Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gleymdur glæsileiki býsanska ríkisins

Gleymdur glæsileiki býsanska ríkisins

Gleymdur glæsileiki býsanska ríkisins

Í SUMUM TUNGUMÁLUM ER ORÐIÐ „BÝSANSKUR“ SETT Í SAMBAND VIÐ LAUNRÁÐ, LAUMUSPIL OG SVIKSEMI. MARGIR VITA HINS VEGAR EKKI AÐ NAFNIÐ BÝSANS VAR NOTAÐ SEM HEITI VÍÐÁTTUMIKILS VELDIS ER STÓÐ Í BLÓMA Í NÆSTUM 12 ALDIR.

BÝSANSKA ríkið teygði sig allt frá Kákasusfjöllum að Atlantshafi, frá Krímskaga til Sínaí og frá Dóná til Sahara er veldi þess stóð sem hæst. Margir sagnfræðingar segja að það hafi staðið allt frá 4. öld fram á þá 15. Býsanska ríkið varðveitti bæði grísk-rómverska menningu og átti drjúgan þátt í því að útbreiða svonefnda kristni. Það kom á og fastmótaði pólitískar, þjóðfélagslegar og trúarlegar venjur sem fylgt er enn þann dag í dag.

Tilurð þessa volduga ríkis var þó ósköp látlaus. Sögulega séð myndaðist Býsanska ríkið er Rómaveldi skiptist í tvennt. „Fæðingarárið“ er þó umdeilt. Sumir sagnfræðingar líta á Díókletíanus (um 245 – um 316) sem fyrsta keisara þess, aðrir telja Konstantínus mikla (um 275-337) vera fyrsta keisarann og enn aðrir nefna Jústiníanus 1. (483-565). Flestir eru þó sammála um að Býsanska ríkið hafi byrjað að taka á sig mynd sem sjálfstæð heild er Konstantínus keisari flutti höfuðborg Rómaveldis frá Róm til Býsans árið 330. Hann nefndi borgina Konstantínópel eftir sjálfum sér (nú heitir hún Istanbúl).

Athygli vekur að hvorki höfðingjar né borgarar ríkisins kölluðu sig nokkurn tíma býsanska. Þeir litu á sig sem Rómverja eða Romaioi. Orðið „býsanskur“ var ekki notað fyrr en eftir 14. öld.

Glæsileg höfuðborg

Sagnfræðingur segir að Konstantínópel hafi verið „víðfræg og vellauðug.“ Borgin lá á skaga við Bospórussund, þar sem Evrópa og Asía mætast. Hún réð yfir skjólgóðri höfn í vogi, sem kallast Gullna hornið, og skaginn var auðvarinn. Grískir landnemar gáfu staðnum nafnið Býsans árið 657 f.o.t., eftir þjóðsagnaleiðtoganum Býsasi. Rösklega tíu öldum síðar var borgin kölluð Nýja-Róm og bjó þar hálf milljón manna meðan hún stóð í sem mestum blóma frá sjöttu öld fram til þeirrar elleftu.

Aðkomumenn úr vestri hrifust mjög af þessari stórborg og heimsverslunarmiðstöð. Í höfninni var krökkt af skipum. Á mörkuðum borgarinnar var selt silki, loðskinn, gimsteinar, ilmviður, útskorið fílabein, gull, silfur, gljábrenndir skartgripir og kryddjurtir. Eins og við er að búast litu önnur ríki með öfund til Konstantínópel og reyndu hvað eftir annað að brjótast gegnum múra hennar. En þeim tókst það aðeins einu sinni þar til Ósmanar unnu borgina árið 1453. Þar voru á ferð „kristnir“ menn í fjórðu krossferðinni. Krossfarinn Róbert af Clari á að hafa sagt: „Frá sköpun heims hefur enginn maður séð eða unnið svo mikla fjársjóði.“

Langstæður arfur

Stjórnskipun Býsanska ríkisins, lög þess, trúarhugtök og viðhafnarsiðir setja mark sitt á líf milljóna manna enn þann dag í dag, þótt ótrúlegt kunni að virðast. Frægt er til dæmis að Jústiníanus tók saman lögbók sem nefnd var Corpus juris civilis (einkamálalöggjöf) en hún er undirstaða réttarfars víða á meginlandi Evrópu enn í dag. Með Lögbók Napóleons, Code Napoléon, bárust býsönsk lagaákvæði til Rómönsku Ameríku og fleiri landa þar sem áhrifa þeirra gætir enn.

Býsanskir húsameistarar lærðu að byggja stóra hjálmhvelfingu á ferhyrndum grunni og barst sá byggingarstíll alla leið til Rússlands. Sumir eigna Býsansmönnum jafnvel að hafa breitt út þann sið að nota gaffal við matarborðið. Það vakti töluverða hneykslan í Feneyjum á 11. öld er býsönsk prinsessa borðaði með tvítindóttum gaffli í stað þess að nota fingurna! En öldum síðar komst gaffallinn í tísku meðal auðmanna. Páfarnir í Róm urðu einnig fyrir býsönskum áhrifum er þeir tóku að nota kórónu sem gerð var að fyrirmynd keisarans þar eystra. Og enskir konungar tóku að nota ríkisepli og veldissprota að hætti keisarans í Býsans.

