Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sameinað Þýskaland

Sameinað Þýskaland

Sameinað Þýskaland

Eftir Fréttaritara Vaknið! Í Þýskalandi

„ÞEGAR ég ók með foreldrum mínum yfir landamærin frá Austur-Þýskalandi inn í Vestur-Berlín stóð mannfjöldi á brúnum fyrir ofan hraðbrautina, veifaði og hrópaði fagnaðaróp,“ segir Ronny. „Við gengum um Ku’damm-verslunarmiðstöðina í Vestur-Berlín og fólk færði okkur drykkjarföng þegar það áttaði sig á því að við vorum frá Austur-Þýskalandi. Allir voru í hátíðarskapi.“ Þetta var 10. nóvember 1989, daginn eftir að Berlínarmúrinn féll.

Hátíðarskapið breiddist frá Berlín út um allt Austur- og Vestur-Þýskaland sem voru aðskilin ríki á þeim tíma. Hin friðsamlega bylting, sem leiddi til þess að alræðisríkið Austur-Þýskaland féll, kom langflestum í opna skjöldu. Margir tala enn um hana sem ánægjulegasta atburð síðastliðinna 50 ára. Sæluvíman er auðvitað vikin fyrir veruleikanum núna og spyrja má hvernig lífið hafi breyst síðan hin friðsama bylting átti sér stað. Getum við dregið einhvern lærdóm af því sem gerðist?

Kalda stríðið kvatt

Fall Berlínarmúrsins var flestum Þjóðverjum mikill léttir. Sumir segja að landamæri austurs og vesturs og umgjörð þeirra hafi kostað næstum þúsund manns lífið. Í október 1990 voru þýsku ríkin tvö sameinuð í eitt, Sambandslýðveldið Þýskaland, með um 80 milljónir íbúa. Alþýðulýðveldið Þýskaland — oftast kallað Austur-Þýskaland — hætti að vera til, aðeins 41 ári eftir að það var stofnað. Svæðið, sem áður tilheyrði Austur-Þýskalandi, skiptist nú í sex ríki, kölluð nýju sambandsríkin.

Heimurinn stóð agndofa þegar Berlínarmúrinn féll, kommúníska þjóðafylkingin liðaðist sundur og varnarbandalag þeirra, Varsjárbandalagið, leystist upp í lok kalda stríðsins. Hersveitir risaveldanna höfðu horfst í augu yfir landamæri þýsku ríkjanna í ein 40 ár en yfirgáfu nú þýska grund. Og þetta gerðist án þess að skoti væri hleypt af.

Miklar breytingar áttu sér stað í Þýskalandi eftir sameininguna, einkum í nýju sambandsríkjunum. Fyrir marga voru þær afdrifaríkari en þeir höfðu ímyndað sér.

Loksins frelsi!

Heitasta ósk almennings í Austur-Þýskalandi var að fá frelsi. Það er ekkert undarlegt því að alræðisríkið hafði haldið borgunum í spennitreyju í fjóra áratugi. Áður en múrinn féll þurfti vegabréfsáritun til að fara yfir landamærin og það var erfitt eða ógerlegt að fá hana. Þetta breyttist skyndilega. „Hugsið ykkur, við getum farið til Ameríku!“ hrópaði kona nokkur. Að geta sameinast vinum og ættingjum hinum megin landamæranna var mörgum ólýsanlegt gleðiefni og er enn.

Nú geta Austur-Þjóðverjar ferðast til vesturhlutans og Vestur-Þjóðverjar til austurhlutans. Merkir ferðamannastaðir í nýju sambandsríkjunum eru nú aftur komnir inn á kortið, ef svo má að orði komast. Hægt er að heimsækja Wittenberg þar sem Marteinn Lúter hóf siðbótina og mótmælendatrúin átti upptök sín. Ferðamenn geta farið til borgarinnar Meissen sem er víðfræg fyrir handgerða postulínsmuni, og til Weimar þar sem tveir af frægustu rithöfundum Þjóðverja bjuggu, þeir Johann Wolfgang von Goethe og Friedrich von Schiller. Weimar var ein af menningarborgum Evrópu árið 1999, fyrst borga fyrrverandi kommúnistaríkis að njóta slíks heiðurs.

Endurheimt málfrelsis var mönnum mikils virði. Íbúar nýju sambandsríkjanna geta nú talað opinskátt hver við annan án þess að eiga á hættu að öryggislögreglan Stasi hlusti á. Og hinn almenni borgari fagnar því að geta valið milli sjónvarpsrása og lesefnis að vild sinni. „Þegar ég var í skóla voru vestræn rit, sem við komumst yfir, gerð upptæk,“ segir Matthias.

Mjög var latt til trúar og trúariðkana í Alþýðulýðveldinu Þýskalandi. Tveir af hverjum þrem borgurum stóðu utan trúfélaga. Nú hafa allir borgarar hins sameinaða ríkis notið trúfrelsis í rúmlega áratug, sem er lengsta trúfrelsistímabilið þar síðan Hitler lagði hömlur á starfsemi trúfélaga árið 1933. En trúfrelsi merkir ekki að trúarbrögð eigi almennum vinsældum að fagna. Stóru kirkjudeildirnar hafa horft upp á dvínandi áhrif um tíma og sú þróun jók skriðinn eftir fall Berlínarmúrsins. Vottar Jehóva hafa hins vegar aukið starfsemi sína en þeir sættu banni og ofsóknum meðan alræðisstjórnin var við lýði. Á síðastliðnum tíu árum hefur söfnuðurinn reist 123 ríkissali og tvær mótshallir í nýju sambandsríkjunum.

