilkall til að teljast öðrum fremri. (Postulasagan 17:26) Alveg eins og fullorðnir ættu að forðast samanburð á unga fólkinu í gamla daga og nú á dögum, þá ætti ungt fólk sem dvelur erlendis að forðast gagnrýninn samanburð á heimalandinu og nýja landinu sem það dvelur í. (Prédikarinn 7:10) Beindu huganum að því jákvæða sem nýja landið og menningin hefur upp á að bjóða. Og því fyrr sem þú lærir tungumál landsins því fyrr líður þér eins og þú sért heima hjá þér.

Páll postuli aðlagaðist mismunandi menningu í trúboðsstarfi sínu vegna þess að hann var fús að vera „öllum allt.“ (1. Korintubréf 9:22) Slíkt viðhorf hjálpar þér líka að aðlagast. Adrianne er „au-pair“ stúlka í Þýskalandi og vinnur húsverk fyrir fjölskyldu í skiptum fyrir fæði og húsnæði. Hún segir: „Ég verð að vera mjög sveigjanleg því að ég get ekki ætlast til þess að aðrir lagi sig að mér.“

‚Ég er með heimþrá!‘

Fyrstu vikurnar er ekki óalgengt að vera dapur og með heimþrá. Biblían segir að Jakob ‚hafi fýst mjög heim til föður síns‘ þótt hann hafi dvalið meira en 20 ár í öðru landi! (1. Mósebók 31:30) Vertu ekki hissa þótt þú fáir stundum grátköst. Auðvitað verður þú enn daprari ef þú hugsar stöðugt heim. (4. Mósebók 11:4, 5) Besta leiðin til að sigrast á heimþrá er að reyna að venjast daglegu lífi og nýju umhverfi. Enda þótt gott sé að hafa samband við fjölskyldu sína bréfleiðis og símleiðis, þá geta of mörg símtöl heim hindrað þig í að aðlagast nýjum heimkynnum.

Mörgum kristnum ungmennum finnst besta mótefnið við einmanaleika vera að koma andlegum venjum sínum í rétt horf. (Filippíbréfið 3:16) Amber minnist fyrstu viknanna erlendis þannig: „Kvöldin voru erfið þegar ég hafði ekkert að gera, svo að ég reyndi þá að nema aukalega eða lesa bók.“ Rachel, ung bresk „au-pair“ stúlka í Þýskalandi, segir af eigin reynslu: „Taktu þátt í safnaðarlífinu alveg frá byrjun. Farðu strax á samkomur.“ Fyrst í stað þarftu ef til vill á aðstoð að halda til að komast á samkomur. En innan kristna safnaðarins finnurðu góða vini sem geta verið þér eins og ‚bræður og systur og mæður.‘ — Markús 10:29, 30.

Boðunarstarfið er líka mikilvægur þáttur í góðum andlegum venjum þú hefur andlega gott af því og það hjálpar þér að laga þig að nýrri menningu og tungumáli.

Að lokum skaltu venja þig á að biðja og nema. Það er nauðsynlegt til að hafa góða andlega heilsu. (Rómverjabréfið 12:12; 1. Tímóteusarbréf 4:15) Adrianne fullvissaði sig þess vegna um að hún hefði biblíurit á móðurmálinu.

Að búa hjá ókunnri fjölskyldu

Sumir ungir vottar hafa gert ráðstafanir til að búa hjá trúaðri fjölskyldu á meðan þeir dveljast erlendis. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fjölskyldan taki að sér uppeldi þeirra en hún getur veitt þeim góðan félagsskap og andlega hvatningu. — Orðskviðirnir 27:17.

Samt eru góð tjáskipti við fjölskylduna sem dvalið er hjá nauðsynleg til að sambandið sé gott. (Orðskviðirnir 15:22; 20:5; 25:11) Amber bendir á: „Gerðu lista yfir það sem þú þarft að gera. Þú þarft að vita hvers fjölskyldan væntir af þér. Og hún ætti að vita hverjar þínar væntingar eru.“ Kynntu þér hvaða reglur gilda á heimilinu og hvaða húsverk er ætlast til að þú gerir. Slíkt ætti að ræða til hlítar.

Þér er vandi á höndum ef þú vinnur fyrir fjölskyldu sem er ekki í trúnni. Þar sem fjölskyldan skilur ekki afstöðu þína til biblíulegra frumreglna gæti stundum reynt á trúfesti þína. (Orðskviðirnir 13:20) Kröfur um að leysa heimilisstörf af hendi gætu stangast á við andlegar skyldur, eins og samkomusókn. Ef þú neyðist af óviðráðanlegum ástæðum til að dvelja hjá fjölskyldu sem er ekki í trúnni skaltu gera ýmsar fyrirbyggjandi ráðstafanir.

