Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað getum við lært af fortíðinni?

Hvað getum við lært af fortíðinni?

Hvað getum við lært af fortíðinni?

„Ekkert er mikilvægara fyrir sagnaritara en nákvæm kortlagning á orsökum og afleiðingum.“ — Gerald Schlabach, Aðstoðarprófessor Í Sagnfræði.

SAGNFRÆÐINGAR spyrja oft hvernig og hvers vegna ákveðnir atburðir hafi átt sér stað. Sögustaðreyndir segja okkur til dæmis að Rómaveldi hafi fallið. En hvers vegna féll það? Gerðist það vegna siðspillingar eða skemmtanafíknar? Var heimsveldið orðið of víðáttumikið og heraflinn of kostnaðarsamur? Eða voru óvinir Rómaveldis hreinlega orðnir of margir og voldugir?

Áður var litið á kommúnismann í Austur-Evrópu sem ógnvald Vesturlanda en ekki er langt síðan hann hrundi í hverju landinu á eftir öðru, að því er virðist öllum að óvörum. En hvers vegna? Og hvaða lærdóm má draga af því? Spurningum sem þessum reyna sagnfræðingar að svara. En að hve miklu leyti hefur hlutdrægni áhrif á dómgreind þeirra í leit að svörum?

Er sagnariturum treystandi?

Sagnfræðingar eiga meira sammerkt með leynilögreglumönnum en vísindamönnum. Þeir rannsaka, spyrja og véfengja skráða atburði úr fortíðinni. Þeir ætla sér að fara rétt með söguna en markmiðin eru oft á tíðum óljós. Að hluta til er ástæðan sú að sagnaritarar eru aðallega að fjalla um fólk og þeir geta ekki lesið hugsanir þess, allra síst þeirra sem liðnir eru. Sagnfræðingar eru stundum haldnir fyrir fram ákveðnum hugmyndum og hleypidómum. Því eru bestu ritverkin stundum hrein og bein túlkun —  skrifuð út frá sjónarhorni sagnaritarans.

Með þessu er auðvitað ekki verið að segja að verk sagnaritarans þurfi að vera ónákvæmt þótt hann skrifi út frá sínu eigin sjónarhorni. Í frásögnum Biblíunnar af Samúel í Konunga- og Kroníkubókunum greina fimm menn frá hliðstæðum atburðum. Þó ber ekki á neinni verulegri mótsögn eða ónákvæmni hjá þeim. Sama er að segja um guðspjöllin fjögur. Margir biblíuritarar skráðu jafnvel eigin bresti og óviturleg glappaskot sem sjaldgæft er að rekast á í veraldlegum ritverkum. — 4. Mósebók 20:​9-12; 5. Mósebók 32:​48-52.

Auk hugsanlegra fordóma ber að hafa í huga annan þýðingarmikinn þátt þegar sögurit er lesið en það er markmið höfundarins. Í bókinni A Companion to the Study of History segir Michael Stanford: „Líta ber á allar frásagnir og söguskýringar valdsmanna og þeirra sem sækjast eftir völdum eða vina þeirra, með ýtrustu varúð.“ Það er augljóst að vafasamur tilgangur liggur að baki þegar sagnfræðirit höfðar til þjóðerniskenndar og föðurlandsástar á lævísan eða áberandi hátt. Því miður verður þessa stundum vart í kennslubókum. Stjórnartilskipun lands nokkurs kvað hreint og beint á um að tilgangur sögukennslu væri „að styrkja þjóðerniskennd og föðurlandsást í hjörtum fólks . . . því að þekking á fortíð þjóðarinnar væri einn mikilvægasti þjóðræknishvatinn.“

Sögufölsun

Í sumum tilfellum er sagan ekki aðeins hlutdræg heldur hreint og beint fölsuð. Svo dæmi sé tekið úr bókinni Truth in History „var nafnið Trotskíj afmáð úr heimildum í fyrrverandi Sovétríkjunum svo að staðreyndin um tilvist hans kæmi hvergi fram.“ Hver var Trotskíj? Hann var foringi í byltingu rússnesku bolsévíkanna og kom næstur Lenín að völdum. Eftir dauða Leníns lenti Trotskíj upp á kant við Stalín, var rekinn úr kommúnistaflokknum og síðar myrtur. Nafn hans var meira að segja afmáð úr sovéskum alfræðibókum. Sambærilegar söguafbakanir hafa tíðkast í mörgum einræðisríkjum og jafnvel gengið svo langt að bækur hafa verið brenndar hafi þær ekki þótt við hæfi.

