Kapphlaupið kostar sitt
Kapphlaupið kostar sitt
HINN VESTRÆNI HEIMUR ER YFIR SIG HRIFINN AF HRAÐA OG ÞÆGINDUM.
UPPÞVOTTAVÉLAR spara tíma í eldhúsinu. Þvottavélar létta störfin í þvottahúsinu. Milljónir manna þurfa ekki einu sinni að fara út fyrir hússins dyr til að kaupa inn eða eiga bankaviðskipti. Menn kveikja bara á tölvunni og nota Netið.
Heimurinn er, að minnsta kosti víða, stútfullur af alls konar tækjum og tækni sem spara okkur tíma. Maður skyldi því ætla að fólk hefði feikinógan tíma aflögu til að vera með fjölskyldunni og slaka á. En margir segjast vera þreyttari og strekktari en nokkru sinni fyrr. Og orsakirnar eru margar og margslungnar.
Ein af meginorsökunum er fjárhagslegs eðlis. Rannsókna- og þjálfunarmiðstöð atvinnulífsins í Ástralíu kannaði vinnutíma fólks þar í álfu og komst að þeirri niðurstöðu að „talsverður hluti manna ynni að jafnaði lengur en 49 stundir í viku“ og að „þessi vinnutímaaukning hefði líklega töluvert skaðleg áhrif á fjölskyldulíf og samfélagið.“ Margir kjósa að búa í úthverfum þar sem umhverfið er grænna og gróður meiri en í innri borgarhverfum. Það getur kostað nokkrar klukkustundir í viku — jafnvel nokkrar klukkustundir á dag — í ferðir með yfirfullum lestum og strætisvögnum eða í lúshægri umferð á einkabílnum. Segja má að þetta hafi lengt vinnudaginn og álagið sem því fylgir.
Skuldarðu líkamanum svefn?
Svefntruflanir eru orðnar svo algengt vandamál á síðstu árum að sérstakar stöðvar hafa verið opnaðar víða um lönd til að rannsaka þær og leita ráða við þeim. Vísindamenn hafa komist að raun um að fólk, sem sefur ekki nóg að staðaldri, safnar sér eins konar svefnskuld. Líkaminn vill auðvitað greiða skuldina og reynir það með því að þreytast og syfja. En lífsstíll nútímans gerir ekki ráð fyrir nægum svefntíma svo að margir eru síþreyttir.
Í einu landi í hinum vestræna heimi hefur svefntíminn styst um 20 prósent á liðinni öld, úr níu stundum í sjö að meðaltali. Vísindamenn hafa hrúgað upp sönnunargögnum fyrir því að ónógur svefn um langan tíma valdi náms- og minnisörðugleikum, afturför í hreyfileikni og ónæmisbælingu. Flestir þekkja líka af eigin raun að þeim er hættara við mistökum þegar hugurinn er þreyttur. Því miður geta slík mistök reynst bæði dýr og afdrifarík.
Þreytan er dýrkeypt
Því er haldið fram að rekja megi sum alvarlegustu slys á síðari hluta 20. aldar til þreytu sem stafi af löngum vinnudegi og fækkun starfsmanna. Þar nefna menn til sögunnar kjarnorkuslysið í Tsjernobyl í Úkraínu, sprenginguna í geimskutlunni Challenger og olímengunina sem varð þegar olíuskipið Exxon Valdez strandaði á rifi í Prince Williams sundi við Alaska.
Sprengingin í Tsjernobyl átti sér stað þegar verið var að gera prófanir í kjarnorkuverinu. Martin Moore-Ede segir í bók sinni, The 24-Hour Society, að prófunin hafi verið „gerð undir eftirliti úrvinda rafmagnsverkfræðinga sem höfðu verið við vinnu í verinu í að minnsta kosti þrettán klukkustundir og sennilega lengur, því að það varð tíu klukkustunda töf á því að leyfi fengist til að hefjast handa.“ En hver sem orsök slyssins var hefur geislamengunin, sem það olli, meðal annars valdið því að tíðni skjaldkirtilskrabbameins í úkraínskum börnum hefur tífaldast síðan 1986. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn.
Eftir ítarlega rannsókn á sprengingunni, sem varð í Challenger-geimskutlunni, komst nefnd á vegum Bandaríkjaforseta að þeirri niðurstöðu að einn hópur verktakastarfsmanna hefði farið 480 sinnum yfir 20 stunda yfirvinnustundahámarkið og annar hópur 2512 sinnum. Í skýrslu nefndarinnar segir að þreyttir stjórnendur, sem höfðu „unnið á óreglulegum tíma í nokkra daga og ekki fengið nægan svefn,“ hefðu einnig átt sinn þátt í því að geimskutlan var sögð skothæf þótt svo væri ekki. Í skýrslunni var á það bent að „óhófleg yfirvinna dragi úr skilvirkni starfsmanna og auki hættuna á mannlegum mistökum.“
Forystumenn sjómannasamtaka segja að fækkun í áhöfn, sem sögð var gerð til að draga úr rekstrarkostnaði, hafi haft í för með sér að áhöfn olíuskipsins Exxon Valdez þurfti að vinna yfirvinnu og taka á sig aukin verkefni. Í skýrslu um slysið segir að þriðji stýrimaður, sem stjórnaði skipinu þegar það strandaði skömmu eftir miðnætti, hefði verið á fótum frá því snemma morguns. Næstum 42 milljónir lítra af olíu fóru í sjóinn. Þetta var mesta
olíuslys í sögu Bandaríkjanna og olli gríðarlegu tjóni á fjörum og lífríki. Hreinsun kostaði meira en 176 milljarða króna.Lúmskari áhrif þreytunnar
Áætlað er að lúi og þreyta kosti heiminn að minnsta kosti 33 þúsund milljarða íslenskra króna á hverju ári! En kostnaðurinn í mannslífum og heilsutjóni verður aldrei metinn til fjár. Tökum umferðarslysin sem dæmi. Við meðferðarstöð vegna svefntruflana í Sydney í Ástralíu er því haldið fram að 20 til 30 prósent allra umferðarslysa þar í landi stafi af því að ökumenn sofni undir stýri. Í Bandaríkjunum er talið að rekja megi að minnsta kosti 100.000 umferðarslys á hverju ári til syfju.
