Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frá hatri til kærleika

Frá hatri til kærleika

Frá hatri til kærleika

Frásaga Ludwigs Wurms

Þessi nótt var sú kaldasta sem ég man eftir, frostið var 52 gráður. Þetta var um hávetur, í febrúar 1942, og ég var staddur við rússnesku víglínuna nálægt Leníngrad. Ég var SS-hermaður í stormsveitum Hitlers, úrvalssveit þýska hersins. Ég var liðþjálfi og mér hafði verið fengið andstyggilegt verkefni, að jarðsetja meira en 300 félaga sem flestir höfðu látist í skotgröfunum. Þeir höfðu frosið til bana. En jörðin var gaddfreðin svo að ógerlegt var að grafa þá. Við hlóðum því stirðnuðum líkunum á bak við auð hús, rétt eins og trjábolum. Þeir þyrftu að bíða vorsins til að fá greftrun.

ÞAÐ væri vægt til orða tekið að mig hafi hryllt við þessu óhugnanlega verkefni. Svo ömurlega leið mér að ég glopraði út úr mér með tárin í augunum: „Liðþjálfi, geturðu sagt mér af hverju þessi tilgangslausu dráp eiga sér stað? Af hverju er heimurinn fullur af hatri? Af hverju eru stríð?“ Hann svaraði mér lágum rómi: „Ludwig, ég veit það ekki. Ég skil hreinlega ekki heldur hvers vegna það eru svona miklar þjáningar og hatur í heiminum.“

Tveim dögum seinna fékk ég brot úr sprengikúlu í hálsinn. Ég lamaðist, missti meðvitund og var nær dauða en lífi.

En þrálátar spurningar mínar opnuðu að lokum augu mín fyrir því hvernig hatur og örvænting getur breyst í kærleika og von. Ég skal útskýra það.

Fundur minn með Hitler

Ég fæddist í Austurríki árið 1920. Faðir minn var lúterskur og móðir mín kaþólsk. Ég sótti lúterskan einkaskóla þar sem prestur sá um reglulega trúfræðslu. En mér var aldrei kennt að Jesús Kristur væri frelsari. Áherslan var alltaf lögð á „foringja af Guðs náð,“ Adolf Hitler, og hið tilvonandi stórveldi Þýskalands. Kennslan studdist meira við bók Hitlers, Mein Kampf, en Biblíuna. Ég las einnig bók Rosenbergs, Der Mythos des 20ten Jahrhunderts (Goðsögn 20. aldarinnar) þar sem höfundur reyndi að færa sönnur á að Jesús Kristur hafi ekki verið Gyðingur heldur ljóshærður Aríi.

Ég sannfærðist um að Adolf Hitler kæmi í raun og veru frá Guði og árið 1933 gekk ég stoltur í Hitlersæskuna. Þið getið ímyndað ykkur hve spenntur ég var þegar ég fékk tækifæri til að hitta hann í eigin persónu. Enn í dag man ég glöggt hvernig hann horfði á mig með óvenjustingandi augnaráði. Það hafði svo mikil áhrif á mig að þegar ég kom heim sagði ég við mömmu: „Héðan í frá tilheyrir líf mitt ekki þér. Líf mitt tilheyrir foringja mínum, Adolf Hitler. Ef ég sé einhvern reyna að drepa hann mun ég henda mér fram fyrir hann til að bjarga lífi hans.“ Ég skildi ekki fyrr en mörgum árum seinna af hverju mamma grét og hélt mér fast í fangi sínu.

Fyrstu áhrif nasistaflokksins

Árið 1934 gerði Þjóðernisjafnaðarmannahreyfingin uppreisn gegn austurísku ríkisstjórninni. Meðan á átökunum stóð myrtu nasistar Engelbert Dollfuss kanslara en hann var andvígur sameiningu Austurríkis og Þýskalands. Forsprakkar uppreisnarinnar voru handteknir, réttað var yfir þeim og þeir dæmdir til dauða. Þá setti austurríska ríkisstjórnin herlög og ég varð virkur í neðanjarðarstarfsemi Þjóðernisjafnaðarmannahreyfingarinnar — nasistaflokksins.

