Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Á hjónabandið að endast ævilangt?

Á hjónabandið að endast ævilangt?

Sjónarmið Biblíunnar

Á hjónabandið að endast ævilangt?

ER NOKKUR ástæða til að spyrja svona? Eiga ekki hjón að halda saman ‚í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þeim að höndum bera‘ uns dauðinn aðskilur? Jú, í þeim hjúskaparheitum, sem brúður og brúðgumi játast undir víða um heim, er talað um ævilanga tryggð. En margir virða þessi hátíðlegu heit lítils. Hjón skilja unnvörpum — sum eftir fáeina mánuði en önnur eftir áratugalangt hjónaband. Af hverju bera menn sífellt minni virðingu fyrir hjónabandinu? Biblían svarar því.

Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:​1-3 og berðu það saman við það sem þú sérð í kringum þig. Versin segja að hluta til: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, . . . vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, . . . taumlausir.“ Nákvæmni spádómsins er óneitanlega sláandi. Þau viðhorf og það hátterni, sem hann lýsir, hafa veikt og skemmt hjónabönd um heim allan og það birtist í tíðum hjónaskilnuðum.

Ljóst er að margir hafa glatað virðingunni fyrir hjónabandinu. Í ljósi þess má spyrja hversu alvarlega okkur beri að taka hjónavígsluheitið. Er hjónabandið heilagt eins og stundum er sagt? Hvernig ber kristnum mönnum að líta á hjónaband? Hvernig getur Biblían hjálpað hjónum?

Hefur Guð skipt um skoðun?

Guð talaði ekki um hjónabandið sem stundlegt samband í upphafi. Í frásögunni af því er hann leiddi fyrsta manninn og fyrstu konuna saman í hjónaband er hvergi minnst á hugsanlegan skilnað. (1. Mósebók 2:​21-24) Þar segir hins vegar í 24. versinu: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“ Hvað merkir þetta?

Hinir ólíku vefir mannslíkamans eru samtvinnaðir með óaðfinnanlegum hætti og beinamótin eru sterk og næstum viðnámslaus. Líkaminn er óviðjafnanlegt dæmi um einingu og styrk. En sársaukinn er líka mikill ef líkaminn verður fyrir alvarlegum meiðslum. Orðin „eitt hold“ í 1. Mósebók 2:24 leggja því áherslu á hið sterka og varanlega samband sem hjónabandið á að vera. Og þau gefa óneitanlega í skyn að það megi búast við að slit hjónabands séu mjög sársaukafull.

Þó svo að mannleg viðhorf hafi sveiflast fram og aftur eftir breytilegum tískustraumum og stefnum liðinna árþúsunda er hjónabandið enn þá ævilöng skuldbinding í augum Guðs. Fyrir 2400 árum var það orðið nokkuð algengt meðal Gyðinga að menn yfirgæfu fyrstu eiginkonu sína og fengju sér yngri konu. Guð fordæmdi þetta og sagði fyrir munn spámannsins Malakís: „Gætið yðar . . . í huga yðar, og bregð eigi trúnaði við eiginkonu æsku þinnar. Því að ég hata hjónaskilnað — segir [Jehóva], Ísraels Guð.“ — Malakí 2:​15, 16.

Rúmlega fjórum öldum síðar staðfesti Jesús að afstaða Guðs til hjónabandsins væri óbreytt. Hann vitnaði í 1. Mósebók 2:24 og sagði svo: „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ (Matteus 19:​5, 6) Mörgum árum síðar gaf Páll postuli þau fyrirmæli að „konan skuli ekki skilja við mann sinn“ og að „maðurinn skuli ekki heldur skilja við konuna.“ (1. Korintubréf 7:​10, 11) Þessir ritningarstaðir lýsa afstöðu Guðs til hjónabandsins mjög vel.

Gefur Biblían einhvern möguleika á því að hjónabandi sé slitið? Já, annars vegar slitnar hjónabandið ef annað hjónanna deyr. (1. Korintubréf 7:39) Hins vegar getur hinn saklausi slitið hjónabandinu ef makinn er ótrúr. (Matteus 19:⁠9) Að öðrum kosti hvetur Biblían hjón til að halda saman.

Að treysta hjónabandið

Það er vilji Guðs að hjónabandið endist og sé hamingjusamt, ekki aðeins að það skrimti. Hann vill að hjón leysi vandamál sín og njóti þess að vera saman. Í orði hans er uppskrift að hamingjuríku og traustu hjónabandi. Líttu á eftirfarandi ritningargreinar.

Efesusbréfið 4:26: „Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“ * Hamingjusamur eiginmaður álítur að þessi ritningargrein hjálpi sér og eiginkonu sinni að leysa ágreiningsmál sín fljótt og vel. „Það er eitthvað að ef maður getur ekki sofnað eftir að komið hefur til ágreinings. Það má ekki láta vandamálið vera óleyst,“ segir hann. Stundum hafa þau hjónin rætt málin langt fram á nótt. Hann segir að það hrífi: „Það skilar prýðisgóðum árangri að fara eftir meginreglum Biblíunnar.“ Þau hjónin hafa gert það og eiga nú 42 hamingjusöm ár að baki.

Kólossubréfið 3:13: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum.“ Annar eiginmaður lýsir því hvernig þau hjónin hafa farið eftir þessu: „Hjón geta pirrað hvort annað án þess að gera nokkuð rangt í sjálfu sér, því að allir hafa sína galla og ávana sem geta farið í taugarnar á öðrum. Við umberum hvort annað með því að láta ekkert slíkt komast upp á milli okkar.“ Þessi afstaða á eflaust sinn þátt í því að þessi hjón eiga nú að baki 54 ára farsælt hjónaband.

Þessar meginreglur Biblíunnar hjálpa hjónum að styrkja böndin sín á milli með þeim árangri að þau eru hamingjusöm og hjónabandið endist ævilangt.

[Neðanmáls]

^ Deginum lauk við sólsetur samkvæmt þeim tímareikningi sem tíðkaðist í Miðausturlöndum á fyrstu öld. Páll var því að hvetja lesendur sína til að útkljá ágreiningsmál áður en dagur væri úti.