Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju neytir fólk fíkniefna?

Af hverju neytir fólk fíkniefna?

Af hverju neytir fólk fíkniefna?

„ÉG VAR 13 ára þegar systir besta vinar míns bauð okkur heim eitt kvöldið. Allir fóru að reykja marijúana. Ég afþakkaði í fyrstu en prófaði það loks þegar búið var að bjóða mér það mörgum sinnum.“ Þetta voru fyrstu kynni Michaels af fíkniefnum, en hann býr í Suður-Afríku.

„Ég er kominn af íhaldssömu fólki og við vorum atvinnumenn í klassískri tónlist. Ég lék í sinfóníuhljómsveit og einn af hljóðfæraleikurunum var vanur að reykja marijúana í hléum. Mánuðum saman bauð hann mér að prófa. Að síðustu prófaði ég það og fór að nota það að staðaldri.“ Þannig byrjaði Darren, sem er kanadískur, að neyta fíkniefna.

Báðir fóru síðan yfir í önnur fíkniefni, svo sem LSD, ópíum og örvandi efni. Þeir eru hættir neyslunni núna og eru sammála um að áhrif frá kunningjunum hafi verið meginástæðan fyrir því að þeir byrjuðu að nota fíkniefni. „Mér kom aldrei til hugar að ég myndi nokkurn tíma neyta fíkniefna,“ segir Michael, „en þessir krakkar voru einu vinirnir sem ég átti og maður fylgir þeim auðvitað.“

Afþreyingariðnaðurinn

Hópþrýstingur á vissulega stóran þátt í því að margir byrja að neyta fíkniefna, og unglingarnir hafa sérstaklega lítið mótstöðuafl gegn honum. En goð afþreyingariðnaðarins hafa líka geysisterk áhrif á unga aðdáendur með fordæmi sínu.

Afþreyingariðnaðurinn er gagnsýrður fíkniefnaneyslu. Margir vinsælir tónlistarmenn neyta sterkra fíkniefna einhvern tíma á tónlistarferli sínum. Og margar kvikmyndastjörnur nota fíkniefni að staðaldri.

Skemmtikraftar geta gefið fíkniefnunum ákveðinn töfraljóma sem virðist ómótstæðilegur fyrir unglinga. „Götur Seattle eru fullar af krökkum sem fluttust þangað til að neyta heróíns af því að [rokktónlistarmaðurinn] Cobain gerði það,“ sagði í tímaritinu Newsweek árið 1996.

Tímarit, kvikmyndir og sjónvarp draga upp glansmynd af fíkniefnaheiminum. Og sumir þekktir tískuhönnuðir hafa dálæti á fyrirsætum sem eru mjóslegnar og tærðar að sjá eins og fíklarnir.

Af hverju ánetjast fólk?

Margt fleira stuðlar að því að neysla fíkniefna færist í vöxt. Má þar nefna vonbrigði, þunglyndi og tilgangsleysi í lífinu. Fjárhagserfiðleikar, atvinnuleysi og slæmt fordæmi foreldra hefur líka sín áhrif.

Sumir eiga erfitt með að blanda geði við aðra og nota fíkniefni til að auðvelda sér mannleg samskipti. Þeim finnst sjálfstraustið vaxa þegar þeir eru undir áhrifum og finnst þeir vera fyndnir og viðkunnanlegir. Sumum þykir hreinlega auðveldara að neyta fíkniefna en að taka ábyrgð á sjálfum sér og lífi sínu.

Leiði er önnur ástæða þess að unglingar sækja í fíkniefni. Í bókinni The Romance of Risk — Why Teenagers Do the Things They Do er minnst á umsjónarleysi foreldra og leiðindi: „Strákar og stelpur koma að tómu húsi eftir skóla. Það er ekkert skrýtið að þau séu einmana og vilji ekki vera ein. Vinir eða vinkonur koma í heimsókn en oft leiðist þeim líka saman. Þau horfa tímunum saman á sjónvarp og tónlistarmyndbönd eða vafra um Netið í leit að spenningi. Það þarf ekki mikið til að reykingar, fíkniefnanotkun og drykkja bætist við.“

Michael, sem áður er getið, sagði að umsjón foreldranna hefði verið áfátt heima fyrir: „Fjölskyldulífið var hamingjuríkt og við vorum mjög nátengd. En foreldrar mínir unnu bæði úti svo að það var enginn sem hafði eftirlit með mér að deginum til. Og foreldrar mínir gáfu okkur afskaplega mikið frjálsræði. Það var enginn agi. Þau höfðu enga hugmynd um að ég neytti fíkniefna.“

Margir halda neyslunni áfram, eftir að þeir eru komnir á bragðið, af þeirri einföldu ástæðu að þeir njóta áhrifanna. Michael, sem neytti fíkniefna daglega, segir um áhrifin: „Ég lifði í draumaheimi. Ég gat flúið hvaða álag sem ég varð fyrir. Mér fannst mér aldrei vera ógnað. Allt var bara yndislegt.“