Austurríki var síðan innlimað í Þýskaland árið 1938 og nasistaflokkurinn varð löglegur. Stuttu seinna sama ár bauð Hitler mér og öðrum tryggum flokksfélögum að sækja árlegan fjöldafund Þjóðarflokksins í Nürnberg á Zeppelin-völlum. Þar sá ég Hitler sýna aukið vald sitt. Hástemmdar ræður hans, sem gagntóku áheyrendur, voru fullar haturs gegn öllum andstæðingum nasistaflokksins, þeirra á meðal alþjóðasamfélagi Gyðinga og Alþjóðasamtökum biblíunemenda, nú þekktir sem vottar Jehóva. Ég man vel hvernig hann stærði sig: „Þessum óvini stórveldis Þýskalands, þessum nýtilkomnu biblíunemendum, verður útrýmt úr Þýskalandi.“ Ég hafði aldrei hitt votta Jehóva og velti þess vegna fyrir mér hvaða stórhættulega fólk þetta væri sem hann var að tala um af þvílíkri heift.

Störf mín við fangabúðirnar í Buchenwald

Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út árið 1939 bauðst ég strax til að ganga í úrvalssveitir þýska hersins, SS-sveitirnar. Ég var sannfærður um að þær fórnir, sem ég þyrfti að færa í þessu stríði, yrðu réttlætanlegar af því að foringi okkar var sendur af Guði, eða svo var sagt. Mér var þó brugðið árið 1940 þegar herlið okkar fór um Lúxemborg og Belgíu til Frakklands. Þá sá ég í fyrsta sinn í návígi látinn hermann, myndarlegan ungan Frakka. Ég skildi ekki af hverju ungir Frakkar vildu fórna lífi sínu í stríði sem Þýskaland myndi augljóslega sigra með stuðningi Guðs.

Ég særðist í Frakklandi og var fluttur á spítala í Þýskalandi. Eftir að ég náði mér var ég sendur til starfa í ytri hluta Buchenwald-fangabúðanna, nálægt Weimar. Við fengum skýrar leiðbeiningar frá liðsforingjum okkar um að blanda ekki geði við SS-fangabúðaverði (Totenkopfverbände) eða fangana. Okkur var sérstaklega bannað að fara inn á dvalarsvæði fanganna sem var umlukið háum múr með stóru hliði. Fyrir ofan hliðið var skilti sem á stóð: „Arbeit Macht Frei“ (Vinna veitir frelsi). SS-verðirnir einir höfðu sérstaka heimild til að fara inn á þetta svæði.

Á hverjum degi sáum við fangana í búðunum þegar þeir gengu til vinnu í fylgd SS-varðar og umsjónarfanga sem kallaðist kapó. Þarna voru Gyðingar með Davíðsstjörnuna saumaða í fangaskyrtuna, pólitískir fangar með rauðan þríhyrning, glæpamenn með svartan hring og vottar Jehóva með fjólubláan þríhyrning.

Ég komst ekki hjá því að sjá hve vottarnir ljómuðu allir. Ég vissi að þeir bjuggu í spilltu umhverfi, en þeir báru sig með mikilli reisn þótt þeir væru varla annað en skinn og bein. Þar sem ég vissi nánast ekkert um þá spurði ég yfirmenn mína hvers vegna vottarnir hefðu verið sendir í fangabúðir. Svarið var á þá leið að þeir væru sértrúarhópur af bandarísk-gyðinglegum uppruna sem væri í nánum tengslum við kommúnista. En óaðfinnanleg hegðun þeirra, ósveigjanlegar meginreglur og siðferðilegur hreinleiki vakti athygli mína.

Endalok „messíasar“ míns

Árið 1945 hrundi sá heimur sem ég hafði trúað á. „Guð“ minn, Adolf Hitler, sem klerkastéttinn kallaði foringja af Guðs náð, reyndist vera falsmessías. Hin svokallaða þúsund ára stjórn hans (Tausendjährige Reich) var í rúst eftir aðeins 12 ár. Sjálfur var hann hugleysingi sem framdi sjálfsmorð til að flýja undan þeirri ábyrgð sem hann bar á dauða milljóna karla, kvenna og barna. Ég fékk næstum taugaáfall þegar ég frétti síðan af fyrstu atómsprengjunni sem sprakk yfir Japan.

