Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hið veigamikla hlutverk hjúkrunarfræðinga

Hið veigamikla hlutverk hjúkrunarfræðinga

Hið veigamikla hlutverk hjúkrunarfræðinga

„Hjúkrunarfræðingur annast, hlúir að og verndar og er reiðubúinn að sinna sjúkum, særðum og öldruðum.“ —  Nursing in Today’s World — Challenges, Issues, and Trends.

FÆR hjúkrunarfræðingur þarf að vera óeigingjarn, en það eitt nægir ekki. Góður hjúkrunarfræðingur þarf líka að hafa víðtæka menntun og reynslu. Nú er fjögurra ára háskólanám eða lengra skilyrði. En hvaða eiginleikum þarf góður hjúkrunarfræðingur að vera gæddur? Hér fara á eftir svör reyndra hjúkrunarfræðinga sem Vaknið! ræddi við.

„Læknirinn veitir sjúklingnum læknismeðferð en hjúkrunarfræðingurinn aðhlynningu. Það þarf oft að styrkja andlega og líkamlega særða sjúklinga, til dæmis þegar þeim er sagt að þeir séu haldnir langvarandi sjúkdómi eða að þeir séu dauðvona. Maður þarf að vera sjúklingnum sem móðir.“ — Carmen Gilmartin, Spáni.

„Maður verður að geta gert sér grein fyrir sársaukanum og þjáningunum sem sjúklingurinn þarf að þola og hafa löngun til að hjálpa honum. Góðvild og þolinmæði eru ómissandi. Maður þarf alltaf að sækjast eftir aukinni þekkingu á sviði hjúkrunar og læknisfræði.“ — Tadashi Hatano, Japan.

„Undanfarin ár hafa hjúkrunarfræðingar þurft að afla sér æ meiri sérmenntunar. Þess vegna er mikilvægt að vera námfús og nauðsynlegt að hafa skilning á námsefninu. Hjúkrunarfræðingar þurfa líka að taka skjótar ákvarðanir og vera röskir til verka þegar þörf krefur.“ — Keiko Kawane, Japan.

„Hjúkrunarfræðingar þurfa að vera hlýlegir og sýna umburðarlyndi og hluttekningu.“ — Araceli Garcia Padilla, Mexíkó.

„Góður hjúkrunarfræðingur þarf að vera námfús, athugull og sérlega fagmannlegur. Ef hjúkrunarfræðingur er ekki fórnfús og sýnir minnstu eigingirni eða á erfitt með að taka við ráðleggingum yfirboðara sinna í heilbrigðisþjónustunni, verður hann óhæfur til að annast sjúklinga og að vinna með öðru starfsfólki.“ — Rosângela Santos, Brasilíu.

„Nokkrir eiginleikar eru ómissandi: sveigjanleiki, umburðarlyndi og þolinmæði. Auk þess verður maður að vera víðsýnn og láta sér semja vel við vinnufélagana og yfirboðara í heilbrigðisþjónustunni. Til að vera góður starfskraftur er nauðsynlegt að vera fljótur að tileinka sér nýja fagkunnáttu.“ — Marc Koehler, Frakklandi.

„Manni verður að þykja vænt um fólk og hafa löngun til að hjálpa öðrum. Það er nauðsynlegt að geta unnið undir álagi því að í hjúkrun er oft um líf og dauða að tefla. Hjúkrunarfræðingur verður að vera sveigjanlegur og geta leyst af hendi störf í fámennari hóp en venjulega þegar þörf krefur, án þess að það bitni á gæðunum.“ — Claudia Rijker-Baker, Hollandi.

Aðhlynningarstörf hjúkrunarfræðinga

Tímaritið Nursing in Today’s World segir: „Hjúkrun felur í sér umönnun fólks á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Þess vegna finnst okkur læknisfræðin lúta að læknismeðferð sjúklingsins en hjúkrunin að aðhlynningu hans.“

Hjúkrunarfræðingur sér um aðhlynningu. Þar af leiðandi verður hann að sýna umhyggju. Fyrir nokkru voru 1200 hjúkrunarfræðingar spurðir að því hvað þeim fyndist þýðingarmest í starfi sínu. Að veita góða aðhlynningu, svöruðu 98 prósent.

