Hið þýðingarmikla hlutverk feðra
Hið þýðingarmikla hlutverk feðra
„Æ FLEIRI ungir karlmenn vilja eiga virkan þátt í uppeldi barna sinna. Áttatíu og tveir af hundraði karla á aldrinum 21 til 39 ára völdu sér vinnu sem gaf þeim meiri tíma með fjölskyldunni,“ segir kanadíska dagblaðið The Toronto Star um nýlega könnun sem unnin var af Harvardháskóla. Könnunin náði til 1008 bandarískra karla og kvenna á aldrinum 21 til 65 ára. Sjötíu og eitt prósent ungra karlmanna sagðist vera fús að „fórna hluta launa sinna til að geta átt meiri tíma með fjölskyldunni.“
Hvers vegna vilja margir feður sinna börnum sínum betur? David Blankenhorn, einn af stofnendum samtakanna National Fatherhood Initiative, sem vinna að því að efla ábyrgðartilfinningu feðra, bendir á að í könnun meðal 1600 bandarískra karla árið 1994 sögðu 50 prósent að feður þeirra hefðu ekki sinnt tilfinningaþörfum þeirra á uppvaxtarárunum. Margir feður vilja koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.
Feður geta haft heilnæm áhrif á börn sín eigi þeir virkan þátt í uppeldi þeirra. Ef þeir matast með börnum sínum, fara með þau í skemmtiferðir og hjálpa þeim með heimaverkefnin verða þau „félagslyndari, eiga við færri hegðunarvandamál að stríða og standa sig betur í skóla,“ að sögn The Toronto Star sem vísar til skýrslu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis Bandaríkjanna.
Þetta kemur heim og saman við meira en þrjú þúsund ára gömul heilræði um barnauppeldi sem eru jafngagnleg núna eins og þá. Höfundur fjölskyldunnar gaf feðrum skýr fyrirmæli um að taka virkan þátt í uppeldi barnanna. (Efesusbréfið 3:14, 15; 6:4) Þeir áttu að glæða með börnunum kærleika til Guðs og tala við þau um reglur hans og boðorð. Guð sagði þeim að gera það ‚þegar þeir væru heima og þegar þeir væru á ferðalagi, þegar þeir legðust til hvíldar og þegar þeir færu á fætur.‘ — 5. Mósebók 6:7.
Barnauppeldi er sameiginleg ábyrgð foreldranna. Biblían hvetur börn til að ‚hlýða á áminning föður síns og hafna eigi viðvörun móður sinnar.‘ (Orðskviðirnir 1:8) Hlutverk föðurins er þýðingarmikið. Hann þarf að styðja og virða móðurina og leggja sitt af mörkum við uppeldisstörfin. Hann þarf einnig að verja tíma í að lesa fyrir börnin og ræða við þau. Þannig fullnægir hann mikilvægri tilfinningaþörf hjá börnunum.
Í Biblíunni er tvímælalaust að finna áreiðanlegustu ráðleggingarnar og öruggustu meginreglurnar um farsælt fjölskyldulíf. Faðir axlar þá ábyrgð, sem Guð leggur honum á herðar, með því að sinna vel andlegum, tilfinningalegum og efnislegum þörfum fjölskyldunnar.