Segja má að sögufölsun hafi verið iðkuð frá fornu fari, að minnsta kosti allt frá tímum Egypta og Assýringa. Drambsamir og hégómlegir faraóar, konungar og keisarar gættu þess að fortíðarsaga þeirra væri lofi hlaðin. Afrek þeirra voru þá venjulega ýkt en lítið gert úr öllu vandræðalegu og óvirðulegu, svo sem hernaðarósigri; allt slíkt var þurrkað út eða það ekki nefnt á nafn. En saga Ísraelsþjóðarinnar, sem skráð er í Biblíunni, greinir aftur á móti bæði frá mistökum og vegsemd jafnt konunga sem þegna.

Hvernig ganga sagnaritarar úr skugga um nákvæmni eldri rita? Þeir bera þau saman við gögn svo sem gamlar skattskrár, lagasöfn, auglýsingar um þrælauppboð, viðskipta- og einkabréf, minnisbækur, leirbrotaáletranir, leiðarbækur skipa og ýmsa hluti sem fundist hafa í grafhýsum og gröfum. Gögn varpa oft skærari eða öðruvísi ljósi á sagnfræðileg ritverk. Sé skortur á upplýsingum eða óvissa til staðar láta heiðarlegir sagnaritarar þess venjulega getið þó að þeir leyfi sér að fylla inn í eyðurnar með eigin kenningum. Skynsamir lesendur leita heimilda víðar en á einum stað séu þeir á höttunum eftir skýringum á sögulegum atburðum.

Þrátt fyrir öll vandkvæði, sem sagnaritarinn stendur frammi fyrir, getur ritverk hans látið í té mjög gagnlegar upplýsingar. Í sagnfræðiriti segir: „Skráning veraldarsögunnar er mikilvæg, okkur nauðsynleg . . . þó að erfitt sé að skrá hana.“ Sagan lýkur upp fyrir okkur fortíðarsýn auk þess sem hún eykur skilning okkar á núverandi stöðu mannsins. Við komumst til dæmis fljótt að raun um að fornmenn sýndu sömu mannlegu einkennin og nútímamenn. Þessi endurteknu einkenni hafa haft sterk áhrif á gang sögunnar og hugsanlega leitt til þess að menn hafa á orði að sagan endurtaki sig. En er slík alhæfing á rökum reist?

Endurtekur sagan sig?

Getum við sagt nákvæmlega fyrir um framtíðina á grundvelli fortíðarinnar? Vissir atburðir koma fyrir aftur og aftur. Fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Henry Kissinger, sagði til dæmis: „Öll menningarsamfélög sögunnar hafa fyrr eða síðar liðið undir lok.“ Hann bætti við: „Mannkynssagan segir frá tilraunum sem mistókust, væntingum sem aldrei urðu að veruleika . . . Á sama hátt og sagnfræðingurinn verðum við að lifa með þeirri vitneskju að harmleikir eru óumflýjanlegir.“

Engin tvö heimsveldi liðu undir lok á sama hátt. Babýlon féll á einni nóttu fyrir Medum og Persum árið 539 f.o.t. Grikkland skiptist í mörg konungsríki eftir dauða Alexanders mikla og gafst síðan upp fyrir rómverska heimsveldinu. En um fall Rómaveldis eru skiptar skoðanir. Sagnfræðingurinn Gerald Schlabach spyr: „Hvenær féll Rómaveldi? Féll það nokkurn tíma í raun og veru? Eitthvað breyttist í Vestur-Evrópu á árunum 400 til 600. En margt hélt áfram.“ * Það er greinilegt að sumt í sögunni endurtekur sig en annað ekki.

Það sem óneitanlega má læra af sögunni eru síendurtekin mistök mannlegra stjórna. Farsælar stjórnir hafa alla tíð látið í minni pokann fyrir eiginhagsmunum, skammsýni, græðgi, spillingu, frændhygli og sérstaklega fyrir græðgi í völd og áframhaldandi valdasetu. Fortíðin er flekkuð af hernaðarhvöt, samningsrofum, styrjöldum, félagslegri ólgu og ofbeldi, misskiptingu auðæfa og efnahagshruni.

