Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðsveitir líkamans

Varðsveitir líkamans

Varðsveitir líkamans

„ÓNÆMISKERFIÐ er svolítið veikt hjá þér,“ sagði læknirinn eftir að hafa litið á niðurstöður blóðrannsóknarinnar. Vigdís hafði verið hálflasin um tíma. Hún hafði fengið berkjukvef hvað eftir annað og nú hafði eyrnabólga og óþægileg ennisholubólga bæst við.

Hvernig er ónæmiskerfið uppbyggt og af hverju er það svona mikilvægt? Hvernig virkar það?

Varnir gegn árásum

Ónæmiskerfið er byggt upp úr flóknu neti sameinda og sérhæfðra frumna sem vinna náið saman til að verja líkamann gegn sýkingum. Við reiðum okkur á að ónæmiskerfið verji okkur fyrir árásum sýkla, svo sem gerla og veira.

Til glöggvunar mætti líkja líkamanum við fornaldarborg. Algengt var að borgir væru reistar uppi á hæðum svo að hægt væri að sjá aðvífandi óvini í fjarlægð. Þær voru umgyrtar múrum þar sem vaktmenn stóðu vörð og varðmenn gættu hliðanna. Sterkar varnir gerðu að verkum að borgarbúar voru óhultir. Ef líkamanum er líkt við slíka borg áttum við okkur betur á því hvað þarf til að verja hann fyrir árás.

Húðin og slímhúðin (til dæmis í nefgöngum og hálsi) eru fyrsta og ysta vörn líkamans gegn innrás sýkla. Húðin er eins og sterkur múrveggur sem varnar sýklum inngöngu. Þegar húðflögur slitna af við núning losum við okkur við eitthvað af þeim milljörðum sýkla sem loða við húðina.

Slímhúðin er viðkvæmari og veikbyggðari en húðin en sýklavarnir hennar eru styrktar með ýmsum náttúrlegum efnum. Eitt þeirra er leysiensím sem er að finna í tárum, munnvatni og svita. Sýrustig svitans er nægilega hátt til að hindra að margir sýklar geti fjölgað sér, en leysiensímið drepur þá með því að eyðileggja frumuveggi þeirra. Þegar dýr sleikja sár sín flýta þau stundum fyrir því að þau grói.

Hvítu blóðkornin — öflugustu verðirnir

Setjum sem svo að örvera, sem getur valdið sjúkdómi, brjótist inn í „borgina“ í gegnum sár eða komist inn í hana eftir annarri smitleið. Þá er þegar í stað gerð út frumuhersveit sem hefur það eina markmið að útrýma innrásarsýklinum og lækna líkamann af sýkingunni. Það eru hvítu blóðkornin sem mynda þessa varnarsveit líkamans. Þrjár tegundir hvítkorna taka þátt í varnarbaráttunni. Þetta eru einkjörnungar, hlutleysiskirningar og eitilfrumur.

Þegar einkjörnungar „frétta“ (með efnaboðum) af sýkingu á ákveðnu svæði yfirgefa þeir blóðrásina og smjúga inn í sýkta vefinn þar sem þeir breytast í gleypifrumur (stórar átfrumur). Þær gleypa í sig allt sem ekki á heima í vefnum. Einnig gefa þær frá sér mikilvæg efni sem kallast sýtokín en þau búa líkamann undir baráttuna gegn sýkingunni, meðal annars með því að hækka líkamshitann. Sótthiti er meðal annars gagnlegur að því leyti að hann er merki þess að varnarkerfi líkamans sé komið í fullan gang. Hann getur bæði hraðað lækningu og auðveldað greiningu sjúkdómsins.

Nú „frétta“ hlutleysiskirningarnir af efnaboðunum frá bólgusvæðinu og þjóta á vettvang til að aðstoða gleypifrumurnar. Hlutleysiskirningarnir gleypa líka bakteríur, og þegar þeir deyja myndast gröftur sem líkaminn losar sig við. Graftarmyndun er því þáttur í varnarviðbrögðum líkamans. Hér á við að grípa til latínunnar sem læknar hafa notað um aldaraðir: pus bonum et laudabile sem merkir bókstaflega „góður og lofsverður gröftur.“ Graftarmyndunin á sinn þátt í því að ráða niðurlögum sýkingarinnar því að eftir að átfrumurnar hafa melt sýklana vara þær eitilfrumurnar við innrásarsýklinum með því að „sýna“ þeim brot úr honum.

Eitilfrumurnar mynda eins konar sérsveit í baráttunni gegn sýkingum. Þær framleiða svokölluð mótefni sem bindast sérstaklega ákveðnum sýklabrotum. Eitilfrumurnar skiptast í tvær aðalsveitir sem hvor hefur sitt sérsvið. Fyrst er að nefna B-eitilfrumurnar sem framleiða mótefni og sleppa þeim út í blóðrásina. B-eitilfrumurnar hafa verið kallaðar vopnasveitir ónæmiskerfisins og þær skjóta örvum sínum, mótefnunum, af mikilli nákvæmni. Mótefnin „leita uppi“ þann sýkil, sem þau þekkja, og ráðast á banvænan blett á honum. Hin eitilfrumusveitin, T-frumurnar, festir ákveðin mótefni utan á sig og notar þau til árása á óvininn. Það má orða það þannig að þær berjist við óvininn í návígi.

