Horft á heiminn
Horft á heiminn
Rosknir geta lært
Rosknum starfsmönnum þykir stundum taugatrekkjandi að tileinka sér nýja tækni og kunnáttu á vinnustað, svo sem tölvu- og upplýsingatækni. Frá þessu er greint í dagblaðinu Toronto Star. Ann Eby, sérfræðingur í atvinnuþróunarmálum, segir að vandinn felist oft meira í því hvernig fólk lærir en hvað það lærir. Julia Kennedy, forstjóri starfsmenntunarfyrirtækisins Axiom Training and Development, segir að „með aldrinum hægi á taugastarfseminni þó að heilinn sé við hestaheilsu.“ Hún bendir á að börn séu leikin í að læra með endurtekningu án þess að gefa mikinn gaum að innihaldi, en að „fullorðnir þurfi að tengja nýja þekkingu við fyrri þekkingu (reynslu).“ Rosknir starfsmenn eru fullfærir um að læra að vinna flókin störf, þó svo að þeir geti þurft lengri tíma til þess en ungir starfsmenn. Kennedy leggur til að rosknir starfsmenn reyni eftirfarandi þegar þeir þurfa að læra ný og flókin störf: Reynið að skipuleggja náms- og þjálfunartímann að morgni, reynið að ná tökum á heildarhugmyndinni en ekki öllum smáatriðum og forðist að bera ykkur saman við aðra.
Ranghugmynd um reykingamenn
„Því hefur verið haldið fram að reykingamenn kosti heilbrigðiskerfið minna en aðrir af því að þeir deyi fyrr. Þetta er rangt,“ segir í kanadíska dagblaðinu Globe and Mail. Hollenskir vísindamenn rannsökuðu heilsu um 13.000 Hollendinga og Bandaríkjamanna og komust að þeirri niðurstöðu að þeir sem ekki reykja séu óvinnufærir skemmri tíma en reykingamenn. Dr. Wilma Nusselder starfar við heilbrigðisfræðideild Erasmusarháskóla í Rotterdam. Hún segir: „Með því að hætta reykingum má bæði lengja lífið og fjölga þeim árum sem maður býr við óskerta starfsgetu, en einnig stytta þann tíma sem starfsgeta er skert.“ Að sögn dagblaðsins „reykja um 1,15 milljarðar manna í heiminum sem er þriðjungur allra fullorðinna jarðarbúa. Um 943 milljónir þessara reykingamanna búa í þróunarlöndunum.“
Rifrildi og hjónaband
Í nýrri rannsókn Andrews Christensens við Kaliforníuháskóla í Los Angeles kemur í ljós að „þau hjónabönd eru farsælust þar sem hjónin eru ekki gagnrýnin og eru umburðarlynd gagnvart skoðunum hins.“ Þetta kemur fram í tímaritinu Time. Rifrildi eru hins vegar oft ávísun á ný rifrildi.
„Heilkenni nýríkra“
„Milljónamæringum í Bandaríkjunum og Kanada hefur fjölgað um næstum 40% frá 1997 og eru þeir nú orðnir 2,5 milljónir,“ að sögn kanadíska dagblaðsins National Post. Blaðið bendir á að margt ungt fólk hafi hagnast verulega í tæknigeiranum. En sálfræðingurinn Stephen Goldbart bendir á að það kunni ekki allir að fara með hið nýfengna ríkidæmi. „Það getur eyðilagt líf þeirra, sundrað fjölskyldum og leitt þá út í sjálfseyðileggingu. Peningar eru ekki alltaf ávísun á frið og lífsfyllingu,“ segir hann. Sumir sálfræðingar segja að tæknigeirinn hafi búið til „nýjan sjúkdóm — heilkenni nýríkra.“ Einkennin eru alvarlegt þunglyndi, kvíðaköst og svefnleysi. National Post nefnir að „sumt nýríkt fólk finni til sektarkenndar yfir því að eiga svona mikið fé og finnist það ekki eiga rétt á því eða verðskulda það.“ Sumir verða sjúklega tortryggnir og óttast að aðrir misnoti sér þá. Goldbart hvetur vansæla auðmenn til að virkja krafta sína í þágu samfélagsins í stað þess að gefa einungis fé til góðgerðamála.
Ískrybban er ótrúleg
Bráðlega kemur út bók sem nefnist Handbook of Insects. Í henni er ein fyrsta myndin sem birt hefur verið af hinni sjaldgæfu „ískrybbu“ sem á heimkynni sín í Klettafjöllum og á vissum svæðum í Rússlandi. Þetta kemur fram í Lundúnablaðinu The Sunday Telegraph. Skordýrið, sem heitir réttu nafni steinkrybba, lifir á fjöllum uppi og nærist á skordýraleifum sem berast með vindinum og skordýrum sem hún veiðir. Steinkrybban er fölbrún og gul á lit, er vængjalaus en með langa fálmara, og ungarnir líkjast óþroskuðum klaufhala. Steinkrybban er allt að þrír sentímetrar á lengd og tilheyrir ættbálki skordýra sem uppgötvaðist fyrir tæpri öld. „Hún hefur aðlagast kuldanum svo vel að hún deyr úr hitaslagi ef maður heldur henni í lófa sér,“ segir í dagblaðinu. Höfundur bókarinnar, dr. George McGavin, við Náttúrusögusafn Oxfordháskóla, vekur athygli á því að ekki sé búið að flokka nema fimmtung af skordýrum jarðar.