Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Páfagarði vikið úr Sameinuðu þjóðunum?

Páfagarði vikið úr Sameinuðu þjóðunum?

Páfagarði vikið úr Sameinuðu þjóðunum?

INTER Press Service fréttastofan (IPS) í Róm greindi frá því að „alþjóðlegt bandalag meira en 70 samtaka, sem ríkisstjórnir eiga ekki aðild að, hafi hrundið af stað herferð til að fá Páfagarði vikið úr Sameinuðu þjóðunum.“ Sem stendur er Páfagarður áheyrnarríki innan Sameinuðu þjóðanna en ekki aðildarríki og hefur haft þessa stöðu frá árinu 1964.

Í apríllok árið 1999 hafði andstöðusamtökunum fjölgað í 100 um heim allan. Hvers vegna mótmæla þau stöðu Páfagarðs innan Sameinuðu þjóðanna? Vegna þess að þau halda því fram að yfirráð Páfagarðs séu trúarlegs eðlis en hann sé ekki pólitískt ríki. Frances Kissling, formaður félags frjálslyndra kaþólikka, tjáði IPS-fréttastofunni að bandalagið væri ekki andvígt því að Páfagarður fengi að láta skoðanir sínar í ljós en það „véfengir rétt Páfagarðs til að sitja við sama borð og ríkisstjórnir þar eð hann sé ekki ríki.“

Anika Rahman, forstjóri alþjóðaáætlana við miðstöð um getnaðarlöggjöf, tekur í sama streng. IPS-fréttastofan hefur eftir henni að „líti Sameinuðu þjóðirnar á páfastólinn sem áheyrnarríki sökum trúarlegra áhrifa hans séu þær að skapa fordæmi fyrir sams konar kröfum annarra trúfélaga.“ Hún bætir við: „Til að tryggja að Sameinuðu þjóðirnar dragi ekki taum neinna trúarbragða ætti ekki að leyfa trúfélögum á borð við rómversk-kaþólsku kirkjuna að taka þátt í þessum umræðufundum sem áheyrnarríki.“

En hvað um þau rök að Páfagarður sé ríki og eigi þar af leiðandi tilkall til núverandi stöðu? „Það er vafasamt og villandi að kalla Páfagarð ríki,“ svarar Kissling í viðtali. „Að okkar mati er hér á ferðinni 15. aldar skilgreining á ríki og páfastóllinn er í reynd stjórnkerfi þessara trúarbragða.“ Hún bætir við að hugtökin „Páfagarður“ og „páfastóll“ séu „samheiti yfir rómversk-kaþólsku kirkjuna.“

Andstaðan við núverandi stöðu Páfagarðs innan Sameinuðu þjóðanna er aðallega tilkomin vegna afstöðu hans til mannfjölgunarmála. Páfagarður hefur til dæmis notfært sér ráðstefnur Sameinuðu þjóðanna, eins og Mannfjöldaráðstefnuna í Kaíró árið 1994 og Kvennaráðstefnuna í Pekíng árið 1995, til að lýsa eindreginni afstöðu gegn takmörkun barneigna. „Þar eð Sameinuðu þjóðirnar byggja flestar ályktanir á almennu samkomulagi,“ segir IPS-fréttastofan, „hafa andmæli Páfagarðs sett samningaviðræður um mannfjölda, getnaðarvarnir, kvenréttindi og tæknifrjóvganir út af sporinu.“

„Það á ekki að flokka Páfagarð sem ríki heldur sem samtök, líkt og þau sem koma fram fyrir hönd múslima, hindúa, búddhista, bahaía og annarra trúfélaga,“ segir Kissling. Bandalagið vill að Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og síðan allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, endurmeti stöðu Páfagarðs innan þessara stærstu stjórnmálasamtaka heims.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Fulltrúi Páfagarðs ávarpar Sameinuðu þjóðirnar.

[Credit lines]

Ljósmynd: UN/DPI, Sophie Paris

Ljósmynd: UN 143-​936/J. Isaac