Nafn Guðs breytti lífi mínu
Nafn Guðs breytti lífi mínu
Frásaga Sandy Yazzie Tsosie
ÞEGAR mormónar bönkuðu upp á hjá okkur reyndum við systurnar að fela okkur undir rúmi og flissuðum þar og slógumst. * Loksins þegar ég fór til dyra sagði ég þeim dónalega að við aðhylltumst rótgróin Navahó-trúarbrögð og vildum ekki heyra neitt frá þeim um trúarbrögð hvíta mannsins.
Foreldrar okkar höfðu farið í kaupfélagið eftir nauðsynjum og voru væntanlegir til baka um sólsetur. Þegar þau komu fréttu þau að ég hefði verið ókurteis við mormónana. Þau áminntu mig um að vera aldrei ókurteis við neinn framar. Okkur var kennt að vera kurteis og vingjarnleg við fólk. Ég minnist þess að eitt sinn bar óvæntan gest að garði. Foreldrar mínir höfðu þá lagað mat utandyra. Þau buðu gestinum vinsamlega að borða fyrst og síðan snæddum við.
Lífið á verndarsvæðinu
Við bjuggum í Howell Mesa, í Arizonaríki, 15 kílómetra norðvestur af verndarsvæði Hopi-indíánanna, fjarri þéttbýlum borgum og bæjum. Þetta er í suðvesturhluta Bandaríkjanna þar sem sérkennilegar rauðar sandsteinsmyndanir brjóta upp eyðimerkurlandslagið. Þarna er mikið um háa, flata stapa. Ofan af þeim gátum við fylgst með fénu á beit í átta kílómetra fjarlægð. Friðsæld þessa lands, ættjarðar minnar, var mér afar kær.
Þegar ég var í unglingaskóla kynntist ég frændsystkinum mínum mjög vel, en þau studdu Samtök amerískra indíána (AIM). * Ég var afar stolt af því að vera amerískur frumbyggi og lét hvíta fólkið óspart heyra skoðanir mínar á áratugalangri kúgun sem ég áleit að Indíánamálastofnunin (BIA) ætti sök á. Ég lét hatrið samt ekki opinskátt í ljós eins og frændsystkini mín gerðu, heldur geymdi það í hjarta mér. Það varð til þess að ég fékk andúð á hverjum þeim sem átti biblíu.
Ég dró þá ályktun að það væri Biblíunni að kenna að hvíti maðurinn hefði vald til að svipta okkur landi, réttindum og frelsi til að stunda okkar eigin helgisiði. Á heimavistarskólaárunum, þegar við vorum þvinguð til að sækja kirkju, falsaði ég meira að segja undirskrift föður míns til að sleppa við helgiathafnir mótmælenda- og kaþólsku kirkjunnar. Skólunum var ætlað að aðlaga okkur að menningunni og fá okkur til að gleyma indíánaarfleifðinni. Við máttum ekki einu sinni tala eigið tungumál!
Við bárum djúpa lotningu fyrir náttúrunni og umhverfinu. Á hverjum morgni snerum við okkur til austurs og fórum með bænir og sýndum þakkir með því að strá heilögu maísfrjódufti. * Þannig var Navahó-trúaruppeldi mitt og ég tileinkaði mér það hreykin. Hugmynd kristna heimsins um að fara til himna höfðaði ekki til mín og ég trúði ekki heldur á kvalir í brennandi helvíti. Ég þráði að lifa á jörðinni.
Í skólafríum naut ég þess að vera í faðmi fjölskyldunnar sem var einstaklega samheldin. Við bjuggum í hogan — Navahó-bjálkakofa — og það var í mínum verkahring að þrífa hann daglega, auk þess að vefa og gæta fjár. Navahóar hafa haldið sauðfé í aldaraðir. Hvenær sem ég þreif kofann (sjá myndina að neðan), tók ég eftir lítilli, rauðri bók sem innihélt Sálmana og fáeinar bækur „Nýja testamentisins.“ Ég ýtti henni hingað og þangað án þess að gefa nokkurn tíma gaum að innihaldi hennar eða merkingu. En ég henti henni aldrei.
