Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ætti ég að segja frá þunglyndi mínu?

Ætti ég að segja frá þunglyndi mínu?

Ungt fólk spyr . . .

Ætti ég að segja frá þunglyndi mínu?

„Þegar ég er þunglyndur vil ég í fyrstu ekki tala um það því að fólk gæti haldið að ég væri vandræðaunglingur. En svo geri ég mér grein fyrir því að ég verð að tala við einhvern til að fá einhverja hjálp.“ — Alexander, 13 ára.

Ég leita ekki til vina minna þegar ég er þunglyndur því að ég held að þeir geti ekki hjálpað mér. Þeir myndu bara gera grín að mér.“ — Artúr, 13 ára.

FLESTIR verða daprir af og til. * En þar sem þú ert ungur og frekar óreyndur gæti þér hæglega fundist þú vera að kafna undan álagi lífsins. Kröfur foreldra þinna, vina og kennara, líkamlegar og tilfinningalegar breytingar kynþroskaskeiðsins eða lágt sjálfsmat vegna einhvers smávægilegs ófullkomleika — allt þetta getur gert þig dapran og niðurdreginn.

Þegar þetta gerist er gott að geta trúað einhverjum fyrir tilfinningum sínum. „Ég held að ég myndi springa ef ég gæti ekki talað við neinn um vandamál mín,“ segir Birna sem er 17 ára. En því miður er algengt að unglingar tali ekki við aðra um vandamál sín og sökkvi því stöðugt dýpra í örvæntingu. María de Jesús Mardomingo, sem er prófessor við læknaháskóla í Madríd, segir að ungt fólk í sjálfsvígshugleiðingum sé oft ákaflega einmana. Margt ungt fólk, sem reynt hefur að svipta sig lífi, segir að það hafi ekki getað talað við neinn fullorðinn um tilfinningar sínar.

Hvað með þig? Er einhver tiltækur sem þú getur talað við þegar þér líður illa? Ef ekki, hvað geturðu þá gert?

Talaðu við foreldra þína

Alexander, sem getið var í upphafi, lýsir því sem hann gerir þegar hann er niðurdreginn: „Ég leita til mömmu því að hún hefur stutt mig alla mína ævi og hún veitir mér sjálfstraust. Ég leita líka til pabba því að honum hefur líka liðið eins og mér. Það gerir bara illt verra ef mér liður illa en segi engum frá því.“ Rúdolf, sem er 11 ára, segir: „Stundum gerði kennarinn lítið úr mér og skammaði mig. Þá leið mér mjög illa og ég fór fram á klósett til að gráta. Seinna talaði ég við mömmu og hún hjálpaði mér að leysa vandamálið. Ef ég hefði ekki talað við hana, hefði ég orðið enn þá niðurdregnari.“

Hefurðu hugleitt að tala hreinskilningslega við foreldra þína? Þú heldur kannski að þau geti alls ekki skilið vandamál þín. En er raunin sú? Það getur verið að þau skilji ekki alveg þann þrýsting sem ungt fólk verður fyrir í heiminum núna en heldurðu samt ekki að þau þekki þig betur en nokkur annar? „Stundum er ekki auðvelt fyrir foreldra mína að sýna samhug eða skilja nákvæmlega hvernig mér líður,“ segir Alexander. „En ég veit að ég get leitað til þeirra,“ bætir hann við. Það kemur unglingum oft á óvart hversu vel foreldrarnir skilja vandamál þeirra. Og þar sem þau eru eldri og hafa meiri reynslu, geta þau oft gefið gagnlegar leiðbeiningar — sérstaklega ef þau eru vön því að fara eftir meginreglum Biblíunnar.

„Þegar ég tala við foreldra mína fæ ég uppörvun og raunhæfar lausnir á vandamálum mínum,“ segir Birna sem vitnað var í áðan. Það er því góð ástæða fyrir því að Biblían skuli ráðleggja unglingum: „Varðveit þú, son minn, boðorð föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar. Hlýð þú föður þínum, sem hefir getið þig, og fyrirlít ekki móður þína, þótt hún sé orðin gömul.“ — Orðskviðirnir 6:20; 23:⁠22.

Auðvitað er erfitt að trúa foreldrum sínum fyrir einhverju ef sambandið við þá er ekki gott. Dr. Catalina González Forteza bendir á að könnun meðal framhaldsskólanema hafi leitt í ljós að þeir sem höfðu reynt að svipta sig lífi höfðu litla sjálfsvirðingu og slæmt samband við foreldrana. Unglingar eru yfirleitt ekki haldnir svona sjálfseyðingarhvöt ef þeir „eiga gott samband við foreldra sína.“

Það er því skynsamlegt að rækta gott samband við foreldrana. Gerðu það að vana að tala reglulega við þau. Segðu þeim frá því sem er að gerast í lífi þínu. Spyrðu þau spurninga. Yfirvegaðar samræður í þessum dúr auðvelda þér að leita til þeirra þegar þú átt við alvarleg vandamál að stríða.

