Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fíkniefnavandinn — lausn í sjónmáli!

Fíkniefnavandinn — lausn í sjónmáli!

Fíkniefnavandinn — lausn í sjónmáli!

„STÓR kókaínsending í vínflöskum.“ Í fréttinni, sem fylgdi þessari fyrirsögn, var sagt frá því að lögreglan í Jóhannesarborg í Suður-Afríku hefði lagt hald á gám með 11.600 flöskum af suður-amerísku víni. Í vínið hafði verið blandað á bilinu 150 til 180 kílógrömmum af kókaíni. Þetta mun hafa verið stærsta kókaínsending sem borist hafði til landsins.

Það er vissulega uppörvandi þegar lögreglunni tekst að koma í veg fyrir smygl á fíkniefnum, en sannleikurinn er því miður sá að það tekst ekki að leggja hald á nema 10 til 15 prósent þeirra fíkniefna sem reynt er að smygla milli landa í heiminum. Það má líkja þessu við garðyrkjumann sem slítur upp nokkur lauf af skæðu illgresi en skilur rótina eftir í moldinni.

Hagnaðurinn af framleiðslu og sölu fíkniefna er svo gífurlegur að það tálmar stjórnvöldum í baráttunni gegn þeim. Svo dæmi sé tekið er talið að fíkniefnamarkaðurinn í Bandaríkjunum velti mörgum milljörðum dollara á ári. Þar sem um er að ræða svona mikið fé er ekkert undarlegt að spilling teygi anga sína inn í raðir lögreglu og embættismanna, jafnvel mjög háttsettra.

Alex Bellos, sem skrifar í dagblaðið The Guardian Weekly, segir frá því að brasilíska þingið hafi látið gera rannsókn sem leiddi í ljós að „nöfn þriggja þingmanna, 12 fulltrúadeildarþingmanna og þriggja borgarstjóra . . . voru á rösklega 800 manna lista yfir fólk sem talið var eiga aðild að skipulagðri glæpastarfsemi og fíkniefnaverslun í Brasilíu.“ Á listanum voru einnig nöfn „lögreglumanna, lögfræðinga, kaupsýslumanna og bænda í 17 ríkjum [Brasilíu] af 27.“ Prófessor í stjórnmálafræði við Brasilíuháskóla kallaði þessa niðurstöðu „ógurlegan áfellisdóm yfir öllum geirum hins brasilíska þjóðfélags.“ Og hið sama mætti segja um mörg önnur þjóðfélög þar sem fíkniefni hafa náð sterkri fótfestu. Markaðslögmálin — framboð og eftirspurn — ráða ferðinni.

Í ljósi þess hve takmörkuðum árangri barátta yfirvalda skilar aðhyllast sumir að leyfð verði sala á ákveðnum fíkniefnum. Menn hugsa sér að það myndi auðvelda eftirlit yfirvalda og skerða hinn gífurlega hagnað fíkniefnasalanna ef einstaklingar fengju að kaupa lítið magn af þessum efnum til eigin nota.

Sumir sigra í baráttunni

Með því að fara í afeitrun geta fíklar oft hætt neyslunni og bætt heilsufarið. En því miður eru talsverðar líkur á því að fíkillinn freistist til að taka upp fyrra hátterni um leið og hann snýr aftur í fyrra umhverfi. Bókarhöfundurinn Luigi Zoja lýsir ástæðunni svo: „Það er ekki hægt að breyta ákveðnu atferli nema sjúklingurinn tileinki sér algerlega nýjan hugsunarhátt.“

Darren, sem nefndur var í greininni á undan, tileinkaði sér „nýjan hugsunarhátt“ sem breytti lífi hans. „Ég var yfirlýstur trúleysingi,“ segir hann, „en þó að ég væri í vímu frá morgni til kvölds rann það smám saman upp fyrir mér að það hlyti að vera til Guð. Í tvo eða þrjá mánuði reyndi ég að hætta neyslunni en vinir mínir þrýstu á mig að halda áfram. Þó að ég væri í neyslu byrjaði ég að lesa í Biblíunni á kvöldin áður en ég fór að sofa. Ég dró úr umgengni við vini mína. Við herbergisfélagarnir vorum hátt uppi eitt kvöldið þegar ég nefndi Biblíuna við hann. Morguninn eftir hringdi hann í bróður sinn sem er vottur Jehóva. Bróðirinn vísaði okkur á vott sem bjó í sama bæ og við, og við mæltum okkur mót.

Við töluðum saman fram til klukkan ellefu um kvöldið og ég kom heim með ein tíu biblíunámsrit. Ég fór að kynna mér Biblíuna með hjálp hans og hætti eiturlyfjanotkun og reykingum. Um níu mánuðum síðar lét ég skírast sem vottur Jehóva.“

Það er enginn hægðarleikur að hætta fíkniefnaneyslu. Michael, sem um var getið í greininni á undan, lýsir því hve erfitt var að hætta eftir 11 ára neyslu: „Ég átti mjög erfitt með að borða svo að ég léttist. Ég fékk náladofa, svitaköst og sá geislabauga kringum fólk. Löngun í fíkniefnin var gífurleg, en með því að styrkja bænasambandið við Jehóva og nema Biblíuna gat ég haldið mér frá þeim.“ Þessir fyrrverandi fíkniefnaneytendur eru á einu máli um að þeir hafi þurft að slíta algerlega sambandinu við fyrrverandi félaga sína.

Hvers vegna tekst mönnum ekki að leysa vandann?