Hjónaband — tálvonir og vonbrigði
Að loknu skyldunámi ákvað ég að fara í iðnskóla í Albuqerque í Nýju Mexíkó. En áður en það komst í framkvæmd kynntist ég tilvonandi eiginmanni mínum og sneri því aftur til Navahó-verndarsvæðisins til að ganga í hjónaband. Foreldrar mínir höfðu verið giftir árum saman. Mig langaði til að feta í fótspor þeirra og giftist. Það átti mjög vel við mig að vera húsmóðir og mér fannst fjölskyldulífið skemmtilegt, sérstaklega eftir að Lionel sonur okkar fæddist. Við hjónin vorum ákaflega hamingjusöm — þangað til að mér bárust hræðilegar fréttir.
Maðurinn minn var í tygjum við aðra konu! Framhjáhald hans splundraði hjónabandi okkar. Það fékk mjög á mig, ég lagði hatur á hann og vildi ná fram hefndum. En á meðan forræðisdeilurnar um son okkar og framfærslulífeyri stóðu yfir, fylltist ég harmi, vanmetakennd og vonleysi. Til að draga úr sorginni hljóp ég kílómetra eftir kílómetra. Ég varð lystarlaus og brast í grát af minnsta tilefni. Mér fannst ég gersamlega ein og yfirgefin.
Skömmu seinna kynntist ég manni sem átti við svipuð hjónabandsvandamál að etja. Við áttum bæði um sárt að binda. Hann sýndi mér samkennd og þann tilfinningalega stuðning sem ég þarfnaðist. Ég tjáði honum mínar leyndustu tilfinningar og hugsanir um lífið. Hann hlustaði. Fyrir mér var það merki þess að honum þætti vænt um mig. Við ráðgerðum að ganga í hjónaband.
En þá komst ég að því að hann var mér líka ótrúr! Enda þótt það hafi verið erfitt og sársaukafullt batt ég endi á samband okkar. Höfnunartilfinning gagntók mig og gerði mig mjög niðurdregna. Ég varð reið, fylltist hefnigirni og sjálfseyðingarhvöt og gerði tvær tilraunir til að svipta mig lífi. Mig langaði bara til að deyja.
Fyrstu vísbendingarnar um sannan Guð
Tárin streymdu þegar ég bað til ókunnugs Guðs. Samt hallaðist ég að því að einhver æðri vera væri til sem hefði skapað hin mikilfenglega alheim. Ég var hugfangin af fögru sólarlagi og hugleiddi oft hve dásamlegur sá væri sem hefði gert okkur kleift að njóta slíks undurs. Mér fór að finnast vænt um þessa veru sem ég þekkti ekki. Ég tók að biðja: „Guð, ef þú ert þá til, hjálpaðu mér, leiðbeindu mér og veittu mér hamingju á ný.“
Fjölskyldan hafði áhyggjur af mér, einkum faðir minn. Foreldrar mínir útveguðu töfralækna til að lækna mig. Faðir minn sagði að góður töfralæknir myndi aldrei fara fram á endurgjald og færi sjálfur eftir því sem hann kenndi. Til að gera foreldrum mínum til hæfis gekkst ég nokkrum sinnum undir Navahó-blessunarathöfnina.
Ég dvaldi einsömul í kofanum dögum saman og hafði ekkert hjá mér annað en útvarp við rúmið. Mig hryllti við þegar ég heyrði prest fordæma þá sem tækju ekki á móti Jesú í hjarta sér. Það varð til þess að ég misst gersamlega áhugann og fékk mig fullsadda af trúarbrögðum hvíta mannsins og meira að segja mínum eigin trúarbrögðum. Ég ákvað að finna Guð eftir eigin leiðum.
Í einverunni í kofanum tók ég aftur eftir litlu rauðu bókinni. Ég komst að því að þetta var hluti Biblíunnar. Lestur Sálmanna hughreysti mig og kenndi mér ýmislegt um þjáningar og depurð Davíðs konungs. (Sálmur 38:2-23; 51:3-21) En stoltið varð til þess að ég var fljót að ýta frá mér öllu sem ég las. Ég ætlaði ekki að taka trú hvíta mannsins.