Hjúkrunarfræðingar átta sig stundum ekki á því hve mikils virði þeir eru sjúklingunum. Fyrrnefnd Carmen Gilmartin hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur í tólf ár. Hún sagði Vaknið!: „Einu sinni játaði ég fyrir vinkonu minni að ég fyndi fyrir vanmetakennd þegar ég annaðist fárveika sjúklinga. Mér fyndist ég gera lítið meira gagn en plástur. Þá sagði hún: ‚Blessunarríkur plástur því að veikt fólk þarfnast fyrst og fremst viðkunnanlegs hjúkrunarfræðings eins og þú ert.‘ “

Að sjálfsögðu hefur slík umönnun mikið álag í för með sér fyrir hjúkrunarfræðing sem vinnur meira en tíu tíma á sólarhring. En hvað varð til þess að þetta fórnfúsa fólk lagði fyrir sig aðhlynningu og hjúkrun?

Af hverju hjúkrun?

Vaknið! talaði við hjúkrunarfræðinga frá ýmsum löndum og spurði: „Af hverju lagðir þú hjúkrun fyrir þig?“ Nokkur svör fylgja hér á eftir.

Terry Weatherson hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur í 47 ár. Hún starfar nú sem hjúkrunarfræðingur á þvagfærasjúkdómadeild sjúkrahúss í Manchester á Englandi. „Ég ólst upp í kaþólskri trú og var í kaþólskum heimavistarskóla,“ segir hún. „Ég ákvað í barnæsku að verða annaðhvort nunna eða hjúkrunarkona. Mig langaði til að verða öðrum að liði. Þetta var nokkurs konar köllun. Og eins og sjá má hafði hjúkrunin betur.“

Chiwa Matsunaga frá Saitama í Japan hefur starfrækt eigin fæðingarheimili í átta ár. Hún segir: „Ég fór að ráðum föður míns ‚að best væri að læra eitthvað sem maður gæti unnið við alla ævi,‘ svo að ég valdi mér hjúkrun að ævistarfi.“

Etsuko Kotani frá Tókíó í Japan yfirhjúkrunarfræðingur með 38 ára starfsreynslu, sagði: „Þegar ég var á skólaaldri hné faðir minn niður og missti mikið blóð. Þegar ég vakti yfir honum á sjúkrahúsinu ákvað ég að verða hjúkrunarfræðingur til að geta hjálpað sjúkum í framtíðinni.“

Aðrir ákváðu að leggja hjúkrun fyrir sig vegna eigin reynslu af veikindum. Eneida Vieyra, hjúkrunarfræðingur í Mexíkó, segir: „Þegar ég var sex ára lá ég á sjúkrahúsi í hálfan mánuð með lungnakvef og ákvað þá að verða hjúkrunarfræðingur.“

Hjúkrun krefst bersýnilega mikillar fórnfýsi. Lítum nánar á þau krefjandi viðfangsefni sem hjúkrunin spannar og þá umbun sem þessi göfuga starfsgrein veitir.

Ánægjan af hjúkrun

Hvaða ánægju veitir hjúkrun? Svarið er háð því hvaða grein hjúkrunar er stunduð. Hver vel heppnuð fæðing er mikil umbun fyrir ljósmóður svo dæmi sé tekið. „Það er dásamlegt að taka á móti heilbrigðu barni sem maður hefur fylgst með alla meðgönguna,“ segir ljósmóðir frá Hollandi. Landi hennar, Jolanda Gielen-Van Hooft, segir: „Barnsfæðing er dásamlegasta lífsreynsla hjóna og heilbrigðisstarfsmanns því að hún er kraftaverk!“

Rachid Assam frá Dreux í Frakklandi er rúmlega fertugur svæfingahjúkrunarfræðingur. Og hvað veitir honum ánægju í starfi? Það er „sú ánægjutilfinning að hafa átt þátt í vel heppnaðri skurðaðgerð og að tilheyra heillandi starfsgrein sem er í stöðugri framför,“ segir hann. Isaac Bangili, einnig frá Frakklandi, segir: „Þakklæti sjúklinga og fjölskyldna þeirra er mér mikils virði, einkum þegar um neyðartilfelli er að ræða og okkur tekst að hjálpa sjúklingi að ná bata, sem við héldum að engin von væri um.“

Terry Weatherson, sem áður var vitnað í, fékk slíkar þakkir. Hún fékk svohljóðandi bréf frá ekkju: „Ég get ekki látið hjá líða að nefna enn og aftur hve róleg og örugg nærvera þín var okkur mikils virði í veikindum Charles. Hlýleiki þinn var okkur sem ljós og veitti okkur styrk.“