Miklar breytingar í lífi mínu

Stuttu eftir að hernaðarátökum síðari heimsstyrjaldarinnar lauk var ég ákærður af gagnnjósnasveitum bandaríska hersins sem voru hluti af setuliði Bandaríkjamanna. Ég var handtekinn sem nasisti og SS-maður. Elskuleg unnusta mín, Trudy, fann að lokum lækni sem taldi gagnnjósnasveitirnar á að sleppa mér úr fangelsi vegna heilsuvandamála minna sem voru eftirköst bakmeiðsla. Ég var þá settur í stofufangelsi þar til ég var hreinsaður af öllum ákærum um stríðsglæpi.

Ég var stríðsöryrki og var því sendur aftur heim í læknisrannsókn á spítala í austurrísku Ölpunum. Einn dýrlegan vormorgun, er ég naut hrífandi útsýnisins, hlýrra sólargeisla og hlustaði á hljómfagran söng fuglanna, bað ég lítillar bænar innst í hjarta mínu: „Guð, ef þú ert í alvöru til hlýturðu að geta svarað spurningum mínum.“

Nokkrum vikum eftir að ég kom heim knúði vottur Jehóva dyra hjá mér. Ég þáði biblíurit hjá honum. Þótt hann kæmi á hverjum sunnudagsmorgni eftir það hugsaði ég ekki mikið um ritin sem hann skildi eftir og las þau ekki heldur. En dag einn kom ég óvenjuniðurdreginn heim úr vinnu. Konan mín stakk upp á að ég læsi til að dreifa huganum, til dæmis bækling sem votturinn skildi eftir, Weltfriede — ist er von Bestand? (Friður — getur hann varað?)

Ég byrjaði að lesa bæklinginn og gat hreinlega ekki lagt hann frá mér fyrr en ég hafði lesið hann allan. Ég sagði við konuna mína: „Þessi bæklingur var gefin út árið 1942. Ef einhver hefði þá sagt að Hitler og Mussolini myndu tapa stríðinu og að Þjóðabandalagið myndi birtast aftur í mynd Sameinuðu þjóðanna hefði fólk haldið að sá hinn sami væri ekki heill á geðsmunum. En þetta fór nákvæmlega eins og þessi bæklingur sagði að myndi gerast. Eigum við einhvers staðar biblíu svo að ég geti flett upp þessum ritningarstöðum?“

Konan mín fór upp á háaloft og fann gamla biblíu í þýðingu Lúters. Ég fletti upp ritningarstöðunum sem tilgreindir voru í bæklingnum. Innan skamms fór ég að læra margt sem ég hafði aldrei áður heyrt um. Ég lærði um loforð Biblíunnar um nýjan heim hér á jörð undir stjórn messíasarríkis Guðs. Þessi sanna von um hamingjuríka og örugga framtíð endurspeglast í orðum Jesú í fyrirmyndarbæninni sem ég þuldi oft þegar ég var drengur: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ Mér kom það mjög á óvart að almáttugur Guð, skapari himins og jarðar, á sér nafn, Jehóva. — Matteus 6:​9, 10; Sálmur 83:⁠19.

Það leið ekki á löngu þar til ég fór að sækja samkomur votta Jehóva. Á fyrstu samkomunni hitti ég roskna konu en dóttir hennar og tengdasonur höfðu verið tekin af lífi vegna trúar sinnar í þýskum fangabúðum. Ég skammaðist mín hræðilega. Ég útskýrði fyrir henni að vegna fyrri tengsla minna vissi ég alveg hvað hún og fjölskylda hennar hefði gengið í gegnum, og að í ljósi sambands míns við hina seku hefði hún rétt á að finna til viðbjóðs og skyrpa framan í mig.

Ég bjóst við hatursfullum viðbrögðum en varð hissa að sjá gleðitár renna niður kinnar hennar. Hún faðmaði mig hlýlega og sagði: „Ó, hvað það er dásamlegt að hinn almáttugi Guð, Jehóva, skuli leyfa fólki úr gagnstæðum fylkingum að koma inn í heilagt skipulag sitt!“

Ég hafði orðið vitni að miklu hatri allt í kringum mig, en þetta fólk endurspeglaði óeigingjarnan kærleika Guðs — sannan kristinn kærleika. Ég mundi eftir að hafa lesið það sem Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Þetta var einmitt það sem ég hafði leitað að. Nú fór ég líka að gráta. Ég grét eins og barn af þakklæti fyrir hinn dásamlega Guð, Jehóva.

