Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eru draumar boð frá Guði?

Eru draumar boð frá Guði?

Sjónarmið Biblíunnar

Eru draumar boð frá Guði?

SAGT er að uppfinningamaðurinn Elias Howe hafi fengið hugmyndina að hönnun saumavélarinnar í draumi. Tónskáldið Mozart sagði að mörg tónlistarstef sín ættu rætur sínar að rekja til drauma. Efnafræðingurinn Friedrich August Kekule von Stradonitz sagðist hafa uppgötvað byggingu bensensameindarinnar í draumi. Þetta eru engin einsdæmi. Í aldanna rás hafa hin ýmsu menningarsamfélög talið drauma tengjast einhverju yfirnáttúrlegu. Sumir trúa að draumaheimurinn sé jafnraunverulegur og veruleikinn sjálfur.

Biblían segir frá nokkrum dæmum þess að Guð hafi notað drauma til að koma mikilvægum boðum til manna. (Dómarabókin 7:​13, 14; 1. Konungabók 3:⁠5) Abraham, Jakob og Jósef fengu til dæmis boð frá Jehóva í draumi. (1. Mósebók 28:​10-19; 31:​10-13; 37:​5-11) Jehóva lét Nebúkadnesar, konung Babýlonar, dreyma spádómlega drauma. (Daníel 2:​1, 28-45) Er ástæða til að halda að sumir draumar nú á dögum séu boð frá Guði?

Draumar frá Guði

Í Biblíunni var alltaf ákveðin ástæða fyrir draumum sem voru innblásnir af Guði. Að vísu gat sá sem dreymdi drauminn ekki alltaf skilið hann strax. En Guð, „sem opinberar leynda hluti,“ sá hins vegar oft til þess að draumurinn væri útskýrður svo að merkingin yrði augljós. (Daníel 2:​28, 29; Amos 3:⁠7) Draumarnir frá Guði voru ekki óskýrir og órökréttir eins og venjulegir draumar eru oftast.

Stundum notaði Guð drauma til að vernda fólk sem gegndi lykilhlutverki í tilgangi hans. Þeir sem dreymdi slíka drauma voru ekki endilega þjónar Guðs. Stjörnuspekingarnir, sem heimsóttu Jesú þegar hann var barn, sneru til dæmis ekki aftur til morðingjans Heródesar eins og hann hafði beðið þá að gera, vegna þess að þeir voru varaðir við því í draumi. (Matteus 2:​7-12) Þetta gaf Jósef, fósturföður Jesú, nægan tíma til að flýja með fjölskylduna til Egyptalands eins og hann hafði fengið bendingu um í draumi. Það bjargaði lífi Jesú. — Matteus 2:​13-15.

Öldum áður dreymdi egypskan faraó draum um sjö heilbrigð öx, sjö skrælnuð öx, sjö feitar kýr og sjö magrar kýr. Jósef skýrði drauminn með hjálp Guðs: Í Egyptalandi yrðu fyrst sjö nægtarár og síðan sjö hallærisár. Nú þegar Egyptar vissu þetta fyrir fram gátu þeir undirbúið sig og birgt sig upp af matvælum. Þetta varð til þess að afkomendur Abrahams lifðu af og komu til Egyptalands. — 1. Mósebók, kafli 41; 45:​5-8.

Nebúkadnesar, konung Babýlonar, dreymdi líka draum. Draumurinn sagði fyrir um uppgang og fall ókominna heimsvelda sem hefðu bein áhrif á fólk Guðs. (Daníel 2:​31-43) Seinna dreymdi hann annan draum sem boðaði að hann myndi missa vitið um tíma en ná sér síðan aftur. Þessi spádómlegi draumur átti sér meiri uppfyllingu þar sem hann tímasetti nákvæmlega stofnsetningu messíasarríkisins sem Guð mun nota til að hrinda vilja sínum í framkvæmd. — Daníel 4:​10-37.

Hvað um okkar daga?

Já, Guð notaði stundum drauma til að koma boðum til fólks en Biblían gefur til kynna að það hafi verið frekar sjaldgæft. Draumar voru aldrei helsta boðskiptaleið Guðs. Margir trúfastir þjónar Guðs fengu aldrei boð frá honum í draumi. Það er hægt að líkja þessu við það þegar Guð klauf Rauðahafið. Við vitum að hann gerði það einu sinni en þetta er ekki sú aðferð sem hann notar almennt í samskiptum við fólk sitt. — 2. Mósebók 14:⁠21.

Páll postuli viðurkenndi að á sinni tíð hafi heilagur andi verkað með ýmsum óvenjulegum hætti á þjóna Guðs. Hann sagði: „Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda. Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal.“ (1. Korintubréf 12:​8-10) Þó að hér sé ekki minnst á guðinnblásna drauma er greinilegt að marga kristna menn dreymdi innblásna drauma í samræmi við spádóminn í Jóel 3:1 þar sem segir að draumar séu ein af gjöfum andans. — Postulasagan 16:​9, 10.

En postulinn sagði um þessar sérstöku gáfur: „Spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.“ (1. Korintubréf 13:⁠8) Hinar ýmsu samskiptaleiðir Guðs við menn voru greinilega á meðal þeirra gáfna sem myndu „líða undir lok.“ Eftir dauða postulanna hætti Guð að veita þjónum sínum þessar sérstöku gáfur.

Sérfræðingar eru enn þá að reyna að skilja eðli drauma og glöggva sig á því hvort draumar gegni hagnýtu hlutverki. Biblían varpar engu ljósi á það. En hún varar þá við sem telja að draumar séu boð frá Guði. Í Sakaría 10:2 segir hún: „Spásagnamennirnir . . . kunngjöra aðeins hégómlega drauma.“ Guð varar okkur líka við að leita fyrirboða. (5. Mósebók 18:​10-12) Í ljósi þessara viðvarana vænta kristnir nútímamenn ekki guðlegrar leiðsagnar í draumi heldur telja þeir drauma einfaldlega vera eitthvað sem þeir upplifa í svefni.