Alls konar byggingarstarfsemi hefur aukist gríðarlega í nýju ríkjunum. Berlín var gerð að höfuðborg Þýskalands á nýjan leik og er að fá stórkostlega andlitslyftingu. Verið er að styrkja innviði samfélagsins á öllum sviðum í nýju sambandsríkjunum. Meðal annars er geysilegu fé varið til vegabóta og uppbyggingar járnbrautanna. Umhverfishreinsun hefur miðað vel, dregið hefur úr mengun og heilsugæsla og félagsleg þjónusta er að nálgast vestrænan mælikvarða. Flestir íbúar nýju sambandsríkjanna telja sig búa við betri lífskjör en áður.

„Við höfðum það gott“

En sumir horfa um öxl með söknuði. „Við höfðum það gott,“ segir kona ein. Hvað gat verið gott við það að búa undir einræði? Sumir segja að tilveran hafi verið örugg og fyrirsjáanleg. Mörgum þótti hin nánu bönd milli vina og nágranna mikils virði og sú tilfinning að stuðningur og hjálp væri alltaf innan seilingar. Allensbach-stofnunin, sem fæst við skoðanakannanir, segir að „einræði veiti borgurunum öryggiskennd og siðferðilega ofmetakennd.“ Þessar tilfinningar glötuðust um leið og einræðisstjórn Alþýðulýðveldisins féll.

Sem annað dæmi má nefna að á níunda áratugnum var verðlagi á nauðsynjavörum og þjónustu haldið niðri og allir höfðu atvinnu. „Brauðbolla kostaði fimm pfenninga en núna er verðið að minnsta kosti tífalt hærra,“ segir Brigitte mæðulega. Með tilkomu frjálsrar samkeppni hættu þúsundir ríkisrekinna fyrirtækja starfsemi, með tilheyrandi atvinnuleysi. Í austurhluta Þýskalands er tvöfalt meira atvinnuleysi en í vesturhlutanum.

Áætlað er að sameining þýsku ríkjanna hafi kostað um 70.000 milljarða íslenskra króna. Og enn er margt ógert. Hver borgar brúsann? Að hluta til er kostnaðurinn fjármagnaður með sérstökum skatti. Sameiningin hefur því bæði komið við hjartað og budduna. Hefur hún verið erfiðisins og peninganna virði? Flestir telja sameininguna af hinu góða og eru stoltir af þeim árangri sem náðst hefur.

Hver er lærdómurinn?

Fall Berlínarmúrsins og breytingarnar í kjölfar þess sýna berlega að það leysir ekki öll vandamál að skipta um stjórn. Margir, einnig þeir sem telja breytingarnar af hinu góða, hafa komist að raun um að það getur verið jafngremjulegt að búa við samkeppni og kapítalisma og að búa við einræði. Frelsi og velmegun eru auðvitað eftirsóknarverð en sælan er skammlíf þegar kaldrani og umhyggjuleysi tekur við.

„Áratugur er liðinn frá sameiningunni og milljörðum dala hefur verið eytt í það að leiða austurhlutann burt frá erfiðri fortíð sinni,“ segir í nýlegri frétt frá Dessau sem er í austurhluta landsins. En margir virðast ekki ánægðir með árangurinn enn sem komið er.

Allensbach-stofnunin segir að margir vonist til þess að „það sé til einhver þriðja leið á milli frjálsa samkeppnishagkerfisins og áætlanahagkerfisins.“ Vottar Jehóva horfa til þeirrar stjórnarfarsleiðar yfir öllu mannkyni.

Þeir telja að ekkert stjórnmála- eða hagkerfi manna geti fullnægt öllum þörfum mannkyns. Þeir trúa að einungis messíasarríki skaparans geti fullnægt þessum þörfum. Að sögn Biblíunnar á þessi himneska stjórn að fara með réttlát og kærleiksrík yfirráð yfir allri jörðinni. Hún á að sameina allar þjóðir svo að allt mannkyn, ekki aðeins Þjóðverjar, geti búið saman í sátt og samlyndi. Og það verður öllu mannkyni til ólýsanlegrar blessunar. — Daníel 2:⁠44.

[Kort á blaðsíðu 23]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Bonn

Berlín

Wittenberg

Weimar

[Mynd á blaðsíðu 24]

Það var mörgum mikill léttir að sjá Berlínarmúrinn rifinn niður og landamærin numin úr gildi.

[Credit line]

Ljósmynd: Landesarchiv Berlin

[Mynd á blaðsíðu 24]

Checkpoint Charlie, táknmynd kalda stríðsins, fyrir og eftir fall Berlínarmúrsins.

[Credit line]

Ljósmynd: Landesarchiv Berlin

[Mynd á blaðsíðu 25]

Mikil endurnýjun á sér stað í Berlín, hinni nýju höfuðborg sameinaðs Þýskalands.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Nú sem stendur hafa vottar Jehóva byggt 123 ríkissali í nýju sambandsríkjunum.