Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Óhugnanlegar alnæmistölur

Óhugnanlegar alnæmistölur

Óhugnanlegar alnæmistölur

Eftir Fréttaritara Vaknið! Í Suður-afríku

THEMBEKA er 12 ára og býr í sveitaþorpi í sunnanverðri Afríku. Þegar foreldrar hennar dóu úr alnæmi þurfti hún að annast systur sínar þrjár sem voru tíu, sex og fjögurra ára. „Stúlkurnar hafa engar tekjur og eru algerlega upp á góðvild nágranna sinna komnar . . . að stungið sé að þeim brauðhleif eða fáeinum kartöflum,“ sagði fréttamaður. Mynd af þessum fjórum, munaðarlausu stúlkum birtist á forsíðu dagblaðs í Suður-Afríku ásamt frétt af þrettándu alþjóðaráðstefnunni um alnæmi sem haldin var í Durban í Suður-Afríku í júlí á síðasta ári.

Milljónir barna hafa misst foreldra sína úr alnæmi og eru í svipaðri aðstöðu og Thembeka og systur hennar. Á ráðstefnunni var rætt um aðferðir til að bregðast við vaxandi útbreiðslu alnæmis, svo sem fræðslu um notkun smokka til varnar gegn smiti, um ódýrari meðferð við alnæmi sem nú er völ á og um aukið fjármagn til þróunar bóluefnis gegn alnæmi. Einnig var fjallað um varnarleysi kvenna, einkum ungra stúlkna, gegn sjúkdómnum.

Því miður er algengt að karlar leiti uppi munaðarlausar stúlkur, sem hafa misst foreldra sína úr alnæmi, í þeirri trú að kynmök við ósnortna stúlku lækni samræðissjúkdóma. Og algengt er að karlmaður vilji ekki giftast stúlku nema hún hafi eignast barn fyrst. Notkun smokka er því bæði álitin hindrun í vegi hjónabands og móðurhlutverks.

Stúlkum er oft ókunnugt um hættuna á alnæmissmiti. Suður-afríska dagblaðið Sowetan fjallaði um skýrslu sem Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna birti á ráðstefnunni. Blaðið sagði: „Kannanir Barnahjálparinnar sýndu að 51 prósent suður-afrískra stúlkna á aldrinum 15 til 19 ára vissu ekki að karlmaður getur verið HIV-smitaður og smitað þær þó að hann sé heilbrigður að sjá.“

Kynferðisofbeldi gegn konum á líka þátt í útbreiðslu alnæmis. Ranjeni Munusamy, sem sótti ráðstefnuna, sagði í dablaðinu Sunday Times í Jóhannesarborg í Suður-Afríku: „Ofbeldi gegn konum er óhugnanlegasta mynd karlaveldis og tálmar verulega vörnum gegn HIV-smiti og umönnun smitaðra. Ofbeldið birtist í mörgum myndum — nauðgunum, sifjaspelli, heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi — og það merkir að konur eru oft neyddar til kynmaka sem eykur í sjálfu sér hættuna á HIV-smiti.“

Uggvekjandi tölur voru birtar á ráðstefnunni eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti. Talið er að 7000 ungmenni og 1000 ungbörn smitist af HIV-veirunni daglega. Árið 1999 misstu um 860.000 börn í Afríku sunnan Sahara kennarann sinn af völdum alnæmis.

Samkvæmt könnun Læknisfræðirannsóknaráðs Suður-Afríku eru 4,2 milljónir Suður-Afríkubúa HIV-smitaðar. Það svarar til þess að 1 af hverjum 10 landsmönnum sé smitaður. Ástandið er enn verra í grannlöndunum. Dagblaðið The Natal Witness vitnar í matstölur bandarísku manntalsskrifstofunnar: „Milljónir manna munu deyja af völdum sjúkdómsins í sumum hinna alnæmishrjáðu landa Afríku, lífslíkur fólks munu hrapa niður í hér um bil 30 ár í lok þessa áratugar og íbúum fækka.“

Alnæmisfárið er enn eitt merki þess að mannkynið lifir á þeim ‚örðugu tíðum‘ sem Biblían sagði myndu einkenna ‚síðustu daga.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:​1-5) Þeir sem unna Biblíunni hlakka til þess tíma er alnæmisvandinn og öll önnur vandamál, sem hrjá mannkynið, verða leyst endanlega og fullkomlega. Innan skamms tekur ríki Guðs við stjórninni yfir jörðinni. Þá tekur við nýr og réttlátur heimur þar sem fátækt og kúgun heyra sögunni til. (Sálmur 72:​12-14; 2. Pétursbréf 3:13) Þá verða jarðarbúar alheilbrigðir og enginn mun segja: „Ég er sjúkur.“ — Jesaja 33:⁠24.

[Innskot á blaðsíðu 14]

Um 13.000.000 barna í heiminum hafa misst foreldra sína úr alnæmi.

[Tafla/kort á blaðsíðu 15]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

FJÖLDI FULLORÐINNA (15 TIL 49 ÁRA) MEÐ HIV/ALNÆMI Í ÁRSLOK 1999

Norður-Ameríka 890.000

Karíbahaf 350.000

Rómanska Ameríka 1.200.000

Vestur-Evrópa 520.000

Mið- og Austur-Evrópa 410.000

Norður-Afríka og Miðausturlönd 210.000

Afríka sunnan Sahara 23.400.000

Suður- og Suðuaustur-Asía 5.400.000

Austur-Asía og Kyrrahaf 530.000

Ástralía og Nýja-Sjáland 15.000

[Credit line]

Heimild: UNAIDS

[Tafla/kort á blaðsíðu 15]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

HUNDRAÐSHLUTI FULLORÐINNA (15 til 49 ára) MEÐ HIV/ALNÆMI Í 16 AFRÍKULÖNDUM Í ÁRSLOK 1999

1 Botsvana 35,8

2 Svasíland 25,2

3 Simbabve 25,0

4 Lesótó 23,5

5 Sambía 20,0

6 Suður-Afríka 20,0

7 Namibía 19,5

8 Malaví 16,0

9 Kenía 14,0

10 Mið-Afríkulýðveldið 14,0

11 Mósambík 13,2

12 Djíbútí 11,7

13 Búrúndí 11,3

14 Rúanda 11,2

15 Fílabeinsströndin 10,7

16 Eþíópía 10,6

[Credit line]

Heimild: UNAIDS

[Mynd á blaðsíðu 15]

Thembeka með systrum sínum.

[Credit line]

Ljósmynd: Brett Eloff