Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hve langt nær umburðarlyndi Guðs?

Hve langt nær umburðarlyndi Guðs?

Sjónarmið Biblíunnar

Hve langt nær umburðarlyndi Guðs?

„GUÐ, SEM VILDI SÝNA REIÐI SÍNA OG AUGLÝSA MÁTT SINN, HEFUR MEÐ MIKLU LANGLYNDI UMBORIÐ KER REIÐINNAR, SEM BÚIN ERU TIL GLÖTUNAR.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 9:22.

FRÁ alda öðli hefur Guð umborið mikla illsku og mannvonsku. Fyrir meira en 3000 árum kveinaði Job: „Hvers vegna lifa hinir óguðlegu, verða gamlir, já, magnast að krafti? Niðjar þeirra dafna fyrir augliti þeirra hjá þeim og afsprengi þeirra fyrir augum þeirra. Hús þeirra eru óhult og óttalaus, og hirtingarvöndur Guðs kemur ekki niður á þeim.“ (Jobsbók 21:7-9) Aðrir réttlætisunnendur, svo sem spámaðurinn Jeremía, hafa einnig látið í ljós áhyggjur yfir því að Guð virðist sýna vondum mönnum umburðarlyndi. — Jeremía 12:1, 2.

Hvað finnst þér? Undrast þú að Guð skuli leyfa vonskuna? Finnst þér stundum að Guð ætti að hafa hraðann á og eyða öllum vondum mönnum tafarlaust? Við skulum athuga hvað Biblían segir um það hve langt umburðarlyndi hans nær og af hverju hann hefur sýnt þetta umburðarlyndi.

Hvers vegna er Guð umburðarlyndur?

Fyrst verðum við að spyrja: Hvers vegna umber Guð mannvonskuna yfirleitt þar sem staðlar hans eru á hæsta stigi? (5. Mósebók 32:4; Habakkuk 1:13) Merkir það að hann horfi fram hjá hinu illa? Nei, alls ekki. Lítum á eftirfarandi dæmi: Segjum sem svo að skurðlæknir brjóti grundvallarreglur um hreinlæti og valdi enn fremur sjúklingum sínum þjáningum. Ef hann ynni á sjúkrahúsi yrði hann þá ekki umsvifalaust rekinn? Samt getur verið nauðsynlegt að sýna sérstakt umburðarlyndi við vissar aðstæður. Er ekki óhjákvæmilegt í neyðartilvikum, til dæmis á vígvelli, að sætta sig við það að skurðlæknar vinni við frumstæðar og hættulegar aðstæður og noti jafnvel útbúnað og tæki við skurðaðgerðir sem teldust ekki hæfa við venjulegar kringumstæður?

Á svipaðan hátt umber Guð margt nú á tímum sem honum finnst alls ekki við hæfi. Þótt hann hati illskuna leyfir hann að hún vari um tíma. Hann hefur gildar ástæður til þess. Annars vegar veitist þá tími til að útkljá í eitt skipti fyrir öll deilumálið sem upp kom þegar Satan gerði uppreisnina í Edengarðinum. Þetta er mál sem varðar réttmæti Guðs til að stjórna. Hins vegar veitir langlyndi hans gagnvart ranglætinu þeim, sem flæktir eru í vonskuverk, tíma og tækifæri til að breytast.

Miskunnsamur, þolinmóður Guð

Foreldrar mannkyns, Adam og Eva, tóku þátt í uppreisn Satans gegn Guði. Guð hefði getað eytt þeim með réttu á stundinni. Hann sýndi í staðinn að hann var miskunnsamur og þolinmóður þar sem hann á kærleiksríkan hátt leyfði þeim að eignast börn. En þessi börn, og allt mannkynið sem komið er frá þeim, voru fædd syndug. — Rómverjabréfið 5:12; 8:20-22.

Guð ætlaði sér að bjarga manninum úr þessu hörmulega ástandi. (1. Mósebók 3:15) Þangað til sýnir hann samt undraverða þolinmæði og miskunn af því að hann skilur hvernig ófullkomleikinn, sem við erfðum frá Adam, hefur áhrif á okkur. (Sálmur 51:7; 103:13) Hann er „gæskuríkur“ og reiðubúinn og fús til að ‚fyrirgefa ríkulega.‘ — Sálmur 86:5, 15; Jesaja 55:6, 7.

Umburðarlyndi Guðs hefur sín takmörk

Það væri samt hvorki kærleiksríkt né sanngjarnt af Guði að leyfa illskunni að vara að eilífu. Enginn kærleiksríkur faðir myndi endalaust umbera illsku barns síns ef það héldi viljandi áfram að valda öðrum í fjölskyldunni þjáningum. Þolinmæði Guðs gagnvart syndinni mun því alltaf miðast við aðra eiginleika svo sem kærleika, visku og réttlæti. (2. Mósebók 34:6, 7) Þegar tilganginum á bak við langlyndi Guðs er náð þarf hann ekki að vera umburðarlyndur lengur. — Rómverjabréfið 9:22.

Páll postuli benti greinilega á þetta þegar hann sagði við eitt tækifæri: „[Guð] hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu.“ (Postulasagan 14:16) Við annað tækifæri talaði Páll um hvernig ‚Guð hefði umborið tíðir vanviskunnar‘ af hálfu manna sem hafa óhlýðnast lögum hans og meginreglum. Og Páll heldur áfram: ‚Nú boðar Guð mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum.‘ Hvers vegna? „Því að hann hefur sett dag, er hann mun láta . . . dæma heimsbyggðina með réttvísi.“ — Postulasagan 17:30, 31.

Láttu umburðarlyndi Guðs verða þér að gagni núna

En það skyldi þó enginn ætla að hægt sé að virða lög Guðs að vettugi og biðja síðan um fyrirgefningu eins og ekkert hafi í skorist til að komast hjá afleiðingum gerða sinna. (Jósúabók 24:19) Margir í Forn-Ísrael héldu að þeir gætu gert það. Þeir vildu ekki breyta sér. Þeir fóru á mis við tilganginn með umburðarlyndi og þolinmæði Guðs og hann umbar ekki vonsku þeirra að eilífu. — Jesaja 1:16-20.

Í Biblíunni er sýnt fram á að menn verði að ‚iðrast‘ til þess að komast hjá lokadómi Guðs — það er að segja viðurkenna iðrunarfullir frammi fyrir Guði að þeir séu ófullkomnir og syndugir og snúa sér síðan af einlægni frá illu. (Postulasagan 3:19-21) Jehóva Guð mun síðan veita fyrirgefningu á grundvelli lausnarfórnar Krists. (Postulasagan 2:38; Efesusbréfið 1:6, 7) Á tilsettum tíma mun Guð að engu gera allar hinar hörmulegu afleiðingar af synd Adams. Þá verður ‚nýr himin og ný jörð‘ þar sem hann mun ekki lengur ‚umbera ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar.‘ (Opinberunarbókin 21:1-5; Rómverjabréfið 9:22) Umburðarlyndi Guðs, sem er alveg einstakt en ekki takmarkalaust, mun koma mörgu dásamlegu til leiðar.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Guð leyfði Adam og Evu að eignast afkomendur.