Þrátt fyrir þunglyndið tókst mér að annast son minn vel. Hann var mér mikil hughreysting. Ég fór að horfa á trúarlega sjónvarpsþætti sem buðu upp á fyrirbænir. Eitt sinn tók ég símann og hringdi í örvæntingu í gjaldfrjálst númer og bað um hjálp. En ég skellti á þegar mér var sagt að skuldbinda mig til að greiða 50 eða 100 dali.
Skilnaðarmálaferlin gerðu mig niðurdregna, sérstaklega þegar maðurinn minn var ekki sannsögull við dómara ættbálksins. Það tók langan tíma að ganga frá skilnaðinum vegna forræðisdeilunnar um son okkar. En ég vann. Faðir minn veitti mér orðalaust kærleiksríkan stuðning á meðan á málarekstrinum stóð. Hann vissi að ég var mjög sár.
Fyrstu kynni mín af Vottunum
Ég ákvað að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Eitt sinn tók ég eftir því að Navahó-fjölskylda var að tala við nágranna mína. Ég freistaðist til að fylgjast með þeim. Aðkomufólkið gekk í hús í einhverjum erindagjörðum. Það kom líka til mín. Sandra, sem var Navahó-kona, kynnti sig sem vott Jehóva. Það sem vakti helst athygli mína var nafnið Jehóva. „Hver er Jehóva?“ spurði ég. „Þið hljótið að tilheyra einhverjum nýjum trúarbrögðum. Hvers vegna var mér ekki kennt neitt um nafn Guðs í kirkjunni?“
Sandra fletti vingjarnlega upp á Sálmi 83:18 sem segir: „Að þeir megi komast að raun um, að þú einn heitir [Jehóva], Hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ Hún útskýrði fyrir mér að Guð hefði eiginnafn og að sonur hans, Jesús Kristur, væri vottur um Jehóva. Hún bauðst til að fræða mig um Jehóva og Jesú og lét mig hafa bókina Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs. * „Já, ég myndi vilja kynna mér þessi nýju trúarbrögð,“ sagði ég spennt.
Ég las bókina á einni nóttu. Innihaldið var framandi og sérstakt. Bókin greindi frá því að lífið hefði tilgang, einmitt það sem þurfti til að endurvekja lífsáhuga minn. Ég fór að nema Biblíuna og það gladdi mig að hún svaraði mörgum spurningum mínum. Ég trúði öllu sem ég lærði. Mér fannst það skynsamlegt og var viss um að það væri sannleikurinn.
Þegar Lionel var sex ára fór ég að kenna honum sannleika Biblíunnar. Við fórum saman með bænir, uppörvuðum hvort annað og höfðum hugfast að Jehóva þykir vænt um okkur og hvöttum hvort annað til að treysta á hann. Stundum var ég alveg að niðurlotum komin. Þá breytti það öllu að hann lagði litlu handleggina
um háls mér og sagði þessi huggandi og traustvekjandi orð: „Ekki gráta, mamma, Jehóva sér um okkur.“ Þetta hughreysti mig mikið og hvatti mig til að vera staðráðin í að halda áfram að nema Biblíuna. Ég bað stöðuglega til Guðs um leiðsögn.Samkomurnar höfðu áhrif á mig
Við vorum svo þakklát Jehóva að við ferðuðumst 240 km fram og til baka til að sækja samkomur Votta Jehóva í Tuba City. Við fórum tvisvar í viku á sumrin, en vegna veðurs vorum við allan sunnudaginn yfir veturinn. Einu sinni fórum við á puttanum í ríkissalinn því að bíllinn bilaði. Þessi mikli akstur var þreytandi. En þegar Lionel sagði að við skyldum aldrei sleppa samkomu nema við værum dauðvona, minnti það mig á hvað það er mikilvægt að taka aldrei andlega fræðslu frá Jehóva sem sjálfgefna.