Og fleiri frumuflokkar koma við sögu. Undirflokkur T-eitilfrumnanna, svokallaðar T-hjálparfrumur, aðstoðar félaga sína, B-eitilfrumurnar, við fjöldaframleiðslu á mótefnum. T-hjálparfrumurnar hafa samband hver við aðra áður en þær gera árás. Nýjustu rannsóknir hafa sýnt fram á að þær „tala saman“ með efnamerkjum og skiptast á upplýsingum um innrásaraðilann, og sagt er að „umræðurnar“ séu bæði ákafar og líflegar.

Enn einn mikilvægur frumuhópur tekur þátt í stríðinu. Þetta eru svokallaðar náttúrlegar drápsfrumur. Þær mynda engin mótefni heldur drepa frumur sem eru orðnar sýktar og þar með „framandi.“ Náttúrlegu drápsfrumurnar eiga þannig þátt í að varðveita heilbrigði líkamans.

Að síðustu búa eitilfrumurnar yfir ónæmisminni sem felst í því að þær þekkja einkenni ákveðins sýkils, rétt eins og þær haldi skrá yfir alla sýkla sem þær hafa komist í tæri við. Ef þess konar sýkill birtist einhvern tíma aftur eru eitilfrumurnar tilbúnar með mótefni til að tortíma honum þegar í stað.

Gleypifrumurnar, sem segja má að kveiki á ónæmisviðbrögðum líkamans, doka líka við til að ljúka verkinu og aðstoða við að eyða bólgunni. Þær losa sýkta svæðið við allar dauðar frumur, frumubrot og brak, sem liggur á „vígvellinum“ eftir átökin, og koma á kyrrð og ró í „borginni“ á nýjan leik.

Þegar varnirnar eru veikar

Lýsingin hér á undan gefur aðeins grófa mynd af því hvernig ónæmiskerfið er talið virka. En varnirnar geta verið veikar af ýmsum ástæðum: Það getur verið meðfæddur galli í ónæmiskerfinu, og það getur verið bæklað af völdum sjúkdóma sem maður hefur fengið á ævinni.

Alnæmi braust út sem heimsfaraldur á níunda áratugnum og er einn alvarlegasti ónæmisbæklunarsjúkdómurinn sem menn þekkja. Alnæmisveiran (HIV) ræðst á sjálfar rætur ónæmiskerfisins og eyðir smám saman sérstökum flokki eitilfrumna. Þar með lamast geysimikilvægur þáttur í varnarkerfi líkamans. Eftir það koma upp endurteknar sýkingar og líkamanum tekst aldrei að ráða niðurlögum þeirra að fullu. Þær ágerast svo með tímanum og líkaminn er ófær um að verja sig. Hann er eins og berskjölduð borg með niðurbrotna múra.

Sem betur fer eru ekki allar ónæmisbilanir svona alvarlegar. Hjá Vigdísi, sem nefnd var í upphafi greinarinnar, var lítils háttar veila í framleiðslu einnar mótefnistegundar sem yfirleitt er að finna í slímhúðinni, einkum í öndunarveginum. Það var ástæðan fyrir hinum endurteknu og þrálátu sýkingum sem hún hafði átt við að stríða.

Vigdís náði sér. Læknirinn skýrði málið fyrir henni og hún ákvað að fylgja ráðum hans samviskusamlega. Þegar hún komst yfir skútabólguna fékk hún sprautur til að örva mótefnamyndunina. * Hún hætti reykingum og gætti þess að hvílast betur, og heilsan batnaði til muna.

Við erum gerð til að njóta góðrar heilsu. Við getum ekki annað en fyllst aðdáun og þakklæti fyrir visku skaparans þegar við ígrundum hina margslungnu gerð ónæmiskerfisins og flókið gangvirki mannslíkamans. (Sálmur 139:14; Opinberunarbókin 15:⁠3) Og þó svo að við séum ófullkomin núna og heilsan sé þar af leiðandi ekki alltaf upp á sitt besta er því lofað í innblásnu orði Guðs að í nýjum heimi framtíðarinnar verði allir menn gerðir fullkomnir í huga og á líkama. Þá mun ‚enginn borgarbúi segja: „Ég er sjúkur.“ ‘ — Jesaja 33:⁠24.

[Neðanmáls]

^ Vaknið! er ekki talsmaður einnar læknismeðferðar umfram aðra; þar ræður persónulegt val hvers og eins.

[Rammagrein á blaðsíðu 20]

VARNIR LÍKAMANS:

HÚÐ OG SLÍMHÚÐ

HVÍTU BLÓÐKORNIN

Einkjörnungar smjúga inn í sýktan vef og gleypa bakteríur.

Hlutleysiskirningar hjálpa til við að gleypa bakteríur og hverfa svo úr líkamanum sem gröftur.

Eitilfrumur búa yfir ónæmisminni svo að þær geta myndað mótefni þegar í stað ef sams konar sýkill birtist aftur.

B-eitilfrumur mynda mótefni sem „leitar uppi“ sýkla og ræðst á þá eins og beinskeyttar örvar.

T-eitilfrumur mynda einnig mótefni og berjast við sýkla „í návígi.“

— T-hjálparfrumur hjálpa B-eitilfrumunum að mynda mótefni í stórum stíl.

— Náttúrlegar drápsfrumur drepa sýktar frumur beint án þess að framleiða mótefni.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Hvít blóðkorn ráðast á bakteríu.

[Credit line]

Lennart Nilsson