Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er Biblían áreiðanleg heimild?

Er Biblían áreiðanleg heimild?

Er Biblían áreiðanleg heimild?

ÞEIR vönduðu um við valdhafa. Þeir ávíttu presta. Þeir átöldu almenning fyrir mannvonsku. Þeir drógu meira að segja veikleika sína og syndir fram í dagsljósið. Þeir voru hundeltir og ofsóttir og nokkrir voru meira að segja líflátnir fyrir að segja og skrifa sannleikann. Þetta voru spámenn Biblíunnar sem margir hverjir tóku þátt í að skrifa hana. — Matteus 23:​35-37.

Page Smith skrifar í bók sinni The Historian and History: „[Hebrear] voru jafnvægðarlausir gagnvart hetjum sínum og illvirkjum, gagnvart sjálfum sér og andstæðingum af því að þeir skrifuðu undir vökulu auga Guðs, og með yfirhylmingum höfðu þeir ekkert að vinna en miklu að tapa.“ Smith greinir einnig frá því að „samanborið við langdregnar frásagnir af herkonungum Sýrlendinga og Egypta séu frásagnir af þrengingum og sigrum útvaldrar þjóðar Guðs . . . hrífandi. Hebresku skrásetjararnir höfðu komist að kjarna mannkynssögunnar, að þar komi fram raunverulegt fólk með öllum mistökum sínum og göllum.“

Biblíuritararnir voru einnig vandvirkir og nákvæmir með afbrigðum. Eftir að rithöfundurinn Werner Keller hafði rannsakað eðli og samhengi Biblíunnar í ljósi sagnfræði og fornleifafræði sagði hann í inngangi bókar sinnar The Bible as History: „Með tilliti til hinna fjölmörgu og áreiðanlegu sönnunargagna sem nú eru aðgengileg . . . sótti ein setning sífellt á mig: ‚Biblían er þá sönn þegar allt kemur til alls!‘ “

Kraftmikil frásaga og lærdómsrík

Ritarar Biblíunnar voru flestir venjulegir menn — bændur, fjárhirðar og fiskimenn — en skrif þeirra á 1600 ára tímabili hafa samt haft áhrif á fleiri en nokkur önnur ritverk fyrr eða síðar. Jafnframt hafa ritverk þeirra mátt þola árangurslausar árásir úr öllum áttum. (Jesaja 40:8; 1. Pétursbréf 1:25) Nú gefst mönnum kostur á að lesa Biblíuna í heild eða að hluta til á um 2200 tungumálum, miklu fleiri tungumálum en nokkra aðra bók. Hvers vegna nýtur Biblían slíkrar sérstöðu? Svarið felst í eftirfarandi tilvitnunum.

„Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:​16, 17.

„Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ — Rómverjabréfið 15:⁠4.

„Allt þetta kom yfir þá [Ísraelsmenn] sem fyrirboði, og það er ritað til viðvörunar oss [kristnum mönnum], sem endir aldanna er kominn yfir.“ — 1. Korintubréf 10:⁠11.

Já, Biblían er hafin yfir allar aðrar bækur þar sem hún er innblásin af Guði og varðveitir frásögur af venjulegu fólki — bæði þeim sem voru Guði þóknanlegir og þeim sem voru það ekki. Hún er langt frá því að vera einungis listi yfir boð og bönn eða sniðugar skemmtisögur fyrir börn. Guð notaði að vísu mennska ritara en það eykur gildi Biblíunnar og frá henni streymir hjartahlýja sem snert hefur kynslóðir, mann fram af manni. Fornleifafræðingurinn William Albright segir: „Hið djúpa siðferðilega og andlega innsæi Biblíunnar, þar sem mannleg reynsla er notuð til að miðla einstæðri opinberun frá Guði, er jafnrétt núna og fyrir tvö til þrjú þúsund árum.“

Hverfum til upphafs mannkynssögunnar — en aðeins Biblían getur farið með okkur þangað — til að lýsa með dæmum hve sígild Biblían er og athuga nokkur lærdómsrík atriði í 1. Mósebók.

Tímabær lærdómur í fornri sögu

Fyrsta Mósebók segir meðal annars frá upphafi mannkyns með nöfnum og öllu saman. Ekkert annað sagnfræðirit er eins nákvæmt varðandi þetta efni. En þér er kannski spurn hvers virði það sé nú á tímum að kynnast fyrstu forfeðrum okkar. Það er feikimikils virði. Fyrsta Mósebók sviptir stoðunum undan kynþáttahroka með því að leiða í ljós að allt mannkynið, óháð litarhætti, ættflokki eða þjóðflokki, á ætt sína að rekja til sömu foreldranna. — Postulasagan 17:⁠26.

Fyrsta Mósebók veitir einnig leiðbeiningar í siðferði. Hún segir frá Sódómu, Gómorru og grannborgum þeirra sem Guð eyddi vegna grófrar siðspillingar íbúanna. (1. Mósebók 18:20–19:29) Í sjöunda versi Júdasarbréfs stendur: „Sódóma og Gómorra og borgirnar umhverfis þær, sem drýgt höfðu saurlifnað . . . og stunduðu óleyfilegar lystisemdir, . . . liggja fyrir sem dæmi.“ Íbúar Sódómu og Gómorru fengu ekki siðferðislögmál frá Guði en þeir höfðu meðfædda samvisku eins og allir aðrir menn. Guð gat því með réttu gert þá ábyrga gerða sinna. (Rómverjabréfið 1:​26, 27; 2:​14, 15) Eins er það nú á tímum að Guð gerir alla menn ábyrga gerða sinna, hvort sem þeir viðurkenna orð hans, Biblíuna, eða ekki. — 2. Þessaloníkubréf 1:​8, 9.

