Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Marabúinn — misskilinn fugl

Marabúinn — misskilinn fugl

Marabúinn — misskilinn fugl

Eftir Fréttaritara Vaknið! Í Keníu

„Ég hef ekki kynnst . . . meiri óheillakráku en marabúanum.“ — The World’s Wild Places — Africa’s Rift Valley.

AF ÖLLUM fuglum Afríku hafa fáir vakið jafnillt umtal og marabúinn eða hræstorkurinn. Honum er oft lýst sem ljótum, skapstyggum og illa innrættum, og á greinilega ekki upp á pallborðið hjá almenningi.

Hrífstu af tígulegum og söngfögrum fuglum? Marabúinn fellur í hvorugan flokkinn. Hausinn og hálsinn er bleikur og fjaðraber, og fuglinn hefur á sér fýlulegt og deyfðarlegt yfirbragð. Niður úr hálsi fullvaxinna fugla lafir rauðleitur poki, einna líkastur þykku bindi, sem fuglinn getur blásið upp. Flestum finnst pokinn ekkert auka á fegurð fuglsins, en dr. Leon Benun, forstöðumaður fuglafræðideildar Náttúrugripasafna Keníu, segir: „Þótt okkur finnist pokinn ljótur þýðir það ekki að marabúinn sé á sama máli.“ Enginn veit enn sem komið er hvaða líffræðilegu hlutverki hálspokinn gegnir.

Matarvenjur fuglsins vekja litla hrifningu áhorfenda, enda er hann hrææta. Þegar engin hræ eru til skiptanna á hann til að drepa aðra fugla sér til matar, enda gráðugur mjög. Það er því engin furða að margir skulu hafa illan bifur á honum.

En þrátt fyrir óhrjálegt útlit og hegðun hefur marabúinn margt til síns ágætis. Við skulum kynnast þessum illa umtalaða fugli betur.

Risi á fuglavísu

Marabúinn er líklega stærstur fugla af storkaætt. Fullvaxinn karlfugl getur náð 150 sentímetra hæð og 8 kílógramma þyngd. Kvenfuglinn er aðeins minni. Feiknamikið, fleyglaga nefið getur orðið meira en 30 sentímetra langt og nýtist einkar vel til að ná kjöti af hræjum.

Þótt stór sé er storkur þessi góður flugfugl. Vænghafið er meira en 2,5 metrar og hann er í hópi bestu sviffugla. Hann er tígulegur í flugi með höfuðið dregið ögn að búknum og langar lappirnar teygðar aftur fyrir. Hann er leikinn í að nýta sér hitauppstreymi og getur náð svo mikilli flughæð að hann sést varla frá jörð — allt að 4000 metra hæð, svo vitað sé.

Samviskusamir foreldrar

Marabúinn sinnir foreldrahlutverkinu af stakri prýði þótt krefjandi sé. Fyrst þarf að byggja hreiður. Karlfuglinn velur hreiðurstæði og byrjar að safna í hreiðrið, og síðar leggur kvenfugl honum lið. Hreiðrið er stundum í 30 metra hæð frá jörð og ekki íburðarmikið — aðeins metersbreiður, ósléttur stallur úr þurrum kvistum, trjágreinum og laufi. Varpfuglar yfirtaka stundum gömul hreiður og lífga upp á þau með hríslum og öðru hreiðurefni. Sumir marabúaflokkar hafa verpt í sömu hreiðurbyggðum í 50 ár.

Karlfuglinn leitar sér að maka meðan á hreiðurgerðinni stendur. Öfugt við það sem gengur og gerist hjá mörgum fuglategundum bíður karlfuglinn eftir að kvenfugl stígi í vænginn við hann. Nokkrar kerlur gera hosur sínar grænar fyrir honum í von um að ná hylli hans en hann lítur ekki við hverri sem er. Sú þrautseigasta verður loks fyrir valinu og þá tekur tilhugalífið við. Báðir fuglarnir þenja út hálspokann og baula, góla og blístra til að fæla burt óboðna gesti. Þetta eru einu hljóðin sem vitað er til að marabúar gefi frá sér, fyrir utan glamrið í skoltunum stóru endrum og eins. Sterk bönd myndast milli hjóna. Þau hafa fyrir sið að ‚heilsast‘ þegar annað þeirra snýr aftur að hreiðrinu eftir fjarveru og það styrkir sambandið enn frekar. Þá sveifla þau höfðinu aftur á bak, svo fram á við og láta síðan glamra lengi í skoltunum.

