Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur fengið hjálp

Þú getur fengið hjálp

Þú getur fengið hjálp

‚FJÖRUTÍU OG NÍU svefntöflur í bolla. Á ég að gleypa þær eða ekki?‘ Tæplega þrítugur Svisslendingur spurði sig þessarar spurningar. Þunglyndi hafði lagst á hann eftir að konan og börnin yfirgáfu hann. Hann gleypti töflurnar en sagði svo við sjálfan sig: ‚Nei, ég vil ekki deyja!‘ Sem betur fer lifði hann til að segja sögu sína. Sjálfsvígshvötin dregur menn ekki alltaf til dauða.

Alex Crosby hjá Bandarísku sóttvarnarmiðstöðvunum segir að hægt sé að koma í veg fyrir að unglingur svipti sig lífi með því að tefja fyrir honum, þó ekki sé nema í fáeinar klukkustundir. „Með íhlutun er hægt að hindra verulegan fjölda í að ganga svo langt að fyrirfara sér. Það er hægt að bjarga lífi þeirra.“

Hisashi Kurosawa prófessor hjálpaði hundruðum einstaklinga að endurheimta lífslöngunina er hann vann við neyðarmóttöku Læknaháskóla Japans. Það er sem sagt hægt að bjarga mannslífum með einhvers konar afskiptum eða íhlutun. Hvers konar hjálp þarf að veita?

Að viðurkenna undirrót vandans

Eins og fram kom í greininni á undan segja vísindamenn að 90 af hundraði þeirra, sem svipta sig lífi, hafi átt við geðraskanir, fíkniefnaneyslu eða áfengisvandamál að stríða. Því segir Eve K. Mościcki hjá Bandarísku geðverndarstofnuninni: „Besta vonin um að koma í veg fyrir sjálfsvíg meðal allra aldurshópa er fólgin í því að koma í veg fyrir geðraskanir eða fíkniávana.“

En margir, sem eiga í slíkum vanda, eru því miður tregir til að leita sér hjálpar. Ástæðan er „miklir fordómar í samfélaginu,“ að sögn Yoshitomos Takahashis við Geðlækningastofnun Tókíó. Hann bendir á að þetta hafi þær afleiðingar að fólk, sem hefur óljósa hugmynd um að eitthvað sé að, hiki við að leita læknishjálpar.

En það láta ekki allir skömmina vera sér fjötur um fót. Hiroshi Ogawa er kunnur sjónvarpsmaður í Japan og hefur stjórnað eigin sjónvarpsþætti í 17 ár. Hann viðurkenndi opinberlega að hann ætti við þunglyndi að stríða og hefði jafnvel verið að því kominn að fyrirfara sér. Hann sagði að „þunglyndi hefði verið líkt við það að hugurinn kvefist.“ Allir geta fengið svona kvef, sagði hann, en menn geta líka læknast af því.

Talaðu við einhvern

„Sé maður einn á báti með vandamálum sínum virðast þau yfirleitt miklu alvarlegri en þau eru og óleysanleg,“ segir Béla Buda, forstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Ungverjalands sem fyrr er getið. Þessi ábending undirstrikar viskuna í fornum orðskvið í Biblíunni: „Sérlyndur maður [það er að segja maður sem er einrænn eða einangrar sig] fer að eigin geðþótta og hafnar hverju hollræði.“ — Orðskviðirnir 18:1, Biblíurit, ný þýðing 1998.

Taktu mark á þessum viturlegu orðum. Berstu ekki einn við að halda þér á floti í hafsjó persónulegra vandamála. Leitaðu til einhvers sem þú getur treyst og trúað fyrir hugsunum þínum. ‚En ég á engan trúnaðarvin,‘ segirðu kannski. Naoki Sato, geðlæknir, bendir á að mörgum sé þannig innanbrjósts. Hann segir að sjúklingar geti verið tregir til að trúa öðrum fyrir vandamálum sínum af því að þeir vilji ekki afhjúpa veikleika sína.

Hvar er þá hægt að finna heyrandi eyra? Víða eru starfræktar neyðarlínur, trúnaðarsímar og bráðamóttökur og hægt er að leita til lækna sem sérhæfa sig í meðferð tilfinningalegra vandamála. En sumir sérfræðingar benda á aðra leið til hjálpar — trúna. Hvernig getur hún hjálpað?

