Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjúkrunarfræðingar eru ómissandi

Hjúkrunarfræðingar eru ómissandi

Hjúkrunarfræðingar eru ómissandi

„Hjúkrun er vandasöm list. Samúð er hvati hennar, en þekking gefur henni kraftinn.“ — Mary Adelaide Nutting, 1925, fyrsti prófessorinn í hjúkrunarfræðum.

HJÚKRUN í sinni einföldustu mynd hefur verið stunduð í þúsundir ára, meira að segja allt frá biblíutímanum. (1. Konungabók 1:​2-4) Í aldanna rás hafa margar merkar konur hjúkrað sjúkum. Sem dæmi má nefna Elísabetu (1207–31) dóttur Andrésar 2. Ungverjalandskonungs. Hún skipulagði matvæladreifingu í hungursneyð árið 1226. Eftir það sá hún til þess að sjúkrahús væru reist og annaðist þar holdsveika. Elísabet lést aðeins 24 ára gömul og hafði þá helgað drjúgan hluta stuttrar ævi sinnar umönnun sjúkra.

Ekki er hægt að fjalla um sögu hjúkrunar án þess að minnast á Florence Nightingale. í Krímstríðinu 1853-56 endurskipulagði þessi kjarkmikla enska kona hersjúkrahúsið í Scutari, úthverfi Konstantínópel, með aðstoð 38 hjúkrunarkvenna. Þegar hún kom þangað var dánartíðnin næstum 60 prósent en þegar hún fór 1856 var dánartíðnin minni en 2 prósent. — Sjá ramma á bls. 16.

Annar áhrifavaldur í hjúkrunarsögunni er kvendjáknastofnun lútersku kirkjunnar í Kaiserswerth í Þýskalandi. Florence Nightingale stundaði þar nám áður en hún fór til Krím. Með tíð og tíma komu fram ýmsir úrvalshópar hjúkrunarkvenna. Til dæmis stofnaði Agnes Karll samtök þýskra hjúkrunarfræðinga árið 1903.

Hjúkrunarfræðingar eru nú taldir vera fjölmennasta starfsstétt heilbrigðisþjónustunnar. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni starfa nú rúmlega 9.000.000 hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í 141 landi. Og störf þeirra eru gríðarlega mikilvæg! Tímaritið The Atlantic Monthly vekur athygli á því að hjúkrunarfræðingar „tvinni saman í eitt umönnun, þekkingu og trausti og að það hafi afgerandi áhrif á hvort sjúklingurinn lifi af.“ Því er við hæfi að spyrja: Hvað myndum við gera ef hjúkrunarfræðinga nyti ekki við?

Áhrif hjúkrunarfræðings á bata

Alfræðiorðabók skilgreinir hjúkrun þannig: „Sú meðhöndlun sem hjúkrunarfræðingur veitir sjúklingi til að hann nái bata eftir veikindi eða slys og geti orðið eins sjálfbjarga og mögulegt er.“

Auðvitað er slík meðhöndlun margþætt. Hún felur meira í sér en vanaverk eins og að taka púls og mæla blóðþrýsting. Hjúkrunarfræðingurinn á drjúgan þátt í bata sjúklingsins. Alfræðibókin The American Medical Association Encyclopedia of Medicine segir: „Hjúkrunarfræðingurinn fylgist meira með áhrifum kvillans á almenna líðan sjúklings heldur en kvillanum sjálfum og leggur sig fram við að draga úr verkjum og andlegum þjáningum og reynir eftir fremsta megni að koma í veg fyrir aukaverkanir.“ Auk þess veitir hjúkrunarfræðingurinn „skilningsríka umönnun, svo sem að hlusta með þolinmæði á það sem veldur áhyggjum og ótta og veitir tilfinningalegan stuðning og hughreystingu.“ Bókin bætir því við að þegar sjúklingur sé dauðvona þá sé það hlutverk hjúkrunarfræðingsins „að hjálpa honum að mæta andlátinu eins þjáningalaust og með eins mikilli sæmd og unnt er.“

Margir hjúkrunarfræðingar gera meira en skyldan býður. Til dæmis skrifaði Ellen D. Baer um starf sitt á Montefiore Medical Center í New York borg. Hún sagðist ekki vilja hespa morgunverkunum af með skurðstofuteyminu. „Ég vildi vera hjá sjúklingunum,“ skrifaði hún. „Ég vildi kenna þeim að ná tökum á öndununni og hjálpa þeim að ganga um, skipta vel um umbúðir, svara spurningum þeirra, útskýra málin fyrir þeim og hughreysta þá. Ég kunni vel við hið nána samband sem myndaðist við sjúklingana og gat sett mig í spor þeirra.“

Allir sem hafa legið á sjúkrahúsi minnast vafalaust hjúkrunarfræðings sem sýndi slíka fórnfýsi og hluttekningu. En hvað þarf góður hjúkrunarfræðingur að hafa til brunns að bera?

[Mynd á blaðsíðu 13]

Florence Nightingale

[Credit line]

Með góðfúslegu leyfi Library of Medicine