Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Vottarnir vinna réttarsigur í Rússlandi

Í dagblaðinu The New York Times, 24. febrúar 2001, var sagt: „Vottar Jehóva unnu réttarsigur í Moskvu í dag [23. febrúar] gegn saksóknurum sem reynt hafa að banna starfsemi trúarhópsins. Sigurinn getur haft mjög víðtæk áhrif. Ákæra saksóknaranna var byggð á lögum frá árinu 1997 sem banna sértrúarhópa sem kynda undir hatri eða umburðarleysi.“ Réttarhöldunum var frestað þann 12. mars 1999 og fimm sérfræðingar fengnir til að rannsaka trúarkenningar Vottanna. Hlé var gert á málinu í næstum tvö ár. Þegar málarekstur hófst að nýju 6. febrúar 2001 tók það dómstólinn innan við þrjár vikur að úrskurða að ákærur saksóknara væru tilhæfulausar. Sækjandi fór hins vegar fram á endurrannsókn málsins og 30. maí heimilaði Borgardómur Moskvu að málið yrði tekið fyrir dómstól fyrsta dómstigs að nýju. Dagblaðið Los Angeles Times sagði að „rússneska rétttrúnaðarkirkjan mótmæli trúboði harðlega og hafi verið einn helsti málsvari trúarlaganna frá árinu 1997 sem hafa neytt marga sértrúarsöfnuði til að ganga í gegnum flókið skráningarferli.“

Er súkkulaði hollt?

Japanska dagblaðið Nihon Keizai Shimbun segir að sumir telji súkkulaði vera hollt. Af hverju? Af því að í súkkulaðinu er kakópólýfenól sem dregur úr hættunni á æðakölkun og krabbameini. Þar að auki er talið að súkkulaði stuðli að jafnvægi á ónæmiskerfinu og hjálpi líkamanum að jafna sig eftir streitu. Prófessor Hiroshige Itakura við Kristna háskólann í Ibaraki segir: „Gæðasúkkulaði með miklu af kakóbaunum og litlu af sykri og olíu er best.“ En prófessorinn lagði líka áherslu á nauðsyn þess að borða „grænt og gult grænmeti og prótein sem innihalda öll hin ólíku pólýfenól“ sem líkaminn þarfnast.

Karlar og konur hlusta ekki eins

Fréttavefurinn Discovery.com News greinir frá því að rannsóknarmenn hafi komist að raun um að konur noti bæði heilahvelin þegar þær hlusti en karlar aðeins annað. Í einni rannsókn voru 20 karlar og 20 konur látin hlusta á hljóðupptöku af bók á meðan tekin var segulsneiðmynd af heilanum. Sneiðmyndin leiddi í ljós að karlarnir hlustuðu að mestu leyti með vinstra heilahvelinu sem tengist hlustun og tali en konurnar notuðu hins vegar bæði heilahvelin. Dr. Joseph T. Lurito er aðstoðarprófessor í geislunarfræði við Indiana University School of Medicine og hann segir: „Rannsóknir okkar benda til þess að málvinnsla karla og kvenna sé ólík en það þurfi ekki að merkja að hæfnin sé misjöfn.“ Dr. Lurito segir líka að aðrar kannanir gefi til kynna að konur „geti hlustað á tvö samtöl á sama tíma.“

Ratvísar býflugur

Það er þekkt staðreynd að býflugur rata úr búum sínum að blómum og heim aftur. En viss tegund flökkubýflugna frá Assam á Norður-Indlandi virðist ferðast hundruð kílómetra í burtu frá heimili sínu og koma svo aftur og byggja bú í sama tré og meira að segja á sömu trjágrein og ættingjar hennar bjuggu á um tveim árum áður! Þetta er ótrúlegt vegna þess að vinnuflugurnar lifa í mesta lagi í þrjá mánuði. Býflugurnar, sem koma aftur til baka, eru því mörgum kynslóðum yngri en býflugurnar sem byggðu búið upprunalega. Enginn veit hvernig þær rata aftur til baka. Dagblaðið The Sydney Morning Herald segir að þessi ratvísi gæti tengst lyktarskyninu. Annar möguleiki er sá að drottningin úr gamla búinu, sem enn er á lífi, geti með ákveðnum dansi gefið leitarflugunum til kynna hvert þær eigi að fljúga.

Af hverju börn eiga erfitt með að tjá sig?

Samkvæmt dagblaðinu Berliner Morgenpost segir talsmaður félags barnalækna í Berlín að óhóflegt sjónvarpsgláp og tölvunotkun sé ástæðan fyrir tjáskiptaörðugleikum yngri kynslóðarinnar. Hann sagði að börn, og þá sértaklega börn á leikskólaaldri, ættu að eyða minni tíma fyrir framan sjónvarp og tölvu og meiri tíma með raunverulegu fólki sem talar við þau og hefur jákvæð áhrif á þau. Breska dagblaðið The Sunday Times bendir auk þess á að samkvæmt nýlegum rannsóknum þjáist „sífellt fleira fólk á tvítugs- og þrítugsaldri af alvarlegu minnisleysi“ og geti ekki „greint á milli mikilvægra og lítilvægra staðreynda“ sökum þess „að það treysti í auknum mæli á tölvutæknina.“