Tökum til dæmis eftir hvað segir í bókinni The Columbia History of the World um áhrif vestrænnar menningar á heiminn: „Þegar Kólumbus og Cortés höfðu að fullu lokið upp augum Vestur-Evrópumanna fyrir möguleikunum, vaknaði löngun þeirra í trúboð, frægð og frama og vestræn menning var innleidd um nær allan hnöttinn, aðallega með valdbeitingu. Með óseðjandi útþenslustefnu og mun öflugri vopnum gerðu sigurvegararnir önnur ríki heims nauðug að leppríkjum hinna voldugu, evrópsku valdhafa . . . Þjóðir þessara heimsálfa [Afríku, Asíu og Ameríku] urðu í stuttu máli sagt að þola vægðarlausan og látlausan yfirgang.“ Orð Biblíunnar í Prédikaranum 8:9 eru vissulega dagsönn: „Maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“

Vel má vera að það hafi verið þessi sorgarsaga sem fékk þýskan heimspeking til að láta þau orð falla að það eina sem sagnfræðin kenni sé það að mennirnir læra ekkert af sögunni. Í Jeremía 10:23 stendur: „Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ Þessi vanhæfni til að stýra skrefum okkar ætti sérstaklega að snerta okkur nú á tímum. Hvers vegna? Vegna þess að við erum þjökuð af áður óþekktum vandamálum, bæði að fjölda til og umfangi. Hvað er til ráða?

Áður óþekkt vandamál

Frá því sögur hófust hefur jörðinni í heild aldrei verið ógnað samtímis af eyðingu skóga, uppblæstri, útbreiðslu eyðimerkursvæða, útrýmingu plantna og dýrategunda í stórum stíl, eyðingu ósonlagsins í heiðhvolfi jarðar, mengun, hækkandi hitastigi um alla jörð, deyjandi úthöfum og takmarkalausri mannfjölgun.

„Annað sem herjar á nútímaþjóðfélag er hraði breytinganna,“ segir í bókinni A Green History of the World. Ed Ayres, ritstjóri tímaritsins World Watch, skrifar: „Við stöndum frammi fyrir einhverju sem fer svo langt út fyrir ystu mörk sameiginlegrar reynslu okkar að við gerum okkur ekki grein fyrir því, þó svo að verksummerkin séu yfirþyrmandi. Þetta ‚eitthvað,‘ sem eru hinar gífurlegu líffræðilegu og eðlisfræðilegu breytingar í heiminum, hefur haldið í okkur lífinu.“

Sagnfræðingurinn Pardon E. Tillinghast segir um þetta og álíka vandamál: „Þjóðfélagsmynstrið hefur sífellt orðið flóknara og vandamál margra eru ógnvekjandi. Hvaða leiðbeiningar getur sagnfræðingur látið ráðvilltu fólki í té nú á tímum? Harla litlar, að því er virðist.“

Vera má að sagnfræðingar standi ráðþrota frammi fyrir því hvað gera skuli eða hvað sé til ráða, en það gildir vissulega ekki um skaparann. Hann sagði fyrir í Biblíunni að á síðustu dögum kæmu ‚örðugar tíðir.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:​1-5) Guð hefur gengið lengra og framkvæmt það sem sagnfræðingar geta ekki, hann hefur bent á lausnina eins og við munum sjá í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ Ábendingar Schlabachs eru í samræmi við þann spádóm Daníels að vöxtur innan frá yrði arftaki rómverska heimsveldisins. Sjá 4. og 9. kafla í bókinni Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Rammi á blaðsíðu 5]

„Líta ber á allar frásagnir og söguskýringar valdsmanna . . . með ýtrustu varúð.“ — MICHAEL STANFORD, SAGNFRÆÐINGUR

[Mynd á blaðsíðu 4]

Neró keisari

[Credit line]

Roma, Musei Capitolini

[Mynd á blaðsíðu 7]

Í aldanna rás ‚hefur einn maður drottnað yfir öðrum honum til ógæfu.‘

[Credit line]

„Sigurvegararnir“ eftir Pierre Fritel. Á myndinni eru (frá vinstri til hægri): Ramses ll, Atli húnakonungur, Hannibal, Tamerlane, Júlíus Sesar (í miðið), Napóleon l, Alexander mikli, Nebúkadnesar og Karl mikli. Úr bókinni The Library of History Characters and Famous Events, 3. bindi, 1895; flugvélar: USAF