Sögulegt fordæmi um björgun

Lágmynd á Títusarboganum í Róm sýnir rómverska hermenn bera burt heilög ker frá musterinu í Jerúsalem eftir að borgin var lögð í eyði árið 70. Rösklega ein milljón Gyðinga féll. En hlýðnir kristnir menn lifðu af vegna viðvörunar Jesú: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana. Því þetta eru refsingardagar.“ — Lúkas 21:​20-22.

Þrengingarnar í Jerúsalem eru ekki aðeins liðin saga heldur fyrirmynda þær meiri þrengingar sem brátt munu koma yfir heiminn. Enn sem fyrr munu menn lifa af. Þeim er lýst sem ‚miklum múgi af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.‘ Þeir ‚koma úr þrengingunni miklu‘ vegna trúar sinnar á úthellt blóð Jesú, trúar sem grundvölluð er á biblíuskráðri sögu og spádómum. — Opinberunarbókin 7:​9, 14.

Sögulegir atburðir sem endurtaka sig aldrei

Við lifum á yfirráðatímabili ensk-ameríska heimsveldisins, því síðasta í biblíuspádómunum. Með hliðsjón af atburðarás sögunnar getum við ályktað að yfirráðum þeirra ljúki eins og forvera þeirra. En á hvern hátt? Samkvæmt Biblíunni verður endir þessa heimsveldis einstæður. Í Daníelsbók 2:44 segir um ríkjandi stjórnmálaveldi eða „konunga“ og er þá vísað til ársins 1914: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki en sjálft mun það standa að eilífu.“

Guðsríki er himnesk stjórn í höndum Jesú Krists og mun gera allar harðýðgisstjórnir manna að engu í Harmagedónstríðinu sem er hápunktur ofangreindrar ‚mikillar þrengingar.‘ Guðsríki mun „engri annarri þjóð í hendur fengið verða,“ það er að segja það verður aldrei bundinn endi á það né það fellt í kosningum. Yfirráðasvæðið nær „til endimarka jarðar.“ — Sálmur 72:⁠8.

Að lokum mun hin miskunnarlausa drottnunarhringrás falskra trúarbragða, kúgunarstjórna og ágjarnra viðskiptaafla taka enda. „Réttlætið [skal] blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til,“ segir í Sálmi 72:⁠7. Óendanlegur kærleikur Guðs mun fylla jörðina og úthýsa eigingirni og hroka. (1. Jóhannesarbréf 4:⁠8) Jesús sagði: „Elskið hver annan.“ Um þetta sagði sagnfræðingurinn Will Durant: „Mikilvægasti lærdómur minn af mannkynssögunni er samhljóða því sem Jesús sagði. . . . Kærleikurinn reynist mönnum best.“

Guð innblés mönnum að rita Biblíuna vegna kærleika til þeirra. Einungis hún varpar réttu ljósi á fortíð, nútíð og framtíð. Taktu við lífgandi boðskap hennar með því að nota smátíma í að kynna þér efni hennar. Vottar Jehóva kynna ‚fagnaðarerindið um ríkið‘ fyrir nágrönnum sínum til að koma þessum boðskap á framfæri, eins og Jesús sagði þeim að gera. Fagnaðarerindið verður innan tíðar meira en spádómur. Það verður raunverulegur söguviðburður. — Matteus 24:⁠14.

[Innskot á blaðsíðu 9]

„Biblían er þá sönn þegar allt kemur til alls!“ — WERNER KELLER

[Innskot á blaðsíðu 11]

„Hið djúpa siðferðilega og andlega innsæi Biblíunnar . . . er jafnrétt núna og fyrir tvö til þrjú þúsund árum.“ — WILLIAM ALBRIGHT, FORNLEIFAFRÆÐINGUR

[Myndir á blaðsíðu 9]

Móabítasteinninn: Á hann er letruð frásögn Mesa konungs af uppreisn Móabíta gegn Ísrael (2. Konungabók 3:​4-27), ýmis staðanöfn úr Biblíunni og nafn Guðs með fornhebreskum bókstöfum.

[Credit line]

Musée du Louvre, París.

Silfurdenar: Eftirlíking með mynd og yfirskrift Tíberíusar keisara. (Markús 12:​15-17)

Nabónídusarkroníka: Fleygrúnatafla sem staðfestir skyndilegt fall Babýlonar í hendur Kýrusar. (Daníelsbók, 5. kafli)

[Credit line]

Ljósmynduð með góðfúslegu leyfi British Museum.

Steinhella: Með nafni Pontíusar Pílatusar á latínu.

[Credit line]

Ljósmynd: © Israel Museum, Jerúsalem; með góðfúslegu leyfi Israel Antiquities Authority.

Bakgrunnsmynd úr Dauðahafshandriti: Rannsóknir á texta Jesajabókar sanna að bókin hefur haldist óbreytt í meira en þau þúsund ár sem hún var afrituð í höndum.

[Credit line]

Shrine of the Book, Israel Museum, Jerúsalem.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Lágmynd á Títusarboganum staðfestir eyðingu Jerúsalem árið 70.

[Credit line]

Soprintendenza Archeologica di Roma