Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fíkniefni — hverjir neyta þeirra?

Fíkniefni — hverjir neyta þeirra?

Fíkniefni — hverjir neyta þeirra?

Eftir Fréttaritara Vaknið! Í Suður-afríku

„ALLIR nota fíkniefni.“ Þessi alhæfing er kannski notuð til að telja hina óreyndu á að prófa ólögleg fíkniefni. En ef til vill má segja að það sé nokkur sannleikur í þessum orðum ef kosin er mjög rúm skilgreining fyrir ávana- og fíkniefni.

Fíkniefni er skilgreint sem „deyfandi eða örvandi efni sem veldur fíkn og getur orðið vanabindandi, vímuefni, vímugjafi.“ Þetta er góð og almenn lýsing á efnum sem framkalla breytingar á starfsemi miðtaugakerfisins með þeim hætti að menn upplifa breytt vitundarástand. Einstaka lyf geta jafnvel fallið í þennan flokk.

Samkvæmt þessari skilgreiningu er áfengi fíkniefni. Hættan af notkun þess er fólgin í ofneyslu og hún færist greinilega í aukana. Í könnun, sem gerð var meðal framhaldsskóla- og háskólanema Vestanhafs, kom í ljós að „ölvunardrykkja er alvarlegasta fíknivandamálið sem við er að glíma innan skólanna.“ Könnunin leiddi í ljós að 44 prósent nemenda stunduðu ölvunardrykkju. *

Tóbak er selt með löglegum hætti, líkt og áfengi, þó svo að það innihaldi sterkt eiturefni, nikótínið. Að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar deyja um fjórar milljónir manna árlega af völdum reykinga. Tóbaksjöfrarnir eru engu að síður auðugir og virtir samfélagsþegnar. Sígarettureykingar eru líka ákaflega vanabindandi, hugsanlega meira en notkun margra ólöglegra fíkniefna.

Margar þjóðir hafa bannað eða takmarkað tóbaksauglýsingar á síðustu árum og sett ýmsar aðrar hömlur á sölu tóbaks. Margir líta þó á tóbaksreykingar sem boðlega, félagslega athöfn. Og í kvikmyndum er enn þá reynt að gefa reykingum glæsilegan eða rómantískan blæ. Kaliforníuháskóli í San Fransisco gerði úttekt á arðbærustu kvikmyndum áranna 1991 til 1996, og í ljós kom að átta af hverjum tíu aðalkarlpersónum kvikmyndanna reyktu.

Hvað um kaffi, te og lyf?

Lyf hafa vissulega hjálpað mörgum en það er líka hægt að misnota þau. Læknar eru stundum einum of fljótir til að ávísa lyfjum, og stundum þrýsta sjúklingar á lækna um að ávísa lyfjum sem þeir þurfa ekki á að halda. Læknir nokkur segir að ‚læknar taki sér ekki alltaf tíma til að grafast fyrir um orsakir sjúkdómseinkenna. Það sé auðveldara að segja: „Taktu þessar töflur.“ Hins vegar sé ekki tekist á við sjálfan vandann.‘

Lyf, sem hægt er að kaupa án lyfseðils, svo sem aspirín og parasetamól, geta jafnvel verið hættuleg ef þau eru ofnotuð. Meira en 2000 manns deyja árlega í heiminum vegna ofnotkunar á parasetamóli.

Samkvæmt skilgreiningunni fyrr í greininni má segja að koffínið í tei og kaffi sé líka fíkniefni, þó að við lítum tæplega þannig á það meðan við erum að drekka morgunkaffið eða sötra tebolla. Og það væri fáránlegt að setja viðurkennda drykki eins og te eða kaffi í sama flokk og sterk fíkniefni á borð við heróín. Það væri sambærilegt við það að líkja kettlingi við grimmt ljón. Sumir sérfræðingar segja samt að það geti verið skaðlegt að drekka meira en fimm bolla af kaffi eða níu bolla af tei daglega að staðaldri. Og sá sem drægi skyndilega úr mikilli te- eða kaffidrykkju gæti fundið fyrir fráhvarfseinkennum líkt og tedrykkjumaðurinn sem fékk uppköst og slæma höfuðverki og varð viðkvæmur fyrir ljósi.

