Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Hugvitsamleg endurvinnsla

Bændur í Trujillo í norðurhluta Perú tóku sig saman og lögðu átta kílómetra vatnsleiðslu úr notuðum plastflöskum. Dagblaðið El Comercio í Líma greinir frá því að rúmlega 80 bændur hafi eignast ófrjótt landsvæði og fundið vatnsuppsprettu en hefðu ekki haft efni á því að kaupa rör til að leiða vatn á staðinn. Einum datt það snjallræði í hug að kaupa notaðar plastflöskur, og næsti hálfi mánuðurinn fór í það að skera ofan og neðan af 39.000 flöskum og tengja þær saman í samfellda leiðslu. Leiðslan sér þeim fyrir vatni uns hægt verður að grafa brunn.

Nýstárleg geymsluaðferð

Það er ekki hlaupið að því að geyma viðkvæm matvæli ef ekki er til kæliskápur á heimilinu. En í Norður-Nígeríu hafa menn fundið upp einfaldan og ódýran „kæliskáp.“ Hann er gerður úr tveim misstórum leirkerum. Annað er sett inn í hitt og fyllt í bilið á milli þeirra með blautum sandi. Matvælunum er komið fyrir í smærra kerinu og rakur dúkur lagður yfir. „Heita loftið fyrir utan dregur rakann að yfirborði ytra kersins þar sem vatnið gufar upp,“ segir í tímaritinu New Scientist. „Vatnsgufan ber varmann burt og uppgufunin skapar stöðugt varmastreymi frá innra kerinu, svo framarlega sem sandinum og klútnum er haldið rökum.“ Með þessari aðferð má geyma tómata og papriku í meira en þrjár vikur og eggaldin í næstum mánuð. Uppfinningamaðurinn, Mohammed Bah Abba, segir að bændur geti nú selt afurðir sínar eftir þörfum og dæturnar, sem þurftu yfirleitt að vera heima alla daga til að sinna sölunni, geti stundað skóla.

Gagnlegt vítamín

Þegar unnið er við tölvuskjá eru augun sífellt að bregðast við skærum og dökkum punktum á skjánum, að sögn pólska heilsutímaritsins Zdrowie. Því sterkari sem þessir ljósdeplar eru, þeim mun meiru eyða augun af ródopsíni en það er ljósnæmt litarefni í sjónhimnu augans. Líkaminn þarf A-vítamín til að framleiða ródopsín en A-vítamín fæst meðal annars úr lifur og lýsi. Þeir sem þurfa að takmarka kólesteról- og fituneyslu geta neytt fæðu sem er auðug af beta-karótíni en líkaminn breytir því í A-vítamín með hjálp sólarljóssins. Beta-karótín fæst úr gulu, appelsínugulu, rauðu og grænu grænmeti og úr ávöxtum svo sem apríkósum, ferskjum, sveskjum, melónum og mangó.

Er vetrarkuldinn óhollur?

Kuldi og votviðri er ekki endilega skaðlegt heilsunni. Þetta kemur fram í þýska heilsufréttaritinu Apotheken Umschau. Reglulegar gönguferðir að vetri geta styrkt hjartað, örvað blóðrásina og hert allan líkamann, að sögn dr. Angelu Schub sem sérhæfir sig í áhrifum veðurfars á heilsu. Líkaminn getur misst hæfnina að laga sig að hitasveiflum ef maður „leggst í híði“ í upphituðu húsnæði. Það getur síðan aukið hættuna á sýkingum og valdið þreytu og höfuðverkjum. En sé líkaminn hertur við reglulega útivist í „slæmu“ veðri eykst þol hans og aðlögunarhæfni að hitabreytingum.

Trúfélagaskipti í Bretlandi

Dagblaðið The Sunday Telegraph greinir frá því að Bretar skipti mun oftar um trúfélag nú en áður var, eða um 1000 manns í viku hverri. „Biskupakirkjumenn gerast rómversk-kaþólskir og öfugt, gyðingar gerast búddhatrúar, múslímar gerast biskupakirkjumenn og rómversk-kaþólskir snúast til gyðingdóms.“ Islam, búddhatrú, nýaldarhreyfingin og heiðni draga til sín flesta nýliða. Dr. Ahmed Andrews við Derbyháskóla á Englandi, sem sjálfur hefur skipt um trúfélag, segir: „Það eru á bilinu 5.000 til 10.000 hvítir múslímar í landinu, og flestir, sem ég þekki, voru kaþólskir áður.“ Á bilinu 10 til 30 prósent þeirra sem snúast til búddhatrúar voru gyðingar. Straumurinn úr ensku biskupakirkjunni yfir í þá kaþólsku náði hámarki er sú fyrrnefnda ákvað að veita konum prestvígslu. Johathan Romain, sem er rabbíni, segir að „fólk finni fyrir andlegu tómarúmi og leiti fyrir sér annars staðar en í barnatrúnni.“