Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er rangt að syrgja?

Er rangt að syrgja?

Sjónarmið Biblíunnar

Er rangt að syrgja?

„EKKI VILJUM VÉR, BRÆÐUR, LÁTA YÐUR VERA ÓKUNNUGT UM ÞÁ, SEM SOFNAÐIR ERU, TIL ÞESS AÐ ÞÉR SÉUÐ EKKI HRYGGIR EINS OG HINIR, SEM EKKI HAFA VON.“ — 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 4:⁠13.

BIBLÍAN gefur fyrirheit um hina látnu. Með kenningum sínum og með því að reisa upp dána vísaði Jesús til þess tíma er látnir verða vaktir til lífsins á ný. (Matteus 22:​23-33; Markús 5:​35, 36, 41, 42; Lúkas 7:​12-16) Hvaða áhrif ætti þessi von að hafa á okkur? Tilvitnuð orð Páls hér að ofan gefa til kynna að þessi von geti veitt huggun þegar ástvinur deyr.

Hafir þú misst ástvin hefur þú vafalaust fundið fyrir þeim tilfinningalega sársauka sem fylgir slíkri raun. Theresa missti eiginmann sinn eftir hjartaaðgerð, en þau höfðu verið gift í 42 ár. Hún segir að það hafi verið mikið áfall. „Fyrst var ég gagntekin ótta. Síðan fann ég fyrir hræðilegri kvöl sem óx því lengur sem frá leið. Ég grét mikið.“ Eru slík viðbrögð merki þess að viðkomandi trúi ekki alls kostar á loforð Jehóva um að dánir verði reistir upp? Er Páll að gefa í skyn að það sé rangt að syrgja?

Dæmi um syrgjendur í Biblíunni

Svör við þessum spurningum finnum við með því að skoða dæmi um syrgjendur í Biblíunni. Margar af frásögunum greina frá því að náinn ættingi hafi verið syrgður um einhvern tíma. (1. Mósebók 27:41; 50:​7-10; Sálmur 35:14) Tilfinningarnar, sem tengdust sorginni, voru oft mjög ákafar.

Við skulum athuga hvernig nokkrir trúfastir menn syrgðu látna ástvini. Til dæmis hafði Abraham þá sterku trú að Guð gæti reist upp hina dánu. (Hebreabréfið 11:19) En þrátt fyrir þessa sannfæringu „fór Abraham til að harma Söru og gráta hana“ þegar hún lést. (1. Mósebók 23:​1, 2) Þegar synir Jakobs lugu og sögðu honum að ástkær sonur hans, Jósef, væri dáinn „þá reif Jakob klæði sín . . . og harmaði son sinn langan tíma.“ (1. Mósebók 37:​34, 35) Og mörgum árum síðar lá sonarmissirinn enn þungt á Jakobi. (1. Mósebók 42:​36-38) Davíð konungur syrgði líka opinskátt og ákaflega er tveir synir hans, þeir Amnon og Absalon, létust. Þótt þeir hefðu báðir verið Davíð og fjölskyldu hans til mikillar mæðu voru þeir engu að síður synir hans og hann varð mjög sorgmæddur yfir dauða þeirra. — 2. Samúelsbók 13:​28-39; 18:⁠33.

Stundum kom það fyrir að öll Ísraelsþjóðin syrgði eins og gerðist við dauða Móse. Í 5. Mósebók 34:8 segir að Ísraelsmenn hafi grátið í 30 daga.

Að síðustu má nefna Jesú Krist er náinn vinur hans, Lasarus, dó. Þegar Jesús sá systur hans, Mörtu og Maríu ásamt vinum þeirra, gráta „komst hann við í anda og varð hrærður mjög.“ Þó að Jesús vissi að hann myndi gefa vini sínum lífið aftur innan lítillar stundar ‚þá grét hann.‘ Jesú þótti mjög vænt um Mörtu og Maríu. Hann varð því djúpt snortinn þegar hann sá harm þeirra yfir dauða Lasarusar. — Jóhannes 11:​33-36.

Abraham, Jakob, Davíð og Jesús sýndu sterka trú á Jehóva og loforð hans en samt syrgðu þeir. Var það merki um andlegan veikleika? Var sorg þeirra merki um að þá skorti trú á upprisuna? Alls ekki! Það eru eðlileg viðbrögð að syrgja látinn ástvin.

Hvers vegna við syrgjum

Það var aldrei tilgangur Guðs að menn dæju. Eins og Adam og Evu var sagt var tilgangur Jehóva frá upphafi að breyta jörðinni í dásamlegan paradísargarð sem átti að fyllast af kærleiksríkum og hamingjusömum fjölskyldum. Dauðinn kæmi því aðeins til ef þessi fyrstu mannhjón kysu að óhlýðnast Jehóva. (1. Mósebók 1:28; 2:17) Því miður óhlýðnuðust Adam og Eva og vegna óhlýðni þeirra „er dauðinn runninn til allra manna.“ (Rómverjabréfið 5:12; 6:23) Dauðinn er því grimmur óvinur sem átti aldrei að verða til. — 1. Korintubréf 15:⁠26.

Þar sem dauðinn er svo óeðlilegur atburður er skiljanlegt að hann valdi nánustu aðstandendum djúpum sársauka og kvöl. Gífurlegt tómarúm fylgir honum. Theresa, fyrrnefnd ekkja, sagði varðandi eiginmann sinn: „Ég er viss um að sjá hann aftur í upprisunni en ég sakna hans svo mikið núna. Það er það sem veldur svo miklum sársauka.“ Foreldramissir minnir okkur ef til vill á að einn daginn kemur röðin að okkur sjálfum. Okkur þykir sérstaklega sárt að horfa upp á þann harmleik er ungt fólk deyr í blóma lífsins. — Jesaja 38:⁠10.

Já, dauðinn er óeðlilegur. Sársaukinn, sem fylgir honum, kemur ekki á óvart og Jehóva lítur ekki á sorgarviðbrögð sem vantrú á upprisuna. Þegar við látum opinskátt í ljós harm okkar er það engin vísbending um að okkur skorti trú eins og sjá má á dæmunum um Abraham, Jakob, Davíð, Ísraelsmenn og Jesú. *

Þó að við, sem erum kristin, syrgjum vissulega látinn ástvin hryggjumst við samt ekki „eins og hinir, sem ekki hafa von.“ (1. Þessaloníkubréf 4:13) Við förum ekki út í öfgar er varðar sorgarsiði af því að við erum ekki í vafa um ástand hinna látnu. Við vitum að þeir þjást hvorki né hryggjast heldur sofa líkt og í djúpum, friðsælum svefni. (Prédikarinn 9:5; Markús 5:39; Jóhannes 11:​11-14) Við erum þess líka fullviss að Jesús, „upprisan og lífið,“ mun standa við loforð sitt um að reisa upp ‚alla þá sem í gröfunum eru.‘ — Jóhannes 5:​28, 29; 11:​24, 25.

Ef þú ert sorgmæddur á þessari stundu skaltu njóta þeirrar huggunar að vita að Jehóva skilur kvöl þína. Vonandi verður sú vitneskja ásamt upprisuvoninni til að draga úr sorginni og hjálpa þér að takast á við missinn.

[Neðanmáls]

^ Ábendingar um leiðir til að takast á við sorgina er að finna á bls. 14-19 í bæklingnum Þegar ástvinur deyr . . . sem gefinn er út af Vottum Jehóva.