Að tala við vin

En væri ekki auðveldara að tala við jafnaldra um vandamálin? Það er gott að eiga vini sem maður getur treyst. Orðskviðirnir 18:24 segja að ‚til sé ástvinur sem er tryggari en bróðir.‘ En þó að jafnaldrar þínir geti veitt samúð og stuðning, er ekki víst að þeir veiti alltaf bestu ráðleggingarnar þar sem þeir eru yfirleitt ekkert lífsreyndari en þú. Manstu eftir Rehabeam? Hann var konungur á biblíutímanum. Í stað þess að fara eftir ráðleggingum frá reyndum, þroskuðum mönnum hlustaði hann á jafnaldra sína. Afleiðingin var hörmuleg! Hann missti bæði stuðning mest allrar þjóðarinnar og velþóknun Guðs. — 1. Konungabók 12:​8-19.

Annað vandamál í sambandi við jafnaldrana er það að þú getur ekki alltaf treyst á þagmælsku þeirra. Artúr, sem getið var í upphafi, segir: „Flestir strákarnir, sem ég þekki, tala við vini sína þegar þeir eru niðurdregnir. En seinna segja vinirnir öðrum frá öllu og gera grín að þeim.“ Gabriela, sem er 13 ára, varð fyrir svipaðri reynlsu. Hún segir: „Ég hætti að tala við vinkonu mína um trúnaðarmál eftir að ég komst að því að hún var að segja vinkonu sinni frá mínum persónulegu málum. Jú, ég tala við fólk á mínum aldri en ég reyni að tala ekki um hluti sem mér þætti slæmt að það segði öðrum.“ Þegar þú ert að leita hjálpar er mikilvægt að finna einhvern sem ‚ljóstar eigi upp leyndarmáli annars manns.‘ (Orðskviðirnir 25:⁠9) Og líklegt er að hann sé eldri en þú.

Ef þú getur einhverra hluta vegna ekki fengið stuðning heima hjá þér, þá er allt í lagi að trúa vini fyrir vandamálum þínum, en fullvissaðu þig um að hann sé lífsreyndur og þekki meginreglur Biblíunnar. Í söfnuði votta Jehóva eru vafalaust einstaklingar sem hæfa þessari lýsingu. Lilja, sem er 16 ára, segir: „Ég hef átt trúnaðarsamtöl við nokkrar kristnar systur mínar og það hefur verið mjög gott. Þar sem þær eru eldri en ég eru ráðleggingar þeirra yfirleitt traustar. Núna eru þær vinir mínir.“

En hvað ef þunglyndi er farið að koma niður á þér andlega? Kannski hefur þú verið svo niðurdreginn að þú hefur vanrækt bænasamband þitt við Guð eða biblíulestur. Biblían ráðleggur í Jakobsbréfinu 5:​14, 15: „Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni [Jehóva] og biðjast fyrir yfir honum. Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og [Jehóva] mun reisa hann á fætur.“ Í söfnuði votta Jehóva eru öldungar sem eru vanir að hjálpa fólki sem er niðurdregið eða andlega veikt. Talaðu óhikað við þá. Biblían segir að slíkir menn geti verið „sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum.“ — Jesaja 32:⁠2.

‚Gerið óskir ykkar kunnar Guði‘

Langbest er að leita hjálpar hjá ‚Guði allrar huggunar.‘ (2. Korintubréf 1:⁠3) Þegar þú ert leiður og niðurdreginn skaltu fylgja ráðunum í Filippíbréfinu 4:​6, 7: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ Jehóva er alltaf tilbúinn til að hlusta á þig. (Sálmur 46:2; 77:⁠2) Og stundum getur bænin ein veitt þér hugarró.

Ef þú ert leiður eða niðurdreginn annað slagið máttu aldrei gleyma því að margir unglingar hafa gengið í gegnum það sama. Oftast hverfa þessar tilfinningar með tímanum. En það er óþarfi að byrgja það inni ef þér líður illa. Segðu einhverjum frá því. Orðskviðirnir 12:25 segja: „Hugsýki beygir manninn, en vingjarnlegt orð gleður hann.“ En hvernig getur þú fengið að heyra þetta ‚vingjarnlega orð‘ sem uppörvar? Með því að tala við einhvern — einhvern sem hefur næga reynslu, þekkingu og visku frá Guði til að veita þér þann stuðning og þá hjálp sem þú þarfnast.

[Neðanmáls]

^ Ef depurðin er langvarandi gæti það gefið til kynna að um alvarleg tilfinningaleg eða líkamleg vandamál sé að ræða. Þá er skynsamlegt að leita læknishjálpar án tafar. Sjá greinina „Winning the Battle Against Depression,“ í tímaritinu Varðturninn (enskri útgáfu) 1. mars 1990.

[Innskot á blaðsíðu 23]

„Þegar ég tala við foreldra mína fæ ég uppörvun og raunhæfar lausnir.“

[Mynd á blaðsíðu 24]

Oftast eru guðhræddir foreldrar í betri aðstöðu til að veita þér ráðleggingar en jafnaldrar þínir.