Hjónin ljúka hreiðurgerðinni í sameiningu og sitja til skiptis á eggjunum sem eru tvö til þrjú og kalkhvít á lit. Eftir mánaðar ásetu skríða úr þeim bleikleitir ungar með gisinn dún. Ungarnir verða dálæti foreldranna og fá úrvalsumönnun. Foreldrarnir mata þá af kappi á mjög næringarríkri fæðu, svo sem fiski. Marabúar eru tíðir gestir á fenjasvæðum og froskar því oft á matseðlinum. Ungarnir gæða sér á matarbitum sem foreldrarnir æla í hreiðrið. Þeir eru hægvaxta og verða ekki sjálfbjarga fyrr en þeir geta flogið úr hreiðrinu fjögurra mánaða gamlir.

Sorphreinsarar

Þótt margir hafi skömm á marabúanum fyrir að leggjast á hræ er hann mjög nytsamlegur. Um allar sléttur Afríku skilja rándýr eftir rotnandi hræ sem geta hæglega borið háskalega sjúkdóma bæði í menn og skepnur. En marabúinn vinnur gagnlegt sorpeyðingarstarf. Hann svífur yfir sléttunum í fylgd sísvangra hrægamma í leit að yfirgefnum hræjum. Þegar hræ finnst bíður hann átekta meðan gammarnir rífa skrokkinn á hol með sterkum, bognum goggum, enda ágengari fuglar. Þegar færi gefst þýtur hann að hræinu, mundar nefið stóra eins og skurðhníf, grípur kjötstykki, skýst til baka og bíður næsta færis. Marabúarnir berjast síðan um leifarnar þegar gammarnir hafa étið fylli sína og háma í sig nánast allt sem hægt er að sporðrenna, nema beinin. Þeir geta gleypt 600 gramma kjötstykki eins og ekkert sé.

Síðustu ár hafa marabúar sinnt sorpeyðingu víðar en úti í náttúrunni. Þeir eru að mestu leyti hættir að óttast menn og eru tíðir gestir á sorphaugum bæja og þorpa. Og fyrir vikið er umhverfið hreinna. Þeir sía meira að segja afrennsli sláturhúsa í ætisleit. Eftirfarandi dæmi sýnir hve harðger fuglinn er. Marabúi gleypti slátrarahníf þegar hann var að leita að matarleifum við sláturhús í vesturhluta Keníu. Nokkrum dögum síðar fannst hnífurinn á svipuðum stað og hann hvarf, gljáandi og hreinn. Fuglinn hafði ælt honum upp án þess verða meint af og haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist!

Farmtíðarhorfur marabúans

Afríski marabúinn dafnar vel þótt nánasta ættingja hans, asíska þjónustustorkinum, fari fækkandi. Hann á sér enga náttúrulega óvini svo vitað sé. Mannskepnan var grimmasti óvinurinn á liðnum tímum og skaut þennan stórvaxna stork til að ná hinum mjúku undirstélsfjöðrum í kvenhattaskreytingar. „Það er með ólíkindum,“ segir bókin Storks, Ibises and Spoonbills of the World, „að þessir fínlegu og fögru fjaðraskúfar, sem prýða blævængi eða skrautklæðnað kvenna, skulu vera af þessum stóra, horaða og ógeðslega hræfugli.“ Sem betur fer fyrir marabúann hefur dregið úr þessu gengdarlausa drápi síðustu ár og fuglinum er tekið að fjölga á ný. Eins og ljóst má vera af þessari stuttu umfjöllun á marabúinn alls ekki skilið að vera ófrægður og fyrirlitinn. Við njótum góðs af eindæma atorku hans og dugnaði við hreinsun umhverfisins. Hann flokkast ekki með fríðustu fuglum en hann er engu að síður skapara sínum til dýrðar á sinn látlausa hátt. — Sálmur 148:​7, 10.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Feiknamikið, fleyglaga nefið getur orðið meira en 30 sentímetra langt.

[Mynd á blaðsíðu 16, 17]

Vænghaf marabúans er meira en 2,5 metrar.

[Credit line]

© Joe McDonald

[Mynd á blaðsíðu 17]

Marabúaungar fá úrvalsumönnun.

[Credit line]

© M.P. Kahl/VIREO

[Mynd á blaðsíðu 18]

Ekki er vitað hvaða líffræðilegu hlutverki hálspoki marabúans gegnir.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Hreiðrið er stundum í 30 metra hæð frá jörð.