Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Annir og álag nútímans

Annir og álag nútímans

Annir og álag nútímans

FINNST ÞÉR LÍFIÐ STUNDUM VERA ENDALAUST KAPPHLAUP VIÐ TÍMANN? ERTU VONSVIKINN, ÞREYTTUR OG ALVEG AÐ GEFAST UPP? EF SVO ER, ÞÁ ERTU EKKI EINN UM ÞAÐ.

MILLJÓNUM manna finnst lífið vera eitt óslitið og lýjandi kapphlaup. Þetta á ekki síst við í borgum Vesturlanda. Þegar ræðumaður á trúarsamkomu vestanhafs bað áheyrendur að rétta upp höndina ef þeim fyndist þeir vera þreyttir flestum stundum var ekki að sökum að spyrja, við honum blasti skógur af höndum.

„Lífið er fullt af álagi sem þekktist ekki áður fyrr — það þarf að ná flugvél, ljúka einhverju fyrir eindaga, fara með börn í leikskóla og sækja þau á réttum tíma — upptalningin er endalaus,“ segir í bókinni Why Am I So Tired?  Það kemur ekki á óvart að þreyta skuli vera kölluð bölvun nútímans. *

Lífið var einfaldara hér áður fyrr og gangurinn hægari. Fólk lagaði sig meira að hringrásum náttúrunnar. Menn unnu á daginn, eyddu kvöldinu með fjölskyldunni og sváfu á nóttinni. En það eru margar ástæður fyrir því að fólk er þreyttara en áður var eða hreinlega kúguppgefið.

Daginn lengdi allt í einu

Svefntíminn er eitt af því sem hefur breyst. Margir sofa minna en áður. Fátt hefur saxað meira á svefntímann en raflýsingin. Allt í einu þurfti ekki annað en að smella rofa til að stjórna lengd „dagsins“ og menn fóru fljótlega að vera lengur á fótum en áður. Margir áttu reyndar engra kosta völ því að verksmiðjur fóru að starfa allan sólarhringinn og þjónustufyrirtæki lengdu afgreiðslutímann. „Sólarhringsþjóðfélagið varð til,“ skrifaði rithöfundur nokkur.

Ýmsar aðrar tækniframfarir, svo sem útvarpið, sjónvarpið og einkatölvan, hafa átt sinn þátt í því að ræna fólk nauðsynlegum svefni. Víða um lönd senda sjónvarpsstöðvar út allan sólarhringinn. Það er ekki óalgengt að kvikmyndaunnendur og íþróttaáhugamenn mæti þreyttir og vansvefta til vinnu eftir langa næturtörn fyrir framan skjáinn. Heimilistölvan og hin endalausa afþreying, sem hún býður upp á, lokkar líka margan manninn til að vaka fram eftir. Það er auðvitað ekki hægt að kenna tækjunum beinlínis um þetta. Hins vegar eru þau sumum hvati til að hunsa hvíldarþörfina.

Hraðinn eykst

Það er ekki aðeins að daginn hafi lengt heldur virðist hraðinn líka hafa aukist — og tæknin hefur líka greitt fyrir því. Hestvagninn, sem notaður var fyrir tæpri öld, er harla ólíkur kraftmiklum bílum, hraðlestum og þotum okkar daga. Nú getur kaupsýslumaður flogið yfir Atlantshaf á milli matmálstíma. Afi hans hefur trúlega farið gangandi í vinnuna, hjólandi eða á hestbaki.

Það hefur líka orðið hljóðlát bylting á skrifstofunni í þágu hraða og afkasta. Ritvélar og venjulegur póstur er að nokkru leyti vikinn fyrir tölvum, bréfasímum og tölvupósti. Fartölvur, farsímar og símboðar hafa jafnvel minnkað muninn á heimilinu og skrifstofunni.

Enginn getur auðvitað hægt á umheiminum. Hins vegar getum við, hvert og eitt, breytt ýmsu hjá okkur til að gera lífið hæglátara. En áður en við lítum nánar á það skulum við virða aðeins fyrir okkur þau áhrif sem álag og annríki nútímans hafa á okkur sem einstaklinga og á þjóðfélagið í heild.

[Neðanmáls]

^ Margt annað en daglegt álag og spenna getur valdið stöðugri þreytu eða ýtt undir hana. Orsakirnar geta verið líkamlegar, svo sem kvillar og sjúkdómar, lélegt mataræði, aukaverkun lyfja, mengun, ellihrörnun; tilfinningaleg eða geðræn vandamál, eða sambland af einhverju af þessu.