Fíkniefni og ólögleg lyfjanotkun

Lyfjanotkun meðal íþróttamanna er umdeild. Hún var mjög í sviðsljósinu árið 1998 í Tour de France keppninni þegar níu hjólreiðamenn í forystuliðinu voru reknir úr keppni vegna þess að þeir höfðu neytt lyfja til að bæta frammistöðu sína. Íþróttamenn hafa fundið upp á ýmsum aðferðum til að reyna að standast lyfjapróf. Tímaritið Time segir frá því að sumir hafi jafnvel gengið svo langt að „láta sprauta ‚hreinu‘ þvagi úr öðrum inn í blöðruna í sér með hollegg sem getur verið nokkuð sársaukafullt.“

Ólöglegu ávana- og fíkniefnin eru mörg og margbreytileg. Þetta eru efni eins og hass, marijúana, e-töflur (metýlendíoxý-metamfetamín), LSD (lýsergíðsýrutvíetýlamíð), örvandi efni (svo sem kókaín og amfetamín), róandi efni og heróín. Og ekki má gleyma ýmsum sniffefnum, svo sem lími og bensíni, sem unglingar sækja stundum í. Þessi sniffefni eru auðvitað lögleg og það er mjög auðvelt að nálgast þau.

Margir sjá fyrir sér skinhoraðan sprautufíkil í sóðalegu herbergi þegar minnst er á fíkniefnaneytanda. En þessi mynd getur verið villandi. Margir fíklar geta lifað eðlilegu lífi að mestu leyti, þó svo að fíknin hljóti að hafa meiri eða minni áhrif á lífsgæði þeirra. En það má ekki gera lítið úr skuggahliðum fíkniefnaheimsins. Bókarhöfundur einn segir frá því að kókaínneytendur „geti sprautað sig ótal sinnum í sömu vímulotunni og breytt líkama sínum í blóðugan og blóðhlaupinn ‚nálapúða.‘ “

Neysla ólöglegra fíkniefna virtist vera á niðurleið á síðari hluta níunda áratugarins en nú er hún á uppleið aftur alls staðar í heiminum. Tímaritið Newsweek segir: „Yfirvöldum finnst þau vera máttvana gagnvart holskeflu fíkniefnasmygls og vaxandi neyslu næstum allra fíkniefna, og vegna skorts á fjármunum og upplýsingum til baráttunnar.“ Dagblaðið The Star í Jóhannesarborg í Suður-Afríku segir að samkvæmt skýrslum stjórnvalda sé „einn af hverjum fjórum Suður-Afríkubúum ánetjaður áfengi eða fíkniefnum.“

Rannsóknarstofnun Sameinuðu þjóðanna um félagslega þróun bendir á að „framleiðendur og seljendur fíkniefna . . . hafi skipulagt starfsemi sína á heimsvísu og leggi umtalsverðan hluta fíkniefnagróðans inn hjá fjármagnsfyrirtækjum sem bjóða upp á leynd og eftirsóknarverða ávöxtun. . . . Nú geta fíkniefnasalar hvítþvegið illa fenginn gróða með því að flytja fé rafrænt um heiminn undir litlu eftirliti.“

Svo virðist sem margir Bandaríkjamenn meðhöndli kókaín daglega án þess að vita af því. Í grein í tímaritinu Discover kemur fram að það megi finna snefil af því á flestum bandarískum peningaseðlum.

Það er staðreynd að margir líta á notkun vímu-, ávana- og fíkniefna, einnig ólöglegra efna, sem eðlilegan þátt daglegs lífs. En nú hefur skaðsemi ólöglegra fíkniefna, svo og tóbaks og áfengis, verið haldið mjög á loft, þannig að sú spurning vaknar eðlilega hvers vegna fólk noti þau. Við skulum leita svars við þessari spurningu og jafnframt velta fyrir okkur hvaða afstöðu við höfum sjálf til ávana- og fíkniefna.

[Neðanmáls]

^ Ölvunardrykkja var skilgreind sem ‚það að karlar drykkju fimm eða fleiri áfenga drykki í röð en konur fjóra eða fleiri.‘

[Mynd á blaðsíðu 3]

Ölvunardrykkja er víða alvarlegt vandamál í framhaldsskólum og háskólum.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Margir álíta reykingar og neyslu annarra ávanaefna tiltölulega skaðlausa.