Krefjandi verkefni

En hjúkrun er ekki aðeins ánægjuleg heldur einnig krefjandi. Og hún veitir ekkert svigrúm fyrir mistök. Hvort sem hjúkrunarfræðingur sér um lyfjagjöf, blóðsýnatöku, setur upp nál í bláæð eða bara flytur sjúkling, þá verður hann að sýna ýtrustu aðgát. Honum mega alls ekki verða á mistök — þetta á einkum við í þeim löndum þar sem málaferli eru tíð. Stundum eru hjúkrunarfræðingar settir í erfiða aðstöðu. Tökum dæmi: Hjúkrunarfræðingur telur að læknir hafi ávísað sjúklingi röngu lyfi eða gefið fyrirmæli sem eru sjúklingnum ekki fyrir bestu. Getur hjúkrunarfræðingurinn þá andmælt lækninum? Til þess þarf hugrekki, háttvísi og lagni, auk þess sem það hefur ákveðna áhættu í för með sér. Því miður kunna ekki allir læknar að meta slíkar ábendingar frá samstarfsmönnum sem þeim finnst sér lægra settir.

Hvað finnst hjúkrunarfræðingum um málið? Barbara Reineke, 34 ára hjúkrunarfræðingur frá Wisconsin í Bandaríkjunum, sagði Vaknið!: „Hjúkrunarfræðingur verður að vera kjarkmikill því að lögum samkvæmt ber hann ábyrgð á lyfjagjöf og meðferð sem hann veitir og þeim skaða sem af kann að hljótast. Hjúkrunarfræðingur verður að geta neitað að framfylgja fyrirmælum læknis ef honum finnst þau vera utan síns verksviðs eða ef hann telur að um ranga meðferð sé að ræða. Hjúkrun hefur breyst frá dögum Florence Nightingale og jafnvel frá því sem var fyrir 50 árum. Nú verður hjúkrunarfræðingurinn að vita hvenær á ekki að fylgja fyrirmælum læknis og hvenær á að kalla á lækni til að líta á sjúkling, jafnvel um miðja nótt. Og hafi maður rangt fyrir sér þýðir ekkert að vera hörundsár gagnvart ákúrum læknisins.“

Ofbeldi á vinnustað er annað vandamál sem hjúkrunarfræðingar þurfa að glíma við. Í frétt frá Suður-Afríku kemur fram að hjúkrunarfræðingum og fólki í aðhlynningarstörfum „sé hættara við líkamsárás og ofbeldi á vinnustað en öðrum. Reyndar eru meiri líkur á að ráðist sé á hjúkrunarfólk en fangaverði eða lögreglumenn, og 72 prósent hjúkrunarfólks telja að sér sé hætta búin.“ Ástandið er svipaði á Bretlandi. Nýlega kom þar fram í könnun að 97 prósent aðspurðs hjúkrunarfólks þekkti hjúkrunarfólk sem hafði orðið fyrir líkamsárás á síðasta ári. Hvað veldur þessu ofbeldi? Oft eru það sjúklingarnir sem eru undir áhrifum eiturlyfja eða áfengis, undir miklu álagi eða hafa orðið fyrir mikilli sorg.

Hjúkrunarfólki er líka hætt við útbruna sökum álags. Skortur á vinnuafli hefur sitt að segja. Þegar samviskusamt hjúkrunarfólk getur ekki veitt sjúklingi næga umönnun sökum of mikils vinnuálags veldur það streitu. Að sleppa vinnuhléum og vinna yfirvinnu virðist aðeins gera illt verra.

Sjúkrahús eru undirmönnuð um heim allan. „Hér vantar hjúkrunarfræðinga á sjúkrahúsin,“ segir í grein í tímaritinu Mundo Sanitario í Madríd. „Allir sem hafa þurft á heilbrigðisþjónustu að halda vita hvað hjúkrunarfræðingar eru mikils virði.“ En hvað var talið valda þessum skorti? Sparnaðarráðstafanir! Sama grein skýrði frá því að 13.000 hjúkrunarstörf væru ómönnuð á sjúkrahúsum Madríd-borgar.

Of langar vaktir og of lág laun valda líka streitu. Blaðið The Scotsman skýrði svo frá: „Að minnsta kosti fimmti hver hjúkrunarfræðingur á Bretlandi og fjórði hver sjúkraliði hefur aukastarf til að geta séð sér farborða, samkvæmt upplýsingum frá Unison, verkalýðsfélagi opinberra starfsmanna.“ Þrír af hverjum fjórum hjúkrunarfræðingum telja sig hafa of lág laun. Þess vegna íhuga margir að yfirgefa stéttina.