Ólögleg fíkniefni eru aðeins ein hlið á umfangsmeiri vanda því að allur heimurinn er í helgreipum illsku, ofbeldis og grimmdar. Biblían segir um þessi yfirþyrmandi áhrif: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Í Opinberunarbókinni 12:9 bendir Jóhannes postuli á hver ‚hinn vondi‘ er: „Drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.“

Maðurinn á við þennan öfluga óvin að etja, auk sinna eigin veikleika. Það var Satan sem varð manninum að falli forðum daga. Hann er staðráðinn í því að auvirða mannkynið og snúa því frá Guði, og fíkniefnin virðast vera einn þáttur í áætlun hans. Hann er ævareiður því að hann veit „að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:⁠12.

Hvaða lausn hefur Guð?

Biblían segir frá því að skaparinn hafi gert kærleiksríka ráðstöfun til að leysa mannkynið úr fjötrum syndarinnar. Við lesum í 1. Korintubréfi 15:22: „Eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.“ Jesús kom fúslega til jarðar sem fullkominn maður og fórnaði jarðnesku lífi sínu til að losa mannkynið undan áhrifum syndar og dauða.

Að þekkja ástæðuna fyrir dauðanum og lausnina á vandamálum mannkyns hefur gefið mörgum hvöt og hugrekki til að slíta sig lausa úr fjötrum fíkniefnanna. En Biblían lætur ekki við það sitja að hjálpa einstaklingum að kljást við fíkniefnabölið heldur segir hún einnig frá því að Satan verði tekinn úr umferð þegar fram líða stundir og að allt heimsins böl, þar á meðal fíkniefnin, verði úr sögunni fyrir fullt og allt.

Opinberunarbókin segir frá ‚móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristal, sem rann frá hásæti Guðs og lambsins.‘ (Opinberunarbókin 22:⁠1) Þessi móða eða fljót táknar það sem Guð gerir fyrir atbeina Jesú Krists til að gefa manninum fullkomleika í paradís á jörð. Opinberunarbókin lýsir „lífsins tré“ sem vex við ána og segir að ‚blöð þess séu til lækningar þjóðunum.‘ (Opinberunarbókin 22:⁠2) Blöðin tákna þá lækningu, sem Jehóva veitir mannkyni, svo að það geti orðið andlega og líkamlega fullkomið.

Þá verður maðurinn loksins frjáls, ekki aðeins undan fíkniefnunum heldur einnig undan öllum öðrum vandamálum og böli sem hefur þjakað hann í þessu spillta heimskerfi.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 9]

Eru kannabisefni skaðlítil?

Margar þjóðir eru að íhuga þann kost að leyfa notkun kannabisefna, einkum í læknisfræðilegum tilgangi. Efnin draga úr ógleði sem fylgir lyfjameðferð krabbameinssjúklinga og virðast auka matarlyst alnæmissjúkra. Og þau hafa verið notuð sem verkjastillandi lyf.

Menn eru reyndar ekki á eitt sáttir um þessar niðurstöður. Hins vegar hefur verið skýrt frá ýmsum skaðlegum áhrifum kannabisefna í tímaritinu New Scientist.

Í rannsókn á vegum Harvardháskóla var gerður samanburður á hópi, sem reykti marijúana daglega, og hópi sem reykti það sjaldnar. Lítill munur kom fram í stöðluðum sálfræðilegum prófum en daglegu neytendurnir stóðu sig mun verr í einu prófi í aðlögunarhæfni.

Annar háskóli bar saman hóp manna, sem reykti marijúana að staðaldri, og hóp sígarettureykingamanna á 15 ára tímabili. Marijúanahópurinn reykti að jafnaði þrjár til fjórar „jónur“ á dag en tóbakshópurinn 20 sígarettur eða meira. Hósti og berkjukvef var jafnalgengt í báðum hópunum. Rannsóknir á lungum leiddu í ljós svipaðar frumuskemmdir í þeim báðum.

Marijúananeytendurnir reyktu mun sjaldnar en tóbaksneytendurnir, en í ljós kom að þrefalt meiri tjara er í einni „jónu“ en einni sígarettu. Og New Scientist bendir á að ‚marijúananeytendur dragi reykinn dýpra og haldi andanum lengur niðri en tóbaksreykingamenn.‘

Ónæmisfrumur í lungum marijúananeytenda reyndust 35 prósentum slappari í baráttu gegn sýklum en samsvarandi frumur í lungum tóbaksreykingamanna.

[Credit line]

Ljósmynd: U.S. Navy

[Rammagrein á blaðsíðu 11]

„Alvarleg ákæra á hendur foreldrum“

Leiðarahöfundur suður-afríska dagblaðsins Saturday Star lýsti áhyggjum sínum af stóraukinni fíkniefnaneyslu unglinga þar í landi. Hann sagði:

„Að börnin okkar skuli gera þetta [neyta fíkniefna] er oft alvarleg ákæra á hendur okkur sem foreldrum og sem þjóðfélagi. Við stritum fyrir peningum daginn út og daginn inn og dýrkum mammón í musteri hans. Krakkarnir heimta athygli okkar og krafta. En gefum við þeim af tíma okkar? Það er ósköp auðvelt að henda peningum í þá svo að þeir láti okkur í friði. Það er auðveldara heldur en að hlusta á þá — á ótta þeirra, vonir og vandamál. Við förum út að borða í kvöld eða slöppum af fyrir framan sjónvarpið, en vitum við hvað þeir eru að gera?“

Það mætti kannski bæta við: Eða hvað þeir eru að hugsa?

[Mynd á blaðsíðu 10]

Margir hafa fundið hvöt hjá sér til að hætta fíkniefnanotkun.