Rakel mælir með þessu: „Gakktu úr skugga um að fjölskyldan viti að þú sért vottur. Best er að þú segir þeim það hreinskilningslega strax í byrjun.“ Það getur verið þér til verndar að útskýra lífsreglur þínar, bæði trúar- og siðferðislegar. Þú ættir einnig að gera vinnuveitanda þínum ljóst hve mikils þú metur kristnar samkomur og boðunarstarfið. Að lokum er skynsamlegt að ganga skriflega frá mikilvægum málum eins og vinnutíma, frítíma og launum, áður en þú hefur störf. Þetta getur komið í veg fyrir vonbrigði seinna meir.

Að leysa vandamál

Þrátt fyrir góðan ásetning geta vandamál gert vart við sig. Hvað gerðirðu til dæmis ef fjölskyldan sem þú dvelur hjá ætlast til þess að þú yfirgefir heimili þeirra. Það getur verið mjög erfitt. Hafi einhvers konar misskilningur komið upp ættirðu að reyna að ræða málin rólega og af sanngirni. (Orðskviðirnir 15:1) Viðurkenndu fúslega öll mistök sem þér kunna að hafa orðið á. Ef til vill skipta húsráðendur þínir um skoðun. Ef ekki verður þú að leita þér að öðru húsnæði.

Önnur vandamál gætu leitt til þess að þú þyrftir að fá aðstoð annarra, til dæmis fjárhagsvandræði eða veikindi. Kannski hikarðu við að láta foreldra þína vita af ótta við að þeir komi og sæki þig. Auk þess eru þeir óralangt í burtu og vita kannski ekki hvernig best sé að fást við svona aðstæður í ókunnu landi. Safnaðaröldungarnir á staðnum hafa hins vegar reynslu í að takast á við svona vandamál og gætu gefið þér hagnýt ráð. Þeir gætu líka hjálpað þér að ákveða hvort þetta sé mál sem foreldrar þínir ættu að vita af.

Þegar heim er komið

Það getur verið lærdómsríkt að dvelja erlendis, þrátt fyrir erfiðleika og áskoranir af ýmsu tagi, sérstaklega ef tilefni ferðarinnar er andlegt. Að sjálfsögðu getur komið að því að þú þurfir að fara heim aftur. „Ég átti svo margar góðar minningar að ég gleymdi fljótlega þeim slæmu — það var mjög erfitt fyrir mig að fara heim.“ segir Andreas. Þótt svo sé skaltu ekki búast við því að vinir þínir og fjölskylda heima fari allt í einu að gera ýmislegt öðruvísi en áður bara af því að þú ert kominn heim með ný viðhorf sem þú hefur kynnst erlendis. Og hrelldu þau ekki með sífelldu tali um hvernig hlutirnir eru gerðir annars staðar. Vitanlega langar þig til að segja öllum ferðasöguna, en ekki vera vonsvikinn ef aðrir sýna ekki sama áhuga og þú.

Augljóslega er það alvarlegt mál að ákveða að búa erlendis um tíma. Ef þú kemst að þeirri niðurstöðu að þú hafir gildar ástæður til að flytja eftir að hafa rætt málið við foreldra þína, vertu þá viðbúinn að takast á við þá erfiðleika sem mæta þér. Eins og alltaf, þegar stórar ákvarðanir eru teknir í lífinu, er skynsamlegt að reikna fyrst út kostnaðinn. — Lúkas 14:28-30.

[Neðanmáls]

^ Sjá greinina „Ungt fólk spyr . . . Ætti ég að búa erlendis?“ sem birtist í Vaknið! júlí-september 2000.

[Rammi á blaðsíðu 14]

Öryggisábendingar

● Geymdu vegabréfið, peningana og farmiðann heim á öruggum stað.

● Taktu ljósrit af vegabréfinu og landvistarleyfinu og/eða vegabréfsáritununni, farmiðanum og öðrum mikilvægum plöggum. Hafðu eitt eintak af pappírunum hjá þér og sendu foreldrum þínum eða vinum heima annað eintak.

● Hafðu alltaf á þér símanúmer foreldra þinna eða vina heima og fjölskyldunnar sem þú dvelur hjá.

● Hegðaðu þér siðlega gagnvart hinu kyninu, á heimilinu þar sem þú dvelur, í skóla, á vinnustað og annars staðar.

● Lærðu að minnsta kosti nokkur aðalorð á tungumáli landsins sem þú dvelur í.

● Farðu í almenna læknisskoðun áður en þú ferð að heiman. Hafðu nóg af þeim lyfjum meðferðis sem þú þarft á að halda.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Ef misskilningur kemur upp milli þín og fjölskyldunnar, sem þú dvelur hjá, skaltu ræða málin í rólegheitum.