Ég átti margt ólært

Árið 1948 vígði ég Jehóva Guði líf mitt og lét skírast. En brátt varð mér ljóst að ég átti margt ólært. Til dæmis hafði ég verið svo rækilega heilaþveginn af nasismanum að ég gat ekki skilið af hverju skipulag Jehóva gaf stundum út greinar um hina illræmdu SS-menn. Ég hélt því fram að það væri ekki við okkur að sakast sem einstaklinga. Við hefðum aðeins verið hermenn og fæstir okkar hefðu vitað um það sem átti sér stað í fangabúðunum.

En kær trúbróðir, sem skildi vandamál mitt og hafði sjálfur þjáðst í mörg ár í fangabúðunum, klappaði mér á öxlina og sagði: „Bróðir Ludwig, hlustaðu nú á mig. Ef þér finnst erfitt að sætta þig við þetta og það truflar þig skaltu leggja málið til hliðar í huganum. Berðu það svo undir Jehóva í bæn. Þú mátt treysta því að ef þú gerir þetta mun Jehóva einn góðan veðurdag veita þér skilning á þessu og öllu því sem angrar þig.“ Ég fór að ráði hans og er árin liðu komst ég að raun um að hann hafði rétt fyrir sér. Að lokum skildi ég að Þjóðernissósíalistaflokkurinn, ásamt SS-sveitunum, var enn einn hluti af heimskerfi Satans djöfulsins. — 2. Korintubréf 4:⁠4.

Aftur til Zeppelin-valla í Nürnberg

Þið getið vart ímyndað ykkur hve sérstakt það var fyrir mig að snúa aftur til Nürnberg árið 1955 og sækja þar mót votta Jehóva sem nefndist „Triumphierendes Königreich“ (Guðsríki hrósar sigri). Já, þetta mót var haldið á nákvæmlega sama stað og ég hafði heyrt Hitler stæra sig af því að hann myndi útrýma vottum Jehóva úr Þýskalandi. Rúmlega 107.000 vottar Jehóva, alls staðar að úr heiminum, söfnuðust saman ásamt vinum sínum til að tilbiðja saman í heila viku. Það voru engar hrindingar, engar skammir. Þetta var svo sannarlega alþjóðleg fjölskylda sem bjó saman í sátt og samlyndi.

Það er erfitt að lýsa þeim tilfinningum sem vöknuðu hjá mér þegar ég hitti nokkra fyrrverandi félaga mína úr SS-sveitunum á þessu móti sem voru núna vígðir þjónar Jehóva Guðs. Það voru svo sannarlega fagnaðarfundir!

Ég horfi til framtíðarinnar með von

Eftir að ég vígðist og lét skírast hef ég notið þeirra sérréttinda að fræða þó nokkra fyrrverandi nasista í Austurríki um Biblíuna. Sumir þeirra eru einnig orðnir vottar Jehóva. Árið 1956 flutti ég frá Austurríki og bý nú í Ástralíu þar sem ég hef notið þeirra sérréttinda að vera boðberi í fullu starfi. Undanfarið hefur ellin og heilsubrestur þó takmarkað starf mitt.

Ein heitasta von mín er sú að taka á móti trúföstum körlum og konum í upprisunni sem neituðu að láta undan vilja hins illa nasistakerfis og voru tekin af lífi í fangabúðunum vegna hollustu sinnar.

Ég hef séð með eigin augum hvernig skaðlegt hatur hefur breyst í kærleika og von. Nú ber ég þá von í brjósti að fá eilíft líf á paradísarjörð og verða fullkominn, laus við sjúkdóma og dauða. Þessi von er ekki aðeins fyrir mig heldur fyrir alla þá sem lúta auðmjúklega ríkjandi konungi Jehóva, Jesú Kristi. Ég get með sannfæringu tekið undir orð Páls postula: „En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda, sem oss er gefinn.“ — Rómverjabréfið 5:⁠5.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Höfundur í SS-búningi.

[Myndir á blaðsíðu 28, 29]

Mót votta Jehóva, „Guðsríki hrósar sigri,“ í Nürnberg, sama stað og Hitler hélt áður fjöldafundi sína með nasistum.

[Credit line]

U.S. National Archives photo.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Tilbúinn í boðunarstarfið í Ástralíu.

[Mynd credit line á blaðsíðu 25]

UPI/Bettmann