Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lykilorð — lykillinn að öryggi

Lykilorð — lykillinn að öryggi

Lykilorð — lykillinn að öryggi

„SLÁÐU inn lykilorðið.“ Tölvunotendur um heim allan eru vanir að sjá þessi boð birtast á skjánum fyrir framan sig. Hvort sem maður er að skrá sig inn í einkatölvu, kveikja á farsíma, nota kreditkort eða aftengja viðvörunarkerfi er nauðsynlegt að nota lykilorð og leyninúmer til að fá aðgang að alls konar þjónustu og upplýsingum sem maður þarf á að halda í dagsins önn.

Algengt er að skrifstofufólk þurfi að muna á bilinu 3 til 5 lykilorð í vinnunni, og búist er við að á næstu tíu árum geti þeim fjölgað svo að neytendur þurfi að hafa meira en 100 lykilorð á hraðbergi! Hvernig er hægt að gera lykilorð nógu flókin til að tryggja öryggi sitt en jafnframt nógu einföld til að muna þau?

Gott er að hafa nokkur grundvallaratriði í huga. Víkjum fyrst að því sem ber að varast. Notaðu ekki nafnið þitt eða nafn einhvers í fjölskyldunni sem lykilorð, ekki einu sinni í breyttri mynd. Og notaðu heldur ekki bílnúmerið þitt, símanúmer, kennitölu eða heimilisfang sem lykilorð. Einbeittur tölvuþrjótur á auðvelt með að þefa slíkt uppi.

Heppilegast er að lykilorðið sé hvorki samsett eingöngu úr tölustöfum né eingöngu úr bókstöfum. Annars dugir einfalt tölvuforrit til að þefa það uppi. Og notaðu ekki orð sem hægt er að finna í orðabók, hvorki innlendri né erlendri. Til eru gríðarlangir listar með orðum, staðarnöfnum og öðrum sérnöfnum á öllum tungumálum. Forrit geta leitað að afbrigðum þessara orða, til dæmis hvort þau eru stöfuð aftur á bak, með upphafsstöfum eða samsett.

Hvers konar lykilorð er þá best að velja? Yfirleitt er best að lykilorðið sé að minnsta kosti sex til átta stafa langt og blanda af hástöfum, lágstöfum, tölustöfum og greinarmerkjum. Er erfitt að ráða fram úr þess konar samsetningu? Í einni heimild kemur fram að „vél, sem gæti prófað eina milljón lykilorða á sekúndu, . . . myndi að meðaltali þurfa meira en hundrað ár til þess.“

Hvernig geturðu valið lykilorð af þessu tagi sem auðvelt er að muna? Sumir stinga upp á að maður noti titil einhverrar uppáhaldsbókar eða kvikmyndar, ljóðlínu eða þá fleyg orð og taki svo fyrsta stafinn í hverju orði og raði þeim saman í lykilorð. Síðan má svo krydda það með upphafsstöfum eða öðrum táknum. Setningin „fögur er hlíðin og fer ég eigi“ gæti til dæmis orðið „fEh/feE.“ Þú gætir líka tekið tilvísun í biblíuvers og notað hana sem lykilorð. Fyrri Kroníkubók 9:27 gæti þá orðið „1Kro9:27.“

Af öðrum tillögum má nefna það að raða saman samhljóðum og sérhljóðum til að mynda fjarstæðukennt orð sem þó er hægt að bera fram, til dæmis „bUrfLaBbi “ eða „SkoRMfykki.“ Eins væri hægt að taka tvö stutt orð og tengja þau saman með greinarmerki, svo sem „Laxa?bEr“eða „sAnn;DElla.“

Öryggiskröfur eru auðvitað misjafnar eftir atvikum og hugsanlegt er að einstaka forrit taki ekki við öllum táknum eða hástöfum, en tillögurnar hér að ofan geta að minnsta kosti hjálpað þér að vernda mikilvægar upplýsingar fyrir tölvuþrjótum. Og mundu líka að breyta um lykilorð með reglulegu millibili. Ein ábending að lokum: Þegar þú velur lykilorð skaltu ekki nota dæmin hér að ofan.