En það er ekki víst að afleiðingar þreytu og syfju séu endasleppar þar. Slösuðum manni er ekið í loftköstum á spítala þar sem hann þarf að gangast undir aðgerð. Hann vonast auðvitað til að hitta fyrir óþreyttan og árvakan lækni. En læknirinn er kannski allt annað en óþreyttur og árvakur eftir erilsaman og langan vinnudag. Í frétt frá áströlsku Heilbrigðis- og tryggingastofnuninni kemur fram að hér um bil 10 prósent lækna vinna meira en 65 stundir í viku, 17 prósent allra sérfræðinga vinna lengur en það og 5 prósent unglækna vinna meira en 80 stundir í viku!
„Það eru settir viðvörunarmiðar á vélar og þeim fylgja leiðarvísar og námskeið í notkun þeirra,“ segir Martin Moore-Ede. „Mennirnir njóta ekki þessarar verndar þegar þeir koma í heiminn. . . . Það er næstum fáránlegt að við skulum hafa miklu lakari tæknilýsingu á mannverunni en á þeim vélbúnaði og hugbúnaði sem hún stjórnar.“
Líkaminn er ekki búinn viðvörunarbjöllum og rauðum ljósum sem blikka til að segja okkur að hægja á ferðinni eða nema staðar. En líkaminn varar okkur samt við, til dæmis með þrálátri þreytu, skapsveiflum, depurð og næmi fyrir algengum veirusýkingum. Ef þú hefur þessi einkenni — og við gefum okkur að það búi enginn sjúkdómur eða heilsuvandi að baki — þá ættirðu kannski að skoða lífsstílinn hjá þér.
Félagslegi kostnaðurinn
Streitan og svefnskorturinn, sem einkennir lífsstíl margra, kemur líka niður á samskiptum fólks. Lítum á hjónin Jón og Maríu sem dæmi. * Þau voru nýgift og þráðu það sama og flest nýgift hjón — þægilegt heimili og fjárhagslegt öryggi — svo að þau réðu sig bæði í fulla vinnu. Þau unnu á óreglulegum vöktum og voru því lítið saman. Það kom fljótlega niður á sambandi þeirra, en þau létu sem þau sæju ekki hættumerkin og keyrðu sig áfram. Hveitibrauðsdagarnir voru varla liðnir þegar upp úr slitnaði hjá þeim.
„Rannsóknir sýna að hjónaskilnaðir eru 60 prósent algengari hjá hjónum í vaktavinnu en The 24-Hour Society. En hvort sem hjón vinna á vöktum eða ekki er algengt að fólk troðfylli líf sitt af alls konar verkefnum með þeim afleiðingum að hjónabandið verður út undan. Hjá sumum veldur streitan og þreytan því að þeir lenda í vítahring drykkju, fíkniefnaneyslu og lélegs mataræðis sem bæði magnar þreytuna og hefur í för með sér mörg önnur vandamál, jafnvel ofbeldi gagnvart börnum.
hjónum í dagvinnu,“ að sögn bókarinnarLeikskólum og barnaheimilum hefur verið fjölgað til að hjálpa foreldrum í glímunni við annríkið, og þess eru jafnvel dæmi að boðið sé upp á sólarhringsgæslu. Oft er þó sjónvarpið hin raunverulega barnfóstra. En eigi börnin að verða ábyrgir og geðfastir einstaklingar þegar þau vaxa úr grasi, þá þurfa þau að njóta athygli og tíma foreldra sinna í ríkulegum skömmtum. Ef foreldrarnir eru að reyna að halda uppi hærri lífskjörum en þeir ráða við og eru þar af leiðandi of þreyttir til að sinna börnunum, þá er skynsamlegt að reikna kostnaðinn — fyrir þá sjálfa og börnin.
Roskið fólk líður oft líka fyrir hraða hins tæknivædda nútímaþjóðfélags. Margir eru ráðvilltir, óöruggir, hræddir eða finnst þeir úreltir sökum hinna öru breytinga og hins stöðuga straums nýrra tækja inn á markaðinn. Hvað ber framtíðin í skauti sínu fyrir þá?
Erum við öll, ung sem gömul, hjálparvana fórnarlömb heims sem virðist staðráðinn í að auka hraðann á lífinu jafnt og þétt? Eða getum við haft betur í glímunni og aukið lífsgæði okkar um leið? Sem betur fer getum við ýmislegt gert eins og fram kemur í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
^ Nöfnunum er breytt.
[Mynd á blaðsíðu 6]
Hugsanlegt er að þreyta hafi átt sinn þátt í kjarnorkuslysinu í Tsjernobyl, sprengingunni sem grandaði geimferjunni Challenger og strandi olíuskipsins Exxon Valdez.
[Credit lines]
Með góðfúslegu leyfi U.S. Department of Energy’s International Nuclear Safety Program.
Ljósmynd: NASA
[Mynd á blaðsíðu 7]
Erill og álag lífsins geta reynt á þolrif hjóna.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Sumir drekka til að reyna að standast álagið.