Þeir fengu nauðsynlega hjálp

Marin býr í Búlgaríu og er öryrki. Hann var kominn á fremsta hlunn með að fyrirfara sér er hann rakst fyrir tilviljun á trúmálatímaritið Varðturninn sem Vottar Jehóva gefa út. Hann þáði boð blaðsins um að fá votta Jehóva í heimsókn. „Þeir kenndu mér að lífið sé gjöf frá föðurnum á himnum,“ segir hann, „og að við höfum ekki leyfi til að skaða okkur eða binda enda á það af sjálfsdáðum. Þess vegna sneri ég við blaðinu og lífsástin kviknaði á nýjan leik.“ Marin fékk einnig stuðning frá kristna söfnuðinum. Þrátt fyrir það að hann sé öryrki segir hann að lífið sé nú „ánægjulegt og friðsælt og uppfullt af ánægjulegum viðfangsefnum — jafnvel fleirum en ég kemst yfir. Og allt þetta á ég Jehóva og vottum hans að þakka.“

Ungi maðurinn í Sviss, sem getið var um í byrjun greinarinnar, fékk einnig hjálp frá vottum Jehóva og talar um „góðvild kristinnar fjölskyldu“ sem tók hann inn á heimili sitt. „Síðar skiptust safnaðarmenn [í söfnuði Votta Jehóva] á að bjóða mér í mat dag eftir dag. Það var ekki aðeins gestrisnin sem hjálpaði mér heldur einnig hitt að geta talað við einhvern.“

Þessi maður lærði margt af biblíunámi sínu sem var uppörvandi fyrir hann. Sérstaklega fannst honum hvetjandi að læra um kærleika hins sanna Guðs, Jehóva, til mannkyns. (Jóhannes 3:16) Jehóva er reiðubúinn að hlusta á þá sem ‚úthella hjarta sínu fyrir honum.‘ (Sálmur 62:9) „Augu [hans] hvarfla um alla jörðina,“ ekki til að leita að því sem miður fer hjá fólki heldur „til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann.“ (2. Kroníkubók 16:9) Hann segir hughreystandi: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“ — Jesaja 41:10.

Svissneski maðurinn sagði varðandi loforð Guðs um nýjan heim: „Það hefur hjálpað mér mikið til að létta af mér fargi vonbrigðanna.“ Hin biblíulega von er kölluð „akkeri sálarinnar“ og felur í sér loforð um eilíft líf í paradís á jörð. — Hebreabréfið 6:19; Sálmur 37:10, 11, 29.

Þú ert öðrum mikils virði

Vissulega geta aðstæður verið þannig að þér finnist þú vera algerlega einn og að það skipti engu máli fyrir nokkurn mann þótt þú hverfir. En mundu að það er reginmunur á því að finnast maður vera einn og vera einn. Biblíuspámaðurinn Elía varð mjög niðurdreginn einu sinni og sagði við Jehóva: ‚Spámenn þínir eru drepnir með sverði svo að ég er einn eftir orðinn.‘ Honum fannst hann vera aleinn og yfirgefinn, og ekki af tilefnislausu því að mjög margir félagar hans úr spámannastétt höfðu verið drepnir. Honum hafði einnig verið hótað lífláti og hann var á flótta í von um að bjarga lífi sínu. En var hann einn í alvöru? Nei, Jehóva upplýsti að enn væru eftir um 7000 trúfastir menn sem reyndu, líkt og Elía sjálfur, að þjóna honum dyggilega á þessum myrku tímum. (1. Konungabók 19:1-18) Hvað um þig? Getur verið að þú sért ekki eins einn og þú heldur?

Mörgum er annt um þig. Þú hugsar kannski til foreldra þinna, maka, barna og vina. Og þeir eru fleiri sem hafa áhuga á velferð þinni því að í söfnuði Votta Jehóva eru þroskaðir kristnir menn sem eru reiðubúnir að ljá þér eyra og biðja fyrir þér og með þér. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Og jafnvel þótt ófullkomnir menn bregðist þér áttu Guð að sem yfirgefur þig aldrei. Davíð konungur sagði: „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur [Jehóva] mig að sér.“ (Sálmur 27:10) Jehóva ‚ber umhyggju fyrir þér.‘ (1. Pétursbréf 5:7) Gleymdu aldrei að þú ert dýrmætur í augum hans.