Lög og regla

Býsanska ríkið lét einnig eftir sig athyglisverðan arf á sviði stjórnskipunar. Þurfamenn voru til dæmis látnir vinna í brauðgerðarhúsum og markaðsgörðum ríkisins. Það var skoðun Leó 3. keisara (um 675-741) að „iðjuleysi fóstraði glæpi.“ Ölvun var talin leiða til óspekta og uppreisnaráróðurs svo að krám var lokað klukkan átta að kvöldi. Í tímaritinu National Geographic Magazine segir að sá sem gerðist sekur um „sifjaspell eða manndráp, framleiddi og seldi purpuraklæði til einkanota (það var ætlað kóngafólki einu) eða kenndi óvinum skipasmíði gat átt yfir höfði sér að vera hálshöggvinn, stjaksettur eða drekkt í poka ásamt svíni, hana, nöðru og apa. Kaupmaður missti hönd ef hann sveik mál og vog. Brennuvargar voru brenndir.“

Athygli vekur að Býsanska ríkið sá hag þegna sinna að mörgu leyti borgið frá vöggu til grafar líkt og velferðarríki okkar tíma. Keisarar og auðmenn lögðu sig í líma við að kosta spítala, fátækraheimili og munaðarleysingjahæli. Þar voru heimili handa iðrandi vændiskonum — sem voru sumar teknar í dýrlingatölu — og meira að segja betrunarhús handa föllnum höfðingjakonum.

Veldi byggt á verslun

Þetta göfuglyndi endurspeglaði velmegun ríkisins. Ríkið stjórnaði verðlagi, launum og leigugjöldum. Hveiti var safnað í forðabúr svo að grípa mætti til þess ef uppskera brást. Opinberir starfsmenn fylgdust með máli og vog í verslunum, skoðuðu bókhald og litu eftir vörugæðum. Hamstrarar, smyglarar, falsarar og skattsvikarar áttu þunga refsingu yfir höfði sér.

Keisarinn var umsvifamesti kaupmaður og framleiðandi í Býsans. Hann hafði einkaleyfi á myntsláttu og á verslun með hergögn og víðkunnar, býsanskar munaðarvörur. Jústiníanus lagði sjálfur grunn að hinum rómaða silkiiðnaði Býsanska ríkisins er silkiormseggjum var smyglað þangað frá Kína.

Tekin var upp tryggingastarfsemi og lánaþjónusta. Bankastarfsemi sætti nákvæmu eftirliti. Rómverska gullmyntin, sem Konstantínus tók í notkun, reyndist stöðugasti gjaldmiðill sögunnar. Hún hélt verðgildi sínu í tíu aldir!

Býsanska hirðin

En hvernig stendur þá á því að orðið „býsanskur“ fékk merkingartengslin launráð, laumuspil og sviksemi? Sagnfræðingurinn William Lecky bendir á að undir fögru og fáguðu yfirborðinu hafi býsanska hirðlífið einkennst af „linnulausum launráðum presta, geldinga og kvenna, af eiturbyrlunum, samsærum, sífelldu vanþakklæti og endalausum bróðurmorðum.“

Greinarhöfundurinn Merle Severy segir: „Keisarar voru umkringdir fólki sem var reiðubúið að ræna völdum og ráða þá af dögum, þannig að óhæfur maður entist ekki lengi sem staðgengill Guðs á jörð. Af 88 keisurum, frá Konstantínusi 1. til 11., gengu 13 í klaustur. Þrjátíu til viðbótar voru myrtir — sveltir í hel, byrlað eitur, blindaðir, limlestir, kyrktir, stungnir, sundurlimaðir eða hálshöggnir. Silfurbryddaður bikar var gerður úr höfuðkúpu Nikefórusar 1. sem Krum, khan Búlgara, notaði til að skála við bojara [aðalsmenn] sína.“

Konstantínus mikli, sem tekinn var í „helgra manna tölu,“ lét jafnvel vega elsta son sinn og drekkja konu sinni í baði. Írena keisaraynja (um 752-803) var svo valdasjúk að hún lét blinda son sinn og tók sér keisaratitil hans.

Hnignunin

Það var þó ekki pólitískt leynimakk sem varð til þess að ríkinu hnignaði. Í Evrópuríkjunum í vestri urðu miklar breytingar fyrir áhrif endurreisnarstefnunnar, siðaskiptanna, upplýsingarstefnunnar og vísindaframfara. Í Býsans var hins vegar litið á hvers kyns breytingar sem villutrú og að síðustu sem glæp gegn ríkinu.