Margt fleira getur stuðlað að streitu hjá hjúkrunarfræðingum. Af þeim svörum að dæma, sem Vaknið! fékk hjá hjúkrunarfræðingum víðs vegar um heiminn, þykir þeim dapurlegt að horfa upp á sjúklinga deyja. Magda Souang er af egypsku bergi brotin og vinnur í Brooklyn í New York. Aðspurð hvað gerði starf hennar erfitt sagði hún: „Það hefur fengið á mig að horfa upp á að minnsta kosti 30 langveika sjúklinga í minni umsjá deyja á tíu ára tímabili.“ Það er því ekki að furða að annar heimildarmaður segi: „Að helga deyjandi sjúklingum starfskrafta sína hefur mikil áhrif á mann bæði andlega og líkamlega.“

Framtíð hjúkrunarfræðinga

Framfarir og tæknivæðing auka álagið á hjúkrunarfræðinga. Það er hægara sagt en gert að samrýma tækni og manngæsku, það er að segja mannúðlega umönnun sjúklinga. Vél getur aldrei komið í staðinn fyrir samúð og nærveru hjúkrunarfræðings.

Tímarit segir: „Hjúkrun er eilíf starfsgrein . . . Meðan mannkynið er til verður þörf fyrir umönnun, samúð og skilning.“ Hjúkrun mætir þeirri þörf. En það er meira sem gefur tilefni til bjartsýni á heilbrigðissviðinu. Biblían talar um þann tíma þegar enginn segir: „Ég er sjúkur.“ (Jesaja 33:24) Í nýja heiminum, sem Guð hefur lofað, verður ekki þörf fyrir lækna, hjúkrunarfræðinga eða sjúkrahús. — Jesaja 65:17; 2. Pétursbréf 3:⁠13.

Auk þess lofar Biblían: „Guð . . . mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:​3, 4) En þangað til ættum við að vera þakklát fyrir umhyggju og fórnfýsi milljóna hjúkrunarfræðinga um heim allan. Án þeirra væri vissulega ekki eins notalegt og jafnvel ómögulegt að liggja á sjúkrahúsi. Því er viðeigandi að spyrja hvað við myndum gera ef hjúkrunarfræðinga nyti ekki við?

[Rammagrein á blaðsíðu 16]

Florence Nightingale — brautryðjandi nútímahjúkrunar

Florence Nightingale fæddist á Ítalíu árið 1820. Foreldrar hennar voru auðugir Bretar og veittu henni allt til alls. Hin unga Florence hafnaði bónorðum og sneri sér að heilsufræðinámi og umönnun fátækra. Þrátt fyrir andstöðu foreldra sinna þáði hún stöðu við skóla í Kaiserswerth í Þýskalandi sem þjálfaði sjúkrahússhjúkrunarkonur. Síðar stundaði hún nám í París og 33 ára gömul var hún orðin forstöðukona kvensjúkrahúss í Lundúnum.

En hún glímdi við erfiðasta viðfangsefni sitt þegar hún bauð sig fram til að hjúkra særðum hermönnum í Krímstríðinu. Þar tók hún í gegn, ásamt 38 hjúkrunarkonum, sjúkrahús sem hafði verið morandi í rottum. Þetta var gríðalegt verk, því að í byrjun var enga sápu að fá, engir vaskar eða handklæði voru til staðar og ekki var nægilega mikið af beddum, dýnum og sáraumbúðum. Florence leysti verkið vel af hendi ásamt starfsliði sínu og í stríðslok hafði hún komið á umbótum í hjúkrun og sjúkrahússrekstri um heim allan. Árið 1860 stofnaði hún Nightingale-hjúkrunarskólann við St. Thomas’ sjúkrahúsið í Lundúnum — fyrsta hjúkrunarskólann sem tengdist ekki trúarreglu. Þegar hún lést árið 1910 hafði hún verið rúmliggjandi sjúklingur í mörg ár. Eigi að síður hélt hún áfram að skrifa bækur og bæklinga sem stuðluðu að bættri heilbrigðisþjónustu.

Ekki eru allir sammála þessari fórnfúsu ímynd Florence Nightingale og halda því fram að aðrir eigi skilið álíka mikinn heiður og hún fyrir framlag sitt til hjúkrunar. Einnig hefur verið mikið deilt um mannkosti hennar. Sumir halda því fram, samkvæmt bókinni A History of Nursing, að hún hafi verið „þver, skapbráð og ráðrík,“ en aðrir „heilluðust af greind hennar, persónutöfrum og ótrúlegum lífsþrótti og þversögninni í persónuleika hennar.“ Eitt er víst, að burtséð frá því hvernig hún var í raun og veru breiddust starfshættir hennar á sviði hjúkrunar og sjúkrahússreksturs út til margra landa. Hún er álitin brautryðjandi nútímahjúkrunar.