Lífið er gjöf frá Guði þó að það geti stundum virst vera meiri byrði en gjöf. En hvað heldurðu að þér fyndist um það ef þú gæfir einhverjum verðmæta gjöf en hann henti henni án þess að nota hana almennilega? Við, ófullkomnir menn, erum varla farnir að nota lífið sem við höfum fengið að gjöf. Biblían segir reyndar að hið núverandi líf sé ekki einu sinni „hið sanna líf“ í augum Guðs. (1. Tímóteusarbréf 6:19) Í náinni framtíð verður lífið margfalt auðugra, innihaldsríkara og hamingjusælla en nú. Hvernig getur það orðið?

Biblían segir: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum [mannanna]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Reyndu að sjá fyrir þér hvernig lífið verður þegar þessi orð uppfyllast. Gefðu þér góðan tíma til þess. Reyndu að draga upp heildstæða og litríka mynd í huganum. Þessi mynd er engir hugarórar. Þegar þú ígrundar hvernig Jehóva hefur sinnt fólki sínu í fortíðinni byggirðu upp traust til hans og myndin, sem þú dregur upp í huganum, verður æ raunverulegri. — Sálmur 136:1-26.

Það getur tekið sinn tíma að endurheimta lífslöngunina að fullu. En haltu áfram að biðja „Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri,“ að liðsinna þér. (2. Korintubréf 1:3, 4; Rómverjabréfið 12:12; 1. Þessaloníkubréf 5:17) Jehóva mun gefa þér þann styrk sem þú þarfnast og kenna þér að það er þess virði að lifa. — Jesaja 40:29.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 9]

Hvernig getur þú hjálpað manni sem virðist vera í sjálfsvígshugleiðingum?

Hvað geturðu gert ef einhver trúir þér fyrir því að hann langi til að svipta sig lífi? „Vertu góður hlustandi,“ segir í ráðleggingum sem gefnar eru á vefsetri Bandarísku sóttvarnarmiðstöðvanna. Leyfðu honum að lýsa líðan sinni. Fólk sem er í sjálfsvígshugleiðingum er hins vegar oft fámált og hlédrægt. Viðurkenndu að sársaukinn og vonleysiskenndin, sem sækja á hann, sé raunveruleg. Kannski geturðu fengið hann til að opna sig og trúa þér fyrir líðan sinni ef þú nefnir varfærnislega að þú hafir tekið eftir ákveðnum breytingum í fari hans.

Sýndu honum hluttekningu og samúð. „Það er mikilvægt að leggja áherslu á að viðkomandi manneskja sé þér og öðrum mikils virði,“ segir í leiðbeiningum Bandarísku sóttvarnarmiðstöðvanna. Segðu honum hvílíkt áfall það yrði fyrir þig og aðra ef hann dæi. Reyndu að sýna honum fram á að skaparanum sé annt um hann. — 1. Pétursbréf 5:7.

Sérfræðingar mæla jafnframt með því að allt sem einstaklingurinn gæti notað til að fyrirfara sér sé fjarlægt, einkum skotvopn. Ef ástandið virðist alvarlegt gætirðu hvatt hann til að leita læknishjálpar. Í verstu tilfellum áttu sennilega ekki um annað að velja en að kalla sjálfur á einhvers konar neyðaraðstoð sérfræðinga.

[Rammagrein á blaðsíðu 11]

‚Ætli Guð fyrirgefi mér þessa líðan?‘

Söfnuður Votta Jehóva hefur hjálpað mörgum að sigrast á sjálfsvígshugleiðingum. En enginn er ónæmur fyrir álagi lífsins og þunglyndi getur lagst á hvern sem er. Ef sjálfsvígshugleiðingar sækja á kristinn mann er algengt að djúpstæð sektarkennd fylgi í kjölfarið, og sektarkenndin getur gert byrðina illbærilegri. Hvernig er hægt að vinna sig út úr slíkum tilfinningum?

Rétt er að benda á nokkur dæmi úr Biblíunni um trúfasta þjóna Guðs sem urðu mjög bölsýnir og neikvæðir gagnvart lífinu. Rebekka, eiginkona ættföðurins Ísaks, var einu sinni svo miður sín vegna erfiðleika í fjölskyldunni að hún sagðist vera „orðin leið á lífinu.“ (1. Mósebók 27:46) Job missti börn sín, heilsuna, eignir og þjóðfélagsstöðu og sagði þá: „Mér býður við lífi mínu.“ (Jobsbók 10:1) Móse hrópaði einu sinni til Guðs og bað hann að ‚deyða sig hreinlega.‘ (4. Mósebók 11:15) Elía spámaður sagði einu sinni: „Mál er nú, [Jehóva], að þú takir líf mitt.“ (1. Konungabók 19:4) Og haft er eftir spámanninum Jónasi: „Mér er betra að deyja en lifa!“ — Jónas 4:8.

