Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Afbrotagrein í örum vexti

Verslun með fólk er „sú afbrotagrein sem er í örustum vexti í heiminum,“ að sögn Pinos Arlacchis, framkvæmdastjóra Afbrota- og fíkniefnavarnastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Að sögn hans er talið að um 200 milljónir manna séu á valdi glæpamanna er versla með fólk. Ellefu og hálf milljón manna var flutt nauðug frá Afríku á þeim 400 árum sem þrælaverslun var stunduð, en til samanburðar má nefna að á síðasta áratug voru rösklega 30 milljónir kvenna og barna fluttar frá Suðaustur-Asíu eða innan hennar. Flestir hafa verið hnepptir í vinnuþrælkun eða í kynlífsþrælkun. Arlacchi leggur til að þau ríki, sem hafa ekki lengur lög gegn þrælahaldi, setji slík lög að nýju.

Pyndingar og hrottaskapur í Evrópu

„Dauði við nauðungarflutninga, pyndingar í varðhaldi, kerfisbundnar misþyrmingar af hálfu lögreglu, ásamt þjóðernislegri og trúarlegri kúgun“ er nefnt í frétt frá Amnesty International um mannréttindabrot í Evrópu. „Margir Evrópubúar njóta grundvallarmannréttinda, en sumir, þeirra á meðal þjóðernislegir og trúarlegir minnihlutahópar og þeir sem leita hælis í öðru landi, kynnast annarri hlið á Evrópu sem stingur í stúf við þá ímynd að Evrópa sé höfuðvígi frelsis og mannréttinda,“ að því er segir í fréttariti samtakanna. „Ekkert ber þessu gleggra vitni en tíðar og útbreiddar ásakanir um hrottaskap lögreglu. Allt frá Bretlandi til Aserbaídsjan hefur fólk mátt sæta . . . grimmilegri, ómanneskjulegri eða niðurlægjandi meðferð af hendi lögreglunnar.“ Samtökin halda því fram að hinir seku sleppi oft við refsingu og nefna eftirfarandi dæmi: „Mannréttindadómstóll Evrópu sakfelldi franska ríkið í júlí [1999] fyrir brot á alþjóðasamningum um pyndingar og hlutlaus réttarhöld“ í máli innflytjanda sem var í haldi lögreglu. „Í árslok voru lögreglumennirnir, sem ákærðir voru, enn að störfum.“ segir í fréttinni.

Snjallir vefarar

„Köngulóarsilki er eitthvert sterkasta efni sem til er á jörð,“ að sögn tímaritsins New Scientist. Hver þráður getur teygst um tvöfalda til fjórfalda lengd sína án þess að slitna og sagt er að silkiþráður á þykkt við blýant gæti stöðvað júmbóþotu á flugi. Vísindamenn hafa reynt að ráða leyndarmál köngulóarinnar, enda gætu þau komið að góðum notum í iðnaði. Við framleiðslu á gerviefninu Kevlar, sem notað er í skotheld vesti, er til dæmis notuð „óblönduð brennisteinssýra sem hituð er nærri suðumarki,“ að sögn tímaritsins. Við framleiðslu á Kevlar verða til ýmis eitruð efni sem erfitt er að losna við, en köngulærnar spinna silki úr „prótíni og vatni við svipað sýru- og hitastig og er í munni manna.“ Og þráðurinn, sem þær spinna úr þessari prótín- og vatnsblöndu, leysist ekki upp í rigningu. New Scientist nefnir að lokum að ‚köngulóarsilkið sé enn þá ráðgáta þrátt fyrir áralangar rannsóknir.‘

Er trúað fólk langlífara?

„Regluleg þátttaka í trúarlegu starfi helst í hendur við gott heilsufar og langlífi, að því er fram kemur í tölfræðilegri greiningu á 42 óháðum rannsóknum á þessu máli sem gerðar hafa verið frá 1977.“ Þetta kemur fram í tímaritinu Science News. „Vísindamenn segja að þeir sem stunda trú sína, einkum opinberlega, lifi lengur og munurinn sé tölfræðilega marktækur.“ Nokkrar hugsanlegar ástæður hafa verið nefndar til sögunnar — að trúað fólk forðist áhættuhegðun, hjónabönd séu traust á meðal þeirra, þunglyndi af óviðráðanlegum orsökum sé sjaldgæfara en hjá öðrum, félagsleg tengsl meiri og gott tilfinningalíf og jákvæð viðhorf. Í einni af skýrslunum segir: „Þeir sem sækja trúarsamkomur oft . . . eru langlífari, sérstaklega konur. Þeir sem sækja trúarsamkomur oft . . . töluðu um nánari félagstengsl og heilsusamlegra líferni og nefndu að depurð væri sjaldgæfari.“

Sýndarkirkja

Kaþólska erkibiskupsdæmið í Winnipeg í Manitoba í Kanada áformar „að setja upp tölvunet í þeim tilgangi að veita hinum trúuðu tækifæri til að líta um öxl, játa syndir sínar og leita ráða hjá presti gegnum tölvusamband,“ að sögn dagblaðsins Calgary Herald. Richard Osicki, fjölmiðlunarstjóri biskupsdæmisins, vonast til þess að tölvunetið hvetji sóknarbörnin til að hressa upp á trúarlífið en 75 prósent þeirra koma aldrei til kirkju. „Við erum að opna kirkjuna og bjóða upp á kirkjulega þjónustu utan sjálfra kirkjubygginganna. Við erum að segja að það sé hægt að eiga samskipti við Guð fyrir framan tölvuskjáinn,“ segir hann.