Dalmatinbiblían — fágæt en ekki gleymd
Dalmatinbiblían — fágæt en ekki gleymd
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í SLÓVENÍU
SÍÐUSTU tunnurnar komu eftir ýmsum krókaleiðum til Slóveníu undir lok sextándu aldar. Þær höfðu verið um tvö ár á leiðinni. Farmurinn var verðmætur en til að leyna því voru tunnurnar merktar „spil“ eða „vörubirgðir.“ Í tunnunum voru hins vegar bækur í leðurbandi. Þetta var fyrsta heila biblían á slóvensku.
Með þessum verðmæta farmi rættist draumur tveggja kappsfullra manna, þeirra Juríjs Dalmatins og Primožar Trubars. Þeir höfðu helgað sig því verki að þýða Biblíuna á tungu almennings. Þessara manna er óvíða getið í sagnfræðiritum en það má hiklaust bæta þeim á listann yfir þá menn sem lögðu styrka hönd á plóginn við fyrstu þýðingar á Biblíunni.
Dalmatin, sem stóð fyrir leynilegum flutningi á biblíunum, hafði meðferðis eitt eintak í sérstaklega vönduðu bandi handa Trubar, vini sínum og ráðgjafa. Lítum nánar á það sem þessir menn lögðu á sig til að koma Biblíunni á framfæri á tungu almennings í heimalandi sínu.
Biblíuþýðandinn í mótun
Heilaga rómverska keisaradæmið réð enn þá lögum og lofum víðast hvar í Evrópu á 16. öld og var nátengt rómversk-kaþólsku kirkjunni. Siðbót mótmælenda var hins vegar komin á fullan skrið og áhrifa hennar var farið að gæta í bæjum og þorpum þar sem nú heitir Slóvenía. Sóknarpresturinn Trubar var einn fyrstur manna þar sem snerist til trúar mótmælenda.
Latína var mál kaþólsku kirkjunnar, en einungis forréttindamenn, sem voru læsir á hið forna mál, gátu lesið Biblíuna og skilið það sem fram fór við guðsþjónustur. En siðbótarmenn sögðu að guðsþjónustur ættu að fara fram á máli sem allir skildu. Um miðja sextándu öld var því farið að lesa einstaka biblíukafla á slóvensku við guðsþjónustur. Þetta var gerlegt sökum þess að ýmsar ritningargreinar stóðu á spássíum latnesku messuhandbókarinnar sem prestar notuðu.
En Trubar vildi sjá alla Biblíuna á slóvensku. Ekki var til stafróf fyrir slóvenska tungu svo að hann bjó það til og árið 1550 skrifaði hann fyrstu bókina sem prentuð var á slóvensku. Í henni voru fáein vers úr 1. Mósebók. Síðan þýddi hann Sálmana á slóvensku og síðar allt Nýja testamentið, hinar kristnu Grísku ritningar.
En Trubar gerði sér ljóst að hann bjó ekki yfir þeirri málakunnáttu sem þurfti til að þýða alla Biblíuna á slóvensku eins og metnaður hans stóð til. Juríj Dalmatin var efnilegur, ungur nemandi sem Trubar taldi vel færan um að hjálpa sér að hrinda þessu ætlunarverki í framkvæmd.
Uppruni Dalmatins
Dalmatin var af fátæku bergi brotinn. Hann fæddist árið 1547 í þorpi þar sem nú er Suður-Slóvenía. Ungur sótti hann skóla sem nýbakaður mótmælandi stjórnaði, og það hafði sterk áhrif á trúarhneigð hans síðar á ævinni.
Með stuðningi Trubars, skólakennara og kirkjusóknarinnar sótti Dalmatin trúarskóla og síðar háskóla í Þýskalandi. Hann fullkomnaði kunnáttu sína í latínu og þýsku, lærði hebresku og grísku og lauk námi í heimspeki og guðfræði.Þótt Dalmatin stundaði nám erlendis hvatti Trubar hann til að leggja rækt við móðurmál sitt, slóvenskuna. Dalmatin var á þrítugsaldri og enn í háskóla er hann réðst í hið gríðarlega verk að þýða Biblíuna á tungu samlanda sinna. Hin sterka ástríða Trubars að snúa allri Biblíunni á slóvensku varð nú aðalmarkmið Dalmatins í lífinu.
Þýðingin hefst
Dalmatin sneri sér af miklum ákafa að því að þýða Hebresku ritningarnar. Hann mun hafa þýtt úr frummálunum en stuðst mjög við þýska þýðingu Marteins Lúters á latnesku Vulgata-þýðingunni. Trubar var búinn að þýða allar kristnu Grísku ritningarnar á slóvensku árið 1577 eins og áður hefur komið fram. Dalmatin leiðrétti og bætti texta Trubars og studdist enn sem fyrr við þýska biblíuþýðingu Lúters. Hann kembdi úr þýðingunni mikið af þýskum áhrifum og samræmdi hana. Vera má að Dalmatin hafi nýtt sér grískukunnáttu sína við verkið en fræðimenn eru ekki á einu máli um það hvort hann studdist við forngríska texta eða ekki.
Tálmar í veginum
Þýðingarstarfið var ekkert áhlaupaverk, meðal annars vegna þess að slóvenska stafrófið var ekki nema nokkurra áratuga gamalt. Orðaforðinn var fátæklegur og engar slóvenskar orðabækur til. Það þurfti því mikla hugvitssemi til að þýða textann á skiljanlegt slóvenskt mál.
Ekki hjálpaði gagnsiðbótarhreyfingin til. Slóvenski prentarinn var gerður útlægur svo að nauðsynlegt reyndist að prenta Biblíuna erlendis. Og af sömu orsökum þurfti að flytja biblíurnar inn í landið í felubúningi. En þrátt fyrir að margt væri Dalmatin mótdrægt tókst honum að ná markmiði sínu á aðeins tíu árum, þá kominn á fertugsaldur.
Fyrsta upplag Biblíunnar, sem prentað var undir umsjón Dalmatins, var 1500 eintök og prentunin tók sjö mánuði. Biblía hans var prýdd 222 tréskurðarmyndum og margir kölluðu hana listaverk og bókmenntalegt meistaraverk. Mörg eintök eru enn til af fyrsta upplagi hennar og þýðingin hefur verið notuð sem grunnur að nútímaútgáfum Biblíunnar á slóvensku. Verk þessara tveggja manna á drjúgan þátt í því að Slóvenar geta lesið Biblíuna á móðurmáli sínu nú um stundir.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 27
NAFN GUÐS
Í inngangsorðum Dalmatins að þýðingu hans á heilagri Biblíu segir meðal annars: „Þar sem orðið DROTTINN er prentað með upphafsstöfum merkir það DROTTIN Guð einan sem heitir יהוה, Jehóva, á tungu Gyðinga. Þetta nafn tilheyrir DROTTNI Guði og engum öðrum.“
[Myndir á blaðsíðu 26, 27]
Primož Trubar
Forsíða slóvensku biblíunnar.
[Credit line]
Allar myndir nema fjórstafanafnið: Narodna in univerzitetna knjižnica — Slovenija — Ljubljana.