Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heyrir Guð bænir mínar?

Heyrir Guð bænir mínar?

Ungt Fólk Spyr . . .

Heyrir Guð bænir mínar?

„Ég get talað um hvað sem er við Jehóva vegna þess að hann er vinur minn og ég veit að hann hjálpar mér ef ég er í vanda stödd.“ — Andrea

ANDREA er sannfærð um að Guð heyri bænir hennar. En margir unglingar eru í vafa um að hann hlusti á þá. Sumum finnst þeir of fjarlægir Guði til að nálgast hann í bæn. Þeim er jafnvel spurn hvort honum sé nógu annt um þá til að það borgi sig að biðja til hans.

Hver er lykillinn að góðu bænasambandi við Guð? Í stuttu máli sá að eiga hann fyrir raunverulegan vin. Sálmaritarinn bað: „Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér.“ (Sálmur 9:11) Hvað með þig? Þekkirðu Guð nógu vel til að treysta því að hann heyri bænir þínar? Reyndu að svara spurningunum í rammanum að neðan „Hversu vel þekkirðu Guð?“ áður en þú lest lengra. Hvað geturðu svarað mörgum þeirra?

HVERSU VEL ÞEKKIRÐU GUÐ? Svör á blaðsíðu 27.

1. Hvað heitir Guð og hvað þýðir nafnið?

2. Hverjir eru fjórir höfuðeiginleikar Guðs samkvæmt Biblíunni?

3. Hvert var mesta kærleiksverk Guðs í þágu mannkynsins?

4. Hvernig getum við eignast vináttusamband við Guð?

5. Með hvaða hugarfari er rétt að biðja?

Geturðu svarað einhverjum spurninganna núna, áður en þú lest það sem eftir er af greininni? Ef svo er þá veistu nú þegar meira um Guð en flestir. En kannski gefa svör þín til kynna að þú verðir að kynnast honum betur til að þekkja hann náið. (Jóhannes 17:⁠3) Með það í huga skaltu skoða sumt af því sem Biblían kennir okkur um þann „sem heyrir bænir.“ — Sálmur 65:⁠3.

Guð er raunveruleg persóna

Í fyrsta lagi leiðir Biblían okkur fyrir sjónir að Guð er ekki ópersónulegur kraftur. Hann er persóna og heitir Jehóva. (Sálmur 83:19) Á hebresku þýðir nafnið „hann lætur verða.“ Hann getur orðið hvaðeina sem þarf til að koma vilja sínum til leiðar. Ópersónulegur orkumassi gæti það ekki. Þegar þú biður geturðu verið viss um að þú ert ekki að tala við eitthvert óhlutbundið afl eða tala bara út í bláinn. Þú ert að tala við persónu sem getur bæði hlustað á bænir þínar og svarað þeim. — Efesusbréfið 3:⁠20.

Díana segir: „Ég veit að Jehóva hlustar á mig hvar sem ég er stödd.“ En til þess að vera sannfærður um það verður Guð að vera þér raunverulegur. „Sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til,“ segir Biblían. — Hebreabréfið 11:⁠6.

Uppspretta visku og máttar

Guð getur hjálpað okkur því að hann býr yfir gríðarlegum mætti. Máttur hans er ótakmarkaður og stærð og margbreytileiki alheimsins ber vitni um það. Biblían segir að Jehóva þekki nafn allra stjarna — jafnvel þótt þær séu óteljandi milljarðar! Auk þess er hann uppspretta allrar orkunnar sem bundin er í þessum stjörnum. (Jesaja 40:​25, 26) Finnst þér þetta ekki ótrúlegt? Og þó að þetta séu undraverðar staðreyndir segir Biblían að ‚þetta sé aðeins vottur af mætti hans.‘— Jobsbók 26:​14, Today’s English Version.

Hugleiddu líka ótakmarkaða visku Jehóva. Biblían segir að hugsanir hans séu „harla djúpar.“ (Sálmur 92:⁠6) Hann skapaði mannkynið og skilur okkur því betur en við gerum sjálf. (Sálmur 100:⁠3) Reynsla hans er ótakmörkuð því að hann hefur verið til „frá eilífð til eilífðar.“ (Sálmur 90:​1, 2) Það er ekkert ofar hans skilningi. — Jesaja 40:​13, 14.

Hvernig notar Jehóva allan þennan mátt og þessa visku? Síðari Kroníkubók 16:9 segir: „Því að augu [Jehóva] hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann.“ Það er einfaldlega ekki til það vandamál sem Guð getur ekki leyst eða hjálpað þér að takast á við. Kayla segir: „Núna fyrir stuttu, þegar ég og fjölskylda mín gengum í gegnum erfitt tímabil, bað ég til Jehóva, og mér finnst hann hafa hjálpað okkur að takast á við aðstæður, vandamál og tilfinningar sem hefðu annars verið óbærilegar.“ Þegar þú talar við Guð ertu að leita til uppsprettu viskunnar. Þú getur ekki gert betur en það!