[Mynd]

St. Thomas’ sjúkrahúsið eftir að Nightingalehjúkrunarskólanum hafði verið komið á fót.

[Credit line]

Með góðfúslegu leyfi National Library of Medicine.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 18]

Menntun hjúkrunarfólks

Sjúkraliði: Einstaklingur sem hefur lokið prófi og verknámi frá sjúkraliðabraut framhaldskóla.

Hjúkrunarfræðingur: Einstaklingur sem lokið hefur prófi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

Sérmenntaður hjúkrunarfræðingur: Hjúkrunarfræðingur sem lokið hefur viðbótarnámi á sérstöku sviði hjúkrunar.

Ljósmóðir: Hjúkrunarfræðingur sem lokið hefur viðbótarnámi í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands.

[Mynd credit line]

UN/J. Isaac

[Rammi/myndir á blaðsíðu 19]

‚Uppistaða heilbrigðisþjónustunnar‘

Á alþjóðlegri ráðstefnu hjúkrunarfræðinga í tilefni aldamótanna, sem haldin var í júní 1999, sagði dr. Gro Harlem Brundtland, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar:

„Hjúkrunarfræðingar eru aðalheilbrigðisstéttin og eru í sérstakri aðstöðu til að berjast fyrir heilbrigði jarðar . . . Þar sem hjúkrunarfræðingar og ljósmæður eru um 80 prósent faglærðra heilbrgiðisstarfsmanna í flestum löndum gæti þessi hópur haft mikil áhrif og komið á nauðsynlegum umbótum til að stuðla að heilbrigði allra á 21. öldinni. Framlag þeirra til heilbrigðisþjónustunnar spannar allt heilbrigðiskerfið . . . Það fer ekki á milli mála að hjúkrunarfræðingar eru uppistaðan í heilbrigðisþjónustunni.“

Ernesto Zedillo Ponce de León, fyrrverandi forseti Mexíkó, hrósaði hjúkrunarfræðingum Mexíkó sérstaklega í ræðu og sagði: „Dag eftir dag . . . helgið þið þekkingu ykkar, samstöðu og þjónustu heilsuvernd Mexíkóa og umönnun sjúkra. Dag eftir dag annist þið þá sem þarfnast bæði faglegrar hjálpar og umhyggju ykkar sem þið veitið af gæsku, skyldurækni og mannúð. . . . Þið eruð stærsti hópurinn í heilbrigðiskerfinu . . . Í hvert skipti sem lífi er bjargað, barn er bólusett, barnsfæðing á sér stað, sjúkraviðtal fer fram, bati næst og sjúklingur nýtur umhyggju og stuðnings, koma hjúkrunarfræðingar við sögu.“

[Mynd credit line]

Ljósmynd UN/DPI: Greg Kinch

Ljósmynd UN/DPI: Evan Schneider

[Rammi á blaðsíðu 21]

Þakklátur læknir

Dr. Sandeep Jauhar, sem starfar á Presbyterian sjúkrahúsinu í New York, játaði að hann stæði í þakkarskuld við góða hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingur hafði á nærgætinn hátt sannfært hann um að dauðvona sjúklingur yrði að fá meira morfín. Hann skrifaði: „Góðir hjúkrunarfræðingar kenna líka læknum. Hjúkrunarfræðingar á sérhæfðum deildum eins og gjörgæsludeild eru meðal best þjálfuðu starfsmanna sjúkrahússins. Þegar ég var unglæknir kenndu hjúkrunarfræðingar mér að setja upp hollegg og stilla öndunarvélar og sögðu mér hvaða lyf bæri að forðast.“

Hann heldur áfram: „Hjúkrunarfræðingar veita sjúklingum nauðsynlegan stuðning andlega og tilfinningalega vegna þess að þeir eru mest hjá sjúklingunum . . . Þegar hjúkrunarfræðingur, sem ég treysti vel, biður mig um að líta strax á sjúkling geri ég það tafarlaust.“

[Myndir á blaðsíðu 17]

„Mig langaði til að verða öðrum að liði.“ — Terry Weatherson, Englandi.

[Myndir á blaðsíðu 17]

„Ég vakti yfir föður mínum á sjúkrahúsi og ákvað þá að verða hjúkrunarfæðingur.“ — Etsuko Kotani, Japan.

[Myndir á blaðsíðu 17]

‚Fæðing er dásamlegasta lífsreynsla ljósmóður.‘ — Jolanda Gielen-Van Hooft, Hollandi.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Að veita aðstoð við barnsfæðingu veitir ljósmæðrum gleði og ánægju.