Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvar er bestu menntun að fá?

Hvar er bestu menntun að fá?

Hvar er bestu menntun að fá?

„Menntun er sálinni eins og höggmyndalistin er marmarablökk.“  — Joseph Addison, 1711.

FLESTIR hafa einhvern tíma gengið í skóla — en þó ekki allir. Ótal milljónir barna fá enga reglubundna menntun núna í upphafi 21. aldar. En það er svo sem engin nýlunda. Allt að milljarður fullvaxta manna er hvorki læs né skrifandi.

En góð undirstöðumenntun er afar mikilvæg. Margir líta ekki á hana sem ófáanlegan munað heldur sem sjálfsögð réttindi bæði barna og fullorðinna. En hvernig er hægt að veita fólki góða menntun án fjármagns og mannafla? Hvað er til ráða ef skortur er á skólum, bókum og hæfum kennurum?

Hvar er hægt að fá góða menntun sem örvar hvern og einn til þátttöku, eykur þekkingu manna á umheiminum og miðlar þeim andlegu gildismati sem getur breytt lífi þeirra til hins betra? Hvaða menntun heldur á loft heilnæmu siðferði, eykur lífsgæðin og veitir örugga von um góða framtíð? Eiga allir menn aðgang að slíkri menntun?

Undirstaða bestu menntunar

Þótt ótrúlegt kunni að virðast er hægt að svara þessum spurningum játandi. Góð menntun stendur öllum til boða vegna þess að til er áhrifamikið kennslugagn sem hægt er að byggja hana á. Þetta er aldagömul „kennslubók“ sem þýdd hefur verið á rösklega 2200 tungumál, annaðhvort í heild eða að hluta. Það má því segja að nánast allir jarðarbúar hafi aðgang að henni á tungumáli sem þeir skilja. Hvaða bók er þetta?

Þetta er Biblían sem margir hafa kallað mikilvægustu bók sögunnar. „Sá sem býr að staðgóðri þekkingu á Biblíunni getur kallast menntaður,“ skrifaði tuttugustu aldar fræðimaðurinn William Lyon Phelps. „Engin önnur menntun eða menning getur komið í stað hennar, . . . og gildir þá einu hve yfirgripsmikil eða fáguð hún er.“

Biblían er samsafn bóka sem skrifaðar voru á 1600 ára tímabili. Phelps segir um þetta bókasafn: „Hugmyndir okkar, viska, heimspeki, bókmenntir, listir og hugsjónir sækja meira til Biblíunnar en til allra annarra bóka samanlagt. . . . Ég álít að biblíuþekking án háskólamenntunar sé verðmætari en háskólamenntun án biblíuþekkingar.“

Samfélag kristinna votta Jehóva stendur fyrir einstæðri biblíufræðslu á heimsmælikvarða. Og þessi fræðsla er ekki aðeins fólgin í lestrar- og skriftarkennslu heldur einnig hugar- og siðferðisþroska. Hún hefur uppbyggileg áhrif á framtíðarsýn fólks og veitir því þá von að framtíðin verði betri en fortíðin.

Lestu greinina hér á eftir og kynntu þér hvað er fólgið í þessari menntun fyrir lífið.