Pólitískt umrót þrengdi einnig að ríkinu. Á sjöundu öld lögðu íslamskir menn undir sig Antíokkíu, Jerúsalem og Alexandríu. Slavar réðust inn á Balkanskaga og langbarðar lögðu undir sig Norður-Ítalíu svo að tengsl Rómar og Konstantínópel rofnuðu. Róm hafði nú misst stuðning keisarans í Býsans og tók höndum saman við germana sem voru í miklum uppgangi í vestri. Grísk áhrif urðu æ sterkari í hinu dvínandi veldi Konstantínópel. Patríarki rétttrúnaðarmanna og rómversk-kaþólski páfinn bannfærðu hvor annan árið 1054 út af guðfræðilegum ágreiningi og leiddi það til klofnings með rétttrúnaðarkirkjunum og hinum rómversk-kaþólsku sem varir allt fram á þennan dag.

Nýtt áfall reið yfir Býsanska ríkið árið 1204. Krossfarar á leið til Jerúsalem létu greipar sópa um Konstantínópel hinn 12. apríl og kallar sagnfræðingurinn sir Steven Runciman það „mesta glæp sögunnar.“ Krossfararnir brenndu, rændu og nauðguðu í nafni Krists, eyddu borgina og fluttu ránsfenginn með sér til Feneyja, Parísar, Tórínó og fleiri vestrænna miðstöðva.

Meira en hálf öld leið uns Býsansmenn náðu borginni aftur á sitt vald en ríkið var þá ekki nema svipur hjá sjón. Feneyingar og Genúamenn höfðu náð kverktaki á viðskiptalífi Býsanska ríkisins. Og áður en langt um leið tóku hinir íslömsku Ósmanar að þjarma að því.

Þetta hlaut að ríða Býsanska ríkinu að fullu. Hinn 11. apríl 1453 settist Mehmed soldán 2. um höfuðborgina með 100.000 manna liði og öflugum flota. Aðeins 8000 manns voru til varnar í Konstantínópel en héldu út í sjö vikur. En 28. maí streymdu árásarmenn inn í lítt varða höfn í borgarsíkinu. Daginn eftir var nýr valdhafi tekinn við borginni. Sigurvegarinn Mehmed er sagður hafa tárfellt yfir henni og stunið: „Hvílík borg sem við höfum ofurselt ránum og eyðingu!“ Býsanska ríkið var fallið en áhrifa þess gætir enn þann dag í dag.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 20]

BÝSANSKA RÍKIÐ OG BIBLÍAN

Klausturlíf var mjög öflugt í Býsanska ríkinu. Í klaustrunum voru afrituð og geymd biblíuhandrit í þúsundatali. Hugsanlegt er að þrjú af mikilvægustu og heillegustu biblíuhandritum sem til eru — Vatíkanhandrit 1209, Sínaíhandiritið (innfellda myndin) og Alexandríuhandritið (í bakgrunni) — hafi verið gerð eða varðveitt í klaustrum og trúarsamfélögum Býsans.

[Credit line]

Bæði handritin: Ljósmynduð með góðfúslegu leyfi British Museum.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 22]

HLUTVERK KIRKJUNNAR Í BÝSANSKA RÍKINU

Norman Davies segir eftirfarandi um náin tengsl ríkis og kirkju í bókinni Europe — A History: „Ríki og kirkja bræddust saman í óaðskiljanlega heild. Keisarinn . . . og patríarkinn voru álitnir veraldleg og kirkjuleg ímynd yfirráða Guðs. Ríkið varði rétttrúnaðarkirkjuna og kirkjan lofsöng ríkið. Þessi ‚keisarapápíska‘ átti sér enga hliðstæðu á Vesturlöndum.“

[Mynd]

Sofíukirkjan í Istanbúl var eitt sinn stærsta kirkja í Býsanska ríkinu, breytt í mosku árið 1453 og í safn 1935.

[Skýringarmynd á blaðsíðu 21]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

HELSTU ATBURÐIR

286 Díókletíanus gerir Nikómedíu í Litlu-Asíu að stjórnarsetri.

330 Konstantínus gerir Býsans að höfuðborg ríkisins og nefnir hana Konstantínópel.

395 Rómaveldi skiptist endanlega í Austrómverska og Vestrómverska ríkið.

1054 Klofningur verður milli grísku rétttrúnaðarkirkjunnar og hinnar rómversk-kaþólsku.

1204 Krossfarar ræna Konstantínópel.

1453 Konstantínópel og ríkið falla í hendur Tyrkjum.

[Kort á blaðsíðu 19]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

SVARTAHAF

KONSTANTÍNÓPEL

Níkea

Nikómedía

Efesus

Antíokkía

Jerúsalem

Alexandría

MIÐJARÐARHAF

Skyggða svæðið sýnir heimsveldið meðan það stóð í blóma (527-565).

[Myndir á blaðsíðu 19]

Fræðimenn deila um það hvort fyrsti keisarinn hafi verið (1) Díókletíanus (2) Konstantínus mikli eða (3) Jústiníanus.

[Credit line]

Musée du Louvre, París.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Mynd úr handriti af umsátrinu um Konstantínópel árið 1204.

[Credit line]

© Cliché Bibliothèque nationale de France, París.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Rómversk gullmynt, slegin árið 321, greypt í nisti.

[Credit line]

Ljósmyndað með góðfúslegu leyfi British Museum.