Guð réttlætis og kærleika

En hvernig veistu að Guð vilji hjálpa þér? Þú veist það vegna þess að hann hefur ekki valið að láta gríðarlegan kraft sinn, djúpa visku eða óbilandi réttlæti einkenna sig heldur kærleikann. Fyrsta Jóhannesarbréf 4:8 segir: „Guð er kærleikur.“ Og það er þessi mikli kærleikur sem gefur bæninni kraft. Mesta kærleiksverk hans var að gefa son sinn sem lausnargjald til þess að við gætum fengið eilíft líf. — Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 4:​9, 10.

Þú þarft aldrei að hafa áhyggjur af því að Guð hunsi þig eða beiti þig órétti því að hann er kærleikur. „Allir vegir hans eru réttlæti,“ segir 5. Mósebók 32:⁠4. Kærleikur Guðs til þín fullvissar þig um að hann hlusti. Við getum því óhrædd sagt honum innstu hugsanir okkar og tilfinningar. — Filippíbréfið 4:​6, 7.

Vinátta við Guð

Í rauninni hvetur Jehóva okkur til að tala við sig. Hann vill að við kynnumst sér náið. Hann hefur hvatt fólk allt frá öndverðu til að vingast við sig. Konur og karlar, jafnt ungir sem aldnir, hafa notið vinskapar Guðs og velþóknunar hans. Þeirra á meðal voru Abraham, Davíð konungur og María móðir Jesú. — Jesaja 41:8; Lúkas 1:​26-38; Postulasagan 13:⁠22.

Þú getur líka verið vinur Jehóva. Það merkir auðvitað ekki að þú eigir að líta á Guð sem einhvers konar töfraanda sem þú kallar bara á þegar þú óskar þér einhvers eða þegar þú átt í erfiðleikum. Bænir okkar mega ekki bara snúast um okkar eigin þarfir. Ef við viljum vera vinir Guðs verðum við að hafa áhuga á vilja hans — ekki bara okkar eigin — og við verðum að gera vilja hans. (Matteus 7:21) Þess vegna kenndi Jesús lærisveinunum að einblína á það sem mikilvægt er í augum Guðs. Hann sagði: „En þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:​9, 10) Bænir okkar ættu líka að vera fullar af lofi og þökkum til Guðs. — Sálmur 56:13; 150:⁠6.

En við ættum samt aldrei að halda að þarfir okkar eða áhyggjur séu of ómerkilegar eða lítilvægar til að minnast á í bæn. „Jafnvel þó að ég reyni að vera hreinskilinn við Guð í bænum mínum,“ segir Steve, „þá finnst mér stundum eins og ég ætti ekki að ónáða hann út af hversdagslegum hlutum.“ Þegar þú ferð að hugsa svona reyndu þá að muna eftir því sem Jesús kenndi lærisveinunum: „Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði. . . . Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Lúkas 12:​6, 7) Er þetta ekki hughreystandi?

Það er greinilegt að því betur sem þú þekkir Jehóva þeim mun meira finnurðu þig knúinn til að nálgast hann í bæn og þeim mun vissari verðurðu um að hann geti og vilji hjálpa þér. Með hvaða hugarfari ættirðu að nálgast Guð í bæn? Þú verður að sýna virðingu, auðmýkt og óeigingirni. Heldurðu að háttsettur embættismaður hér á jörðinni myndi hlusta á þig ef þú bæðir hann einhvers á hrokafullan eða ókurteisan hátt? Það ætti því ekki að koma þér á óvart að Jehóva ætlast til þess að þú sýnir honum og stöðlum hans virðingu áður en hann svarar bænum þínum. — Orðskviðirnir 15:⁠29.

Þúsundir guðhræddra unglinga hafa lært að úthella hjörtum sínum fyrir Jehóva. (Sálmur 62:⁠9) „Þegar Jehóva svarar bænum mínum,“ segir Brett, „minnir það mig á að hann er enn þá vinur minn.“ Hvað með þig? Hvernig geturðu eignast sams konar vináttusamband við Guð? Tvær kristnar stúlkur segja eftirfarandi:

Rakel: „Mér finnst ég verða að nema orð Guðs nánar til að nálgast hann meira og ég er að reyna að þroska með mér löngun til slíks náms.“ — 1. Pétursbréf 2:⁠2.

Jenný: „Því uppteknari sem maður er í þjónustunni við Jehóva, þeim mun nálægari er maður honum.“ — Jakobsbréfið 4:⁠8.

Hefurðu einhvern tíma velt því fyrir þér hversu mikið gagn bænin gerir í raun og veru? Kristin stúlka segir: „Mér fyndist ég nálægari Guði ef hann talaði við mig eða gæfi mér skilaboð.“ En hvernig hjálpar bænin okkur þar sem Jehóva svarar okkur ekki upphátt? Um það verður rætt í næsta blaði.

[Rammi á blaðsíðu 27]

Svör við spurningum á blaðsíðu 25.

1. Jehóva. Það þýðir „hann lætur verða.“

2. Kærleikur, máttur, réttlæti og viska.

3. Hann sendi eingetinn son sinn, Jesú, til jarðar til að deyja fyrir okkur.

4. Með því að hugsa ekki bara um eigin þarfir heldur hafa áhuga á vilja Guðs og gera hann.

5. Við ættum að sýna auðmýkt, virðingu og óeigingirni.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Við kynnumst Jehóva betur með því að nema Biblíuna og læra af sköpunarverkinu.