Oft vöknaði mér um augun á samkomunum þegar við sungum guðsríkissöngva um eilíft líf sem er laust við alla eymd. Vottar Jehóva veittu mér huggun og uppörvun. Þeir voru gestrisnir og buðu okkur oft heim til sín í mat eða léttar veitingar og við tókum þátt í fjölskyldubiblíunámi þeirra. Þeir sýndu okkur áhuga og hlustuðu á okkur. Öldungarnir voru sérlega hluttekningasamir og styrktu þá sannfæringu okkar að Jehóva þykir vænt um okkur. Það veitti mér mikla ánægju að eignast sanna vini sem hughreystu mig og grétu jafnvel með mér þegar ég var að niðurlotum komin. — Matteus 11:28-30.
Tvær mikilvægar ákvarðanir
Einmitt um það leyti, sem ég var farin að kunna að meta ráðstafanir Jehóva, birtist fyrrverandi kærasti minn aftur til að leita sátta. Ég elskaði hann enn og gat ekki staðist afsökunarbeiðni hans. Við ætluðum að ganga í hjónaband. Ég hélt að sannleikurinn myndi breyta honum. En það voru mestu mistök lífs míns. Ég var óhamingjusöm og samviskan nagaði mig. Mér til sárra vonbrigða vildi hann ekki hafa neitt með sannleikann að gera.
Ég leitaði ásjár hjá öldungi. Hann gaf mér biblíuleg ráð, bað með mér og lagði málið fyrir Jehóva. Ég komst að þeirri niðurstöðu að Jehóva myndi aldrei særa mig en hins vegar gæti ófullkomið fólk gert það, sama hvað maður dáist mikið að því. Reyndar komst ég að því að það er lítið öryggi í óvígðri sambúð. Ég gerði upp hug minn. Það var mjög erfitt og sársaukafullt að slíta sambandinu. En jafnvel þótt það skaðaði mig fjárhagslega, þá varð ég að treysta Jehóva af öllu hjarta.
Ég bar djúpan kærleika til Jehóva og einsetti mér að þjóna honum. Hinn 19. maí 1984 lét ég skírast niðurdýfingarskírn til tákns um að ég hefði vígt Jehóva Guði líf mitt. Lionel, sonur minn, er líka skírður vottur Jehóva. Við urðum fyrir miklum ofsóknum frá fjölskyldunni og fyrrverandi eiginmanni mínum, en héldum samt áfram að treysta á Jehóva. Og við höfum ekki orðið fyrir vonbrigðum. Fjölskyldan róaðist eftir ellefu löng ár og sætti sig við hina nýju lífsstefnu okkar.
Mér þykir afar vænt um fjölskyldu mína og ég vildi óska þess að hún kynnti sér trú okkar til að öðlast hamingju líka. Faðir minn reyndist mér hugrakkur málsvari, en hann hafði óttast að glata mér vegna þunglyndis og sjálfsvígshugleiðinga minna. Hann var ánægður að sjá mig taka gleði mína á ný. Ég komst að raun um að nauðsynlegt er að biðja til Jehóva, sækja samkomur og fara eftir orði hans til að ná tilfinningalegum bata.
Framtíðarvon
Ég hlakka til þess tíma þegar ekkert minnir lengur á þjáningar, ófullkomleika, ósannindi og hatur. Ég sé fyrir mér Navahó-landsvæðið okkar í blóma, sem endalaust gróðurlendi með ferskju- og apríkósutrjám eins og áður fyrr. Og ég sé fyrir mér gleði ýmissa ættbálka sem munu taka þátt í að breyta skrælnaðri ættjörð sinni í fallega paradís með aðstoð fljóta og regnvatns. Ég ímynda mér að við munum deila landi með nágrönnum okkar, Hopi-ættbálknum og fleiri ættbálkum, í stað þess að vera keppinautar eins og sagan ber vott um. Nú þegar hef ég séð hvernig orð Guðs hefur sameinað kynþætti, þjóðflokka og ættbálka. Fyrir tilstilli upprisunnar mun ég geta séð fjölskyldur og vini hitta aftur látna ástvini sína. Þá ríkir mikill fögnuður því að eilíft líf verður í sjónmáli. Mér er óskiljanlegt að fólk skuli ekki vilja kynna sér þessar dásamlegu framtíðarhorfur.