Dick er annar fyrrverandi fíkniefnaneytandi í Suður-Afríku. Hann byrjaði að nota marijúana þegar hann var 13 ára, og segir um áhrifin sem það hafði á hann: „Ég hló að öllum bröndurum. Allt var ofsalega skemmtilegt.“

Unglingar virðast einfaldlega ekki hræðast viðvaranir um að fíkniefni séu skaðleg. Þeir virðast hugsa: ‚Það kemur ekkert fyrir mig.‘ Í bókinni Talking With Your Teenager er bent á hvers vegna táningar hunsi viðvaranir gegn fíkniefnum: „Þeir eru svo óbugandi og svo fullir af lífskrafti að það hvarflar ekki að þeim að þeir geti beðið tjón á heilsunni. Það er mjög algengt að unglingar haldi að ekkert geti komið fyrir sig. Táningar líta á lungnakrabbamein, drykkjusýki og eiturlyfjafíkn sem vandamál fullorðinna en ekki sitt.“ Margir vita hreinlega ekki af hættunum eins og sjá má af því hve e-töflur eru vinsælar. Hvað eru e-töflur?

E-töflur og „rave“-menningin

E-töflur eru náskyldar amfetamíni og algengt er að fólk neyti þeirra á næturlöngum dansleikjum sem kallast „rave“ eða „rave“-partý. Seljendur láta í veðri vaka að e-töflur séu hættulaus leið til að komast í sæluvímu og veiti jafnframt næstum takmarkalaust úthald til að dansa alla nóttina. Með því að neyta efnisins er hægt að dansa klukkustundum saman uns menn „komast í eins konar leiðsludá,“ eins og það var orðað í tímaritsgrein. Unglingur lýsti lokkandi áhrifum e-taflnanna þannig: „Örvunin byrjar í tánum og umvefur mann ólýsanlegri hlýju og ást þegar fiðringurinn fikrar sig upp í höfuðið.“

Heilaskimun á fólki, sem notar e-töflur að staðaldri, hefur leitt í ljós að efnið er hvergi nærri skaðlaust eins og fíkniefnasalar halda fram. E-töflur virðast skemma taugatrefjar í heilanum og lækka serótónín-stigið. Talið er hugsanlegt að skaðinn sé varanlegur og að hann geti með tímanum leitt til kvilla á borð við þunglyndi og minnistap. Nokkur dauðsföll hafa verið rakin til e-taflna. Og margir fíkniefnasalar blanda heróíni í e-töflurnar í þeim tilgangi að viðskiptavinirnir ánetjist.

Efnin eru auðfengin

Verð á fíkniefnum hefur lækkað víða um lönd samfara auknu framboði. Pólitískar og efnahagslegar breytingar eiga nokkurn þátt í því. Suður-Afríka er dæmi um þetta því að þar hafa pólitískar breytingar stuðlað að auknum viðskiptum og samskiptum við önnur lönd. Þegar við bætist ófullnægjandi landamæraeftirlit eiga fíkniefnasmyglarar greiða leið inn í landið. Vaxandi atvinnuleysi hefur haft í för með sér að þúsundir manna eiga afkomu sína undir ólöglegri fíkniefnasölu. Þar sem mikið er af fíkniefnum eru ofbeldisglæpir yfirleitt skammt undan. Samkvæmt fréttum dagblaða eru skólabörn í Gauteng í Suður-Afríku — sum ekki nema 13 ára — undir smásjá lögreglunnar vegna gruns um fíkniefnasölu. Og fjölmargir skólar þar um slóðir eru farnir að láta nemendur gangast undir lyfjapróf.

Hver er undirrótin?

Ástæðurnar fyrir því að fólk ánetjast fíkniefnum eru augljóslega margar. En þær eru aðeins einkenni annars og djúpstæðari vanda. Ben Whitaker ýjaði að þessari undirrót í bók er hann skrifaði: „Aukin neysla á fíkniefnum er viðvörunarmerki um veikleika og galla þjóðfélagsins, og um einmanaleika og örvæntingu. Er nokkur önnur rökrétt ástæða fyrir því að umtalsverður fjöldi af vel gefnu og vel settu fólki skuli taka fíkniefni fram yfir veruleika nútímans?“

Þetta er góð spurning sem minnir okkur á það að efnishyggjuþjóðfélaginu mistekst oft að fullnægja tilfinningalegum og andlegum þörfum okkar. Flestum trúarbrögðum hefur jafnvel mistekist að fullnægja þessum þörfum vegna þess að þau hafa ekki áttað sig á meginorsökinni fyrir vandamálum mannsins.

Við verðum að grafast fyrir um rætur fíkniefnavandans og viðurkenna hann ef við viljum leysa hann til frambúðar. Það er efni næstu greinar.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Dægurstjörnur hafa stundum sveipað fíkniefnin ævintýraljóma.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Tónlistarheimurinn er gagnsýrður fíkniefnum.

[Mynd á blaðsíðu 8]

E-töflur eru oft fáanlegar í „rave“-partíum.

[Credit lines]

Ljósmynd: AP/Greg Smith

Gerald Nino/U.S. Customs