Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leyndardómurinn um Nan Madol

Leyndardómurinn um Nan Madol

Leyndardómurinn um Nan Madol

Hvejir reistu ‚Feneyjar Suðurhafa‘? Hvernig var það gert? Af hverju voru þær yfirgefnar?

HEFURÐU gaman af leyndardómum með ævintýralegu ívafi? Þá ættirðu að skoða Nan Madol, aldagamlar rústir sem þykja hin mesta ráðgáta.

Nan Madol er forvitnilegt völundarhús af manngerðum smáeyjum og skurðum, sem gert var fyrir þúsund árum á rifi úti fyrir eynni Ponape í Míkrónesíu. * Við nálgumst rústirnar á báti en sjáum þær ekki þar sem þær eru huldar fenjaviði og þéttum hitabeltisgróðri. En svo beygir sundið og þetta verkfræðiundur blasir skyndilega við sýn.

Fyrst blasa við miklir múrar á lengd við stórt fjölbýlishús. Þeir eru hlaðnir úr gríðarstórum, krosslögðum basaltstuðlum og sveigja lítillega upp á við til hornanna svo að þar myndast smátoppar.

Nafnið Nan Madol merkir „staðir inn á milli“ og lýsir vel hvernig eyjarnar liggja eins og möskvar í neti skurðanna. Evrópskir sjómenn á nítjándu öld sáu þetta fyrrverandi stjórnmála- og trúarsetur sennilega fyrstir aðkomumanna. Þeir voru svo gagnteknir af hrifningu að þeir kölluðu það Feneyjar Suðurhafa. En sjómennirnir sáu aldrei Nan Madol í allri sinni dýrð því að staðurinn hafði verið yfirgefinn af ókunnum orsökum um það bil einni öld áður en þeir komu þangað.

Leiðsögumennirnir okkar, sem eru tveir, segja að Nan Madol nái yfir hér um bil 80 hektara. Eyjarnar eru 92 og þjónuðu hver sínum tilgangi. Sumar voru notaðar til búsetu en á öðrum var búinn til matur, smíðaðir eintrjáningar eða dansaðir hátíðardansar. Eyjarnar voru gerðar í ýmsum stærðum og ólíkar að lögun, en dæmigerð eyja er rétthyrnd og á stærð við knattspyrnuvöll. Flestar eyjarnar eru þaktar gróðri en þær sem hægt er að skoða eru mjög forvitnilegar.

Konungavirki

Einhver besti staðurinn til að virða Nan Madol fyrir sér og ígrunda leyndardóma þess, er mikilfenglegt virki sem kallað er Nan Douwas. Hægt er að vaða eftir skurðunum til að skoða rústirnar en auðveldara er að fara um á báti. Nan Madol var gert með siglingar í huga og skurðirnir eru eins og fjórar akreinar á breidd sé miðað við þjóðveg. Og þeir eru mjög grunnir. Á háflóði er sjórinn ekki nema mittisdjúpur. Á liðnum öldum hefur það eflaust verið góð vörn gegn innrásarskipum. Leiðsögumennirnir sigla varlega um skurðina til að skrúfan rekist ekki í kóralbotninn og skemmist.

Við leggjumst að bryggju við Nan Douwas og göngum upp tröppur sem liggja beint inn í hinn forna helgidóm. Við göngum fram hjá múrum sem eru 3 til 4 metrar á þykkt og 8 til 9 metrar á hæð. Traustbyggðir turnarnir hafa staðið af sér bæði hitabeltisstorma og fellibylji.

Innan þessara miklu múra er stór virkisgarður og steinhvelfing í honum miðjum. Þetta er líkhús þar sem konungar voru syrgðir forðum daga. Við höldum áfram og komum að gangi sem virðist liggja niður í jörðina. Leiðsögumennirnir stinga upp á að við þrengjum okkur inn um þröngt opið milli steinanna og eftir skamma stund stöndum við í hnipri í litlum og dimmum neðanjarðarklefa. „Þið eruð komnir í fangelsi,“ segir annar leiðsögumaðurinn. „Hérna geymdu þeir fangana á Nan Madol.“ Okkur verður hugsað til þess hvernig fanga hlýtur að hafa liðið þegar fangelsisdyrunum var lokað með tveggja tonna steini, og við erum fegnir að komast út aftur.

Óvenjulegt byggingarefni

Þegar gengið er um rústir Nan Madols er ljóst hvílíkt gríðarverk það hefur verið að reisa þessa borg. Eyjarnar hvíla á grunni úr kóralmulningi sem þarf að bera níðþungar stæður úr löngum basaltstuðlum. Stuðlarnir eru svo vel formaðir að fyrr á árum héldu menn að þeir væru tilhöggnir. Síðar kom í ljós að þessir fimm- til áttstrendu stuðlar eru myndaðir af náttúrunnar hendi.

Flytja þurfti á staðinn þúsundir jötunsteina sem eru allt að fimm metra langir og vega sumir meira en fimm tonn. Einn undirstöðuhornsteinn er talinn vega 50 tonn! Þar eð fleki með slíkum þunga á myndi taka niðri á grunnsævi vaknar sú spurning hvernig þessir risasteinar hafi verið fluttir til Nan Madol og komið fyrir á réttum stað. Næsta basaltnáma er í nokkurra kílómetra fjarlægð hinum megin á eynni Ponape.

Leyndardómar Nan Madol hafa orðið kveikja margra hugvitsamlegra þjóðsagna. Ein er á þá lund að fyrir alda öðli hafi guðirnir gefið tveim bræðrum töframátt svo að þeir gátu látið jötunsteina „fljúga“ á byggingarstaðinn. Samkvæmt annarri þjóðsögu var Ponape einu sinni byggð háþróuðu þjóðfélagi sem kunni að beita hljóðbylgjum til að lyfta steinunum og láta þá svífa á sinn stað.

Leiðsögumennirnir gáfu okkur trúlegri skýringu. Nan Madol var reist af fjölmennu vinnuafli á aldalöngu tímabili. Trúlega hafa basaltstuðlarnir verið dregnir með hreinu handafli eftir skábrautum úr pálmatrjám, til að koma þeim fyrir á sínum stað. En þeirri spurningu er ósvarað hvernig þessir níðþungu steinar voru fluttir til Nan Madol.

Verður gátan einhvern tíma leyst?

Enginn veit með vissu hvernig Nan Madol var reist né hvers vegna staðurinn var yfirgefinn. Margir halda að staðurinn hafi orðið fyrir árás og íbúarnir verið lagðir að velli. Aðrir segja að útlendingar hafi borið sjúkdóm til Ponape sem hafi útrýmt íbúum að mestu. Þriðja kenningin er á þá lund að aðföng eyjarskeggja hafi spillst í fellibyl svo að íbúar neyddust til að flytjast burt. En hver sem ástæðan var hefur Nan Madol legið í eyði í að minnsta kosti 200 ár.

Þetta forna furðuverk vekur margar spurningar en veitir fá svör. Sú spurning er óneitanlega áleitin þegar við leggjum frá landi hvort leyndardómurinn um Nan Madol verði nokkurn tíma ráðinn.

[Neðanmáls]

^ Ponape liggur nálægt miðbaugi, um 5000 kílómetra suðvestur af Hawaii.

[Kort á blaðsíðu 24]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Ponape

[Mynd á blaðsíðu 24]

Höfnin og aðalinngangurinn í virkið.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Sterkbyggður ytri veggurinn.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Grafhvelfingin í virkisgarðinum.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Um 80 hektarar af manngerðum eyjum og skurðum.

[Credit line]

© 2000 Nik Wheeler