Vöxtur á landsvæði Navahóa
Það var einstök ánægja að fá ríkissal í Tuba City og fylgjast með vexti fjögurra safnaða á Navahó- og Hopi-verndarsvæðunum * — í Chinle, Kayenta, Tuba City og Keams Canyon. Þegar ég skráði mig í Guðveldisskólann árið 1983 átti ég þann draum að hann yrði einhvern tíma haldinn á navahó-máli. Það er ekki lengur bara draumur því að skólinn hefur verið haldinn á navahó-máli frá 1998.
Það hefur fært mér ómælda blessun að segja öðrum frá nafni Guðs. Það er stórkostlegra en orð fá lýst að geta lesið á eigin þjóðtungu um trústyrkjandi efni í bæklingunum Nihookáá’gi Hooláágóó liná Bahózhoóodoo! (Þú getur öðlast eilíft líf á jörðinni!), Ha’át’fíísh éí God Nihá yee Hool’a’? (Hvers krefst Guð af okkur?), og þeim nýjasta, Ni Éí God Bik’is Dííleelgo Át’é! (Þú getur verið vinur Guðs!) og geta komið því á framfæri við aðra. Ég er þakklát hinum trúa og hyggna þjóni fyrir að leiða þetta biblíufræðslustarf til gagns fyrir allar þjóðir, ættbálka og málsamfélög, þar á meðal Diné, það er að segja Navahóum. — Matteus 24:45-47.
Ég er í fullri vinnu til að geta séð mér farborða en nýt þess að vera aðstoðarbrautryðjandi reglubundið. Ég er ánægð með að vera einhleyp og mig langar til að þjóna Jehóva truflunarlaust. Það er mér sönn ánægja að segja ættbálki mínum og öðru fólki, einkum hinum örvæntingarfullu, að „[Jehóva] er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ — Sálmur 34:19.
Ég er ekki lengur þeirrar skoðunar að Biblían sé trúarbók hvíta mannsins. Hún er orð Guðs og er ætluð öllum sem vilja kynna sér hana og fara eftir henni. Þegar vottar Jehóva banka upp á hjá þér skaltu biðja þá um að sýna þér hvernig maður getur öðlast sanna hamingju. Þeir færa þér fagnaðarerindið um nafn Guðs, Jehóva, nafnið sem breytti lífi mínu. „Aoo,’ Diyin God bízhi’ Jiihóvah wolyé.“ („Já, Guð heitir Jehóva.“)
[Neðanmáls]
^ Ítarlegar upplýsingar um trú Mormóna er að finna í Vaknið! apríl-júní 1996.
^ AIM er mannréttindahreyfing, stofnuð af frumbyggjum Ameríku árið 1968. AIM gagnrýnir oft BIA, ríkisstofnun sem var komið á fót árið 1824 að því er virðist til að stuðla að velferð indíána í landinu. BIA hefur oft leigt öðrum en indíánum málmvinnslurétt, vatnsrétt og önnur réttindi á verndarsvæðunum. — World Book Encyclopedia.
^ Frjóduft er talið heilagt og notað við bænagerð og helgisiði til tákns um lífið og endurnýjunarmáttinn. Navahóar trúa því að líkaminn verði heilagur þegar maður fer um stíg sem frjódufti hefur verið stráð yfir. — The Encylopedia of Native American Religions.
^ Gefin út af Vottum Jehóva.
^ Ítarlegri upplýsingar má finna í greinaflokknum „American Indians — What Does Their Future Hold?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. september 1996.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Dæmigerður „hogan,“ híbýli Navahó-indíana.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Með Lionel syni mínum.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Með rússneskum vinum á alþjóðamótinu í Moskvu 1993.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Með andlegri fjölskyldu minni í Kayenta-söfnuðinum í Arizona.