Fordæmdi Jehóva þetta fólk fyrir þessar hugrenningar og þessa líðan? Nei, hann lét jafnvel geyma orð þess í Biblíunni. En enginn þessara trúföstu einstaklinga lét tilfinningarnar hrekja sig út í sjálfsvíg. Jehóva mat þá mikils og vildi að þeir lifðu. Honum er meira að segja annt um líf hinna óguðlegu og hvetur þá til að breyta um stefnu og ‚halda lífi.‘ (Esekíel 33:11) Þá hlýtur honum að vera enn annara um líf þeirra sem vilja eiga velþóknun hans.

Guð hefur gefið son sinn sem lausnargjald og séð okkur fyrir kristna söfnuðinum, Biblíunni og bænasambandi við sig. Bænasambandið er alltaf opið — þar er aldrei á tali. Guð bæði getur og vill hlusta á alla sem nálgast hann með einlægu og auðmjúku hjarta. „Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.“ — Hebreabréfið 4:16.

[Rammagrein á blaðsíðu 12]

Hefur ástvinur svipt sig lífi?

Sjálfsvíg hefur gífurleg áhrif á tilfinningalíf ættingja hins látna og náinna vina hans. Margir ásaka sjálfa sig þegar slíkan harmleik ber að garði. Algengt er að menn segi: ‚Ég vildi að ég hefði verið meira með honum þennan dag.‘ ‚Bara að ég hefði gætt tungu minnar í þetta skipti.‘ ‚Ég vildi óska að ég hefði gert svolítið meira til að hjálpa honum.‘ Menn gefa sér þá forsendu að ástvinur þeirra væri enn á lífi ef þeir hefðu bara gert þetta eða hitt. En er sanngjarnt að taka á sig sökina á sjálfsvígi annarrar manneskju?

Það er ákaflega auðvelt að vera vitur eftir á og sjá þá merkin um það að hinn látni hafi verið í sjálfsvígshugleiðingum. En það er miklu erfiðara að sjá þau fyrir fram. Biblían segir: „Hjartað eitt þekkir kvöl sína, og jafnvel í gleði þess getur enginn annar blandað sér.“ (Orðskviðirnir 14:10) Stundum er engin leið að gera sér grein fyrir hugrenningum eða tilfinningum annarrar manneskju. Margt fólk í sjálfsvígshugleiðingum getur hreinlega ekki tjáð sig nægilega við aðra um innstu tilfinningar sínar, jafnvel ekki við nánustu ættingja sína.

Bókin Giving Sorrow Words segir þetta um merki þess að einhver kunni að vera í sjálfsvígshugleiðingum: „Staðreyndin er sú að yfirleitt er erfitt að koma auga á þessi merki.“ Síðan er bent á að jafnvel þótt þú hafir séð einhver einkenni sé það engin trygging fyrir því að þér hefði tekist að koma í veg fyrir sjálfsvígið. Þú ættir frekar að leita huggunar í orðum Salómons en kvelja sjálfan þig. Hann sagði: „Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Ástvinur þinn kvelst ekki í vítislogum og sálarkvölin, sem varð til þess að hann greip til örþrifaráða, er á enda. Hann þjáist ekki lengur heldur hvílist.

Eflaust er best fyrir þig að einbeita þér að velferð hinna lifandi, þar á meðal að sjálfum þér. Salómon heldur áfram: „Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það“ meðan þú ert á lífi. (Prédikarinn 9:10) Þú getur treyst því að lífshorfur hins látna í framtíðinni eru í höndum Jehóva sem er „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar.“ — 2. Korintubréf 1:3. *

[Neðanmáls]

^ Nánar er fjallað um framtíðarhorfur þeirra sem svipta sig lífi í greininni „Sjónarmið Biblíunnar: Sjálfsmorð — er von um upprisu“ í Vaknið! frá janúar-mars 1991.

[Myndir á blaðsíðu 8]

Talaðu við einhvern.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Þú ert öðrum mikils virði.